Eftir Silju Aðalsteinsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2008

Eina fermingargjöfin mín sem enn er í notkun er bókin Íslenskir pennar – sýnisbók íslenskra smásagna á tuttugustu öld sem Setberg gaf út 1956. Hún var mikill happafengur. Strax fjórtán ára kynntist ég mörgum helstu höfundum þjóðarinnar, meðal annars ungliðunum Thor Vilhjálmssyni, Indriða G. Þorsteinssyni og Ástu Sigurðardóttur. Saga Thors í safninu er “Snjór í París”, dýrleg lýsing á viðbrögðum fólks af ólíku tagi við því þegar snjóar í heimsborginni. Þetta voru fyrstu kynni mín af París, og þar lærði ég mitt fyrsta franska orð: Merde! Í sögunni ræður kuldinn ríkjum og því hefði ekki átt að koma mér á óvart hvað það var kalt í París í júní 1980 þegar ég kom þangað í fyrsta sinn. En ég var óviðbúin og mér varð svo kalt að mig langaði aldrei þangað aftur – fyrr en ég las annan Parísarmann, Sigurð Pálsson. Minnisbók hans sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin í febrúar blés í gömlu glæðurnar frá Thor, og ég var ekki í rónni fyrr en ég var búin að fá húsnæði í París yfir páskana.

Sigurður Pálsson í París

Sigurður Pálsson í París

Í þetta sinn var ég reiðubúin, vædd ull og flísi, vettlingum og treflum, enda eins gott. Fyrsta daginn fór gestgjafi okkar, bandaríski sagnfræðingurinn John Baldwin, sérfræðingur í miðaldaborginni París, með okkur í langa göngu um eyjarnar tvær í Signu, þar sem borgin á upphaf sitt, Île de la Cité og Île St Louis, sýndi okkur og sagði frá svo öll sagan varð ljóslifandi. Sú ferð endaði undir L’Archevêché brúnni í grenjandi hagléli! Aldrei varð veðrið alveg eins vont eftir það.

En það var ekki miðaldaborgin París sem við vorum komin til að kanna heldur París á árunum upp úr 1967 þegar prestsonurinn Sigurður Pálsson (“fils de pasteur” eins og stúlkurnar á Carrousel kölluðu hann) var þar við nám. Við vildum uppgötva borgina á ný með honum, “vera á reiki, finna án þess að leita,” eins og segir í Minnisbók, í þessari borg “sem öðrum borgum fremur býður upp á hugljómandi óragöngur.” Helst vildum við þó finna slóðir Sigurðar og húsin sem hann hafði búið í, ort í og ort um, þau sem væru innan marka góðra túristakorta.

Ekki varð ég lítið upprifin þegar ég uppgötvaði að gatan sem gestgjafar okkar, John Baldwin og kona hans, danski norrænufræðingurinn Jenny Jochens, bjuggu við, rue de Bièvre, var hreinlega næsta gata við Götu meistara Alberts sem Sigurður bjó við á örlagaþrungnum tíma í lífi sínu. Það var einmitt meðan hann var þar sem “ákveðin miðjusetning” varð í lífi hans: “Fullvissan að kjarninn í lífi mínu yrði ritun, skriftir.” Þar uppgötvaði hann, með hjálp Rainers Maria Rilke, hvað hversdagsleikinn er óendanlega merkilegur. Það hefur honum ekki gleymst síðan.

Á þeim árum var þetta fátækrahverfi þar sem blankir stúdentar gátu fengið ódýr herbergi, þó í hjarta borgarinnar sé, steinsnar frá hinni miklu vorrar frúar kirkju, Notre Dame. Núna er Latínuhverfið löngu komið í tísku og íbúðarverð þar geipilegt. Lengst bjó Sigurður á númer 3, rétt við Signubakka, og við mændum aðdáunarfull upp eftir húsinu svo vegfarendur störðu á okkur hissa.

Strax á öðrum degi gengum við með Sigríði Albertsdóttur, sem situr í París og skrifar doktorsritgerð um ljóð Sigurðar Pálssonar, eftir Boulevard Saint Michel upp á Montparnasse og unnum okkur ekki hvíldar fyrr en á kaffihúsinu Sélèct, þar sem Sigurður hélt upp á fyrstu jólin sín í Frakklandi. Þar bað ég um mjólkurkaffi, café au lait, og fékk mér til mikillar ánægju allstóra könnu af heitu og sterku kaffi og aðra jafnstóra af sjóðheitri mjólk. Alveg er ég viss um að þjónninn vissi hvaðan við vorum og mikið má vera ef hann þekkir ekki SP.

Næstu daga gengum við tugi kílómetra, aðallega könnuðum við Le Marais-hverfið – Mýrina, eins og Sigurður kallar það. Meðal annars fundum við húsið númer 5B við Rósarunnagötu og horfðum full lotningar á það. Þó er ekki enn komið skilti á það um búsetu Sigurðar, eins og spáð var; það kemur þegar bókin er komin út á frönsku. Meðan við mændum upp á 5B komu slangrandi tveir ungir menn, annar afar drukkinn, með gyðingakolluna sína skakka á höfðinu. Það voru einu merkin sem við sáum um þá íbúa götunnar sem SP segir gleggst frá.

