Unnur Birna Karlsdóttir

Unnur Birna Karlsdóttir

Eftir Unni Birnu Karlsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021.

 

 

Hugleiðingar um konur og stjórnarskrá

Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá voru hugmyndarík á árinu 2020 í baráttu sinni fyrir að tillaga stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá frá haustinu 2012 verði tekin til grundvallar við endurskoðun stjórnarskrár Íslands. Samtökin efndu til undirskriftar þessu til stuðnings og rúmlega fjörutíu og þrjú þúsund (43.423) skrifuðu undir. Þetta vakti verðskuldaða athygli en mesta athygli vakti þó aðgerðadagskrá samtakanna sem fól t.d. í sér að slagorðið „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ var málað á veggi og ýmsa aðra fleti stjórnvöldum til áminningar um efnið, og jafnvel við litla hrifningu yfirvalda. Þannig hefur staðið yfir barátta fyrir nýrri stjórnarskrá síðustu misserin og reyndar síðustu árin.

Þar hefur fjöldi kvenna verið í fararbroddi, fyrir endurskoðaðri og nútímalegri stjórnarskrá í stað þeirrar sem í gildi er og var samin á tímum þegar íslenskar konur komu í engu að gerð hennar, enda núverandi stjórnarskrá Íslands byggð á stjórnarskrá konungsríkisins Danmerkur fyrir 1944, aðeins heimfærð upp á Ísland með örlitlum breytingum við lýðveldistökuna 1944. Þessi „danska“ stjórnarskrá átti aldrei að vera nema til bráðabirgða.

Reyndin hefur síðan orðið sú að ríkisstjórnir allar götur síðan þá hafa verið mjög íhaldssamar eða tregar til að endurskoða stjórnarskrána og þurfti samfélagslegt rof og upplausn og reiði almennings í kjölfar bankahrunsins til að stjórnmálamenn, sumir hverjir en ekki allir, hreyfðu málinu og tóku að styðja kröfur kjósenda um að fyrir löngu væri kominn tími á endurskoðun stjórnarskrárinnar, enda gamaldags og úrelt ákvæði hennar í mörgum atriðum orðin mjög bagaleg fyrir land og þjóð. Öfl innan stjórnmálaflokka hafa þó ítrekað getað komið í veg fyrir kröfur um nýja stjórnarskrá frá því að þessi málaflokkur fékk byr í seglin eftir hrun, bæði á þjóðfundinum 2009 og síðan í kosningu í stjórnlagaráð og niðurstöðu þess sem lögð var í dóm almennings með þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012.

Málinu hefur verið drepið á dreif, því stungið ofan í skúffu, svæft í nefndum og hvað ekki hefur verið fundið upp til að tefja framgang þess, og þá um leið að þvæla og flækja lýðræðislegt ferli sem þykja ætti eðlilegur hluti þróunar og framgangs nútímalegs lýðræðisríkis. Nýjasta útspilið er að núverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, leggur ein fram tillögur til breytinga á stjórnarskránni, sem furðu sætir, hafandi þriggja flokka bakland við ríkisstjórnina. Þessi gjörð forsætisráðherra hefur þótt of máttlítil miðað við það skjal að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaráð samdi á sínum tíma en sýnir þó bæði vilja hennar til að hreyfa málið áfram í stað þess að láta ekkert gerast enn eina ferðina.

Eflaust er þó erfitt fyrir kjósendur marga hverja að átta sig á af hverju forsætisráðherra situr ein uppi með málið og gerir þó eitthvað þrátt fyrir allt á meðan tregða virðist ráða ferðinni meðal ríkisstjórnarinnar allrar til að bregðast við kalli tímans. Annað þessu tengt, þ.e. sögu mannréttinda og samningu stjórnarskráa, er að á síðasta ári voru liðin hundrað ár frá því að íslenskar konur fengu rétt til kosninga til jafns á við karla. Hundrað ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna, sem og lífleg og kröftug barátta Samtaka kvenna um Nýja stjórnarskrá, varð til þess að mig langaði að rifja upp framtak konu sem stóð í eldlínunni fyrir tveimur öldum og þremur áratugum betur og krafðist réttinda konum til handa og staðfestingu þeirra réttinda í nýrri stjórnarskrá.

