Viðtal Silju Aðalsteinsdóttur við Sigurð Pálsson

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2006

Sigurður PálssonSigurður Pálsson er einn þekktasti og afkastamesti starfandi rithöfundur á landinu. Hann var hluti af hinni öflugu ljóðbylgju á miðjum áttunda áratug síðustu aldar og vinnur nú að þrettándu ljóðabók sinni sem væntanleg er í haust. Auk þess hefur hann sent frá sér þrjár skáldsögur, þýtt ein tuttugu verk af ýmsum toga og samið allmörg leikrit, nú síðast hið geysivinsæla verk um franska söngfuglinn Edith Piaf sem sýnt var tæplega hundrað sinnum fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu frá vori 2004 og fram undir jól 2005.

Eins og fram kom á fjörugu og fróðlegu Ritþingi um Sigurð í Gerðubergi vorið 2001 var æska hans um margt óvenjuleg, næstum eins og hann væri kynslóð eða tveimur eldri en hann er. Faðir hans, Páll Þorleifsson, var prófastur á Skinnastað í Axarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu þegar Sigurður fæddist, 30. júlí 1948, og þar ólst hann upp, yngstur fimm systkina. Það var barnaskóli í sveitinni en Sigurður lærði aðallega heima í foreldrahúsum allt fram að landsprófsvetri sínum. Þá fór hann til Reykjavíkur og byrjaði loks í skipulögðu skólanámi, fjórtán ára. Nestið að heiman entist honum svo vel að hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík tæpra nítján vetra, ári á undan sínum jafnöldrum. Eftir stúdentspróf fór hann til framhaldsnáms í Frakklandi, fyrst í Toulouse í nokkra mánuði og síðan í París, eins og skýrt má sjá í ljóðum hans, leikritum og sögum.

Sigurður vakti snemma athygli skólafélaga sinna fyrir skáldskap, og við byrjum spjallið þar.

Ekki ég en samt frá mér komið

Hvenær vissirðu að þú værir skáld og hvernig tókstu þeirri uppgötvun?
„Að ég væri ljóðskáld kom yfir mig algerlega mér að óvörum þegar ég var í þriðja bekk í menntaskóla,“ segir Sigurður. „Ég var ári á undan í skóla þannig að ég var fimmtán ára þegar þetta gerðist. Og ástæðan var bara sú hvað mér leiddist bókfærsla. Ég veit ekki hvort það var kennarinn sem átti sökina, því bókfærsla á örugglega sínar góðu hliðar, en ég byrjaði að fikta – út af leiðindum – og úr varð texti sem kom sjálfum mér á óvart. Þarna á blaðið var komið eitthvað sem var fyrir utan sjálfan mig. Ég hafði búið til einhvers konar spegil – spegill er samt ekki góð líking, ég er orðinn þreyttur á þessu speglatali, að listin eigi að endurspegla veruleikann. Majakovskij sagði að listin ætti ekki að vera spegill heldur hamar til að móta nýjan veruleika. Það er betra. Svo man ég eftir annarri tilvitnun í Kafka sem sagði að bók eigi að vera ísöxi til þess að brjóta hið frosna haf innra með okkur. Það er líka ansi gott.“

Manstu þetta fyrsta ljóð – eða um hvað það var?

„Nei. Það byrjaði hvergi og endaði hvergi, en ég sá strax einhverjar línur í þessum texta sem vöktu áhuga minn. Þetta var ekki ég en samt frá mér komið. Ég vissi ekki þarna strax að þetta lægi fyrir mér, það gerðist ekki fyrr en í fjórða bekk, þá fannst mér ég taka stórstígum framförum, man ég var. Á þessum tíma las ég allt sem ég komst yfir, aðallega ljóð. Ég er náttúrlega gamall skrásetjari og í dagbókarfærslum frá þessum tíma má lesa nákvæmar skrár yfir allar bækur sem ég las og þær sem mig vantaði.“

Hvað kveikti mest í þér þá?
„Sá sem allir lásu og ég var mjög hrifinn af var Steinn Steinarr. Hann virðist hafa alveg sérkennilegt aðdráttarafl fyrir fólk á aldrinum fjórtán ára til tvítugs. Auga eilífðarinnar og allt það. Konkret og abstrakt saman í þversagnarkenndri tvíböku, auga og eilífð, hlutlægt og huglægt. Ég gekk í gegnum þetta auga eilífðarinnar-tímabil í fjórða bekk; þá fór það allt í einu í taugarnar á mér enda þótt ég væri áfram mjög hrifinn af Steini. Til dæmis finnst mér kafli númer tvö í Tímanum og vatninu („Sólin/sólin var hjá mér“) eitt af tíu bestu ljóðum á íslensku á öldinni.

En ég lærði það að minnsta kosti af Steini að forðast að líkja eftir þeim sem maður er mjög hrifinn af, ljóðagerð er ekki karaókí. Ef þú lítur til dæmis á „Ævisögu“, fyrsta ljóðið sem ég birti opinberlega, þá vottar þar hvergi fyrir Steini. Nú þess utan las ég mikið Hannes Pétursson, Þorstein frá Hamri, Sigfús Daðason, Thor Vilhjálmsson, Ara Jósepsson, Dag Sigurðarson, Matthías Johannessen, Snorra Hjartarson, Einar Braga, Ástu Sigurðardóttur, Jón Óskar, Stefán Hörð, Hannes Sigfússon, Vilborgu Dagbjartsdóttur, Nínu Björk, alla þessa höfunda og marga fleiri las maður í tætlur. Síðan kom Tómas Jónsson metsölubók eins og elding af himnum, þá var ég í sjötta bekk, það var hugljómun.

Síst af öllu má gleyma þeim erlendu skáldum sem ég var að uppgötva á þessum tíma, suma í splunkunýjum þýðingum. Majakovskí í þýðingu Geirs Kristjánssonar, Rimbaud, Baudelaire, Lautréamont, Apollinaire og fleiri Fransmenn í þýðingu Jóns Óskars, þýðingar í Birtingi, aðallega eftir Thor, ýmsar þýðingar Jóhanns Hjálmarssonar o.s.frv. Þetta voru ekki svo litlar gjafir, allt kom þetta út á örfáum árum þarna á þessum yndislega sjöunda áratug. Svo var Dylan kominn með sinn nýja tón í ljóðlistina, Bítlarnir og Rolling Stones, hvað viltu hafa það betra þegar þú ert sextán, sautján, átján ára?

Svo gat maður lesið dönsku betur og betur með hverjum deginum, (Ny dansk lyrik, yndisleg bók, yndislegt ljóðmál danska!), ensku (Ítalann Quasimodo og Rússann Evtúsjenkó o.fl. las ég á ensku) og jafnvel þýsku, ég gat lesið Rilke í sjötta bekk mér til gagns.

Eitt enn finnst mér nauðsynlegt að minnast á. Í náminu var mikill málfræðilærdómur; íslensk málfræði, latnesk, þýsk, dönsk, frönsk… Það var bara ansi góður skóli í skriftum. Ekki síður sú staðreynd að þá var mikið lagt upp úr því að þýða almennilega, ekki bara bókstafsþýðing, heldur alvöruþýðing. Og hvað hefur það í för með sér? Einfaldlega, að öll tungumál voru þar með lærdómur í íslensku. Það er frábært. En kennsla í sambandi við ljóð var ekki uppörvandi, ég held reyndar að henni hafi jafnvel farið aftur ef eitthvað er; nú er í gangi eitthvað skelfilegt stagl í sambandi við myndhverfingar og alls konar tækniheiti, ég sé ekki betur en það sé á köflum á leiðinni út í einhverja dellu.

Svo hafði stærðfræðin mikil áhrif á mig í menntó, ég var í fyrsta árgangi sem lærði nýju stærðfræðina svonefndu, naut leiðsagnar afburðakennarans Björns Bjarnasonar, síðar rektors MT. Ég hef varla fengið betri skólun í skáldskap en þá stærðfræðitíma. Samt skipti ég um deild út af ýmsu sem ég þoldi ekki, aðallega efnafræðinni, og er stúdent úr máladeild, þurfti að vinna upp djöfuldóm af latínu á stuttum tíma, það var dýrðlegt.

