Á líðandi stund

Eftir Silju Aðalsteinsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2008

Einu sinni gerðist það í stuttri ferð til Þórshafnar í Færeyjum í sumar að hjartað missti úr slag. Það var þegar ég tók eftir eftirfarandi áletrun á litlum, liprum sendiferðabíl: “Ljóð-tøkni – ljóð og ljós til øll endamál.” Mér hitnaði af gleði við tilhugsunina um að ljóðtækni væri svo vinsæl atvinnugrein að hún þyrfti sérstaka sendibíla, en fljótlega áttaði ég mig á að hið færeyska ljóð væri í þessu tilviki íslenskt hljóð. Kveðskapur heitir þar “yrkingar” og skáldið “yrkjari”, það sé ég í glæsilegu bókmenntatímariti þeirra Vencil sem ég keypti mér í bókabúð auk þess sem skáldið og ritstjórinn Oddfríður Marni Rasmussen, gaf mér í nokkur tölublöð í nesti. Í Vencil eru ekki greinar eða ritdómar heldur eingöngu ljóð og smásögur, bæði frumsamið efni og þýtt. Í fyrsta hefti fyrsta árgangs (2006) birta þeir meira að segja þýðingu Gunnars Hoydal á ljóðabálkinum “Howl” eftir Allen Ginsberg. Á færeysku heitir hann “Ýl” en í íslenskri þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl sem væntanleg er um þetta leyti hjá Máli og menningu heitir hann “Ýlfur”.

Í Færeyjum sat ég fund í verðlaunanefnd vestnorrænu barnabókaverðlaunanna. Hinir erlendu nefndarmenn hrifust svo innilega af framlagi Íslands, skáldsögunni Draugaslóð eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, að hún sigraði samkeppnisbækurnar með öllum greiddum atkvæðum. Höfðu meðnefndarmenn mínir á orði að fágætt væri að svo vel væri unnið úr norrænum menningar- og sagnaarfi í sögu sem þó væri í hæsta máta nútímaleg. Það var ekki leiðinlegt að hlusta á falleg orð þessa vel lesna fólks um bókina.

Þórshöfn

Gamli bærinn í Þórshöfn i Færeyjum er ótrúlega heillandi.

Ég hafði ekki komið til Færeyja í tuttugu ár og fannst gaman að sjá hvað Þórshöfn hefur þróast vel. Litlu húsunum í gamla miðbænum er afar vel við haldið og allur bærinn tekur mið af þeim. Byggðin er samræmd, engin háhýsi, engir bólgnir bellir sem skaga upp og skemma heildarmyndina eins og hótelbyggingin sem nú eyðileggur Laugarneshverfið. Maður þarf ekki að taka fyrir augun þegar gengið er um Þórshöfn.

Aðalferð sumarsins var farin um Norðurland. Þó að það hafi verið vinsæll áfangastaður alla mína ævi – og raunar heimkynni framan af – tókst mér að komast á ýmsa staði sem aldrei höfðu verið heimsóttir fyrr. Gert var út frá Hrauni í Öxnadal, sem nú er orðið eins konar rithöfundahús á vegum Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal, og eðlilega var Jónas Hallgrímsson ofarlega í huga allan tímann. Ekki var þó klifinn hraundranginn, hann fær að vera rómantísk táknmynd áfram, en ein áhrifamesta dagsferðin var farin upp að Hraunsvatni á fjallinu fyrir ofan bæinn þar sem Hallgrímur Þorsteinsson faðir Jónasar drukknaði forðum. Vatnið var undurfagurt á þessum bjarta og kyrra degi, fellin í kring spegluðu sig í því svo ekki sáust skil fjalls og vatns, og þar sem áin rann úr vatninu æfðu ótal síli sig í að stökkva og notuðu eflaust um leið tækifærið til að fá sér flugu. Þarna hefur Jónas séð “sílalætin smá og tíð” sem hann talar um í Hulduljóðum og færir út á sjó.

