Guðrún Helgadóttir„Öðruvísi“ fjölskyldubækur Guðrúnar Helgadóttur

Eftir Katrínu Jakobsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2007

 

Guðrún Helgadóttir tók sér snemma stöðu sem talsmaður barna í samfélaginu. Í fyrstu bókum sínum um Jón Odd og Jón Bjarna og síðar um Pál Vilhjálmsson tók hún á málefnum barna á nýjan og ferskan hátt, beindi kastljósinu að stöðu barna og baráttu þeirra fyrir betra samfélagi fyrir alla; börn og fullorðna. Síðan má segja að hver kynslóð hafi fengið sinn bókaflokk eftir Guðrúnu, hvort sem það eru Hafnarfjarðarbækurnar Sitji guðs englar saman í hring, sænginni yfir minni á níunda áratugnum eða Ekkert að marka!-bókaflokkurinn á þeim tíunda. Nýjasti flokkurinn eru Öðruvísibækurnar en sú fyrsta þeirra, Öðruvísi dagar, kom út árið 2002, Öðruvísi fjölskylda kom 2004 og sú síðasta, Öðruvísi saga, nú fyrir jól 2006.

Þessar sögur lýsa rúmlega árs tímabili í lífi „öðruvísi“ fjölskyldu. Aðalsöguhetjan er Karen Karlotta sem er níu ára þegar bókaflokkurinn hefst en á tíu ára afmæli í síðustu sögunni. Karen Karlotta eyðir mestum tíma með bróður sínum Jöra sem er tíu ára en þau eiga svo eldri systkin, Matthildi sem er að verða stúdent og Martein sem er fimmtán ára og hagmæltur. Karen Karlotta segir frá í fyrstu persónu frásögn sem virðist spretta beint úr hugarheimi níu ára stelpu. Hún lýsir öllum fjölskyldumeðlimum út frá sínu sjónarhorni og bendir lesendum á alls kyns furður í fjölskyldunni, eins og t.d. að pabbi hennar sé ægilega gamall eða 58 ára, en það sé nú betra en að vera bara þrítugur eins og pabbi hennar Baddíar sem er alltaf að elta konur út um allan bæ:

Þá er nú pabbi minn betri þó að hann sé gamall og ekkert mjög fallegur. Ekki er hann að elta konur, enda mundu þær bara fara að hlæja. Hann nennir varla að elta mömmu þegar henni er boðið í önnur hús, vill miklu frekar liggja heima í sófa. (ÖD:8–9)

Frásagnaraðferð Guðrúnar einkennist af hinu tvíþætta ávarpi þar sem börn og fullorðnir geta lesið ólíka hluti úr textanum. Meðan ungur lesandi fylgist spenntur með bauki Karenar og félaga hennar kviknar áhugi fullorðins lesanda á gamla pabbanum og mömmu Karenar, fertugri hárgreiðslukonu sem var „heillengi í fjölbrautaskóla og næstum því orðin stúdent“ þegar hún eignaðist Matthildi (ÖD:9).

Öðruvísi dagarTil viðbótar við öll systkinin og foreldrana er svo Karlotta amma, föðuramma Karenar Karlottu sem kemur reglulega inn á heimilið og reynist máttarstólpi fyrir börn og fullorðna. Karen Karlotta telur í upphafi sögu að hún hafi aldrei átt mann og það segist hún skilja vel: „Hún er ofboðslega stór og hún er með svört krulluð hár á hökunni sem koma alltaf aftur hvernig sem mamma hamast við að plokka þau“ (ÖD:9). Annað kemur í ljós þegar fjölskyldan kynnist Karli Ottó, föðurafa Karenar Karlottu, sem yfirgaf ömmu og pabba. Einn meginþráður bókaflokksins snýst einmitt um þessa fortíð ömmu og hvernig amma reynir að sættast við afa, ekki síst fyrir tilstilli Karenar Karlottu.

Í upphafi bókaflokksins fá lesendur smámyndir af öllum þessum persónum, auðvitað með augum og eyrum Karenar Karlottu. Þá strax kemur í ljós að Karen Karlotta hugsar á öðrum brautum en margir aðrir. Hún getur t.d. breytt sér í flugu sem getur verið ansi hentugt. Hún getur flogið burt hvenær sem hún vill, t.d. þegar henni leiðist, og séð hluti sem aðrir sjá ekki. Þessu segir hún engum frá en það er mikilvægur þáttur í persónu hennar. Karen Karlotta er stúlka sem hlustar og horfir á heiminn með ákafri athygli og áhuga. Hún horfir víðar en bara yfir næsta nágrenni, Karen Karlotta fylgist með heimsfréttunum og fyllist oft áhyggjum yfir heimsástandinu. Þannig fær hún Millu vinkonu sína til að halda með sér tombólu fyrir utan Bónus til að styrkja börnin í Palestínu en málefnið veldur usla og rifrildi hjá vegfarendum þannig að á endanum flýja vinkonurnar af hólmi (ÖS:34–35). Þetta sýnir vel hvernig Karen Karlotta hugsar – ekkert mannlegt er henni óviðkomandi.