Af eldri skáldum íslenskum hreifst ég af sumum, öðrum ekki. Náði til dæmis aldrei sambandi við Davíð Stefánsson, hann sagði mér aldrei neitt, gagnstætt Tómasi Guðmundssyni sem var afar mikilvægur. Hins vegar hafði ég alltaf skringilega gaman af hinu furðulega skáldi Grími Thomsen, hann talaði einkennilega til mín og mér hefur alltaf verið hlýtt til hans. Svo var það Jóhann Jónsson, hann orti besta ljóð tuttugustu aldar á íslensku og dó svo óralangt um aldur fram. Ég er vitanlega að tala um Söknuð.

Ég var líka alltaf glaður og endurnærður af að lesa Einar Benediktsson, en sá besti var Jónas Hallgrímsson, í mínum huga var það aldrei spurning. Í uppreisnarmonti unglingsáranna var í tísku hjá einhverjum af félögum mínum að líta niður á Jónas, það særði mig alltaf en ég sagði ekkert. Það er eðlilegt á þessum aldri að vera í uppreisn gegn því sem er viðurkennt; verst er þegar það eldist ekki af fólki. Uppreisnarmaður sem breytist ekki – af því allt breytist og allt á að breytast – hann er svolítið skrýtinn. Uppreisn er alltaf ný. Það verður til dæmis að gera uppreisn gegn staðnaðri uppreisn. Svo getur hún líka orðið háskaleg þegar hún skyggir á verk uppreisnarmannsins, eins og mér finnst hafa gerst með Dag. Núna lesa alltof fáir ljóðin hans heldur fara menn undir eins að segja sögur af honum! Sama er með Jökul Jakobsson, menn segja sögur af honum í stað þess að lesa hann og leika hann, og að breyttu breytanda á þetta líka að sumu leyti við um Thor Vilhjálmsson. Menn hafa tilhneigingu til að horfa bara á persónuna og vitanlega er það eðlilegt að því leyti að hann er einstaklega athyglisverður, magnaður og skemmtilegur persónuleiki, en menn mega ekki sleppa því að lesa verkin. Þau eiga eftir að lifa lengur en flest sem skrifað var á öldinni, ég er sannfærður um það.

Mér finnst mótun og þróunarferli alltaf forvitnilegt, hvernig einhver er á leiðinni að verða eitthvað sem hann er ekki ennþá orðinn (sbr. hvernig Edith Gassion varð að Edith Piaf) – semsagt hvernig einhver unglingur sem var ekki ennþá orðinn Sigurður Pálsson var á leiðinni að verða nákvæmlega þessi ákveðni SP…“

Tilraun til greinargerðar fyrir hugljómuðum augnablikum

„Í raun er þess konar ferli sem ég er að tala um nær því að vera sköpunarsaga heldur en þroskasaga, sem er svona meira þróun á einhverju sem er þegar til. Auðvitað er enginn skýr skilsmunur á þessu.“ Eftir stutta umhugsun heldur hann áfram: „Ég hef margoft talað um áhrif sem ég hef orðið fyrir frá myndlist og tónlist, sem eru ekki síðri en af bókmenntum. Frá þessum árum er mjög eftirminnilegt þegar ég sat yfir sýningu á málverkum Snorra Arinbjarnar í kjallara nýs kennsluhúss MR sem var kallað Casa Nova. Var oft einn þarna tímunum saman og tók fyrir verk eftir verk, settist fyrir framan málverkið og starði á það. Einbeitti mér að þeim, rann algjörlega saman við þau, skynjaði liti, línur, byggingu og loks eitthvert heildarafl. Ákaflega sterk upplifun og einstök tilfinning. Uppgötvaði fyrirbærið kúbisma á svipaðan hátt nema í gegnum bækur og miklu fremur vitrænt en tilfinningalega enda er kúbisminn fremur vitræn myndlist. Í framhaldinu kom Picasso og síðan súrrealistarnir Magritte og Dalí að ógleymdum Van Gogh og breiðfylkingu impressjónistanna.

Á Mokka fékk ég á tímabili endalausa fyrirlestra hjá Þórði Ben Sveinssyni SÚM-manni sem var svo einstaklega gjafmildur á allt sem hann vissi og hafði stúderað. Hann var afar vel að sér í flúxus-hreyfingunni og sýndi mér alls konar bækur. Hér á litlu kaffihúsi í þessari skrýtnu borg utan og ofan við heiminn fékk ég þessar fínu upplýsingar um þetta algjöra últra avant-garde sem flúxus var. Þá var ég sautján ára. Það er ekki sjáanlegt í mörgum ljóðum mínum frá þessum tíma að ég viti allt um flúxus, samt er það þarna undir niðri og gægist víða fram í Ljóð vega salti.

Það er í mér einhver blanda tveggja mjög ólíkra póla. Ofsi og rósemd. Ég var lengi að láta þessi tvö öfl vinna saman. Það er afar ríkt í mér að ganga skref fyrir skref en jafnframt er einhver ofsafenginn, allt af því fanatískur uppreisnarandi, sem ég hef alltaf fundið fyrir. Ofsafengnar, hraðskreiðar hugmyndir, eldingar og svo hins vegar jörðin sem maður reynir að sá í og uppskera, slá og raka og taka upp jarðeplin og allt hitt og maður vaknar bara á hverjum morgni, gáir til veðurs og heldur áfram eins og bóndi eða kannski vonandi gentleman farmer, er það ekki betra?

Lítum aðeins á lítið ljóð, „Fiðla og skógur“, það er ort á menntaskólaárunum, á sinfóníutónleikum í snöggu ljóðkasti, allt að því ljóðrænu flogakasti. Ég laumaðist til að skrifa það í vasabók í sæti mínu og birti það nánast alveg óbreytt. Tónlistin sem hljómsveitin spilaði var eftir Brahms. Þarna er einhver samsláttur, náttúrubarn úr Skinnastaðarskógi er komið á sinfóníutónleika. Ég man enn djúpan fögnuðinn á tónleikunum og líka hvað mér fannst þetta ljóð vera fátæklegt í samanburði – ekki í samanburði við Brahms, ég var ekki í samkeppni við hann; nei, í samanburði við fögnuðinn sem ég fann fyrir innra með mér.

Þarna er held ég kominn mikilvægur þáttur í skýringunni á því af hverju ég hef alltaf haldið áfram að yrkja; það er einfaldlega vegna þess að í raun finnst mér ég aldrei hafa náð að koma til skila einhverri upphafstilfinningu sem liggur til grundvallar hverju einasta verki sem ég hef skrifað. Tilfinningin, fögnuðurinn, oftlega að viðbættum einhverjum vitrænum skilningi; þetta allt hefur alltaf verið sterkara en greinargerðin, þ.e. verkið sjálft. Þetta er á vissan hátt frústrerandi en á sama tíma er ég sáttur við tilraunirnar. Ef einhverjir halda þetta sjálfsánægju þá er það ansi mikill misskilningur. Ég er bara sáttur við tilraunirnar vegna þess að ég reyndi að gera mitt besta, öllu heldur ég reyndi að fara fram úr sjálfum mér og svo sérstaklega vegna hins að það má alltaf halda áfram. Þetta hefur þróast þannig að ég hef neyðst til þess að halda áfram einmitt vegna þess að ég var ekki alveg sáttur síðast og svo koma sífellt ný augnablik djúprar reynslu sem þarf að gera grein fyrir. Öll mín ljóðlist er tilraun til greinargerðar fyrir hugljómuðum augnablikum.“

Upptendruð sturlun

„Það var mikill lærdómur og þroski fólginn í því að vera í þessu ótrúlega kraftmikla félagslífi í MR í þá daga,“ heldur Sigurður áfram. „Kvikmyndaklúbburinn, Listafélagið með málverkasýningar, tónleika, leiklestra, bókmenntakynningar, Herranótt, útgáfa Menntaskólaljóða þar sem við fengum HKL til að skrifa formála, Hannes P. og Tómas eftirmála, ekkert minna! Hvílík upptendruð sturlun og framkvæmdatendrun!

En eitt af því mikilvægasta sem ég lærði í MR var að lesa upp ljóð. Ég var ekki einn um það. Mín kynslóð lærði að lesa upp ljóð almennilega hjá Baldvin Halldórssyni. Ár eftir ár var hann með hóp í leshring uppi á Íþökulofti á laugardagseftirmiðdögum og þar lásum við allt mögulegt, íslensk ljóð, ný og gömul, þýdd ljóð og jafnvel eftir okkur sjálf. Hann var einstaklega góður leiðbeinandi, benti okkur á góð ljóð, kenndi okkur á jákvæðan hátt að miðla ljóðum. Það er meira en að segja það, að lesa upp eins og maður á þessum aldri, ég tala nú ekki um eigin texta.