Daginn sem við skoðuðum Picasso-safnið leituðum við líka uppi húsið við Götu hinnar gömlu frá Hofi þar sem Sigurður hætti að reykja. Í grennd við það fundum við pínulítið kaffihús þar sem gamall maður var allt í öllu, pöntuðum hjá honum kaffi og kökur og hann var svo hufflegur að hann kvaddi okkur með handabandi þegar við fórum. Það stafaði ábyggilega af því að ég reyndi að biðja um allt á frönsku þótt snúið væri. Annars fannst okkur Frakkar ennþá fremur hranalegir við ferðamenn sem ekki mæla á frönsku, þó að okkur hefði verið sagt að þeir væru hættir því. Og um að gera fyrir alla sem geta sagt þó ekki sé annað en bon jour að nota sér þá kunnáttu við öll tækifæri. Það gerir strax gæfumuninn.

Það besta við París í bók Sigurðar er hvað borgin verður hlý og góð, þess vegna ættu Frakkar að þýða hana og dreifa um heimsbyggðina. Það eru allir svo undur vænir við prestsoninn ofan af Íslandi, og við lesturinn verður manni ósjálfrátt furðulega hlýtt til þessarar þjóðar.

Þó að þetta væri pílagrímsferð í spor SP báðum við matargesti Johns og Jennyar eitt kvöldið að velja handa okkur einn stað – bara einn! – sem þeim fyndist við verða að sjá. Eins og við var að búast var stungið upp á bátsferð um Signu til að sjá í sjónhending öll glæsihýsin meðfram ánni, Louvre-safninu með áherslu á kjallarann þar sem miðaldakastali hefur verið grafinn upp (sem reyndist í hæsta máta heimsóknarinnar virði), og Cluny-safninu, frábæru safni miðaldagripa þar sem okkur dvaldist lengi hjá meynni og einhyrningnum á veggteppunum fögru sem þar eiga sitt sérherbergi. Eini Frakkinn í hópnum nefndi þó hvorki safn né hallir heldur göngubrúna á Signu sem kennd er við listir, Pont des Arts. Þangað skyldum við fara í síðdegissólskini og horfa í kringum okkur. Þetta gerðum við, og einnig það varð partur af pílagrímsferðinni: Einmitt á þeirri brú dönsuðu þau saman á sautjánda júní fyrir 34 árum, KJ og SP, og eins og segir í bókinni: “Þau dansa enn.”

Ég trúi því að allir sem fóru til náms á árunum fyrir greiðslukort, farsíma, tölvupóst og svo framvegis, muni skrifa í huganum sínar eigin endurminningar þegar þeir lesa Minnisbók SP. Það er einn af stærstu kostum þessarar yndislegu bókar. Hún minnti mig á svo ótalmargt sem ég var búin að gleyma frá stífðri dvöl minni í Dyflinni fyrir óralöngu. Til dæmis segir Sigurður frá því hvernig Skinnastaður í Axarfirði, Norður-Þingeyjarsýslu, Islande, bjargar honum frá lögreglunni – löggan gafst hreinlega upp við að skrifa þetta voðalega nafn á fæðingarstað hins handtekna og sleppti honum! Þá varð mér hugsað til þess þegar útlendingaeftirlitið í Dublin varð klumsa frammi fyrir Rauðuvík á Árskógsströnd í Eyjafirði, Iceland, og spurði hvort þetta gæti ekki verið einfaldara!

Af verðlaunum, klassískum endurútgáfum og tuði

Eins og ég sagði áðan fékk Sigurður Pálsson Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir Minnisbók sína (JPV), en í flokki fræðirita var verðlaunahafinn Þorsteinn Þorsteinsson fyrir þá miklu bók Ljóðhús. Þættir um skáldskap Sigfúsar Daðasonar (JPV). Báðir eru sannarlega vel að verðlaunum komnir.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fékk Naja Marie Aidt fyrir smásagnasafnið Bavian (Gyldendal, 2006). Þetta eru fimmtán sögur, sagðar frá sjónarhóli karla, kvenna eða barna. Stundum gerir hún sér raunar að leik að gefa ekki upp strax hvort kynið talar eða hugsar, jafnvel kemur fyrir að kynferði sögumanns sé óljóst. Flestar eiga persónurnar sameiginlegt að skuggar hvíla yfir þeim og lesandi fær ekki alltaf að vita hvað veldur. Stundum fáum við þó að fylgjast með þegar ógæfan hittir persónur og brýtur þær niður stig af stigi, eins og í sögunni “Slik”. Sameiginlegur sögunum er líka stíllinn, stuttar setningar, knappur frásagnarháttur; lesandi þarf að vinna vel meðan hann les til að ná allri merkingu texta og undirtexta. Mögnuð bók.

Menningarverðlaun DV í bókmenntum hlaut Auður Ólafsdóttir fyrir skáldsögu sína Afleggjarann (Salka). Hún var líka ein þeirra sem fékk Fjöruverðlaunin, en þau voru veitt á Góugleði, bókmenntahátíð kvenna 9. mars; aðrar á þeim verðlaunapalli voru Elísabet Jökulsdóttir fyrir hin sjálfsævisögulegu Heilræði lásasmiðsins (JPV), Sigurbjörg Þrastardóttir fyrir ljóðabókina Blysfarir (JPV), Kristín Helga Gunnarsdóttir fyrir unglingabókina Draugaslóð (MM), Ingunn Ásdísardóttir fyrir fræðibókina Frigg og freyja – kvenleg goðmögn í heiðnum sið (Hið íslenska bókmenntafélag og ReykjavíkurAkademían) og loks Kristín Marja Baldursdóttir fyrir stórvirkið um Karitas, Karitas án titils og Óreiða á striga (MM).