Bækurnar eru þó ekki þrungnar góðum boðskap þannig að þær séu þungar í lestri, þvert á móti. Þær eru uppfullar af gríni og glensi sem kemur ekki síst fram hjá aukapersónunum, Matthildi sem ætlar að fá sér sílikonbrjóst, pabba sem alltaf sér aðrar hliðar á hlutunum eins og kemur fram í York-ferðinni þar sem hann einblínir aða llega á múrverk víkinganna eða Marteini sem iðulega setur saman vísur sem flestar eru í spaugilegri kantinum. Þegar kominn er desember í Öðruvísi dögum og jólaskapið hvergi nærri, enda greiðir enginn pabba fyrir klósettin sem hann er að múra í kringum og allt brjálað að gera hjá mömmu á hárgreiðslustofunni, yrkir Marteinn vísu:

Ógreiddar konur
á ógreiddu klói,
það er ekki að undra
þó út úr því flói.

Ég gerði heiðarlega tilraun til að koma Möttu í gott skap og sýndi henni vísuna.
Eftir hvern heldurðu að þetta sé? spurði ég.
Matthildur horfði fýlulega á mig. Gæti þetta ekki verið eftir þennan Bólu-Hjálmar? sagði hún. Var hann ekki soldið fyndinn?
Matta, heldurðu að það hafi verið klósett heima hjá Bólu-Hjálmari? (ÖD:30–31)

Til tíðinda dregur hjá fjölskyldunni þegar Karen og Jöri fara að bera út Moggann í götunni. Eitt hús vekur sérstaka athygli þeirra en þar býr gömul kona sem þykir skrýtin. Karen eyðir löngum stundum í að velta vöngum yfir þessari konu sem heitir Elísabet Davíðsdóttir og er ólík flestum samborgurum sínum, til að mynda fer hún að skilja eftir hressingu handa Moggakrökkunum á köldum morgnum. Hjartað í Karen nánast springur af hamingju yfir heitu kakói og samlokum: „Ég hafði aldrei kynnst neinu þessu líku. Ég vissi ekki að svona gott fólk væri til í þessu hverfi eða bara í heiminum yfirleitt“ (ÖD:22).

Saga Elísabetar og samskipti hennar við Karen Karlottu eru meginstefið í fyrstu bókinni. Eins og sjá má hafa fyrstu kynni Karenar og Elísabetar mikil áhrif á Karen og minna okkur á manngæskuna og hversu mikilvæg hún er okkur öllum. Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt; heitt kakó getur gefið köldum krökkum fullan heim af hamingju og vellíðan. En Karen uppgötvar líka fljótt að manngæskan er því miður allt of sjaldgæf í nútímaheimi og þykir skrýtin og óviðeigandi:

Hún er nú ekki eins og annað fólk, þessi kona, sagði hún [mamma].
Mér fannst að hún hefði átt að segja eitthvað annað, til dæmis hvað þetta væri
frábær kona, en hún sagði bara þetta.
Er hún ekki eitthvað klikkuð? sagði Matthildur. (ÖD:23)

Að vera góður við náungann er skrýtið, jaðrar við klikkun. Karen Karlotta reiðist þessum viðbrögðum og ákveður að kynnast konunni betur. Það á eftir að hafa áhrif á alla fjölskylduna, því Elísabet reynist eiga mikla sögu að baki. Hún er gyðingur og bjó í Þýskalandi á stríðsárunum. Hún hefur aldrei eignast mann enda hefði engin „venjuleg manneskja í þínu góða landi […] getað skilið svo mikla sorg,“ segir hún. „Og þá er erfitt að deila lífinu með öðrum sem ekki getur hugsanlega ímyndað sér slíkan hrylling“ (ÖD:53). Sorg Elísabetar hefur gefið henni sérstaka sýn á lífið sem byggist á umburðarlyndi og fyrirgefningu. Samband þeirra Karenar Karlottu þróast áfram og þær hafa mikil áhrif hvor á aðra. Báðar hafa einlægan áhuga á lífinu og þannig hafa þær áhrif til góðs allt í kringum sig, bjarga mannslífum í bókstaflegri merkingu en líka samskiptum og samböndum fólks.