Þótt Jónas sé ævinlega tengdur við Hraun var hann sem kunnugt er bara smábarn þegar foreldrar hans fluttust að Steinstöðum hinum megin við Öxnadalsána. Það var ákveðinn léttir að komast að því að þaðan blasir Hraundranginn líka við, og Böðvar Guðmundsson skáld og nýjasti ævisöguritari Jónasar benti á að líklegra væri að þaðan sæist ástarstjarnan skína yfir Hraundranga en frá Hrauni sjálfu.

Jónas var á níunda ári þegar faðir hans drukknaði. Hallgrímur stóð þá á fertugu, fjögurra barna faðir, og var að honum sár missir, ekki síst fyrir yngri soninn sem var eina systkinið sem sent var burt eftir föðurmissinn. Jónas fluttist að Hvassafelli í Eyjafirði til móðursystur sinnar sem þar bjó góðbúi á föðurleifð þeirra systra. Við mældum vegalengdina milli Hvassafells og Möðrufells þar sem Jónas var í námi hjá Jóni Jónssyni lærða um tíma, hún reyndist vera rúmir fjórir kílómetrar og við leyfðum okkur að vona að drengurinn hefði fengið að gista en ekki þurft að ganga fram og til baka á hverjum degi.

Til að fylgja Jónasi lengra áleiðis fórum við líka að Goðdölum í Skagafirði þangað sem hann fór nýfermdur til að nema hjá séra Einari Thorlacius, tengdasyni séra Jóns á Möðrufelli. Ekki þarf að fjölyrða um fegurðina á þeim slóðum sem hafði áreiðanlega sterk áhrif á Jónas ekki síður en fegurð Öxnadals og Eyjafjarðar.

Á Hrauni eru minningastofur um Jónas sem voru opnar almenningi í júlí. Þar er ævi hans rakin í máli og myndum. Sérstaka athygli vekja landshlutakort af Íslandi sem ferðir Jónasar eru teiknaðar inn á og hár kassi þar sem letrað er úrval af nýyrðum Jónasar í stafrófsröð. Maður verður satt að segja standandi hlessa á hvoru tveggja – hvað hann ferðaðist furðulega víða, gangandi og ríðandi, og hvað hann gerði okkur miklu auðveldara að tala um hvaðeina með því að skaffa munntöm orð um fyrirbæri eins og aðdráttarafl, hitabelti, ljósvaka, sjónarhorn, sólmyrkva og tunglmyrkva, sporbaug – og svo hversdagslegri orð eins og berjalaut og stuttbuxur!

Norðlensku söfnin verða stærri og glæsilegri með hverju árinu sem líður. Síldarminjasafnið á Siglufirði er heimsfrægt að verðleikum og alveg sérstaklega gaman að skoða endurgerðar vistarverur síldarstúlknanna í einu húsinu. Óvæntara var Þjóðlagasetur séra Bjarna Þorsteinssonar í Maðdömuhúsi. Þar má una sér lengi við að horfa og hlusta á vandaðar upptökur af þjóðlögum af ýmsu tagi. Flytjendur eru á öllum aldri, allt frá börnum upp í aldraða höfðingja, lærðir og leikir, og var erfiðast að fá sig til að hætta að hlusta á þennan dægilega söng því það er margra daga verk að heyra allt sem til er. Þarna getur maður heyrt leikið á gömlu íslensku hljóðfærin, hlýtt á fjölbreytt kvæðalög eða stemmur, numið tvísöng og horft á þjóðdansa. Allra skemmtilegast var að hlusta á “druslurnar”, skondna veraldlega texta sem sungnir voru undir sálmalögum, til að þjösnast ekki endalaust á hátíðlegum sálmakveðskap meðan verið var að æfa lögin.

Gamli bærinn í Laufási í Eyjafirði er vel skipulagður sem safn og gaman að ganga um hann og ímynda sér hvernig lífi fólkið lifði þar. En leitt var að sjá málvillur og prentvillur í stuttum texta sem allir gestir fá í hendur á staðnum. Samgönguminjasafnið á Ystafelli í Þingeyjarsveit er furðulega skemmtilegt. Ekki er aðeins gaman að skoða ótrúlega stóran bílaflotann sem vel er komið fyrir í stórum sölum heldur er ekki síður skemmtilegt að lesa textana um einstaka bíla, sögu þeirra og allra handa fróðleiksmola. Í Laxdalshúsi á Akureyri var uppi sýning um Leikfélag Akureyrar, einfaldar skrár yfir sýningar frá ári til árs og myndir úr sumum þeirra. Sú sýning hefði mátt vera mun viðameiri mín vegna. Í innra herbergi voru svo til sýnis fjarskalega margbreytilegir og skemmtilegir fuglar sem burðarstoð LA síðustu áratugi, Þráinn Karlsson leikari, hefur skapað.