 

Kona sem fór sínar eigin leiðir

Þann 28. október í ár eru 230 ár síðan franska baráttukonan og mannréttindasinninn Olympe de Gouges lagði fram kröfu sína um jafnrétti kynjanna. Með þessu markaði hún söguleg tímamót í sögu baráttu fyrir réttindum kvenna en þetta djarfa framtak féll þó í gleymsku í rúmlega tvær aldir, eða var að minnsta kosti ekki haldið á lofti fyrr en kvennasaga og síðan kynjasaga haslaði sér akademískan völl á níunda áratug 20. aldar. Olympe de Gouges verður að teljast stórmerkilega kona, ekki aðeins í sögu mannréttindabaráttu heldur einnig í sögu frönsku byltingarinnar, enda þótt nafn hennar hafi lengi vel ekki lifað í meginstraumssögunni þrátt fyrir eftirtektarverða og einstæða gagnrýni hennar á mannréttindayfirlýsinguna frá 1789 fyrir að ganga of skammt í að tryggja öllum þegnum Frakklands, konum ekki síður en körlum, jöfn réttindi. Þessa gagnrýni setti hún fram í miðri hringiðunni í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar.

Olympe de Gouges, skírð Marie, fæddist 7. maí 1748 í Montauban í suðurhluta Frakklands, dóttir hjónanna Anne-Olympe Mouisset og Pierre Gouze sem var slátrari. Sjálf kvaðst hún síðar vera afrakstur ástarsambands móður sinnar og markgreifans og leikritaskáldsins Le Franc de Pompignan, og að frá honum hafi hún fengið rithæfileika sína. Þessi faðernissaga var aldrei sannreynd og eftir standa aðeins vangaveltur, t.d. um hvort það að halda henni á lofti hafi verið þáttur í plani Marie Gouzes að eignast ekki aðeins nýtt líf heldur gefa sér skáldaleyfi í endursköpun eigin persónu þegar hún söðlaði um og skapaði sér nýtt og ævintýralegt líf sem rithöfundur í París.

Þar varð hún líka talsmaður mannréttinda, krafðist afnáms þrælahalds og réttinda til handa þeim sem veikast stóðu í samfélaginu, fátækum, veikum, öldruðum, óskilgetnum og konum. Sextán ára hafði hún ófús þurft að giftast karlmanni sem hún unni ekki og var mun eldri en hún. Eiginmaður hennar, Louis Yves Aubry, lést af slysförum fljótlega eftir fæðingu eina sonar þeirra og má líklega telja það henni til happs því þá losnaði hún úr helsi óhamingjusams hjónabands, aðeins átján ára gömul. Hún fór ótroðnar slóðir upp frá því og breytti til dæmis nafni sínu. Í stað þess að verða ekkjan Marie Aubry tók hún upp miðnafn móður sinnar; Olympe, breytti fjölskyldunafni föður síns úr Gouzes í de Gouges. Hún hafnaði hjónabandinu sem hinu eina lífsfyrirkomulagi, takmarki og endastöð í lífi kvenna og gifti sig aldrei aftur.

Olympe de Gouges ætlaði sér annan stað og pláss í heiminum. Hún fluttist með ungan son sinn til Parísar árið 1770 með tilstyrk velgjörðamanns síns, efnamannsins Jacques Biétrix de Rozières. Hún tók upp nýtt nafn eins og áður gat og hóf feril sinn sem rithöfundur. Hún var ómenntuð og gat í fyrstu ekki skrifað á frönsku heldur fór með texta sína fyrir skrifara sína en virðist hafa haft óbilandi kjark og æðruleysi því hún haslaði sér völl í menningarlífi hinnar iðandi Parísarborgar og byrjaði að gefa út ljóð, skáldsögur, pistla og leikrit, sem sum hver voru sett á svið. Síðast en ekki síst ritaði hún yfirlýsingu um réttindi kvenna, sem enn heldur nafni hennar á lofti, enda brautryðjandaverk í sögu réttindabaráttu kvenna Olympe samdi kvenréttindayfirlýsingu sína með hliðsjón af mannréttindayfirlýsingunni frá 1789.