Þorleifur Hauksson hlaut viðurkenningu Hagþenkis fyrir útgáfu Sverris sögu (Hið íslenska fornritafélag). Auk hans voru tilnefnd til verðlaunanna Þroskasálfræði Aldísar Unnar Guðmundsdóttur (MM), Erró í tímaröð. Líf hans og list eftir Danielle Kvaran (þýð. Sigurður Pálsson, MM), Byggðasaga Skagafjarðar IV. Akrahreppur eftir Hjalta Pálsson (Sögufélag Skagafjarðar), Silfur hafsins – Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga (Nesútgáfan), Bannfæring og kirkjuvald á Íslandi 1275-1550 eftir Láru Magnúsardóttur (Háskólaútgáfan), Náttúra, vald og verðmæti eftir Ólaf Pál Jónsson (Hið íslenska bókmenntafélag), Hljóðspor eftir Pétur Hafþór Jónsson (Námsgagnastofnun), Virðing og umhyggja. Ákall 21. aldarinnar eftir Sigrúnu Aðalbjarnardóttur (MM) og Við brún nýs dags. Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1906-1930 eftir Þorleif Friðriksson (Háskólaútgáfan).

Kristín Steinsdóttir fékk í ár Sögusteininn, barnabókaverðlaun IBBY og Glitnis, fyrir ómetanlegt framlag sitt til þeirrar bókmenntagreinar. Kristín Helga Gunnarsdóttir er tilnefnd til Vestnorrænu barnabókaverðlaunanna fyrir áðurnefnda Draugaslóð. Bjarni Jónsson leikskáld er tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008 fyrir leikrit sitt Óhapp sem var frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu sl. haust. Bókaverðlaun barnanna hlaut Hrund Þórsdóttir fyrir Loforðið (MM), kosin af rúmlega 5000 12 ára börnum um land allt, og Bryndís Guðmundsdóttir hlaut barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar fyrir bókina Einstök mamma með myndskreytingum Margrétar E. Laxness (Salka).

Sameiginlegt öllum verðlaunahöfundunum er að þeir komust ekki á blað í könnun Fréttablaðsins á því hverjir væru “bestu rithöfundar þjóðarinnar” (sjá Frbl. 9.3. 2008). Ekki kemur á óvart að Arnaldur Indriðason er óskabarnið með nærri 39% fylgi. Sá sem kemst næst honum er Einar Már Guðmundsson með tæp 8%. Hringt var í 800 manns og svarhlutfallið var 62% sem ég tel að sýni nokkuð almennan áhuga á bókum og bóklestri.

Fjöldi bóka hefur þegar komið út á árinu og verða bara örfáar nefndar hér. Þetta eru bækur af hreint öllu tagi, en ein tilhneiging vekur strax athygli: endurútgáfur klassískra skáldrita. Loksins fer að bera árangur nuddið í áhugamönnum um bókmenntir sem ég man fyrst markvisst eftir hjá Pétri Gunnarssyni (og vona að ekki sé alvarlega hallað á neinn). Hann skrifaði fyrir þrettán árum greinina “Um samhengisleysið í íslenskum bókmenntum” í þetta tímarit (TMM 1 1995) og lýsti eftir gömlum verkum í nýjum útgáfum: “Sá sem eitthvað ferðast um landslag íslenskra bókmennta verður fljótt gripinn einkennilegri tómleikatilfinningu óðar og komið er út fyrir skæðadrífu augnabliksútgáfunnar. Iðulega þegar hann ætlar að seilast til víðfrægra verka sem heyra til sjálfum grundvellinum, grípur hann í tómt.”

Síðan hafa margir harmað fátækt íslensks bókamarkaðar, nú síðast benti Hjálmar Sveinsson á það með nokkrum þunga að tímamótaverk Elíasar Marar séu ekki til á almennum markaði. Helst hafa gömul verk verið til í ritsöfnum og heildarútgáfum sem ekki eru beint til að grípa með sér í sumarfríið. Af því tagi er hið stórglæsilega ritsafn Steinars Sigurjónssonar sem Ormstunga gaf út í vor í 20 bindum. En í fyrra hratt Bjartur af stað útgáfu klassískra skáldsagna í kiljum með Aðventu og Svartfugli Gunnars Gunnarssonar, og fylgir þeim eftir í ár með Pilti og stúlku Jóns Thoroddsen. Reynslan af útgáfunni er að sögn Guðrúnar Vilmundardóttur afar góð og eru Bjartsliðar fullir af eldmóði.

Og í ár blæs nýja Forlagið til sóknar á þessum vettvangi, hefur þegar gefið út Bréf til Láru og Steinarnir tala eftir Þórberg Þórðarson í kilju og boðar margar í viðbót, meðal annars Samastað í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur sem kemur við sögu annars staðar í heftinu. Helst vill útgefandinn, Jóhann Páll Valdimarsson, gefa út tólf bækur í þessari nýju ritröð á ári, samkvæmt viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í 24 stundum (19.3. 2008): “Mér finnst ég ekki geta svarað af neinni sannfæringu að ekki sé útgáfugrundvöllur fyrir íslenskri klassík nema gera alvöru tilraun.”

Ljóst er að aðeins með því að sýna áhuga getum við vænst framhalds af þessum tilraunum, og er óskandi að almenningur kaupi þessar fínu kiljur þannig að ekki þurfi að selja þær á túkall á bókamörkuðum næstu árin; Góðar bækur eiga að rata upp í hillur hjá fólki en ekki daga uppi á lagerum. Þar er líka svo dýrt að geyma þær að útgefendur freistast til að gefa þær á bókamörkuðum – þá eru þær ekki lengur til í búðum og tuðið byrjar upp á nýtt!

