Ólafur Páll JónssonEftir Ólaf Pál Jónsson

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2011

Umræðumenningin

Við heyrum því oft haldið fram að íslensk umræðumenning sé meingölluð. Fólk sem hefur aðgang að sjónvarpi frá Skandinavíu segir að þar séu þættir þar sem hlutirnir eru ræddir í alvöru, BBC sendi út svoleiðis þætti og þannig þættir sjáist í frönsku sjónvarpi, en það séu bara engir slíkir þættir í íslensku sjónvarpi. Og ekki eru blöðin skárri, segir fólk. Ég skal verða manna síðastur til að mótmæla staðhæfingum um ágæti evrópskra umræðuþátta en mér virðist lítið gagn í að taka undir þessar ádeilur á íslenska umræðumenningu – nema til að fá útrás fyrir innibyrgða gremju. Og þar er þá líka einn gallinn á þessari umræðumenningu: Of stór hluti hennar snýst um að fá útrás fyrir gremju. En íslensk umræðumenning er alls ekki slæm, hversu ófullkomin sem hún er. Mér kemur til hugar ferns konar samræða sem hefur ótvíræða kosti og sem Íslendingar eru góðir í og iðka oft.

(1) Í því nána sambýli sem Ísland óneitanlega er hefur þróast skemmtileg hversdagssamræða. Búi maður svo vel að hafa aðgang að hverfisbúð þar sem fólk verslar dagsdaglega, þá verður maður oft vitni að dásamlegri umræðumenningu. Ein manneskja rekst á aðra, þær hafa kannski ekki hist í viku, svo spjalla þær saman góða stund. Eitt af því sem gefur lífinu gildi er einmitt að geta rekist á vini sína úti í búð og spjallað við þá stutta stund áður en maður fer að skima um hillurnar eftir því sem maður átti að kaupa – og man kannski ekki lengur hvað var vegna þess að spjallið færði mann á nýjan stað í tilverunni.

(2) Íslendingar eru líka flinkir að segja sögur. Hvað ætli séu sagðar margar skemmtilegar sögur í morgunkaffi á íslenskum vinnustöðum? – og sagðar vel. Auðvitað eru líka margar sögur leiðinlegar og sumar góðar sögur illa sagðar.

Það er bara eins og gengur. Eitt sinn var ég í brúarvinnu og þar var maður sem sagði sögur af slíkri snilld að allir lögðu niður vinnu á meðan og verkstjórinn líka. Samt voru þarna saman komnir duglegir og vinnusamir verkamenn og samviskusamur verkstjóri. Verkið var líka klárað mánuði á undan áætlun og það var örugglega sögunum að þakka.

(3) Íslendingar eru líka góðir í því sem kalla mætti samstöðusamræður. Þetta er það sem iðkað er í heitum pottum og víðar þar sem menn koma saman til aðræða þau mál sem brenna á þjóðinni. Þá hittast nokkrir einstaklingar sem eru nokkurn veginn sammála um eitthvað og setja fram sjónarmið sín á víxl, gjarnan í gagnkvæmu viðurkenningar- og hvatningarskyni og klappa hver öðrum hvetjandi á bakið. Þeir sem taka þátt í samræðunni geta færst frá óljósri og hikandi niðurstöðu að nokkuð skýrri en umfram allt ákveðinni niðurstöðu. Samræða af þessu tagi hefur þann kost að þeim sem taka þátt í henni líður gjarnan vel og þeir fyllast öryggistilfinningu. Lykilatriði hér er að þau viðbrögð sem maður fær við því sem maður segir eru fyrst og fremst viðurkenning. Og viðurkenning er mikilvæg í mannlegum samskiptum – og í lífi manns yfirleitt.

(4) Íslensk umræðuhefð á vettvangi stjórnmálanna er kappræða. Þetta er eldforn hefð sem einkennist af því að gagnstæð sjónarmið eru sett fram af mælsku og þrótti, áhorfendur hrífast með og sá er sigurvegari sem tekst að stela senunni. Íslenska orðið yfir þessa umræðuhefð, ‘kappræða’, er afar viðeigandi því samræða sem fellur í þetta mót er einhvers konar keppni. Hér keppa menn, ef svo má segja, um að eiga síðasta orðið, rétt eins og hlauparar keppa að því að komast fyrstir í mark. Í seinni tíð hefur íslenskri kappræðu ef til vill hnignað vegna þeirrar lensku að snúa út úr og gjamma sífellt fram í en þó leika menn þennan leik stöku sinnum vel og þá er gaman að fylgjast með. Þegar íslensk samræðumenning er gagnrýnd fyrir að vera ómálefnaleg og innantóm, er spjótunum gjarnan beint að fjölmiðlum sem ekki standi sig. En er þá ekki verið að hengja bakara fyrir smið – eða sögumann fyrir heimspeking?