En þegar ég fer að hugsa um þetta í samhengi; við vorum þarna öll, ég, Steinunn, Þórarinn, Pétur o.s.frv. og við komumst upp á lag með að miðla ljóðatextum. Ég held að það hafi haft ansi mikið að segja til dæmis í vinsældum Listaskáldanna. Við vorum á vissan hátt atvinnufólk í miðlun. Og það að venjast því að lesa almennilega upp, miðla eigin texta, það gerir þig klárlega að betra skáldi. Þú venst við innri röddina, hún verður skýrari. Ég er klár á þessu. Eftir á að hyggja held ég að áhrifin af þessari kennslu Baldvins séu óralangt umfram það sem nokkur getur ímyndað sér. Þetta færði heila skáldakynslóð skrefi framar en ella hefði orðið.

Ég öðlaðist á þessum árum ákveðna fullvissu fyrir nauðsyn atvinnumennsku, prófessjónal innstillingar. Ég hef aldrei þolað fitl og föndur og alvöruleysi, fíflaskap sem afsakar sig stöðugt og ætlar sér aldrei að leggja neitt undir. Komast bara inn í hlýjuna og gera ekki neitt. Hlýjuna frá ljóðinu, skáldalífinu, spennunni, en leggja ekkert fram, koma ekki með neitt í partíið. Frægðartal og metorðagirnd þoli ég illa, metnaður hins vegar er eitthvað sem ég skil vel. Samkeppni líka. Við hvern? Einvörðungu sjálfan sig. Hef aldrei skilið samkeppni í listum eða hugverkagerð yfirleitt, aldrei. Hins vegar skil ég vel að maður keppi við sjálfan sig, þar er eitthvað að vinna. Eitthvað sem maður getur gert í málunum, aktíft.“

En þegar þú – sextán-sautján ára gamall – varst búinn að sjá að ljóðagerð lá fyrir þér, hvað þótti þér um það? Var þetta árennilegt hlutskipti?
„Já og nei. Mér þótti dálítið fyndið að það skyldi rætast sem ég var alveg klár á alla mína bernsku, að ég yrði rithöfundur. Þegar ég var spurður fimm ára gamall hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór var svarið svo augljóst að ég hugsaði mig ekki einu sinni um. Ég ætlaði að verða gull- og silfursmiður, listmálari og rithöfundur. Þetta var prógrammið, örlög mín í lífinu. Ég sá enga meinbugi á að vera þetta allt í einu. Og ekki veit ég hvaðan í ósköpunum gull- og silfursmiðurinn kom. Málaralistin var augljósari því Jón Þorleifsson listmálari var föðurbróðir minn og hinum megin var Þórarinn B. Þorláksson afabróðir minn. Af nærtækum fyrirmyndum í ritlist má nefna að Þórbergur Þórðarson var þremenningur við pabba og hinum megin Helgi Hálfdanarson, þó ég vissi ekki mikið af honum þá; þau mamma voru þremenningar.

Fyrsta reynslan af því að birta opinberlega var mikilvæg. „Ævisaga“ og nokkur önnur ljóð komu í Birtingi. Áður hafði Einar Bragi fagnað Menntaskólaljóðum sem komu út 1966 og farið fögrum orðum um „Ævisögu“ í Birtingi. Það var fyrsta opinbera umsögnin um mín verk. Einar Bragi og Thor bera mikla ábyrgð á því að ég gekk þennan skriftaveg með því að „uppgötva“ mig og fara fram á birtingu á þessum ljóðum.

Þetta varð mér mikilvæg reynsla. Alls konar fólk sem hafði lesið þetta minntist á það, fannst eitthvað vera að gerast. Fyrsta kvöldið mitt á erlendri grundu hitti ég á skemmtun á Norska Garðinum á Cité Universitaire í París Sigurð Hafstað og Andra Ísaksson. Þeir þökkuðu mér mikillega fyrir ljóðin í Birtingi, nafni minn sannfærandi með hógværð sinni, Andri með röddinni. Það eru svona athugasemdir sem er ljóst að fólk meinar sem valda því að maður gefst ekki upp í einhverju sem er a priori alveg vonlaust: að skrifa lífið.

Alltof oft verða menn vandræðalegir þegar talið berst að hvatningu, bæði að gefa og þiggja. Tala niðrandi um hið lífsnauðsynlega, að láta í ljósi hrifningu sína, segja hug sinn. Og vera maður til að taka hóli opnum huga, án yfirlætis, án hroka heldur með heiðarlegu stolti. Hroki er hin viðurstyggilega andstæða stoltsins.“

Voilà!

Fyrsta bókin þín, Ljóð vega salt, kom út 1975 hjá Heimskringlu/Máli og menningu. Hvernig bragð er af henni núna?
„Ég þekki þessa bók afar vel, og þekkti hana svo vel þegar hún kom út að það var nærri því óþægilegt. Ég hélt að hún ætlaði aldrei að koma út. Ég skilaði henni til Sigfúsar Daðasonar útgáfustjóra Máls og menningar þegar ég var 25 ára en hún beið útgáfu um það bil tvö ár og mér leið eins og ég væri með samvaxinn tvíbura utan á mér allan þann tíma. Ég var líka orðinn rígfullorðinn þegar hún loksins kom, þremur vikum fyrir 27 ára afmælið og hafði reynt að vera skáld í áratug.“

Á áðurnefndu Ritþingi sagði Sigurður frá því að honum hefði skilist á Sigfúsi, þegar hann skilaði handritinu – gegnum þykkan reykinn frá frönsku Gauloises-sígarettunum sem Sigfús reykti – að „ef það tæki því á annað borð að gefa út bók þá skipti engu máli hvort hún kæmi út í ár eða næsta ár eða þarnæsta.“ En um þetta verða skáld og útgefendur seint sammála.

„Ekki það, ég hafði nóg að gera,“ segir Sigurður. „Ég fór til náms í París eftir stúdentspróf og námið var stíft. Ég ætlaði mér ekki að vera eins og gömlu Hafnarstúdentarnir og fara próflaus heim, ég ætlaði að ná prófum og það kostaði mikla vinnu að læra og taka próf á jafnerfiðu máli og frönsku. Ég varð smám saman góður í að lesa, verri í að skrifa og verstur í að tala. En Frakkland er rómanskt þjóðfélag og talar mikið og maður er álitinn fáviti ef maður talar ekki vel og fagurlega.

Það var algjörlega viljandi að ég tók ekki bókmenntir sem aðalfag heldur leikhúsfræði. Mér fannst óþægilegt að vera að skrifa og hafa bókmenntir sem aðalfag. Það var kannski ein dillan enn, en síðar hefur mér fundist leikhúsfræðin gott val. Í leikhúsfræði ertu á svo rosalega fínum vegamótum því þar mætast mannkynssagan, alveg frá gömlu Grikkjunum til vorra daga, bókmenntasagan, hugmyndasagan, saga arkitektúrs í sambandi við mismunandi leikhús og leikhúsbyggingar, myndlistarsagan, jafnvel tónlistarsagan – þú ert með þetta allt. Þú ert ekki með nærri því svona mikinn fjölbreytileika ef þú ert bara í bókmenntum.