Hún virðist hafa búið yfir ríkri réttlætiskennd, og óvenjulegri á tímum þegar konur áttu ekki að skipta sér af þjóðmálum, því meðal mála sem hún lét sig varða voru aðstæður og málefni þræla í frönsku nýlendunum. Hún gagnrýndi þrælahald sem mannréttindabrot í skjóli gróðahyggju, nýlendustefnu og rasisma og studdi afnám þess. Líkt og fleiri sem þráðu réttlátara þjóðfélag í Frakklandi tók hún frönsku stjórnarbyltingunni fagnandi árið 1789, enda stóðu vonir margra innan borgara- og bændastéttar í Frakklandi til þess að byltingin myndi hrinda af stað þjóðfélagsumbótum, lýðræði og frelsi undan oki og yfirgangi einvaldsins í Versölum og forréttindum aðalsins á kostnað annarra þegna landsins.[1]

 

Olympe de Gouges

Olympe de Gouges / Portrett eftir Alexander Kucharsky

Undirokun kvenna

Olympe de Gouges þótti fljótlega ljóst að franska stjórnarbyltingin snerist eingöngu um réttindi karla. Réttleysi kvenna yrði óbreytt. Þetta fannst henni endurspeglast skýrt í mannréttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar, yfirlýsingunni um réttindi manns og borgara frá 1789 sem stjórnarskráin frá 1791 byggðist á, þar sem karlar fengu tvöföld réttindi; sem húsbændur heimilis og fjölskyldu og sem borgarar franska ríkisins.

Viðbrögð Olympe við því voru að semja aðra mannréttindayfirlýsingu sem tók til kvenna rétt eins og karla. Hún gerði kröfu um að þeir sem réðu málum á árum byltingarinnar tækju yfirlýsingu hennar til umfjöllunar og samþykkis þegar hún lagði hana fram í október 1791 svo tryggja mætti að ný stjórnarskrá lýðveldisins gæti byggt á henni og tekið réttindi kvenna með í reikninginn jafnt og karla. Hún gagnrýndi að nýja stjórnarskráin frá 3. september 1791 gerði það ekki, þvert á móti var konum áfram haldið utan borgaralegra réttinda, rétt eins og fyrir stjórnarbyltinguna.[2]

Framtak Olympe de Gouges er enn merkilegra og róttækara í ljósi þess tíðaranda sem hún skoraði á hólm með jafnréttis- og kvenréttindayfirlýsingu sinni. Ríkjandi hugmyndir um hlutverk kynjanna voru þær að karlar og konur væru ekki einungis sitt hvort líffræðilega kynið heldur einnig grundvallaratriðum ólík að eðlisfari og eiginleikum frá náttúrunnar hendi. Þekkt verk sem boðaði þessa kynjastaðalmynd er auðvitað ritið um Emile og Sofíe, Emile ou De l’Education (1762), eftir Rousseau, sem boðar að allt uppeldi og menntun stúlkna og pilta skuli búa þau undir ólík hlutverk í samræmi við eðlisgerð þeirra.

Karlar væru gæddir skynsemi og rökhugsun en konur væru einvörðungu tilfinningaverur og hugsun þeirra og hátterni stjórnaðist alfarið af því. Konan skyldi sinna heimi einkalífsins, heimilinu, en karlmaðurinn hinum ytri heimi, þjóðfélaginu, samfélagsmálum, atvinnulífi og pólitík. Kona skyldi ekki hafa annað hlutverk og markmið frá barnsaldri en að verða eiginkona og móðir. Veröldin utan heimilis með allri sinni gerjun og hringiðu, stjórnmálum, tækifærum til menntunar og ferðafrelsi, skyldi vera konum lokaður heimur, enda væru þær frá náttúrunnar hendi veikara kynið.[3]

Um þessa undirokun kvenna í Evrópu fyrr á öldum hafa margir fræðimenn skrifað. Þar á meðal þýska fræðikonan Hannelore Schröder sem hefur fjallað um að franska stjórnarbyltingin hafi þegar allt kom til alls eingöngu snúist um réttindi karla eins og tíðarandinn bauð. Í mannréttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar frá árinu 1789 væri orðið maður, „l´homme“, í senn notað í merkingunni karlmaður og mannkyn. „La femme“ merkir kona og aðeins það, rökstyður hún. Ef ljóst ætti að vera að átt væri við alla menn, allt mannkyn, yrði að viðhafa orðalagið „konur og karlar“ í svo mikilvægu skjali sem mannréttindayfirlýsingin væri. Á þetta benti Olympe de Gouges.