Ríkisútvarpið leggur nokkra rækt við samræðuhefð (2) og (4), þ.e. sagnahefðina og kappræðuna. Í útvarpinu hafa frá fornu fari heyrst ýmsir viðtals- og frásagnarþættir, t.d. Kvöldgestir Jónasar Jónassonar og Andrarímur Guðmundar Andra Thorssonar. Sagnahefðin á sér raunar einnig langa sögu í sjónvarpi þar sem hún hefur tekið á sig ólíkar myndir. Stiklur Ómars Ragnarssonar, þar sem hann fór um landið og sagði skemmtilegar og fróðlegar sögur um landið og fólkið sem þar býr, eru gott dæmi um rækt við sagnahefðina.

Svipað má segja um ýmsa viðtalsþætti sem teknir eru upp í sjónvarpssal; þangað kemur fólk til að segja sína sögu eða annarra. Kappræðan skipar einnig vísan sess í sjónvarpi. Kastljósið hefur gert hana að aðalefni og sjónvarp í aðdraganda kosninga notar hana sem meginmót þeirrar samræðu sem fram fer.

Af þessu má sjá að íslenskt útvarp og sjónvarp styður að sínu leyti vel við íslenska samræðuhefð eins og hún er í raun.

Síðasta orðið

Mér er sagt að í Kína skipti það miklu máli í samskiptum fólks að geta haldið andlitinu. „Að halda andlitinu“ er sagður einhvers konar viðtekinn þankagangur þar í landi á svipaðan hátt og „þetta reddast“ er viðtekinn þankagangur á Íslandi. Kjarninn í þessu tvennu er raunar sá sami: að telja sér og öðrum trú um að allt sé í lagi, jafnvel þótt því fari fjarri. Annarskonar viðtekinn þankagangur á Íslandi birtist í viðleitni til „að eiga síðasta orðið“. Hvenær sem menn eiga í samræðum þar sem andstæð sjónarmið mætast verður það umsvifalaust – og umhugsunarlaust – kappsmál manna að eiga síðasta orðið. Sá sem á síðasta orðið nær að spila út einhvers konar trompi þannig að hann getur gengið ánægður og stoltur frá hvaða samræðu sem er. Hvað sem hefur gengið á, hvernig sem samræðan hefur þróast, þá gera menn sig ánægða með sitt svo framarlega sem þeim tekst að eiga síðasta orðið. Og til að ná þessu þarf að hafa tvennt til að bera: tilfinningu fyrir rétta augnablikinu og hnyttni í tilsvörum. Því sá einn á síðasta orðið sem tekst að segja eitthvað flott og eftirminnilegt á réttu augnabliki þannig að aðrir ná ekki að bregðast við með enn hnyttilegri athugasemdum.

Að eiga síðasta orðið er ekki samræðuháttur eins og það að segja sögu eða eiga hversdagsleg orðaskipti við vini úti í búð. Það er fremur eins og mátleikur í skák. Og það er sama hvernig taflið hefur þróast, ef maður bara nær að máta andstæðinginn þá vinnur maður og allt hitt sem á undan hefur gengið skiptir engu máli. En hvers vegna skyldi yfirleitt nokkur vilja eiga síðasta orðið? Jú, svarið liggur í augum uppi, samlíkingin við skákina gerir það ljóst. Maður vill eiga síðasta orðið alveg eins og maður vill ná að máta andstæðinginn í skák. En er þetta gott svar? Af hverju skyldi maður eiga í samræðum við aðra til þess að sigra þá? Það dettur ekki nokkrum manni í hug að spjalla við kunningja sinn úti í búð til þess að vinna spjallið. Hugmyndin er fráleit. Sama má segja um sögumanninn. Hann segir ekki sögu til að sigra áheyrendurna heldur til að hrífa þá með, koma boðskap til skila eða einfaldlega til að deila reynslu sinni. Þegar við skoðum ólíka samræðuhætti með þessum hætti kemur á daginn að stundum notum við samræðu til að nálgast aðra, stundum til að greina okkur frá öðrum og stundum jafnvel til að hefja okkur yfir aðra. Ef við skoðum samræðuhættina hversdagssamræðu, sögu og kappræðu, þá fer þessi greinarmunur saman við greinarmuninn á því að lýsa reynslu annars vegar og setja fram og verja afstöðu hins vegar. Hversdagssamræðan og sagan snúast um að lýsa reynslu á meðan tiltekin afstaða er upphaf og endir kappræðunnar. Spyrjum nú: Er til samræða sem felst bæði í því að setja fram afstöðu – jafnvel umdeilda afstöðu – en er jafnframt leið til að nálgast aðra.