Til nýrrar klassíkur teljast minningabækur Guðbergs Bergssonar, Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar. Þær eru komnar út í einni stórri kilju undir titlinum Bernskan (Forlagið). Og í stórbók Einars Kárasonar eru endurprentaðar fimm skáldsögur hans, þar á meðal sú fyrsta, Þetta eru asnar, Guðjón, hlutar úr fleiri bókum, smásögur og ljóð (MM), prýðileg kynning á vinsælum höfundi. Halldór Guðmundsson valdi efnið og skrifar inngang. Bókinni fylgir kvikmyndin Djöflaeyjan sem Friðrik Þór Friðriksson gerði eftir braggasögum Einars.

Úr því ég minntist á 13 ára gamla grein Péturs Gunnarssonar er gaman að nefna að ýmislegt hefur verið gert af því sem hann talar um þar. Til dæmis hefur “hin langa æfi Matthíasar [Jochumssonar] með stórbrotnum átökum í sál og sinni” verið skráð, einnig ævi Stephans G. Stephanssonar og Árna Magnússonar; og Vísnabók Guðbrands Þorlákssonar var endurútgefin árið 2000. Segiði svo að það borgi sig ekki að tuða svolítið.

Önnur tilhneiging er útgáfa ljóðabóka, bæði nýrra og endurútgefinna. Hún er reyndar ekki ný, ljóð hafa lengi átt sinn útgáfutíma á vorin.

Í tilefni af sjötugsafmæli Þorsteins frá Hamri gaf Forlagið út aftur bókina Ljóð og myndir í samvinnu við Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar. Í bókinni eru fjórtán ljóð sem Tryggvi valdi úr fyrstu átta bókum Þorsteins til að myndlýsa. Ljóðin eru afar vel valin og myndirnar yndislegar.

Vaka-Helgafell sendi í vor frá sér Kvæðasafn Þórarins Eldjárns með öllum átta útgefnum ljóðabókum hans og úrvali úr fimm barnaljóðabókum, hátt á fjórða hundrað kvæða alls sem henta við öll tækifæri, eins og aðdáendur skáldsins vita. Ljóðasafn Steins Steinars er líka komið í tímabærri endurútgáfu (Vaka-Helgafell), en nýtt og sérstaklega dýrmætt er heildarsafn ljóða Sigfúsar Daðasonar: Ljóð 1947–1996, gefið út í tilefni af að áttatíu ár eru liðin frá fæðingu hans (JPV).

Splunkunýjar eru ljóðaþýðingar Gyrðis Elíassonar í bókinni Flautuleikur álengdar (Uppheimar), spennandi ljóð frá Bandaríkjunum og kanada og nokkrum Evrópulöndum. Flest eru ljóðin eftir 20. aldar skáld, það elsta, Carl Sandburg, er þó fætt 1878. Úr Uppheimum kemur líka ný ljóðabók Ara Trausta Guðmundssonar, Borgarlínur. Skáldið hefur víða flakkað og kynnir okkur hér fyrir borgum sem hann hefur kynnst í ólíkum hornum heimsins.

Ólafur Ragnarsson bókaútgefandi lést í vor fyrir aldur fram. Hann var fæddur 1944, varð þekktur sem fréttamaður á Sjónvarpinu en stofnaði bókaútgáfuna Vöku 1981 og sinnti bókum og bókaútgáfu upp frá því. Um það leyti sem hann lést kom út fyrsta og eina ljóðabók hans, Agnarsmá brot úr eilífð (Veröld), sem hann orti í veikindum sínum. Þetta er opinn, ljóðrænn kveðskapur, persónulegur, hlýr og oft gamansamur, og sýnir inn í æðrulausan huga. Ólafur leggur víða áherslu á að við getum valið hvort við erum bölsýn eða bjartsýn, og okkur beri að kjósa ljósið. Ljóðið “Vetur” endar á þessu erindi:

Láttu hann ekki ná tökum á þér,
láttu hann ekki breyta heitu hjarta þínu
í hryssingskalt íshjarta.
Óvíst er hve lengi það slær.

Ármann Jakobsson íslenskufræðingur gaf út bókina Fréttir frá mínu landi í vor (Nýhil), og má ef til vill kalla hana fyrstu “bloggljóðabókina”. “Óspakmælin” og örsögurnar höfðu áður birst á bloggi Ármanns en í bókinni er úrval þeirra. Þetta er dillandi skemmtileg bók og má bera niður hvar sem er til að sýna það. Þessi heitir “Ég tryllist (þjóðsaga)”:

Í fyrsta bekk í menntaskólanum var stelpa með mér í bekk
sem hafði þann sið að í hvert sinn sem nýtt námsefni eða
próf var kynnt til sögu sagði hún: Ég tryllist.
Hún hvarf rétt fyrir jólapróf.

Sigurjón Árni Eyjólfsson trúfræðingur sendi frá sér bókina Tilvist, trú og tilgangur (Hið íslenska bókmenntafélag) þar sem hann fjallar um nokkrar helstu kenningarnar um tilvist Guðs, allt frá sönnunum Anselms til afneitunar Nietzsches. Frá sama forlagi barst líka lærdómsritið Laókóon eða Um mörkin milli málverksins og skáldskaparins eftir Gotthold Ephraim Lessing, klassískt rit frá 1766 í þýðingu Gauta Kristmannssonar og Gottskálks Jenssonar.