Hún krafðist þess að réttindi kvenna yrðu ekki virt að vettugi í þeim mikilvægu lýðræðisumbótum sem fyrirliggjandi voru. Orðalag yfirlýsingar um réttindi borgaranna yrði að vera þannig að ljóst væri að hún næði einnig til kvenna. Í yfirlýsingu sinni um rétt konunnar og borgarinnunnar (f. Déclaration des droits de la femme et de la citoyenne) notaði hún orðin „konur og karlar“ svo að ljóst væri að réttindin næðu til kvenna jafnt sem karla. Í mannréttindayfirlýsingunni frá 1789 eru konur aldrei nefndar, einfaldlega vegna þess að þær eru ekki taldar með. „Tous les hommes“ þýðir allir karlmenn, svo einfalt er það, skrifar Schröder ennfremur. Kjarninn í pólitískri hugmyndafræði frönsku stjórnarbyltingarinnar og að baki mannréttindayfirlýsingunni 1789 var að afnema einhliða forréttindi aðals- og prestastéttar yfir þriðju stétt sem í voru borgarastétt, handverksmenn og bændur.

En andspyrna byltingaraflanna gegn kúgun snerist aðeins um réttindi karla, ekki um kúgun kvenna. Í engu tilliti stóð til að afnema félagslegt og pólitískt réttindaleysi kvenna í öllum stéttum, svo ég vitni aftur í Schröder. En þessi skrif hennar frá árinu 1989 urðu einmitt til þess að vekja athygli mína á Olympe de Gouges. Fram að því hafði ég hvorki heyrt á Olympe minnst, né tímamótaframlag hennar í sögu mannréttindabaráttu. Schröder bendir einnig réttilega á að sá skilningur að hugtakið maður eigi aðeins við um karlmanninn var ráðandi í allri samfélagsgerð og pólitískri hugmyndafræði og stjórnmálum bæði fyrir daga frönsku stjórnarbyltingarinnar, í henni og eftir hana, áfram alla 19. öld og langt fram á þá 20., og í ýmsu tilliti eigi hann enn við.[4]

Yfirlýsing um réttindi konu og borgarinnunnar

Það má segja að mannréttindayfirlýsingin 1789 og franska stjórnarskráin frá 1791 sem hún varð inngangur að hafi verið barn síns tíma. Það breytir því þó ekki að Frökkum gafst fyrir tilstilli einnar konu kostur á að stíga djarft og stórmerkilegt skref sem hefði markað tímamót í mannkynssögunni, ef þeir hefðu samþykkt hugmyndir Olympe de Gouges um borgaraleg réttindi jafnt fyrir konur sem karla. En það var öðru nær. Olympe var langt á undan sinni samtíð. Heimurinn var ekki tilbúinn fyrir framsæknar mannréttindahugmyndir hennar. Hér er þó við að bæta að tengsl kvenréttinda og lýðræðis í frönsku byltingunni hófust ekki á prenti með hugmyndum Olympe heldur skömmu áður hjá franska markgreifanum og hugsuðinum Condorcet, sem skrifaði um mikilvægi aukinna réttinda þegnanna og jafnréttis kynjanna, þar sem konur hefðu samkvæmt lögum sömu réttindi og karlar í hinu nýja lýðræðisþjóðfélagi byltingarinnar, þar með talinn kosningarétt, sem og að aukin lýðræðisleg réttindi næðu til kvenna jafnt og til karla. Þessar hugmyndir og fleiri setti hann fram í riti sínu sem út komu árið 1790.

Condorcet var þekktur hugsuður á upplýsingatímanum og sá fyrsti til setja fram svo róttækar jafnréttishugmyndir og tengja þær lýðræðisumbótahugmyndum frönsku stjórnarbyltingarinnar. Hann gagnrýni kúgandi fyrirkomulag feðraveldisins á öllum sviðum samfélagsins og hafnaði líffræðilegri lögmálshyggju sem skýringu á ólíkri stöðu kynjanna í samfélaginu, heldur sagði hana ráðast af manngerðu fyrirkomulagi. Menntun, skynsemi og upplýsing væru þar af leiðandi verkfærin til að leiðrétta mismunun og þjóðfélagslegt óréttlæti af öllu tagi, þar með talið gagnvart konum. Víst má telja að Olympe hafi kynnt sér hugmyndir Condorcet og örlög beggja urðu síðar að vera tekin af lífi þegar byltingin tók að éta börnin sín af mikilli grimmd.[5]