Samstöðusamræða, sem ég nefndi svo, nær þessu að nokkru leyti því þar er sett fram afstaða og menn nálgast hverjir aðra með því að taki undir orð hver annars í gagnkvæmri viðurkenningu. Gallinn við samstöðusamræður er hins vegar sá að slík samræða er ekki möguleg nema menn séu fyrirfram sammála og markmiðið er ekki gagnrýnin rannsókn eða leit að gagnkvæmum skilningi heldur miklu fremur sókn eftir gagnkvæmri og yfirborðslegri viðurkenningu. Spurningin sem við viljum svara er þessi: Er til samræðuform sem felst í því að setja fram afstöðu en er leið til að nálgast aðra, jafnvel þá sem eru manni ósammála? Slík samræða er lík kappræðunni að því leyti að umdeild afstaða er sett fram og þátttakendurnir eru ekki fyrirfram sammála, en ólík að því leyti að hún fer ekki fram undir merkjum kapps – hún á ekki að vera keppni. Það er ekki markmið þeirra sem eiga í slíkri samræðu að sigra viðmælandann eða hefja sig yfir hann, og þar með er ekki sérstakt keppikefli að eiga síðasta orðið. Samræða af þessu tagi er kölluð rökræða.

Sæmdarþorsti eða auðmýkt

Hvernig getur maður nálgast aðra í samræðu sem miðar að því að setja fram afstöðu, jafnvel umdeilda afstöðu? Hér blasir svarið raunar við ef maður hugsar um það hvernig vinir deila. Sú nálægð sem felst í vináttu byggist ekki síst á því að vinir reyna að skilja hverjir aðra hvort sem þeir eru sammála eða ekki. Vinir þurfa ekki að óttast það að ólík afstaða til umdeildra mála grafi undan vináttusambandinu, heldur er ágreiningurinn miklu fremur leið til enn meiri nándar. Samræða í vináttu um umdeild mál einkennist ekki af því að viðmælendur setji fram eigin afstöðu og verji hana. Slík samræða einkennist fremur af leit en vörn, hún er rannsókn en ekki kapp. Hversu djúpstæður sem ágreiningurinn er þá er markmiðið sameiginlegt – gagnkvæmur skilningur og
leit að sannleika – og þátttakendur í slíkri samræðu eru því samverkamenn. Þess vegna er afleiðing af slíkri samræðu aukin nálægð frekar en aðgreining, markmiðið er skilningur frekar en sigur. Er þetta ekki aðlaðandi? Af hverju eigum við ekki miklu oftar í afstöðubundinni og sameinandi samræðu frekar en í sundrandi kappræðu? Svarið sem við heyrum svo oft er þetta: Íslensk samræðuhefð er svo óþroskuð. Þetta er innantómt svar. Rökin sem sett eru fram fyrir því að samræðan sé óþroskuð eru þau að við sem þjóð séum ófær um að eiga í afstöðubundinni og sameinandi samræðu, og ástæðan er sögð vanþroski hefðarinnar. Hér er farið í hring.

Ég ætla að leyfa mér að leggja til aðra skýringu. Vandinn liggur ekki í samræðuhefðinni heldur í útbreiddum og misskildum sæmdarþorsta. Sæmdarþorstinn birtist í því að á opinberum vettvangi – eða bara opnum vettvangi eins og í heitum potti í sundlaug eða á kaffistofu – leggja menn sæmd sína undir í samræðunni. En hvað er sæmd? Sæmdin er skilin sem einhvers konar sambland af stöðu og manngildi, en samt aðallega stöðu því það er hún sem menn bera utan á sér. Manngildið býr hið innra og birtist ekki í einföldum kringumstæðum. Þess vegna er sæmdarþorstinn líka yfirborðsmennska. Sókn eftir sæmd, er jafnan sókn eftir hærri stöðu, meiri viðurkenningu, og þar sem staða í þessum skilningi er afstæð – að vera hátt settur er að vera hærra settur en einhver annar, að vera lágt settur er að vera lægra settur en einhver – og þegar sæmd í þessum skilningi verður að hreyfiafli í félagslegum samskiptum, þá byggjast samskiptin að verulegu leyti á því að menn takast á um völdin til að bæta stöðu sína.