Ég kom heim að loknu námi 1974, og sumarið eftir var ég eiginlega alveg hættur að hugsa um þessa bók. En einn júlídag, nánar tiltekið sjöunda sjöunda sjötíu og fimm, sat ég inni á Mokka, þá kemur Sigfús inn og er enn þegar þar er komið sögu með gólúasinn skrúfaðan í munnvikið. Hann var með fallegar hendur, Dadason, og langa fingur, og hann gengur nálægt borðinu mínu, tekur upp þessa bók, lætur hana falla fyrir framan mig og segir,“ og Sigurður gerir röddina ráma: „‘Voilà!’ Svo hélt hann áfram að afgreiðsluborðinu og fékk sér kaffi!“

Hvernig varð þér við??
„Ég var með ákveðnum innri rósemdaræfingum búinn að sætta mig við að þessi bók kæmi aldrei út, af því það er svo erfitt að bíða. Bíða eftir einhverju sem þú átt von á, ekki síst ef þú berð einhverjar tilfinningar til þess, skilurðu. Klukkan er orðin og hvað er að ske? Þá er betra að fá að vita að ekki sé lengur von; maður reynir þá að taka því. Biðin er verst af því hún heldur áfram, það er eins og að vera hlekkjaður við klett og tíminn breytist í eitur – eins og hjá Loka á klettinum. Það var orðið eins konar modus vivendi hjá mér að bíða ekki eftir henni – en þá var hún komin!“

Ekki beið Sigurður einn eftir bók sinni. Margir sem höfðu fylgst með skáldskap hans í menntaskóla biðu eftir að heyra meira frá honum, og margir sem fóru í gegnum París höfðu fengið að lesa úr handritinu eða hlustað á Sigurð lesa upphátt úr því, þannig að hugmyndin um bókina var komin víða.

Nú var hún komin, og hvernig voru viðbrögðin? 
Fékkstu gagnrýni?
„Já já, hún var ágæt, kom nú frekar seint minnir mig og eitthvað voru menn að gæta sín á fullyrðingum. Nema kannski einmitt í þessu riti, TMM, þar kom afar lofsamleg umsögn. Ég bjóst raunar ekki við neinu sérstöku enda var ég ýmsu vanur og reyndi snemma að losa mig við áhyggjur af gagnrýni. Ég fékk afar slæma krítík á það fyrsta sem ég birti í skólablaði MR sextán ára – umsögnin kom í næsta tölublaði á eftir. Það var auðvitað rosalega sjokkerandi en viðbrögð hópsins í kringum mig drógu úr áhrifunum. Félagar mínir áttu ekki orð yfir þessi skrif, fannst þau bæði óréttlát og heimskuleg. Ég reyndist vera með æstan hóp af lífvörðum í kringum mig.

Maður er svo óvarinn, sérstaklega með ljóð – ljóð er svo varnarlaus texti, líka ljóð sem eru ekki persónuleg með beinum hætti. En styrkur ljóða er ekki síst dularfull tengsl þeirra við einhvern heilagleik, ekki í trúarlegri heldur magískri merkingu. Þetta er í gangi enn þann dag í dag. Það er einhver magnaður kraftur í alvöru ljóðum, eins og menn búist alltaf við að þau geti sprungið (sem þau geta auðvitað ef ekki hefur „vöknað í púðrinu“.)

Þess vegna vilja menn drepa það. Þess vegna er slagorðið: Ljóðið er dautt! kannski umfram allt óskhyggja. Ljóð eru alltaf í einhverri ótrúlegri uppreisn, gegn öllu – á sinn gjörsamlega vopnlausa og varnarlausa hátt. Uppreisn sem er kannski ekki einhver stöðluð félagsleg uppreisn en uppreisn samt – aldrei alveg fyrirsjáanleg, ekkert endilega „reið“ á einhvern venjulegan hátt. Uppreisn til dæmis gegn hinni almennu venjunotkun tungumálsins, gegn hinum eitruðu klisjum, gegn ónæmisþykkninu, gegn hjarðhyggjunni, gegn öllu sem afneitar því að manneskjan eigi sér innra líf. Og þannig mætti áfram telja.

Allir eru viðkvæmir fyrir ljóðum vegna þess að allir hafa ort og það tengist yfirleitt viðkvæmum augnablikum sem menn vilja helst gleyma eða að minnsta kosti ekki tala um; unglingabólustundum, sorg, söknuði, missi o.s.frv. Þess vegna er allt þetta hafarí þegar einhver minnist á alvöru ljóð, menn vilja þetta helvíti út af borðinu, það tengist svo vandræðalegum hlutum hjá hverjum og einum.

Þar með er ég alls ekki að segja að sé mikið varið í allt sem skrifað er af ljóðum, guð minn góður, því miður er það ekki svo. En það er ekkert nýtt, það hafa alltaf verið ort reiðinnar býsn af þvælu, við njótum þess hins vegar að tíminn hefur vinsað úr því sem ort var í fortíðinni. Það er ákaflega mikið af stöðnuðum og afleitum hlutum í umferð; kannski halda menn að það sé svo auðvelt að yrkja af því það þarf ekki lengur að ríma og stuðla.

En þó að formið hafi breyst verða menn að hafa tilfinningu fyrir formi og auk þess máltilfinningu og hugsanatilfinningu, myndtilfinningu, rytmatilfinningu. Stundum veit maður ekki hvað er að gerast. Og útgáfulega er þetta alger bílakirkjugarður. Þegar forlög gefa út ljóðabækur er handritið þó lesið yfir, en sjálfsútgáfur eru risky bisniss. Svo skil ég aldrei hvers vegna ljóðabækur þurfa að vera í sér hólfi í bókabúðum. Af hverju eru þær á sérstöku ljóðabókaborði en ekki með öðrum nýjum bókum? Allt eru þetta bækur með ákveðið innihald, form og jafnvel erindi.“

Hvernig finnst þér að lesa Ljóð vega salt núna?
„Ég stend við hvert ljóð, bæði í þessari fyrstu bók og þeim ellefu sem á eftir komu. Ég lenti í þessari ótrúlegu tólfstafaaðferð við að skíra bækur sem fór smám saman að fá meiri merkingu í huga mínum. En þó að heitin yrðu að hafa tólf stafi náði ég mér á strik í fjölbreytileika við að skíra einstaka flokka í bókunum, og sum þau nöfn gátu vel dugað á heilar bækur. Væri til dæmis „Stigar og stjörnur“ ekki fallegt nafn á ljóðabók? Væri hún ekki fullsæmd af því? Eða „Gluggar og dyr“? „Skýjum ofar“? „Þýtt úr þögn“?

Mér hefur aldrei dottið í hug að snerta það sem ég hef gengið frá. Guð forði mér frá því. Ég hef séð menn lokast inni – eins og í völundarhúsi – innst inni í litlum hring. Það er alltaf matsatriði hvort hluturinn batnar við breytingarnar, en það er eins og menn haldi að endalaust sé hægt að yrkja upp sama ljóðið. Það er eins og þeir sem þetta gera haldi að fullkomnun sé til, en það er engin fullkomnun til. Vonandi hins vegar einhverjar framfarir.

Auðvitað er ég ekki jafnánægður með öll ljóð í öllum bókum, en þegar líða tók á námuflokkinn var ég býsna ánægður með hann og svo þann þriðja, línuflokkinn. Ljóðlínuskipið er besta heildin. Hún er hugsuð í bylgjuhreyfingu – að og frá, út og inn, en líka má lesa úr henni sólarhringinn eða ævina. Þar að auki bendi ég á að það er eitt ljóð í fyrsta kafla, tvö í öðrum, þrjú, fjögur, fimm, sex, sjö og átta í þeim síðasta! What do you want more?“

Ertu heimspekilegt skáld – ertu að segja mér það?
„Nei, ég er stærðfræðingur – án stærðfræði. Föðurættin er stærðfræðingar, móðurættin verkfræðingar. Á köflum hef ég fengið snert af númerólógískri stærðfræðiþráhyggju en hef aldrei náð henni á það flug sem mig dreymir. Stærðfræði er ofboðslega ljóðræn og allt sem snertir talnaspeki.“

Hittumst í Háskólabíó

Nú erum við enn á ný komin út í móa, eins og Sigurður bendir mér vinsamlega á. Við ætluðum næst að skoða það sem gerðist eftir að Ljóð vega salt kom út sumarið 1975.
„Já, þarna var hún komin. ‘Voilà!’ Og í ágúst, mánuði síðar, var komið að því að skipuleggja aðgerðir. Það voru ótrúlega margir að gefa út á þessum tíma og við létum berast út að þeir sem vildu vera með í aðgerðum mættu það. Við hittumst nokkrum sinnum niðri á Hressó og alltaf fjölgaði í hópnum. Þegar við vorum orðin tuttuguog þrjú -fjögur var nafn komið á hópinn – ekki man ég hver átti það: Ástmegir þjóðarinnar. Við fengum Norræna húsið og ég var valinn kynnir. Alveg óvænt kom svakalegur fjöldi, salurinn yfirfylltist, bókasafnið og anddyrið, og það hafði ólík áhrif á skáldin. Þetta var í fyrsta skipti sem Geirlaugur Magnússon las upp og mér er minnisstætt að þrengslin voru svo mikil að hann lá hálfvegis undir púltinu meðan hann beið og titraði og skalf allan tímann, mest auðvitað þegar kom að honum að lesa. Sumir freistuðust til að lesa of lengi. Dagur las heilar bækur tvær, hann tendraðist upp við móttökur fyrstu ljóðanna og gat ekki hætt. Maður sá þann merkilega hlut gerast að áheyrendur elskuðu hann í upphafi en hefði hann ekki hætt þegar hann hætti þá hefði einhver tekið sig til og kyrkt hann! Þetta var mjög lærdómsríkt.“

Gastu ekki gripið inn í sem kynnir?
„Í Dag Sigurðarson? Nei, það hefði verið eins og að stoppa Fidel Castro í miðri ræðu! En þetta tókst sem sagt vel, fyrir utan óhóflega lengd samkomunnar, og í lokin þegar ég var að kveðja fólk þá hrökk upp úr mér, algjörlega óhugsað: ‘Hittumst í Háskólabíó.’ Það urðu áhrínsorð fimm mánuðum síðar, í janúar 1976, á sögufrægri samkomu í Háskólabíó.