Mestur fengur fannst mér persónulega að Safnasafninu á Svalbarðsströnd sem ég hafði ekki skoðað áður. Stækkunin á því með heilu gömlu húsi og nýrri tengibyggingu milli gömlu húsanna tveggja hefur tekist ákaflega vel og safnið er ekki einungis fróðlegt og upplýsandi um alþýðulist heldur er blandað smekklega saman við hana verkum samtímalistamanna. Til dæmis var í sumar frábær sýning Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, “Réttardagur”, þar sem maður sá yfir fjárhóp og smalamenn í raunstærð úr klassískum efniviði Aðalheiðar, spýtukubbum. Líka voru til sýnis skemmtileg verk Gjörningaklúbbsins og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur. Níels Hafstein safnstjóri heillaði okkur gersamlega með ótal sniðugum leikföngum sem safnið á og byggjast mörg á sjónhverfingum og brellum. En ekki síst vakti undrun og aðdáun hvað Safnasafnið er fádæma fallegt sjálft, bjart, stílhreint, skreytt fáránlega vel vöxnum blómjurtum.

Norðlenska náttúran er svo stærsta safnið. Makalaust var að ferðast um í þessu einstaka blíðviðri sem hefur glatt landann og gesti hans í sumar. Meðal þess sem kannað var í fyrsta sinn var skógurinn í Leyningshólum í Eyjafirði, óvænt náttúruperla, Hvalsvatnsfjörður þaðan sem gengið var yfir í Þorgeirsfjörð – engu er logið á Fjörður –, Fonturinn á Langanesi þaðan sem mátti sjá Austfirðina raða sér niður eftir eins og langt og augað eygði, og afdalir Skagafjarðar allt að kirkjunni í Ábæ. Auk þess skruppum við út í Grímsey til að rifja upp dýrmætar minningar frá sumrinu 2006. Hún sveik ekki heldur nú.

Sumarbækur

Tímaritinu bárust nokkrar sumarbækur sem ástæða er til að segja frá. Sú sem langmesta gleði vakti áfram og áfram var Eg skal kveða um eina þig alla mína daga, safn ástarljóða Páls Ólafssonar sem Salka gaf út en Þórarinn Hjartarson ritstýrði. Þessi bók er gersemi og gott til þess að vita að samkvæmt frétt í Morgunblaðinu (1. júlí sl.) rauk hún út. Þórarinn var búinn að undirbúa verkið lengi, meðal annars gaf hann út vinsælan disk ásamt Ragnheiði Ólafsdóttur árið 2001, Söng riddarans, þar sem þau syngja kvæði Páls, einkum ástarkvæði. Í bókinni eru tæplega hundrað kvæði birt í fyrsta sinn og er þar margur gimsteinninn, meðal annars þessi (bls. 131):

Sárkalda, þögula, svartklædda nótt
nú sit ég á skautinu þínu.
Þú glepur mig ekki en flytur mig fljótt
í faðminn á barninu mínu.

Nú flýg ég, mín unnusta’, í faðminn á þér,
af fögnuði hjarta mitt grætur.
Angandi réttir þú armana’ að mér
og opnar þinn blómknapp um nætur.

Sem kunnugt er orti Páll öll þessi ljóð, alls hátt á sjötta hundrað kvæði, til einnar og sömu konunnar, Ragnhildar Björnsdóttur. Hún var sextán árum yngri en hann (enda kallar hann hana iðulega “barnið sitt”) og ástir þeirra voru í meinum meðan hann var kvæntur fyrri konu sinni, Þórunni Pálsdóttur, sem var sextán árum eldri en hann. Þórarinn freistar þess að raða ljóðunum eftir aldri og gerir góða grein fyrir ævi Páls og ástum í inngangsköflum bókarhlutanna. Oft veita kvæðin furðulega næma – jafnvel nærgöngula innsýn í sálarlíf skálds og manns. Víst er að þessi bók verður við rúmstokkinn lengi enn.