Olympe gaf kvenréttindayfirlýsingu sína út í október 1791.[6] Í inngangi beinir hún þeirri spurningu til karla hvort þeir séu færir um að beita sér fyrir réttlæti og um það hver hafi gefið þeim óskorað vald til að kúga konur. Hér dugir ekki að réttlæta undirokun kvenna með skírskotun til fyrirkomulags náttúrunnar, skrifar hún og hafnar þar með ríkjandi réttlætingu á valdi karla yfir konum. Hún skorar á karla að líta einmitt til náttúrunnar til að leiðrétta óréttlætið í því samfélagi sem þeir hafi skapað. Meðal plantna og dýra ríkir innbyrðis samræmi og jafnvægi, skrifar hún. Undirokun kvenna væri manngert fyrirkomulag og hefði ekkert með náttúruna að gera. Karlmaðurinn hafi upp á eigin spýtur, uppfullur af sjálfum sér, komið á þessu óþolandi og fáránlega fyrirkomulagi þar sem hann er sjálfskipaður drottnari yfir konum. Karlmaðurinn vill ríkja sem einvaldur yfir kvenkyninu sem hefur alla burði sjálft til að standa honum jafnfætis vitsmunalega. Karlmenn gera kröfu um jafnrétti fyrir sig í nafni byltingarinnar en láta þar við sitja, bætir hún við.[7]

Í aðfararorðum að hinum sautján greinum yfirlýsingarinnar skrifar Olympe svohljóðandi kröfugerð fyrir hönd franskra kvenna, hér í íslenskri þýðingu minni:

Mæður, dætur og systur, kvenkyns fulltrúar þessarar þjóðar, krefjast staðfestra réttinda sem fullgildir þjóðfélagsþegnar.

Í ljósi þess að fáfræði, afskiptaleysi eða vanvirðing fyrir réttindum kvenna eru einu orsakir almennrar ógæfu og spillingar ríkisstjórna hafa [þær] ákveðið að setja fram í hátíðlegri yfirlýsingu, náttúruleg, ófrávíkjanleg og heilög réttindi kvenna; þessi yfirlýsing, ætíð í huga allra þegna samfélagsins, mun stöðugt minna þá á réttindi þeirra og skyldur, og gera kleift að bera pólitískar gjörðir kvenna og pólitískar gjörðir karla á öllum sviðum saman við markmið pólitískra stofnana, hverra virðing mun aukast, svo að kröfur kvenkyns borgara, héðan í frá byggðar á einföldum og óumdeilanlegum meginreglum, munu ávallt leitast við að viðhalda stjórnarskránni og góðu siðferði, öllum til heilla.

Af þessu leiðir að kynið, að yfirburðum í fegurð eins og það er í hugrekki í þjáningu barnsfæðingar, gengst við og lýsir yfir, í viðurvist og frammi fyrir hinum æðsta mætti, meðfylgjandi réttindum kvenna og kvenkyns þjóðfélagsþegna.[8]

Svo virðist sem Olympe vilji með lokaorðunum um fegurð og hugrekki kvenkynsins ekki aðeins draga fram að konur séu jafnvígar körlum, heldur lítur hún á þetta síðasta sem styrk sem aðeins konur búi yfir, en kvenleg fegurð og móðurhlutverkið hafi einmitt verið notað sem rök gegn þátttöku kvenna í þjóðfélagsmálum.[9]

Yfirlýsingin sjálf er í sautján greinum og hljóðar svo í þýðingu minni og endursögn:

  1. Konan er fædd frjáls og lifir jöfn karlinum að réttindum. Samfélagslega aðgreiningu skal einvörðungu byggja á almannahagsmunum.
  2. Markmið allra pólitískra samtaka er að varðveita náttúruleg og óumdeilanleg réttindi konu og karls; þessi réttindi eru frelsi, eignir, öryggi og, síðast en ekki síst, andstaða gegn kúgun.
  3. Meginregla alls fullveldis hvílir í grundvallaratriðum hjá þjóðinni, sem er aðeins eining konu og karls; ekkert og enginn getur beitt valdi af neinu tagi sem kemur ekki sérstaklega frá þjóðinni.
  4. Frelsi og réttlæti felast í að allir fái endurheimt það sem þeim ber, þessu tilheyrir að binda enda á undirokun kvenna, þannig er langvarandi ofríki karlmannsins gagnvart konunni eina hindrun þess að hún geti notið náttúrulegra réttinda sinna; þá hindrun ber að endurskoða samkvæmt lögmálum náttúru og skynsemi.
  5. Lögmál náttúru og skynsemi andæva öllum athöfnum sem eru skaðlegar þjóðfélaginu; hvorki má hindra hvaðeina það sem ekki er bannað samkvæmt þessum vitru og guðdómlegu lögum né þvinga nokkurn til neins sem þau mæla ekki fyrir um.
  6. Lög eiga að tjá hinn almenna vilja, allir kvenkyns og karlkyns ríkisborgarar verða að leggja sitt af mörkum í gerð þeirra til að svo megi verða, annaðhvort í eigin persónu eða í gegnum fulltrúa sína. Hið sama á að gilda um alla, jafnt kvenkyns sem karlkyns ríkisborgara, enda eru þeir jafnir fyrir lögum og ber að njóta að jöfnu réttar til metorða, stöðugilda og opinberra starfa eftir eigin getu og án nokkurrar annarar aðgreiningar utan dyggða þeirra og hæfileika.
  7. Allar konur skulu undantekningalaust hlíta sömu meðferð og karlar í sakamálum í tilvikum sem lög kveða á um, hvað varðar sakargiftir, fangelsun og málsmeðferð. Konur, rétt eins og karlar, lúta þessum ströngu lögum.
  8. Lög skulu aðeins kveða á um refsingar sem eru stranglega og augljóslega nauðsynlegar, og engum skal refsa nema í krafti settra laga sem tóku gildi áður en glæpur var framinn og lög heimila að gildi um konur.
  9. Þá þegar kona er lýst sek skal sakfelling fara að lögum.
  10. Engan má ofsækja fyrir skoðanir sínar, sama hve róttækar þær eru; kona hefur rétt til að klífa metorðastigann og tjá skoðanir sínar að því tilskyldu að hátterni hennar trufli ekki almannahagsmuni sem hafa stoð í lögum.
  11. Frelsi til að tjá hugsanir sínar og skoðanir eru einn dýrmætasti réttur kvenna sökum þess að það tryggir að feður viðurkenni börn sín. Sérhver kvenkyns ríkisborgari hefur því frelsi til að lýsa karlmann föður að barni sínu. Ekki má neyða hana til að leyna hinu sanna í krafti villimannslegra kredda, að því gefnu að ábyrgst sé að ekki komi til misnotkunar þessa frelsis, og komi til þess skulu viðbrögð við því styðjast við lög.
  12. Mikill ávinningur felst í að réttindi konunnar og kvenkyns borgarans eru tryggð en slík réttindi verða að samræmast hagsmunum heildarinnar, en ekki aðeins sérhagsmunum þeirra sem réttindin hljóta.
  13. Framlag konu og karls til reksturs hins opinbera og útgjalda ríkisvaldsins skal vera jafnt. Konur taka þátt í öllum skyldum og sársaukafullum verkefnum; þess vegna eiga konur að hafa sömu hlutdeild og karlmenn í úthlutun stöðugilda, atvinnu, embætta, vegtylla og starfa.
  14. Kvenkyns og karlkyns ríkisborgarar eiga rétt á að færðar séu sönnur á nauðsyn skattlagningar til hins opinbera, annaðhvort fyrir þeim eða fulltrúum þeirra. Konur eiga aðeins að samþykkja slíka skattlagningu með þeim skilyrðum að þeim sé tryggður jafn hlutur, ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig í opinberri stjórnsýslu og við ákvörðun um skattlagningu á öllum sviðum.
  15. Konur líkt og karlar hafa rétt til að krefja stjórnsýsluaðila um skýringar á stjórnarháttum er lúta að skattlagningu.
  16. Ekkert þjóðfélag getur átt stjórnarskrá ef réttindi eru ekki tryggð og kveðið á um valdskiptingu; stjórnarskrá er einskis virði ef meirihluti þjóðarinnar sem að henni stendur hefur ekki tekið þátt í gerð hennar.
  17. Eignarétt hafa bæði kyn, karlar og konur, sameinuð eða aðskilin, fyrir hvern og einn er það friðhelgur og heilagur réttur; ekki er hægt að svipta neinn þeirri sönnu náttúrulegu arfleifð, nema almannahagsmunir krefjist og hafi þá fulla stoð í lögum, og þá aðeins samkvæmt fyrirfram ákvörðuðum og réttlátum skaðabótum.[10]