Við undirbúninginn að henni lagði ég áherslu á að við lærðum af reynslunni og takmörkuðum fjölda þeirra sem kæmu fram og jafnframt setja hverjum og einum grimman tímaramma. Og ég vildi ekki að við gæfum öðrum vald til að velja úr hópnum heldur tækjumst á við það sjálf. Og við værum með valinu ekki að útiloka neinn fyrir lífstíð og ekki að búa til skáldaskóla, við værum bara að velja lítinn hóp til að koma fram í þetta eina skipti. Þetta var hópur sem var mikið á móti því að vera hópur. Reyndar gugnuðum við á því að koma bara einu sinni fram vegna látlausrar og ofboðslegrar eftirspurnar utan af landi. Fyrst vorum við voða tapper og sögðumst ætla að láta eitt skipti nægja, en fólkið hélt áfram að hringja og lauk svo að við höfðum komið fram á einum fimmtán stöðum. Troðfylltum Sjallann á Akureyri til dæmis, flugum austur á Höfn og þar var fullt, flugum í einkaflugvél á Blönduós með hinum dásamlega menntamálaráðherra Vilhjálmi Hjálmarssyni og þar var troðfullt, það var alls staðar troðfullt. En við vorum aldrei átta nema í þetta eina skipti, alltaf færri eftir það.

Við vorum sem sagt átta sem urðum fyrir valinu og kölluðum okkur Listaskáldin vondu til að ítreka að þetta væri annar hópur en Ástmegir þjóðarinnar. Lengi ætluðum við að kalla okkur Listaskáldin góðu en vorum aldrei ánægð með það; það var Eldjárnið sem barnaði nafnið. Það gefur í skyn að við teljum okkur ekki nýja Jónasa og líka að við séum kannski svolítið óþekk, reið eða pirruð. Þetta var vel lukkað nafn en það hafa verið miklir erfiðleikar á að þýða það á önnur tungumál – þar vantar auðvitað tilvísunina til Jónasar. Skásta þýðingin er „Lárviðarskáld án lárviðar“. Meiningin var sú að við værum listaskáld en því miður ekki góð!“

Rifjaðu upp með mér hver þessi átta listaskáld voru.
„Já, það voru Steinunn Sigurðardóttir og Pétur Gunnarsson sem varð þarna til sem metsöluhöfundur á korteri. Hann las úr Punktur punktur komma strik og það er til fræg mynd af Vilhjálmi Hjálmarssyni á fremsta bekk, alveg í keng af hlátri. Sama kvöld, þegar Pétur var nýkominn heim, þá hringdi tuttugu og þriggja ára gamall drengur í Vesturbænum og spurði hvort það væri nokkuð kominn útgefandi að bókinni. Það var Jóhann Páll Valdimarsson. Þetta var gaman fyrir Pétur en líka gæfa Jóhanns Páls að fá að gefa fyrstu bækur Péturs út. Svo voru Þórarinn Eldjárn, Guðbergur Bergsson – hann var ídolið okkar og við buðum honum með þó að hann væri kominn á fimmtugsaldur –, Hrafn Gunnlaugsson, Birgir Svan, Megas og ég.

Það merkilega er hvað þessi hópur var laus við að vera einsleitur. Þetta eru ekki bara karlar af því það var ein kona, þetta voru ekki bara ljóð af því Pétur las sögu, þetta var ekki bara fólk undir þrítugu af því einn var kominn yfir fertugt, þetta var ekki bara lesinn texti af því einn söng, alltaf var einn sem skar sig úr hverri skilgreiningu. En við vorum einkum fjögur á sama aldri og skyld í anda, Steinunn, Pétur, Þórarinn og ég. Það er einmitt um okkur sem stimpillinn „fyndna kynslóðin“ verður til, upphaflega sem skammaryrði eins og fleiri bókmenntasögulegir stimplar.

Þessi samkoma var ótrúleg lífsreynsla – maður vissi ekki hvað var að ske. Hún átti að hefjast klukkan tvö síðdegis á laugardegi. Við fengum salinn á góðu verði en urðum að vera farin í tíma fyrir fimm bíó. Þetta var stóri salurinn sem tekur þúsund manns í sæti, í þá daga var hann eini salurinn í Háskólabíó, og tuttugu mínútum fyrir tvö voru þrjátíu manns í salnum. Okkur leist ekki á blikuna. Svo varð sprenging. Lauk svo að í húsinu voru fjórtán hundruð manns!

Kynningartrixin okkar voru bara tvö og ég er stoltur af þeim báðum: Annars vegar að muna eftir gamla fólkinu og hins vegar að muna eftir börnunum. Um þetta leyti var talað mikið um það í fjölmiðlum hve illa væri komið fram við gamla fólkið svo við auglýstum ókeypis inn fyrir ellilífeyrisþega. Margir notfærðu sér það. Svo auglýstum við barnagæslu á staðnum sem var fáheyrt í þá daga! Og þetta voru einu auglýsingarnar okkar. Við réðum allan fóstruskólann til að passa börnin, fjörutíu fóstrunema, og veitti ekki af. Þær fengu kjallarann undir fordyrinu fyrir sig og börnin og það var fullt af börnum. Því segi ég það: það voru að minnsta kosti fjórtán hundruð manns í húsinu. Í salnum voru ellefu hundruð manns, setið í öllum sætum og eftir öllum göngum, og fóstrurnar voru algerlega udmatted eftir törnina, því þær voru með tíu-tólf grislinga hver! Einhverjum okkar fannst ofrausn að ráða svona margar fóstrur – því þótt þær fengju ekki há laun varð upphæðin talsverð þegar þær voru orðnar svona margar, en ekki veitti af fjöldanum. Ef það hefði verið einni færra hefðu orðið stórfelld vandræði! Þær hefðu misst krakkana út á götu.

Eftir á að hyggja finnst mér það langmikilvægasta við uppákomu Listaskáldanna í Háskólabíói vera eftirfarandi: þessi atburður vakti gríðarlegan áhuga ungs fólks sem var að íhuga að fara út á þessa braut, þetta framtak var köllunarhvetjandi. Löngu síðar hafa nokkrir vinir mínir sagt mér: Já, við vorum í salnum, þessi atburður var mikilvæg sönnun þess að skriftir væru einhvers virði. Einar Kárason var þarna, rúmlega tvítugur, Einar Már sömuleiðis, Sjón líka, hann var fjórtán ára. Þannig mætti áfram telja. Þessi rokkstjörnukonsert bókmenntanna var hugljómandi fyrir þetta unga fólk sem var að máta sig við möguleikana í lífinu.