Eitt mikilvægasta vopnið í slíku jagi er einmitt að eiga síðasta orðið. Hafi manni tekist að eiga síðasta orðið í orðaskaki við einhvern hefur manni kannski tekist að láta svo líta út sem maður hafi lyft sér skör ofar, og kannski líka tekist að láta líta svo út sem maður hafi ýtt andstæðingnum skör neðar. Ef virkilega vel hefur tekist til, þá hefur manni kannski tekist að afgreiða viðkomandi. Andstæðan við sæmdarþorstann er auðmýkt. En ekki auðmýkt í þeim skilningi að maður leggist flatur fyrir hverjum sem er, láti hagsmuni sína liggja milli hluta og gefi eftir jafnvel það sem manni ber með réttu, heldur auðmýkt í þeim skilningi að maður gerir eigin sæmd eða verðleika ekki að hreyfiafli lífsins. Auðmýkt í þessum skilningi er líka andstæða sjálfdæmishyggju. Með auðmýktinni kemur gagnrýni og leit og hinn auðmjúki gefur sér ekki að hans afstaða sé rétt eða að tilvera hans byggist á því að verja eigin afstöðu, en hann leyfir heldur ekki að aðrir mæti til leiks með slíku hugarfari. Sókrates er líklega frægastur þeirra sem lifðu í auðmýkt í þessum skilningi en hér mætti einnig nefna góða dátann Svejk.

Gott og vel, en gengur þetta upp? Má ekki setja fram eftirfarandi gagnrýni: Bæði Sókrates og Svejk eru dæmi um menn sem nutu sæmdar – að minnsta kosti eru þeir báðir á stalli í menningarsögunni, hvor með sínum hætti að vísu – og því er fráleitt að gera þennan grundvallargreinarmun á auðmýkt og sæmd. Þessi gagnrýni er vel við hæfi, ekki vegna þess að hún hittir í mark, heldur vegna þess að hún birtir eitt einkenni þess sem skortir auðmýkt. Sá sem ekki hefur til að bera auðmýkt, hann hlustar ekki af nógri athygli, hann tekur ekki nógu vel eftir. Sæmdin er ekki vandamál, heldur sæmdarþorstinn. Það er einkenni á Sókratesi og Svejk að þeim hefur hlotnast sæmd – alltjent heiður – án þess að þeir hafi nokkru sinni leitað eftir sæmd eða heiðri eða reynt að verja þá stöðu sem þeir voru í sem sæmdarstöðu. Það kann að vera að íslensk samskipta- og samræðuhefð sé frumstæð og vanþroskuð, en meinsemdin er ekki vanþroski hefðarinnar heldur misskilinn sæmdarþorsti – við sem manneskjur erum of þjakaðar af sæmdarþorsta, yfirborðsmennsku og sjálfdæmishyggju.

Sæmdarþorstinn veldur því að hvenær sem uppi er ágreiningur þvælist persóna manns og staða fyrir. Við verjum málstað vegna þess að við teljum okkur trú um að þannig verjum við sjálf okkur, persónu okkar og stöðu, þegar það ætti að blasa við að slíkt brölt grefur einungis undan persónu okkar og stöðu. Jafnvel hetjan getur ekki varið sæmd sína og persónu. Allt sem hún gerir sæmdinni til varnar, snýst í höndum hennar og verður henni til athlægis og falls. Þeir fóstbræður, Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld eru frægasta íslenska dæmið um þetta, nálægari í tíma en síður fræg dæmi birtast okkur reglulega í þingfréttum sjónvarpsins. Vandinn við íslenska samræðumenningu er ekki að hana skorti einhverja hefð sem til er í útlöndum en hefur ekki verið flutt inn af áhugaleysi þeirra sem annars gætu höndlað með slíkan varning. Vandinn er miklu fremur skortur á auðmýkt. Þessi vandi stafar ekki af lélegum fjölmiðlum, þótt þeir hafi ekki gert mikið til að einfalda hann heldur dansað með. Vandinn stafar af misskilinni sjálfsvirðingu – sæmdarþorsta. Og þessi sæmdarþorsti stendur ekki bara samræðumenningunni fyrir þrifum, hann stendur okkur sjálfum fyrir þrifum sem vitsmunaverum og kemur í veg fyrir að við getum leyst úr vandamálum okkar eins og manneskjum sæmir.

Með því að stuðla að skipulegri aðgreiningu – flokkadráttum – meðal fólks veldur sæmdarþorstinn því að við lokum á dýrmætustu möguleikana á skilningi manna í millum.