Mikill fengur er líka að heildarsafni ljóða Sjóns, Ljóðasafn 1978-2008 (Bjartur), þar sem prentaðar eru ellefu ljóðabækur skáldsins sem margar hafa verið ófáanlegar um langt skeið. Guðni Elísson skrifar eftirmála. Þessa bók ættu öll ungmenni að eignast.

Þrjár aðrar ljóðabækur bárust. Ingunn Snædal, sem verðskuldaða athygli vakti í hittifyrra fyrir verðlaunabókina Guðlausa menn, sendi frá sér Í fjarveru trjáa – vegaljóð (Bjartur), bráðskemmtilega hringferð um Ísland í ljóðformi. Meðal staða sem fá ljóð um sig er “Höfn í Hornafirði”:

heyrði í strætó að
þrír unglingar töluðu saman um sumarvinnu
drengirnir höfðu verið í bænum
mest lítið að gera eftir að unglingavinnu lauk
stúlkan í sjoppu úti á landi
æ þarna rétt hjá Horni í Hafnarfirði
þeir kinkuðu báðir kolli
höfðu oft komið þar

Gísli Þór Ólafsson sendi frá sér Ég bið að heilsa þér (Lafleur), opinská hversdagsljóð um erfið skilyrði ástarinnar á tímum sms og msn. Ófeigur Sigurðsson yrkist á við Sigfús Daðason í Provence í endursýningu (Apaflasa); raunar gengur Steinn Steinarr líka ljósum logum um ljóðin. Bókin er heimatilbúin, vélrituð á erlenda ritvél sem ekki kann íslenska stafi, ljósrituð og heft. Hún verður rosalega dýrmæt ef Ófeigur verður heimsfrægur.

Sveinn Snorri Sveinsson og Jean Antoine Posocco gáfu í sumar út myndasöguna Skuggi Rökkva (Froskur útgáfa) um ógæfusaman útigangsmann sem breytist í ofurhetju. Bókin er litprentuð og forvitnileg fyrir áhugamenn um myndasögur.

Af þýddum bókum þarf fyrst að nefna endurútgáfu á sígildri skáldsögu Johns Steinbeck, Mýs og menn, í rómaðri þýðingu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar (Veröld). Einar Kárason skrifar inngang. Meðal nýrra bóka má nefna Laxveiðar í Jemen, fyrstu skáldsögu Pauls Torday sem Sölvi Björn Sigurðsson þýddi (MM). Þetta er sérkennileg saga um vellauðugan fursta frá Jemen sem fær á heilann að laxveiðar geri menn betri. En er hægt að flytja lax út í eyðimörkina og skapa honum lífvænlegt umhverfi þar? Sagan er sögð frá ýmsum skemmtilega ólíkum hliðum og vekur bæði gleði og sorg.

Nýjasta neonbókin, Í þokunni eftir Philippe Claudel sem Guðrún Vilmundardóttir þýðir (Bjartur), gerist á tímum heimsstyrjaldarinnar fyrri í litlu þorpi skammt frá frönsku víglínunni. Í sögumiðju er morð á tíu ára gamalli telpu og öll er sagan merkt dauðanum. Það er eins og tortíming alls sem er fagurt og saklaust verði allsráðandi í nágrenni viðurstyggðar stríðsins. Þá er ekki heldur elskulegt andrúmsloft í nýjustu skáldsögu Lizu Marklund, Lífstíð, sem Anna R. Ingólfsdóttir þýddi (Uppheimar). Sú næsta á undan endaði á að sprengju var kastað á hús söguhetjunnar, Anniku Bengtzon, og nú er hún grunuð um að hafa sjálf kveikt í því. Aðalmál sögunnar fjallar þó ekki um það heldur morð á þekktum og vinsælum lögreglumanni sem kona hans er sökuð um. Þetta er spennandi femíkrimmi eins og aðdáendur Lizu vilja hafa þá.