Þannig boðaði Olympe de Gouges að raunveruleg breyting á samfélaginu til hins betra næði ekki fram að ganga nema réttindi kvenna yrðu viðurkennd með skýrum hætti.

Dóttir byltingarinnar hálshöggvin

Það er skemmst frá því að segja að kvenréttindayfirlýsing Olympe de Gouges hlaut ekki brautargengi á meðan hún lifði, og reyndar áttu hugmyndir á borð við hennar ekki upp á pallborðið fyrr en einni til einni og hálfri öld síðar, að lokinni langri og harðri baráttu kvenna fyrir borgaralegum og pólitískum réttindum kvenna til jafns á við karla. Olympe de Gouges lifði ekki byltinguna af frekar en hugsjónir hennar því hún varð ein af fjölmörgum fórnarlömbum ógnarstjórnar Jakobína sem tók öll völd sumarið 1793.

Hún var leidd undir fallöxina 3. nóvember 1793. Ástæðan fyrir því voru þó ekki róttækar og ögrandi hugmyndir hennar um kvenréttindi heldur andóf hennar í verki gegn ógnarstjórn Jakobína, m.a. með því að líma mótmælaspjöld á veggi í Parísarborg.[11] Í kveðjubréfi til sonar síns frá deginum áður en Olympe var tekin af lífi skrifaði hún: „Ég dey, elsku sonur minn, fórnarlamb hugsjóna minnar fyrir föðurlandið og fólkið. Óvinir þess dulbúnir falskri grímu lýðveldishyggju hafa í miskunnarleysi leitt mig undir fallöxina.“[12]

Hér í lokin er rétt að nefna að Olympe var ekki einan konan sem lét til sín taka í frönsku byltingunni. Í umbroti byltingarinnar nýttu fleiri konur tækifærið til að smeygja sér inn á pólitíska sviðið, tóku þátt í mótmælaaðgerðum, voru herskáar, jafnvel vopnaðar. Ein þeirra, Charlotte Corday, myrti Marat, einn af leiðtogum Jakobína, sem hafði blóð á höndum sínum eftir pólitískar hreinsanir á Gírondistum sem Corday studdi. Margar konur urðu byltingarsystur sem meðlimir klúbba og félaga og gerðu tilkall til að hljóta sess í því lýðræðisþjóðfélagi sem stjórnarbyltingin boðaði.

En varnarmúr karlveldisins gaf sig ekki, bæði stjórnarskráin frá 1791 og 1793 neituðu konum um pólitísk réttindi og lýðræðislegan þegnrétt, og viðhéldu þar með stöðu kvenna sem réttlausra þjóðfélagsþegna. Klúbbar og samtök byltingarkvenna, líka innan hreyfingar Jakobína, voru lýst ólögleg síðla árs 1793 og konum þannig úthýst af körlum í frönsku byltingunni. Jakobínar, sem fóru með blóðuga ógnarstjórnina frá og með sumrinu 1793, skipuðu konum stranglega að halda sig heima og sinna fjölskyldunni eins og þeim bæri að gera og láta karlmenn sjá um þjóðmálin og hið pólitíska svið.[13]

 

 

 

Tilvísanir og heimildir:

[1] Joan Wallach Scott, „French Feminists and the Rights of ‘Man’: Olympe de Gouges‘s Declarations“, History Workshop Journal bls. 1–21, sótt 22.1.2021 af https://homepage.univie.ac.at/fanny.mueller-uri/php/inequalities/wp-content/uploads/2013/10/Scott-Joan-Wallach-French-Feminists-and-the-Rights-of-Man-Olympe-de-Gougess-Declarations.pdf; Kristin Käuper, „Olympe de Gouges“, History of Women Philosophers and Scientists, sótt 16.2.2021 af https://historyofwomenphilosophers.org/project/directory-of-women-philosophers/de-gouges-olympe-17481793/; Isabelle Boisvert, „Olympe de Gouges, France (1748–1793)“, Éditions science et bien commun, sótt 27.2.2021 af https://scienceetbiencommun.pressbooks.pub/citoyennes/chapter/olympe-de-gouges-france-1748-1793/.