Sjónvarpinu bauðst að taka viðburðinn upp; það hafði ekki áhuga. Útvarpið kom á staðinn, sú upptaka er horfin. Eftir er bara sagan og minningin um þessa einstæðu samkomu.“

Stafavillur og upphrópunarmerki

Næsta bókin þín er Ljóð vega menn, seinni bókin sem þú gefur út hjá Máli og menningu. Hún kom út 1980. Þá var Sigfús Daðason ekki lengur hjá forlaginu en frændi þinn Þorleifur Hauksson orðinn útgáfustjóri (þeir Sigurður og Þorleifur eru bræðrasynir). Eftir þá bók skiptirðu um forlag – er saga að segja frá því?
„Já, það liðu fimm ár milli fyrstu tveggja enda hafði ég í nógu að snúast. Þegar hún var í framleiðslu var ég kominn til Parísar aftur, eftir að hafa verið heima 1974-7 að kenna við Leiklistarskólann. Þá skrifaði ég fyrstu leikritin mín, Undir suðvesturhimni og Hlaupvídd sex, fyrir Nemendaleikhúsið, og í Ljóð vega menn eru ljóðaflokkar úr þeim leikritum báðum. Ég er mikill aðdáandi Nemendaleikhússins. Ég kenndi við Leiklistarskólann þegar það var hannað, sú hönnun var fín, góð verkfræði, og það hefur virkað vel. Galdurinn er hvað það er frjálst og hvað innstillingin er highly professional þó að reynslu og kannski einhverja færni vanti.

1977-82 var ég í framhaldsnámi í leikhúsfræðum og lauk bæði mastersgráðu og D.E.A. sem er fyrri hluti doktorsgráðu í sömu fræðum. Ég endaði semsagt með því að fara miklu lengra í formlegu námi en ég hafði hugsað mér, ég sé alls ekkert eftir því en það tók fjári mikinn tíma. Þá kláraði ég líka kvikmyndaskóla í París, Conservatoire libre du cinéma français, sem var sjálfstæð stofnun og óháð Sorbonne.“

Þess má geta hér innan hornhlofa að í téðum kvikmyndaskóla voru þau aftur skólasystkin, Sigurður og Kristín Jóhannesdóttir, kvikmyndaleikstjóri og skólameistari Kvikmyndaskólans. Þau eru jafngömul og höfðu áður verið í MR á sama tíma – Sigurður þó á undan henni – en ekki gefið sig mikið hvort að öðru þá. Þau urðu vinir og elskendur í París og síðan hafa þau verið saman.

„Ég fékk sent til Parísar prentað innvolsið úr þessari nýju ljóðabók,“ segir Sigurður, „kápulaust að vísu, og var fljótur að sjá að það hafði verið prentað eftir óleiðréttri próförk. Textinn var morandi í villum. Og eins og það væri ekki nóg þá var hann allur útataður í upphrópunarmerkjum – eins og það væri verið að gera grín. En þau höfðu ekkert með grín að gera heldur voru þetta einhver tæknileg mistök. Þetta virkaði alveg svakalega á mig. Þá voru fá samskiptatæki önnur í boði en express-bréf, sem ég sendi í hvelli og upplaginu var hent. Það fór í öskuna. Ég á eitt eintak af þessu slysi, það sem ég fékk sent til Parísar. Ég er að hugsa um að selja það á eBay við tækifæri. Það hlýtur að vera eftirspurn eftir bók sem er bara til í einu eintaki!

Svo var prentað nýtt upplag, vandlega yfirlesið og allt í góðu lagi með það, en þá kviknaði í prentsmiðjunni og það upplag brann! Því segi ég: fyrsta upplag fór í öskuna, annað í eldinn. Það sem komst í dreifingu var þriðja prentun, en hún var í stóru upplagi, eins og þessar bækur voru hjá Máli og menningu í þá daga. Það var eitt af prinsippunum í útgáfunni frá tímum Sigfúsar, að ef það borgaði sig að prenta bók þá ætti hún að endast, og fyrstu bækurnar mínar voru prentaðar í eitthvað milli fimmtán og sautján hundruð eintökum. Samt seldust þær upp, svo kirfilega að það er engin leið einu sinni að fá þær á fornsölum.

Það voru þessi slys sem gerðu að verkum að ég gat einhvern veginn ekki hugsað mér að vera áfram hjá Máli og menningu. Það greip mig svo mikið öryggisleysi. Þess utan höfðu verið átök og uppákomur í fyrirtækinu árin á undan, ég veit reyndar farsællega lítið um það allt og vildi ekki setja mig inn í það, en staðreyndin var sú að Sigfús, minn gamli útgefandi og átrúnaðargoð, hann var þarna ekki lengur. Hins vegar vildi ég síst af öllu koma frænda mínum illa en eftir þetta áfall var ég bara of skekinn og öryggislaus. Kannski var bjánaskapur af minni hálfu að komast ekki yfir þetta en svona var það. Mér fannst einhvern veginn bara heiðarlegra að fara annað og það gerði ég með næstu bók. Tveim árum seinna kom Ljóð vega gerð, eina bókin sem kom út hjá Iðunni. Þá var Jóhann Páll Valdimarsson ennþá þar en stofnaði svo Forlagið þar sem næstu bækur mínar komu út. Hjá honum hafa allar síðari bækur mínar komið út, hvað svo sem útgáfan hans hefur heitið og hvert sem eignarhaldið á fyrirtækjunum hefur verið. Ég hef fylgt honum einum fjórum sinnum út í eyðimörkina.“

Á þessum árum sem Sigurður er að rifja upp hefur ýmislegt gengið yfir bókaútgáfuna í landinu. Verst var að hans mati árið 2000 þegar önnur skáldsaga hans, Blár þríhyrningur, kom út. Það var ár sameiningar Máls og menningar og Vöku-Helgafells í stórveldið Eddu útgáfu, Jóhann Páll gekk þá út úr samstarfi við Mál og menningu sem staðið hafði um tíma og var kominn með sína útgáfu í skjól ættfræðifyrirtækisins Geneologia Islandorum, og samkeppnin við nýja risann var hatrömm. Enginn gat ógnað þessu nýja forlagi annar en Jóhann Páll, segir Sigurður, og það voru svo mikil átök á útgáfumarkaðnum að það minnti á kalda stríðið í stjórnmálum og menningarmálum. Allt í einu skipti höfuðmáli hvar bók kom út – þó að auðvitað skipti það eitt máli að hún kæmi út. Sigurði finnst þegar hann lítur til baka að þetta hafi verið ömurlegt ár, en strax 2001 stofnaði Jóhann Páll JPV-útgáfu á eigin vegum.

Ferðir með fyrirheiti

Þegar þú horfir á þessa fjóra ljóðabókabunka hérna á milli okkar, finnst þér þá vera munur á áferð, inntaki, hugsun í þeim?
„Já og nei. Það heitir á frönsku „Normandí-svar“. Frændur okkar Normannar eru frægir fyrir að svara svona, já og nei!

Nei, það er engin breyting að því leyti að ég finn að það er sami maðurinn sem yrkir þær allar. Já, mjög sterklega, að því leyti að í hverri einstakri bók og í hverjum einstökum undirkafla – sem sumir áttu að verða heil bók, þannig að það sem við sjáum á prenti er bara ísjakatoppur – er eitthvert áform, ásetningur, kannski ekki alltaf meðvitaður framan af, um ákveðinn strúktúr og ákveðið ferðalag. Þetta eru tólf ferðir og sjö til átta styttri ferðir – udflugt – í hverri. En vegakerfið er auðvitað lagt af sama einstaklingnum.“

Hvernig var þeim tekið svona yfirleitt? Stendur einhver upp úr vegna þess að henni hafi verið tekið sérstaklega vel eða sérstaklega illa?
„Nei, ég man ekkert sérstaklega eftir því. Ég var snemma sæmilega bólusettur gagnvart krítík og kom mér upp ákveðinni aðferð til að láta hana ekki afvegaleiða mig – þótt hún geti alltaf átt það til að trufla. Ég er ekki frá því að á ferli sérhvers höfundar komi tímabil þegar það fer í taugarnar á fólki að hann skuli ekki gefast upp og hætta þessu. Það skynjaði ég á vissan hátt um tíma, það var skrýtin tilfinning. Þá fer maður bara að speglinum á morgnana og biður til Guðs að maður sé ekki orðinn paranojd eða eitthvað. Svo gengur þetta yfir.“