Handa börnunum er Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, fjörug saga um litla mús sem villist inn í tónlistarhús. Þar er sinfóníuhljómsveit að hefja æfingu og músin þvælist fyrir fótum hljóðfæraleikaranna meðan þeir stilla hljóðfærin sín. Um leið lærir músin hvað hljóðfærin heita og hvers konar hljóð þau gefa frá sér. Sagan er eftir Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara og myndirnar teiknar Þórarinn Már Baldursson víóluleikari. Bókinni fylgir geisladiskur þar sem Valur Freyr Einarsson leikari les söguna og Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tónverkin sem koma við sögu (MM).

Talandi um klassík þá munu börn fagna endurútgáfum á klassísku myndabókunum um Alfinn álfakóng, Dísu ljósálf og Dverginn Rauðgrana eftir hollenska rithöfundinn og teiknarann Gerrit Theodor Rotman (JPV). Þær komu fyrst út á íslensku árin 1928–1930 og margir fullorðnir Íslendingar fengu í þeim sitt fyrsta myndlistaruppeldi – að ekki sé sagt myndlistarsjokk! Ísland mun vera eina landið þar sem þessar bækur eru enn í umferð sem lifandi verk.

Í þessu sambandi verð ég að nefna að Anna í Grænuhlíð á aldarafmæli í ár. Þessi rauðhærða og orðheppna en þó seinheppna söguhetja kanadísku skáldkonunnar Lucy Maud Montgomery er enn í fullu fjöri, það er verið að gera nýja sjónvarpsseríu og nýlega kom út barnabókin Before Green Gables eftir Budge Wilson um átakanlega ævi Önnu áður en hún kom til Matthíasar og Marillu í Grænuhlíð.

Nýr kiljukúbbur var stofnaður núna á útmánuðum, Hrafninn, spennubókaklúbbur Eddu útgáfu. Opnunartilboðið var val milli Ösku Yrsu Sigurðardóttur (Veröld) og Sjortarans eftir James Patterson (JPV), en Hrafninn kaupir nýjar kiljur frá helstu útgáfum landsins. Rithöfundurinn Mikael Torfason hefur stofnað nýtt forlag, GKJ, sem hóf starfsemi á endurútgáfu á fyrstu skáldsögu Mikaels, Fölskum fugli.

Þegar þetta er ritað eru Stína, Hugur og Ritið komin út. Meginefni Ritsins er innflytjendur og spurningin hvort við hin innfæddu erum smeyk við þá. Í Stínu er fjölbreytt bókmenntaefni að vanda, meðal höfunda eru Sjón, Bragi Ólafsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Jóhann Hjálmarsson, Thor Vilhjálmsson, Sigurbjörg Þrastardóttir og Jón Kalman Stefánsson, auk ritstjóranna, Kristínar Ómarsdóttur, Guðbergs Bergssonar og Kormáks Bragasonar. Helstu höfundar Hugar eru Páll Skúlason, Jón Á. Kalmansson, Stefán Snævarr og Ólafur Páll Jónsson, en þema heftisins er heimspeki menntunar.

Þýðingar

Eiríkur Örn Norðdahl fékk Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir skáldsöguna Móðurlausa Brooklyn eftir Jonathan Lethem (Bjartur). Sagan gerist í heimi jaðarfólks í New York, aðalpersóna og sögumaður þjáist af Tourette áráttuhegðun sem meðal annars kemur fram í því að hann verður að snúa upp á orð sem hann heyrir og endurtaka þau í endalausum tilbrigðum. Þýðing Eiríks Arnar þótti svo skapandi að hana mætti að hluta flokka sem höfundarverk. Auk þess voru tilnefnd eftirfarandi skáldrit: Brandarinn eftir Milan Kundera í þýðingu Friðriks Rafnssonar (JPV), Loftskeytamaðurinn eftir Knut Hamsun, Jón Kalman Stefánsson þýðir (Uppheimar), Módelið eftir Lars Saabye Christensen, Sigrún Kr. Magnúsdóttir þýðir (MM), og Skíðaferðin eftir Emmanuel Carrère, þýðandi Sigurður Pálsson (JPV).

Mér telst lauslega til að um áttatíu skáldverk hafi komið út í íslenskri þýðingu á síðasta ári og margir reyndir úrvalsþýðendur voru kallaðir til, auk nokkurra nýliða sem lofa góðu. Í nefndinni sátu Árni Matthíasson, Fríða Björk Ingvarsdóttir og sú sem hér skrifar, og þau urðu fljótlega sammála um tæplega tuttugu bækur sem kæmu einkum til greina. Allar gerðu þær umtalsverðar listrænar kröfur til þýðenda sinna en þó á ólíkan hátt, og næsta spurning var: hvernig var þeim kröfum mætt? Því áttu nefndarmenn að reyna að svara, hver fyrir sig, og búa síðan til lista yfir fimm toppbækur, eftir það kæmi í ljós hve mikið bæri á milli. Fjórar bækur reyndust vera sameiginlegar á listunum, ein enn var á tveim listum. Þá var ljóst að sú staka hlyti að verða útundan, en ég sé ennþá eftir henni!

Það er merkileg reynsla að lesa í lotu tugi þýddra bóka, maður fær aðra tilfinningu fyrir heildinni en af að lesa eina og eina. Yfirleitt var þetta ánægjuleg iðja; áleitin tilfinning varð þó oft að þýðendur hefðu flýtt sér helsti mikið og ekki haft tíma til að láta þýðinguna liggja og lagerast. Þetta er eðlilegt í hraða framleiðslunnar, samt ber alltaf að reyna að gefa texta tíma. Það sem einkum næst við að koma aftur að þýddum texta eftir nokkurt hlé – og sleppa þá takinu á frumtextanum – er að þýðandi kemur betur auga á óeðlileg tengsl við frummálið. Vicky Cribb sem þýðir úr íslensku á ensku sagðist á Bókmenntahátíð hafa farið með síðustu þýðingu sína alla leið til Nýja Sjálands til að losna undan íslenskum áhrifum – og skilið frumtextann eftir heima!