Talandi um kvennakrimma þá hefur danski fræðimaðurinn Frank Egholm Andersen skrifað verulega fróðlega og skemmtilega bók um þá bókmenntategund, Den nordiske femikrimi (Bogforlaget Her&Nu, 2008). Þar fjallar hann um einar þrjátíu norrænar skáldkonur sem hafa skrifað glæpasögur í þessum anda á undanförnum árum og nefnir auk þeirra nokkrar enskar og amerískar konur og fáeina karla. Ekki er neinn Íslendingur meðal höfundanna sem hann tekur fyrir, en Yrsa Sigurðardóttir er á skrá í bókarauka. Hún verður vonandi með næst.

Loks gaf Hið íslenska bókmenntafélag í sumar út stóra bók um endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu, Uppbrot hugmyndakerfis. Valur Ingimundarson sagnfræðiprófessor ritstýrir og skrifar inngang en meðal höfunda eru félagsfræðingar, stjórnmálafræðingar, lögfræðingar, hagfræðingar og mannfræðingar. Margt hefur breyst í alþjóðasamskiptum það sem af er þessari öld og staða Íslands ekki minnst, einkum eftir skyndilegt brotthvarf bandarísks herliðs af landinu. Þetta greinasafn hjálpar lesendum að átta sig á þróuninni.

Lítið var um bókmenntaverðlaun í sumar, þó var haldin ein samkeppni sem vakti nokkra athygli. Bjartsýnn og dugmikill fanga- og bókavörður á Litla-Hrauni efndi til ljóðasamkeppninnar Steinn í steininum meðal fanga – til að minnast aldarafmælis Steins Steinars – og fékk þrjá kunna rithöfunda, einn bókmenntafræðing og einn fangavörð til að meta afraksturinn. Hann varð alveg ásættanlegur: 25 ljóð bárust eftir sjö fanga og voru veitt þrenn verðlaun. Fyrstu verðlaun, Ljóðasafn Steins Steinars, hlaut ungur maður, Ásgeir Hrafn Ólafsson, fyrir ljóðið “Ástand”, opinskáa tjáningu á sorg og iðrun og óljósri von um betri framtíð.

Menningarvetur framundan

Þegar þetta er skrifað eru menningarstofnanir landsins óðum að kynna vetrardagskrá sína og ber ekki á kreppusvip nokkurs staðar. Þjóðleikhúsið byrjar leikárið með tveimur klassískum verkum, öðru íslensku og hinu bresku, og splunkunýju leikriti eftir Sigurð Pálsson, Utan gátta sem verður sýnt í Kassanum. Þar leika Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Kristbjörg Kjeld ólíkindatólin Villu og Millu undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Á Stóra sviðinu verður Hart í bak eftir Jökul Jakobsson frumsýnt í október undir stjórn Þórhalls Sigurðssonar. Þetta er eitt vinsælasta íslenska leikritið frá upphafi, sló eftirminnilega í gegn árið 1962 í Iðnó. Sýningin minnir á að í haust eru 75 ár síðan Jökull fæddist. Með hlutverk skipstjórans sem sigldi óskafleyi íslensku þjóðarinnar í strand fer Gunnar Eyjólfsson og spákonuna Áróru leikur Elva Ósk Ólafsdóttir.

Á Smíðaverkstæðinu er hópur ungra leikara að rannsaka Macbeth Shakespeares undir stjórn Stefáns Halls Stefánssonar og Vignis Rafns Valþórssonar. Afraksturinn verður sýndur í haust og er tilhlökkunarefni að fá að fylgjast með tilrauninni. Þrettándakvöld sama höfundar verður líka sýnt í vetur með þátttöku útskriftarnema úr leiklistardeild LHÍ undir leikstjórn Rafaels Bianciotto sem stýrði þeirri dýrlegu sýningu Dauðasyndunum í Borgarleikhúsinu í vor sem leið.

Jólasýning Þjóðleikhússins er hvorki meira né minna en leikgerð á þeirri makalausu skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin. Hilmar Jónsson semur leikgerð og leikstýrir. Brynhildur Guðjónsdóttir, handhafi Grímunnar 2008 sem leikari og leikskáld, ferðast um hugarheim mexíkósku listakonunnar Fridu Khalo í eigin verki, Frida… viva la vida. Atli Rafn Sigurðarson leikstýrir henni eins og í Brák.