Ljóðabókunum var tekið betur en leikritunum, var það ekki?
„Ekki er það nú alveg svo, viðbrögðin hafa að vísu verið sveiflukenndari. Hlaupvídd sex hefur verið leikið oftast, það hefur verið sett upp einum fimm eða sex sinnum, sem er sjaldgæft með íslensk samtímaleikrit. Eitt sérkennilegasta verkið er það fyrsta, Undir suðvesturhimni. Ég er á margan hátt mjög sáttur við það. Samt er ég á vissan hátt ánægðastur með Miðjarðarför, það er galopið í byggingu en helst samt saman, ég veit hreinlega ekki hvernig; ekki alveg að minnsta kosti. Þar er í gangi einhver magík sem mér tekst hvorki alveg að analýsera né heldur endurtaka þó ég feginn vildi. Þau léku það í Nemendaleikhúsinu 1983 og sprungu þar út, Edda Heiðrún, Kristján Franklín, Helgi Björns og sá hópur allur. Annars koma vangaveltur um formið beint eða óbeint fram í öllum leikritunum. Hótel Þingvellir var til dæmis tilraun til að gera eins og gömlu meistararnir, þjappa atburðarásinni á tuttugu og fjóra tíma. Leikarar hafa alltaf komið vel út úr verkum mínum, og það bendir til þess að eitthvað sé í þeim. Annað sem gleður mig er að þau virðast halda skírskotunarkrafti sínum. Suðvesturhiminn (frá 1976) er kannski núna loksins orðið samtímaverk, Völundarhús (1996) hafði furðulegt forspárgildi o.s.frv. Annars held ég að það kosti annað viðtal að fara oní leikritin af einhverju viti.“

Leikrit eru jafnan talin standa ljóðlistinni nær en sögur.
„Já, ég er á margan hátt sammála því. Það er innangengt finnst mér milli þeirra íbúða í húsinu.“

Bæði form eru knöpp og undirtextinn verður að vera ríkur af því yfirborðið er svo lítið. Ekki eins og skáldsagan sem getur endalaust teygt úr sér með veðurlýsingum og sagði hann og sagði hún …
„Já, það virkar stundum á mann eins og takkinn sem stendur á „delete“ hafi ekki virkað! Allt er þetta verkfræði, auðvitað, en skáldsagan er gjörsamlega ný innstilling miðað við leikrit og ljóð. Í rauninni er þetta eins og að vera þrír menn, en að ýmsu leyti er betra að vera þrír menn en tveir. Það getur leitt til geðklofa að vera tvískiptur en hollara að vera þrískiptur.“

Var það þess vegna sem þú fórst að skrifa skáldsögur – þig langaði til að finna „þriðja manninn“ í þér?
„Já, en við megum ekki gleyma því að ég skrifaði afar mikið í bernsku, frá fimm ára til tólf ára, og allt nema ljóð! Aðallega sögur en leikrit skrifaði ég líka og gífurlega mikið magn af skrásetningarefni, dagbókum, ærbókum, veðrabókum, heyskaparannálum… Þannig að ég kannast við skrásetningaráráttu Þórbergs frænda míns. Hann var auðvitað ástríðufullur skrásetjari með innstillingu vísindamanns.

Stundum er svo sláandi það sem fólk segir við mann – en ef maður spyr það seinna hvað það hafi átt við, þá er það búið að gleyma öllu saman. Ég trúði Régis Boyer fyrir því einu sinni þegar við sátum saman á veitingastaðnum Balzar við hliðina á Sorbonne í París, að ég væri að skrifa prósa, skáldsagnakyns. Þá sagði hann með þessu furðulega sjálfsöryggi „grand Professeur de la Sorbonne“ að það kæmi honum ekki á óvart – „þú hefur skaplyndi skáldsagnahöfundar,“ sagði hann, „tempérament de romancier“. Þessi orð ollu mér heilabrotum lengi, hvað átti hann eiginlega við? En ég grillti allt í einu í grænt ljós. Orð Boyer urðu mér hvatning. Af hverju átti ég að vera að skrifa eitthvað hjá mér sem aldrei liti dagsins ljós og enginn vissi af? Og alveg sérstaklega fyrst ég hafði nú „skaplyndi skáldsagnahöfundar“! Um tíma var ég að hugsa um að skrifa skáldsögur og segja engum frá þeim heldur láta þær finnast eftir minn dag. Láta finnast svona kistu eins og hjá Fernando Pessoa. Svo fannst mér það einum of áreynslufullt, fyrir nú utan hvað mig langaði í viðbrögð lesenda. Við erum þrátt fyrir allt í þessu til að miðla einhverju og þá er gaman að vita hvernig menn hafa upplifað það, aðallega til að læra eitthvað af því. Eftir því sem árin líða finnst mér þetta hugtak og hugsun verða mikilvægari: miðlun.“

En þessi brot sem þú varst að skrifa hjá þér, rötuðu þau inn í skáldsögurnar þínar?
„Smábrot úr þeim varð að Parísarhjóli, annað prójekt varð að Bláum þríhyrningi og það þriðja að Næturstað. Ekki vantar áformin og grunnteikningarnar, guð minn almáttugur. Vandinn sem ég lenti í með Næturstað var að ég byrjaði að sýna það handrit allt of snemma. Ég sýni yfirleitt ekki neinum neitt fyrr en ég er búinn, klára bók og segi þá bara eins og Sigfús Daðason: „Voilà!“ Næturstaður varð erfiðasta ferðalagið, út af þessu.“

Mér finnst einhvern veginn skáldsögurnar þínar, kannski fyrir utan Parísarhjól, mun alvarlegri en ljóðin. Það er eins og kímnigáfan sé ekki eins virk í þeim og ljóðunum.
„Hver andskotinn. Ég verð að huga að þessu, þetta kemur mér á óvart. Já, kannski er það að einhverju leyti sú staðreynd, að ég er „ungur og nýr skáldsagnahöfundur“ – sem ljóðskáld hef ég meiri reynslu og get kannski leyft mér að vera afslappaðri, ég veit það ekki. Kannski er þetta bara sú staðreynd, að ég er frekar alvarlegur karakter, hefur það farið fram hjá þér?
Ég er reyndar, held ég, afar lífsglaður maður, en lífsglaðir menn eru næmir fyrir harmi. Maðurinn er eina dýr jarðarinnar sem hefur vitund um dauða sinn.
Það sem gerist eftir að ég fer að skrifa skáldsögur er að ljóðin urðu, alla vega hingað til, meira abstrakt, persónur og staðir hafa vikið meira úr ljóðunum, þeirra staður verður skáldsagan en allt er þetta í stöðugri mótun, vinnslu…

Ég veit ekkert um framtíðina. Veit það eitt að við Skaftfellingar erum oft seinþroska. Nafni minn Nordal sagði skilst mér í sextugsafmæli Þórbergs að honum segði svo hugur að afmælisbarnið ætti óskrifaðar sínar bestu bækur. Það héldu víst allir á staðnum að Nordal hefði fengið sér of mikið af veitingunum. En þetta er kannski rétt þegar öllu er á botninn hvolft, að síðasta tímabil Þórbergs sé hans besta.“

Í listum kemur aldrei maður í manns stað

„Var ég búinn að segja þér ástæðuna fyrir því að ég gaf ekki út prósaverk fyrr en raun ber vitni? Orsökin er einföld: ég vildi ekki yfirgefa ljóðavettvanginn. Ég vildi berjast þar, sýna að minnsta kosti og helst sanna að ljóð væru fullgild bókmenntagrein, algjörlega. Ég vildi ekki flýja yfir í skáldsöguna eins og flestir hafa gert, hvort sem það nú hentar þeim sem höfundum eða ekki. Ég kaus að svara ekki neinum árásum nema konkret, með því að yrkja og birta ljóð. Margt er líka ekki svaravert af því sem sagt er og skrifað um ljóð, gjarnan íslenska aðferðin, fordómar, skortur á athugun á umtalsefninu og sleggjudómar í einni kös. Ég hef ekki þolinmæði í slíkt. Af tvennu illu finnst mér skárra að bíta á jaxlinn og reyna bara að sýna eitthvað í verki.

Nú, ef við skoðum þetta nú aðeins í samhengi, hvað sjáum við? Við sjáum afar fjölbreytilega listgrein, ljóðlistina, sem á sér óslitna og skrautlega sögu, allt aftur í biblíuna og ýmis önnur grundvallarrit í okkar vestræna menningarheimi, einna lengstan þráð óslitinn hins vegar í Kína, hreint ótrúlegan raunar, fimmþúsund ár.