Nýjar þýðingar streyma út þessar vikurnar. Danska skáldævisagan Sá sem blikkar er hræddur við dauðann eftir Knud Romer (þýð. Halla Sverrisdóttir, MM) vakti úlfúð í heimalandi höfundarins þegar hún kom út vegna vægðarlausra lýsinga á söguumhverfinu. Í tilefni af Nóbelsverðlaunum Doris Lessing kom sú frábæra skáldsaga Dagbók góðrar grannkonu út aftur í fínni þýðingu Þuríðar Baxter (JPV). Bjartur gefur út aðra skáldsögu DBC Pierre, Bjöguð enska Lúdmílu (þýð. Árni Óskarsson), en fyrir þá fyrstu, Vernon God Little, hlaut hann Booker-verðlaunin árið 2003.

Ein þeirra bóka sem hafa vakið verulega athygli og deilur erlendis undanfarna mánuði er nærri þúsund blaðsíðna skáldsaga Jonathans Littell, Les Bienveillantes (Hinir velviljuðu, 2006). Littell er bandarískur Gyðingur en alinn upp að hluta í Frakklandi og skrifaði bókina á frönsku. Hún hefur hlotið tvenn helstu bókmenntaverðlaun Frakka, Prix Goncourt og skáldsagnaverðlaun Frönsku akademíunnar. Hér er sögð saga útrýmingar Gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni frá sjónarhóli nasistaforingjans Maximiliens Aue, sem tekur þátt í voðaverkunum af hugsjón. Hún kemur út á ensku í ár undir heitinu The Kindly Ones.

Tónlistin í sumar

Reykholtshátíðin verður haldin 23.-27. júlí og verður mikið um dýrðir að venju. Meðal þátttakenda er hinn heimsfrægi Karlakór St. Basil-dómkirkjunnar í Moskvu, bandaríski tenórsöngvarinn Donald Kaasch og kammerhópur hljómsveitarinnar Virtuosi di Praga frá Tékklandi; leiðari hans er Oldrich Vlcek sem á að baki glæstan feril sem fiðluleikari. Á lokatónleikunum leika Auður Hafsteinsdóttir (fiðla), Pálína Árnadóttir (fiðla), Þórunn Ósk Marinósdóttir (víóla), Bryndís Halla Gylfadóttir (selló) og Steinunn Birna Ragnarsdóttir (píanó) verk eftir Handel, Dohnányi og Dvorák. Steinunn Birna er sem fyrr listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju hefjast laugardaginn 5. júlí og standa til 10. ágúst. Staðartónskáld er Sveinn Lúðvík Björnsson og verður flutt eftir hann messa fyrir blandaðan kór, víólu og selló 12. og 13. júlí undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar.

Laugardagar hefjast jafnan kl. 14 á erindi, síðan eru tónleikar kl. 15 og kl. 17 með ólíkri efnisskrá. Þann fyrsta, 5.7., verður blásaratónlist í Bæheimi og Vínarborg flutt kl. 15 en verk fyrir bassafiðlur og piccoloselló-scordatura frá 17. öld kl. 17. Daginn eftir verður blásaratónlistin endurtekin kl. 15.

Eftir þetta hefjast helgarnar í Skálholti á fimmtudagskvöldum kl. 20, og verður dagskráin þau kvöld efnismeiri en verið hefur. Þann 10.7. verða fluttir “Náttsöngvar” eftir Rakhmanínov og strengjakvartett eftir Verdi. Laugardaginn 12.7. kl. 15 verður messa Sveins Lúðvíks en kl. 17 flytur Ishum kvartettinn verk eftir Beethoven og fleiri. Sú efnisskrá verður endurtekin kl. 15 á sunnudaginn, og kl. 17 verður messan endurtekin við guðsþjónustu.

Fimmtudaginn 17.7. verða fyrri afmælistónleikar Kolbeins Bjarnasonar með verkum eftir John Tavener, Gubaidulinu og Úlfar I. Haraldsson. Föstudaginn 18.7. syngur Chorale Eranthis frá Alsace evrópska kórtónlist frá ýmsum tímum. Laugardaginn 19.7. flytja Voces Thules tíðasöngva kl. 15 og 18, en kl. 17 verða seinni afmælistónleikar Kolbeins Bjarnasonar með verkum eftir Huga Guðmundsson, Toshio Hosokawa og fleiri.

Fimmtudaginn 24. júlí verða minningartónleikar um séra Guðmund Óla Ólafsson með Ágústi Ólafssyni barítón og Bachsveitinni í Skálholti. Þeir verða endurteknir kl. 15 á laugardag, en kl. 17 flytur Bachsveitin verk eftir Muffat, Vivaldi, Corelli og Handel. Sunnudaginn 27.7. kl. 15 verða flutt verk fyrir fiðlu og selló eftir Hafliða Hallgrímsson.

Svo kemur stóra helgin. Þann 31.7. flytur Marta G. Halldórsdóttir sópran kantötuna “La Mort de Didon” eftir Montéclair ásamt völdum hljóðfæraleikurum. Kantatan verður endurtekin laugardaginn 2.8. kl. 15, en kl. 17 þann dag verður kammertónlist “strokin, blásin, slegin” af úrvalsliði. Kl. 21 um kvöldið verður flutt ný tónlist eftir ung tónskáld undir yfirskriftinni “Njúton”. Á sunnudaginn kl. 15 flytja Les Basses Reunies verk eftir Purcell og Bach og endurtaka leikinn á mánudaginn kl. 17.