Ný erlend verk eru Heiður (Honour) eftir ástralska leikskáldið Joönnu Murray-Smith, ansi lúnkið verk um hjón sem verða fyrir því eftir þrjátíu góð ár að ung kona kemst upp á milli þeirra. Með hlutverk hjónanna fara Arnar Jónsson og Anna Kristín Arngrímsdóttir en Bjarni Haukur Þórsson leikstýrir. Sædýrasafnið eftir frönsku skáldkonuna Marie Darrieussecq verður fyrst sýnt í Kassanum en síðan í ríkisleikhúsinu í Orléans í Frakklandi. Arthur Nauzyciel stýrir og í hlutverkum verða meðal annarra Margrét Vilhjálmsdóttir og Elva Ósk Ólafsdóttir.

Nýjar barnasýningar eru Klókur ertu, Einar Áskell eftir Bernd Ogrodnik sem Kristján Ingimarsson stýrir, Kardemommubærinn í fjörugri uppfærslu Selmu Björnsdóttur og spunaverkið Ökkubukka í umsjón Ásdísar Þórhallsdóttur.

Hátíðardagskrá verður haldin á Stóra sviðinu í haust í tilefni af sjötugsafmæli Atla Heimis Sveinssonar þar sem sérstök áhersla verður lögð á leikhústónlist hans. Umsjón með dagskránni hefur Edda Heiðrún Bachman.

Í Borgarleikhúsinu er hafið fyrsta leikár nýs leikhússtjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Á Stóra sviði verður nýr söngleikur Ólafs Hauks Símonarsonar, Fólkið í blokkinni, undir stjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur; tónlistarstjóri er Jón Ólafsson. Annar slíkur er hinn margsungni Söngvaseiður sem verður sýndur næsta vor, honum stýrir Þórhallur Sigurðsson. Sígilt leikrit Dürrenmatts, Milljarðamærin snýr aftur er jólaleikrit hússins undir stjórn Kjartans Ragnarssonar og er tilhlökkunarefni að fá að sjá Sigrúnu Eddu Björnsdóttur í bitastæðu aðalhlutverkinu.

Fyrsta verkefnið á Nýja sviði er Fýsn, nýtt íslenskt sakamálaverk eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachman, Marta Nordal stýrir því. Þórdís Elva hefur vakið athygli síðustu ár fyrir átakamikil verk og Fýsn vann leikritasamkeppni LR í fyrra. Næst er Vestrið eina eftir Martin McDonagh undir stjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Leikritið er úr þríleiknum um Línakursfólkið, hin eru Halti Billi og hin ógleymanlega Fegurðardrottning frá Línakri. Kristín Eysteinsdóttir stýrir Rústað (Blasted) eftir Söru Kane eftir jól. Það er í fyrsta sinn sem brautryðjendaverk hennar er sýnt á íslensku sviði og á eftir verða öll verk hennar flutt í sviðsettum leiklestrum í húsinu. Það er athyglisvert framtak sem vonandi nær athygli. Útlendingar er nýtt verk sem tekur á brýnu máli á Íslandi núna. Höfundar og flytjendur eru Jón Páll Eyjólfsson, Jón Atli Jónasson og Hallur Ingólfsson.

Á Litla sviðinu verða þrír einleikir eftir áramótin sem allir fjalla um sígild efni, lífið, dauðann og sannleikann. Fyrst í röðinni er Ég heiti Rachel Corrie þar sem Þóra Karítas Árnadóttir segir sögu hugsjónakonunnar sem lést í Palestínu. Valdís Arnardóttir stýrir. Sannleikurinn í sex til sjö þáttum er nýtt verk sem Pétur Jóhann Sigfússon semur í samstarfi við Sigurjón Kjartansson og flytur undir stjórn Stefáns Jónssonar. Óskar og bleikklædda konan er undurfallegt verk eftir Eric-Emmanuel Schmitt sem Margrét Helga Jóhannsdóttir flytur undir stjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Skáldsagan kom út hjá Bjarti fyrir fáeinum árum í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur.