Í íslenskum bókmenntum er ljóðlistin eina samhengið, þ.e.a.s. í skáldskap. Svo er kannski visst samhengi í grafómaníu, skrásetningarbrjálæði og annálaritun þjóðar þar sem skrift og lestur hefur alltaf verið almenningseign, sem er reyndar algjörlega furðulegt og eini fjársjóður þjóðarinnar. Er það virkilega einskis virði að leggja svolítið á sig til þess að taka þátt í þessu ævintýri ljóðlistarinnar sem er kjarni ævintýrisins um samhengið? Ef það er rétt að ljóðið sé dautt, þá er hjarta þess ævintýris dautt, ljóðlistin í öllum sínum fjölbreytileik sem hefur stöðugt haldið áfram að þróast. Í þeirri þróun felast lífslíkurnar.

En það eru tveir aðalleikendur á þessu sviði, skrift og lestur. Skrifarar og lesendur. Hinir síðarnefndu stunda líka skapandi starf og það verður líka að gera einhverjar lágmarkskröfur til þeirra. Jafnvel þótt það sé andstætt tíðarandanum sem miðar að því að gera okkur að neytendum þegar við eigum að vera njótendur. Njótandi er frjáls, skapandi, erótískur. Neytandinn þræll, viljalaus, klámfenginn.

Forsendan fyrir eðlilegri endurnýjun er sú, að þeir sem hafa talent séu tilbúnir að taka ljóðagerð alvarlega, gefa henni alla krafta sína, orku og líf. Alveg til enda, ekki bara smátíma. Það er mikils virði að sjá skapandi vitund sem heldur áfram, áratugum saman, sjá þessa heild verða til. Nýleg dæmi: Þorsteinn frá Hamri og Matthías Johannessen.

Það eru menningarverðmæti að sjá lifandi, skapandi vitund takast á við jafn fáránlega mikla sviptingatíma og síðustu fjörutíu til fimmtíu ár. Það eru líka verðmæti fólgin í tímaritum sem spanna langt skeið og hafa þar með þennan tímafaktor. Ég er áskrifandi að tveimur frönskum tímaritum sem koma út ársfjórðungslega og breyta engu í ytra útliti. Ó, hve dásamlega frískandi og óíslenskt! Á tímum upplausnar í fjölmiðlun er ágætt að minna á þá staðreynd að alvöru bókmenntatexti er eilífur.

En lítum aðeins á til dæmis síðustu fimmtíu ár í íslenskum bókmenntum. Það skyldi þó aldrei vera að landsliðið í ljóðlist væri bæði fjölbreytilegra og sterkara en nokkurn órar fyrir, þá er ég bæði að tala um magn, þ.e. fjölda höfunda, og gæði. Er landsliðið í öðrum greinum jafn fjölbreytilegt? Og er það jafn fjölmennt? Ég efast um það. Þannig að maður veit hreinlega ekki á köflum um hvern fjandann er verið að tala. Sölutölur, staðsetning á tímabundnum sölulistum hafa aldrei skipt nokkru einasta máli í raunverulegu lífi, ég tala nú ekki um langlífi, bókmennta. Aldrei. Það er ekki nokkur vandi að sýna fram á það.

Nú, á sama tíma verða forlögin og allur mekanisminn að lifa af, ég veit það vel, þannig að sölulistasirkusinn og annar sirkus mun halda áfram. En gleymum okkur samt ekki alveg í samkvæmisleikjum.

Svo væri ágætt ef menn vildu gjöra svo vel að misskilja mig ekki né heldur snúa út úr; auðvitað eiga góðar bókmenntir það líka til að seljast vel. Sem betur fer.
Þessi eining er svo lítil, fámenn heild allt saman, íslenskt bókmenntalíf, íslensk menning, að það má engu muna að það bara hrynji allt saman. Í bókmenntunum er hópurinn sem gegnir lykilhlutverki einhvers staðar innan við hundrað manns.

Við megum ekki missa einn einasta einstakling sem eitthvað getur. Í listum kemur aldrei maður í manns stað, það kemur bara nýr maður sem er allt annað. Við megum heldur ekki við því að hver og einn fari ekki fram úr sjálfum sér í hverju verki, reyni það að minnsta kosti, þess utan verðum við jafnt og þétt að fá til leiks fleiri talenta sem eru tilbúnir í slaginn.“

Silja Aðalsteinsdóttir

 

[Mikilvæg kvót]

„Ljóðtímaskyn skiptist í fimm bálka: Ljóðtímaskyn, Burt, Söngtími, Svart-hvítt og Stundir. Eflaust þykir einhverjum að hér sé afmarkaður ljóðtíminn, hann hefjist á skynjuninni, nærist á útþránni, eflist í söngnum, magnist af andstæðum og kristallist í stundinni. Má vera að svo sé, eður ei, en mestu máli skiptir að í gegnum þetta ferli birtist hvert ljóðið öðru magnaðra. Því það er galdur í þessari bók, galdur sem verður ekki fremur en galdur yfirleitt skilgreindur, aðeins skynjaður.“ (Geirlaugur Magnússon, DV 1.12. 1999)

„Þegar talið berst að Hinum guðdómlega gleðileik tala menn alltaf um Inferno. Manni finnst stundum eins og það sé orðið lífshættulegt að standa með lífsgleðinni. Það er allt í veröldinni sem reynir að þagga niður í þeim sem minna á hvernig Hinn guðdómlegi gleðileikur endar. Hann endar í Paradiso.“
(SP í viðtali í Fréttablaðinu 6.12. 2003)

„Ég þekki ekkert annað íslenskt ljóðskáld sem hefur með – mér liggur við að segja – lygilegri seiglu – og ég sagði það – stefnt að því að gera höfundarverk sitt að einum heimi, að einum samhangandi heimi fullum af lífi og merkingu og undirsettan sömu lögmálum og aðrir heimar, þróun í tíma og rúmi, fæðingu, vexti og dauða.“ (Þröstur Helgason, Morgunblaðið 2.12. 1997)

„Ég hef sjálfur aldrei reynt að vera fyndinn. Ég hef svosem heldur ekki forðast það skipulega. Ekki nógu skipulega að minnsta kosti. Ég hef alltaf reynt að vera sá sem ég er: draumkenndur raunsæismaður eða kannski frekar rómantískur realisti.“ (SP í viðtali við Morgunblaðið 20.10. 1990)

„Ansans ári er Sigurður gott ljóðskáld!“ (Ólafur Jónsson, DV 11.7. 1983)

„Ef það er einhver ein lýsing sem á betur við skáldið Sigurð Pálsson en önnur þá er hún sú að hann sé lofsöngvari, haldinn ríkri en kröfuharðri ást til lífsins.“ (Kristján Þórður Hrafnsson, Alþýðublaðið 30.11. 1995)

„Ég minnist þess ekki að breytileiki mannlegs lífs, sem góðborgari nefnir öryggisleysi og óttast meiren Grýlu, hafi fyrr verið ákallaður svo sönnum rómi sem ímynd hamingjunnar.“ (Erlingur E. Halldórsson, TMM 3-4 1975)

„Ég fæddist líka á vissan hátt við að verða, 19 ára gamall, vitni að þeim heimssögulegu atburðum sem gerðust vorið ’68. Ég var í frönskutímum í gömlu aðalbyggingunni í Sorbonne og var staddur þar af tilviljun 3.maí ’68 þegar stúdentar stormuðu inn með Daníel Cohn-Bendit í broddi fylkingar og hlýddi á hann tala í stóra fyrirlestrasalnum. Hann er einhver glæsilegasti ræðumaður sem ég hef nokkru sinni hlustað á.“ (SP í viðtali í DV 14.12. 1998)

Vankantana „bætir höfundur þó upp með lifandi persónulýsingum, ljóðrænum og myndrænum stíl þar sem æsingi, gáska, fáránleika, eftirvæntingu og skelfingu er á stundum blandað svo listilega saman að frásögnin verður ein löðrandi lífsnautn.“ (Ólína Þorvarðardóttir, DV 3.12. 1998)

„Höfundar eru útvarpstæki. Það verður að vera hægt að stilla á allar bylgjulengdir.“ (SP í viðtali við helgarblað DV 8.2. 2003)

„Maður er frá landi sem er tæplega til á kortinu, talandi tungu sem enginn kannast við og svo er maður að reyna að búa eitthvað til á þessari undarlegu tungu. Að stunda skriftir í þessu umhverfi er barátta fyrir tilverurétti landsins, móðurmálsins og sjálfs sín, lífsbaráttan.“ (SP í viðtali við Þjóðviljann 24.12. 1980)