Þá er komið að lokavikunni. Fimmtudaginn 7.8. verður kvöld með Schubert og Skálholtskvartettinum. 9.7. kl. 15 verður kirkjuleg hljóðfæratónlist úr talnabandssónötum Bibers, sem verður endurtekin kl. 15 á sunndaginn. Á laugardaginn kl. 17 verða Haydn og Schubert með Skálholtskvartettinum.

Undir geislanum undanfarið hefur meðal annars verið diskur með píanó- og kammertónlist Sveinbjörns Sveinbjörnssonar (Naxos), fyrsta tónskálds sem Íslendingar eignuðust, en í fyrra voru liðin 160 ár frá fæðingu hans. Þarna eru meðal annars tvö píanótríó og fiðlusónata, ljúf verk en þó sérkennilega áleitin, auk þess smærri stykki og eru tvö þeirra hljóðrituð í fyrsta sinn á þessum diski. Eiginlega er fáránlegt hvað maður þekkir þessi verk illa, en nú verður breyting þar á. Flytjendur eru allir nafntogaðir snillingar: Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari, Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari og sellóleikararnir Sigurgeir Agnarsson og Sigurður Bjarki Gunnarsson. Smekkleysa dreifir Naxos diskum á Íslandi.

Myndlistin í sumar

Aðalþema Listahátíðar í Reykjavík í ár var myndlist, og margar sýningarnar sem þá voru opnaðar standa langt fram á sumar. Innsetningarnar í Hafnarhúsinu sem tengjast Tilraunamaraþoninu þar verða sýndar til 17. ágúst. Sýning Rúríar í Start Art, Sökkvun, stendur til 30. júní. Sýning brasilíska listamannsins Ernesto Neto í i8 stendur til 28. júní. Í Listasafni Íslands verður sýningin List mót byggingarlist til 29. júní og á Kjarvalsstöðum sýningin Draumar um ægifegurð í íslenskri samtímalist til 7. september, beggja var getið í síðasta hefti TMM.

Þeir sem fara hringinn í sumar ættu að hafa sérstakt auga úti fyrir spennandi sýningum. Á Akureyri stýrir Hannes Sigurðsson safnstjóri sýningunni Andspænis Kína til 29. júní. Þar eru sýnd málverk og skúlptúrar eftir níu þekkta kínverska listamenn sem voru fengin að láni frá hollenska safnaranum Fu Ruide. Í Safnasafni á Svalbarðsströnd standa Anna Líndal, Bjarki Bragason og Hildigunnur Birgisdóttir að sýningunni Greinasafni til 8. júlí. Á Eiðum á Fljótsdalshéraði sýna Hrafnkell Sigurðsson og Lennart Alvés til 1. júlí. Í Listasafni Reykjanesbæjar stjórnar Aðalsteinn Ingólfsson sýningunni Þrívíður á verkum sem Hannes Lárusson, Guðjón Keltilsson og Helgi Hjaltalín hafa unnið í tré; hún stendur til 15. ágúst. Og í Listasafni Árnesinga, Hveragerði, eru sýnd pappírsverk Magnúsar Kjartanssonar heitins til 20. júlí. Sýningarstjóri er Jón Proppé.

Rétt er að minna ferðamenn til New York á fossana hans Ólafs Elíassonar sem munu falla fram af háum stöllum ofan í Austurá í sumar og haust, frá miðjum júlí og fram í október. Nú stendur yfir tvöföld sýning á verkum Ólafs í Museum of Modern Art í New York, annars vegar í aðalbyggingu MoMA við 53. stræti á Manhattan, hins vegar í nýlistamiðstöð safnsins, P.S.1, við Jackson Avenue í Queens. Sýningunum lýkur 30. júní.

Þórunn Sigurðardóttir lætur af störfum sem listrænn stjórnandi Listahátíðar í ár; við tekur Hrefna Haraldsdóttir sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Listahátíðar undanfarin ár. Henni er óskað alls hins besta í þessu mikilvæga starfi.

Leiklistin

Magnús Geir Þórðarson varð hlutskarpastur í kapphlaupinu um starf leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur, og kom engum á óvart. Honum hefur gengið ævintýralega vel að lokka gesti í leikhús á Akureyri undanfarin þrjú ár og skilur þar gott bú eftir í höndum Maríu Sigurðardóttur leikara og leikstjóra sem ráðin var eftirmaður hans. María stýrði aðalsýningu vetrarins, Fló á skinni, sem hefur verið svo vinsæl fyrir norðan að Magnús ætlar að bjóða henni í nýja húsið sitt í haust. Enda hefur hann þegar fastráðið þrjá leikara úr sýningunni hjá LR.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu (11.4. 2008) kemur fram að Magnús er hlynntur ákveðinni verkaskiptingu milli stóru leikhúsanna í borginni þannig að klassíkin verði meira á ábyrgð Þjóðleikhússins, nútíminn frekar á sínu borði. “Í Borgarleikhúsinu verður áhersla á kraftmiklar leiksýningar, ríkar að gæðum, sem snerta stóran hóp áhorfenda,” segir hann. “Það verður góð blanda af aðgengilegri sýningum og ögrandi og áleitnum verkefnum. Sami metnaður á að ríkja við sköpun allra þessara verka – krafan á gæði verður í forgrunni. Við munum kappkosta að áleitnari sýningar nái meiri aðsókn en áður og snertiflötur þeirra við áhorfendur verði skýr.” Þarna vísar hann líklega óbeint til ummæla Benedikts Erlingssonar sem fann að því í viðtali í Lesbók Morgunblaðsins (30.6. 2007) að nýstárlegum sýningum væri ekki fylgt nógu vel eftir hjá LR.