Hjá Leikfélagi Akureyrar hefur María Sigurðardóttir tekið við stjórninni og verður með fjöruga dagskrá í vetur. Fló á skinni sem gekk þar við brjálaðar vinsældir í vor flytur sig suður í Borgarleikhús en upp á svið í Samkomuhúsinu fara Óvitar Guðrúnar Helgadóttur aftur. Fyrsta frumsýningin er á því ódauðlega verki Músagildrunni eftir Agöthu Christie í leikgerð Gísla Rúnars Jónssonar, Þór Tulinius stýrir. Íslenska verkið á efnisskránni er Falið fylgi eftir Bjarna Jónsson sem Jón Gunnar Þórðarson leikstýrir. Loks verður uppistandsverkið Fúlar á móti sýnt í vor með þeim ágætu leikkonum Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, Eddu Björgvinsdóttur og Helgu Brögu Jónsdóttur. Leikhússtjórinn stýrir þeim sjálf.

Einþáttungsóperurnar Cavalleria Rusticana og Pagliacci verða sýndar í fyrsta skipti saman í Íslensku óperunni í haust, en löng hefð er fyrir því að sýna þær saman. Sveinn Einarsson stýrir nokkrum af fremstu söngvurum þjóðarinnar, þar á meðal Kristjáni Jóhannssyni tenórsöngvara sem syngur í fyrsta sinn í Íslensku óperunni. Hljómsveitarstjóri er Kurt Kopecky.

Aðdáendur leikkonunnar Ilmar Kristjánsdóttur þurfa að fara í Óperuna til að sjá hana á sviði í haust. Hún leikur aðalhlutverkið í JANIS 27, leikriti með söngvum um ævi Janis Joplin eftir Ólaf Hauk Símonarson sem Sigurður Sigurjónsson stýrir. Tónlistarstjóri er Jón Ólafsson og frumsýningin verður 3. október.

Dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands á komandi vetri er spennandi að venju. Meðal einleikara í haust má nefna fiðluleikarann snjalla Ara Þór Vilhjálmsson sem leikur verk eftir Hafliða Hallgrímsson 27. sept. Sigrún Eðvaldsdóttir er ekki síður snjall fiðluleikari, hún leikur einleik á fyrstu Síbelíusartónleikum hljómsveitarinnar af þrennum 16. okt. undir stjórn Petri Sakari. Í byrjun næsta árs verða að venju fernir Vínartónleikar og verður einsöngvari að þessu sinni Dísella Lárusdóttir. Ekki óvitlaust að panta miða strax.

Tónleikar SÍ á Myrkum músíkdögum verða 12. febrúar. Þá verða leikin verk eftir Daníel Bjarnason, Hauk Tómasson, Jón Ásgeirsson og Þorkel Sigurbjörnsson og einleikarar verða engir aðrir en Einar Jóhannesson og Víkingur Heiðar Ólafsson. Maður sleikir út um. Á tónleikum á Listahátíð (29.5.) verður flutt Sinfónía nr. 7 eftir Dímítrí Sjovstakovtsj og Píanókonsert í c-moll, k-49 eftir Mozart, einleikari er Viktoria Postnikova en stjórnandi Gennadí Rosdestvenskíj.

Sinfónían gerir óvenjumikið fyrir börn í vetur. 21. mars verða bæði Pétur og úlfurinn eftir Prókofíev og Stúlkan í turninum eftir Tryggva M. Baldvinsson á dagskrá, og 18. apríl verður Þyrnirós Tsjajkovskíjs flutt af hljómsveitinni og nemendum úr Listdansskóla Íslands. Einnig er ástæða til að minna á mánaðarlega tónleika í Þjóðmenningarhúsinu, Kristalinn, þar sem margvíslega samsettir hópar hljóðfæraleikara úr hljómsveitinni leika fjölbreytta efnisskrá. Þessir tónleikar eru jafnan undir lok mánaðar og verða hinir fyrstu 27. september undir fyrirsögninni “Bandarískt brass”.

Þetta verður góður menningarvetur.