[2] Hannelore Schröder, „The declaration of human and civil rights for women (Paris, 1791) by Olympe de Gouges“, History of European Ideas, 11:1–6 (1989), bls. 263–271.

[3] Joan Wallach Scott, „French Feminists and the Rights of ‘Man’, bls. 2–7; Sjá einnig t.d.: Becoming visible. Women in European history, ritstj. Renate Bridenthal, Claudia Koontz, Susan Sturt, 2. útg. Boston: Houghton Mifflin, 1987.

[4] Sjá: Hannelore Schröder, „Absolutistisches Subjekt contra „subjektloses Subjekt“ oder Objekt: Pornographie – Schändung von Menschenrechten von Frauen“, 1789/1989 Die Revolution hat nicht stattgefunden. Dokumentation des V. Symposions der Internationalen Assoziation von Philosophinnen (1989), ritstj. Astrid Deuber-Mankowsky, Ulrike Ramming og E. Walesca Tielsch, bls. 156–171; Sami höf.: „The declaration of human and civil rights for women (Paris, 1791) by Olympe de Gouges“, bls. 263–271.

[5] Sjá t.d.: „The History of Feminism: Marie-Jean-Antoine-Nicolas de Caritat, Marquis de Condorcet“, Stanford Encyclopedia of Philosophy, 20.1.2016, sótt 10.2.2021 af https://plato.stanford.edu/entries/histfem-condorcet/.

[6] The declaration of the rights of women : the original manifesto for justice, equality, & freedom / Olympe de Gouges, London: ILEX, 2018, bls. 6–80, hér bls. 8.

[7] „Marie-Olympe de Gouges, The Rights of Woman (1791), The University of Oregon, bls. 1–5, hér bls. 1, sótt 5.2.2021 af https://pages.uoregon.edu/dluebke/301ModernEurope/GougesRightsofWomen.pdf.

[8] „The Rights of Women“, Olympe de Gouges: English translation of the French Texts (Clarissa Palmer), sótt 5.2.2021 af https://www.olympedegouges.eu/rights_of_women.php.

[9] Joan Wallach Scott, „French Feminists and the Rights of ‘Man’“, bls. 20.

[10] Til hliðsjónar við lauslega þýðingu á yfirlýsingunni hafði ég eftirfarandi heimildir: „Marie-Olympe de Gouges, The Rights of Woman (1791), The University of Oregon, sótt 5.2.2021 af https://pages.uoregon.edu/dluebke/301ModernEurope/GougesRightsofWomen.pdf; „The Rights of Women“, Olympe de Gouges: English translation of the French Texts (Clarissa Palmer); The declaration of the rights of women: the original manifesto for justice, equality, & freedom / Olympe de Gouges, London: ILEX, 2018, bls. 10–74.

[11] Joan Wallach Scott, „French Feminists and the Rights of ‘Man’“, bls. 15.

[12] „Last letter of Olympe de Gouges to her son“, (ritað af Olympe de Gouges, 2. nóv. 1793), Advances in the History of Rethoric: A Collection of Selected Papers Presented at ASHR in 1996 1:1 (1998), sótt 25.3.2021 af https://doi.org/10.1080/15362426.1996.10500507. Sjá enska þýðingu: „I die, my dear son, a victim of my idolatry for the fatherland and for the people. Its enemies under the specious mask of republicanism have led me remorselessly to the scaffold.“

[13] Joan Wallach Scott, „French Feminists and the Rights of ‘Man’“, bls. 2–3; Sjá einnig t.d.: Sara E. Melzer og Leslie W. Rabine, Rebel daughters: Women and the French Revolution, New York: Oxford University Press, 1992; Women in Revolutionary Paris. 17891795, ritstj. Darline Gay Levy, Harriet Bronson Applewhite og Mary Durham Johnson. Champaign, Illinois: University of Illinois Press, 1979; Camille Naish, Death comes to the maiden: Sex and Execution, 1431–1933, London: Routledge, 1991.