Magnús segist líka í viðtalinu vilja fjölga uppsetningum LR í Borgarleikhúsinu, þótt áfram verði tekið við samstarfsverkefnum og gestasýningum. “Eigin uppsetningar Leikfélagsins eiga að vera kjarninn,” segir hann. Atvinnuleikhópar hafa átt greiðan aðgang að sviðum Borgarleikhússins undanfarin ár og á það áreiðanlega stóran þátt í háum aðsóknartölum að sýningum þeirra. Samkvæmt frétt frá Hagstofu Íslands í lok mars komu tæplega 440.000 manns á leiksýningar leikhúsa, atvinnuhópa og áhugaleikhópa leikárið 2006-2007. Það þýðir að hver Íslendingur hefur farið 1.4 sinnum í leikhús á árinu, sem er Evrópumet. Aðsókn að sýningum atvinnuhópa slagar hátt upp í atvinnuleikhúsin, þar munar aðeins tæplega 50 þúsund manns.

Af leiksýningum í sumar berast litlar fréttir þegar þetta er ritað. Þó er ljóst að dansverk Ástrósar Gunnarsdóttur og Láru Stefánsdóttur, Systur, verður sýnt í Iðnó eitthvað fram eftir sumri. Þetta er rússíbanaferð um hugaróra og veruleika tveggja kvenna þar sem leikið er á margskonar tilfinningar, losta, sektarkennd, trú, von, kærleika og sorg.

Afmæli

Þegar er byrjað að halda upp á afmælisbörn ársins. Hjalti Rögnvaldsson las allar ljóðabækur Þorsteins frá Hamri upphátt í Iðnó í mars og apríl. Rithöfundasambandið hafði samkomu til heiðurs Steini Steinarr á degi bókarinnar, 23. apríl, á næstunni verður samkoma til heiðurs Sigfúsi Daðasyni og bók er væntanleg til heiðurs Sigurði A. Magnússyni. Sérstök ástæða er til að nefna að dagskrá til heiðurs Steini verður á menningarsetrinu Nýp á Skarðsströnd 26. júlí. Þar munu ljóðskáldin Matthías Johannessen og Sigurbjörg Þrastardóttir tala um skáldið.

Álfrún Gunnlaugsdóttir sem varð sjötug 18. mars sl. var ekki með á fljótfærnislegum lista yfir merkisafmæli rithöfunda í síðasta hefti. Til að bæta úr því langar mig að minna hér á fróðlegt viðtal sem Dagný Kristjánsdóttir átti við Álfrúnu og birti í þessu tímariti fyrir 14 árum (TMM 1/1994). Þar segir Álfrún lítillega frá uppvexti sínum í Reykjavík en rækilegar frá námsárunum á Spáni á stjórnartíma Francos. Eins og Sigurður Pálsson var hún lengi erlendis, síðustu þrjú árin í Sviss þar sem hún hvorki heyrði né talaði íslensku, enda varð heimkoman henni erfið:

Ég hélt að þjóðernið og tungumálið væru einfaldlega þáttur af mér sjálfri, eitthvað sem ekki breyttist. Ég hélt að maður gæti fengið vitneskju um það sem gerst hafði á meðan maður var í burtu, en það var ekki hægt. Maður fékk svo sem að vita hvað hafði gerst en ekki hvernig það hefði gerst. Það síðastnefnda getur verið jafn mikilvægt og hitt, en sú vitneskja fæst aðeins með því að vera þátttakandi.

Það var sjálfsblekking að einhver fastur kjarni haldist óbreyttur, líka í málinu. Það fer nefnilega fram eins konar seinni máltaka á óhlutstæðum orðum upp úr tvítugu og fagmál með sínum sérstaka orðaforða verður til dæmis nánast nýtt mál. […] Ég byrjaði þó tiltölulega fljótt aftur að hugsa á íslensku, en mér fannst ég ekki alveg örugg. Þess vegna settist ég niður og þýddi Sálumessu yfir spænskum sveitamanni eftir Ramón J. Sender, bara til að setja málin tvö niður hlið við hlið, sameina þau og aðskilja um leið, með því að yfirfæra merkingu af einu yfir á hitt. Sú þýðing kom ekki út fyrr en löngu seinna, en þetta var mér persónulega mikil hjálp.

Í framhaldinu tala þær stöllur um skáldverk Álfrúnar og fræðistörf, trú, ást og starf hennar í Háskóla Íslands, og mætti taka margar forvitnilegar tilvitnanir í viðbót úr spjallinu þótt það verði ekki gert hér. Álfrúnu er óskað innilega til hamingju með afmælið.

Talandi um afmæli þá rámar Sigurð Pálsson í vísu eftir Stein Steinar þar sem rue Delambre rímar á móti femme de chambre en man ekki meira. Kann einhver lesandi vísuna? Í framhaldi af því má hugsa sér að safna saman lausavísum Steins sem ýmsir kunna enn en hafa ekki birst í bók og birta í hausthefti TMM. Látið orðið ganga og sendið vísur á silja.adal@simnet.is svo safnið verði orðið myndarlegt í haust.

Silja Aðalsteinsdóttir, TMM, 2 maí 2008