Samband Karenar og Elísabetar er grunnurinn sem bókaflokkurinn hvílir á. Þaðan streymir manngæska og fyrirgefning sem oft er erfitt að finna í hraðskreiðu nútímasamfélaginu en reynast vera leiðarstef í bókaflokknum. Fyrirgefningin er til dæmis til umræðu hjá Karen Karlottu og Baddí, bestu vinkonu hennar, þegar þær fara í fyrirgefningarleik og ákveða að prófa að fyrirgefa öllum. Þær segja að vísu engum frá leiknum, því eins og Baddí segir: „Allir mundu halda að værum að verða band-hringlandi bilaðar“ (ÖF:43). Þegar Karen fréttir frá Jöra að amma hennar sé búin að bjóða ungum innbrotsþjófi að nafni Kolbeinn að búa hjá sér áttar Karen sig á því að amma hennar er heldur betur í fyrirgefningarleik: „Býður bara manni sem ætlaði að stela frá henni að búa hjá sér“ (ÖF:43).

Vinátta Kolbeins og ömmu er sterk og amma kemur ekki upp um hann þegar hún kynnist foreldrum hans, lýgur blákalt um Kolbein og nefnir ekki að þau hafi kynnst þegar hann braust inn til hennar. Karen Karlotta verður svolítið hissa þegar hún heyrir ömmu ljúga – því hún hefur áður sagt að ein lygi fæði af sér sjö aðrar – en af hverju ætti amma svo sem að koma upp um Kolbein þegar hann er löngu hættur öllu rugli? „Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri alveg rétt hjá ömmu þó að hún segði ekki alveg satt“ (ÖS:42). Sannleikurinn er því kannski minni dyggð en fyrirgefning og manngæska.

En þó að amma hafi fyrirgefið Kolbeini á hún erfitt með að fyrirgefa afa sem yfirgaf hana og pabba ungur að árum. Þegar hann kemur til Íslands á gamals aldri verða hvorki amma né pabbi neitt sérlega upprifin eins og sést á þessari skemmtilegu lýsingu: „En ég gleymdi aldrei ykkur hérna, sagði hann og horfði á ömmu. Svo á pabba. Þau litu bæði undan. Alveg eins og tröll sem höfðu fengið sól í augun“ (ÖF:50). Amma skefur ekki utan af hlutum og þegar afi segist vona að sér verði fyrirgefið og hann ætli sér ekki að dvelja lengi á Íslandi fær hann hiklaus viðbrögð: „Það líkar mér að heyra, sagði amma, verulega dónalega fannst mér“ (ÖF:51).

Eftir svaðilfarir afa með pabba og Kolbeini á leið upp að Lakagígum þar sem við liggur að þeir verði úti mýkist þó amma aðeins upp. En fyrst og fremst er það Elísabet og reynsla hennar sem verður til þess að amma skiptir um skoðun á afa þó að hægt gangi:

Hún Elísabet er búin að fyrirgefa nasistunum sem drápu næstum alla fjölskylduna hennar. Bara af því að þau voru gyðingar. Eða hún er að minnsta kosti hætt að hata þá. Hún segir að hatur eyðileggi fólk.
Amma leit snöggt á mig. Ég hata engan, sagði hún.
Æ, hvað mér létti. Mig langaði svo til að hún færi nú bara að fyrirgefa honum afa. (ÖF:118–119)

Í síðustu bókinni vinnur Guðrún áfram með sama viðfangsefni. Karen Karlotta verður tíu ára og hefur þroskast mikið á einu ári eins og reyndar öll fjölskyldan. Þá ákveður afi að bjóða allri öðruvísi fjölskyldunni í frí til Englands um haustið. Amma bregst hin versta við boðinu í fyrstu en ákveður svo að koma með, ekki síst fyrir áhrif Elísabetar sem er óþreytandi að minna á gildi fyrirgefningar og mikilvægi kærleikans. Sjálf missti hún góðan vin í fangabúðunum, aðeins nítján ára gamlan: „Mikið vildi ég nú gefa til að hann hefði allt í einu birst eins og vinurinn þinn, gamall og grár eins og við,“ segir hún, og þessi einföldu orð galopna augu ömmu (ÖS:84).

Þau fara því öll til York í Englandi; pabbi furðar sig á múrverkskunnáttu víkinganna, Karen Karlotta veltir vöngum yfir stríði og friði og afi gefur út bók um reynslu sína í heimsstyrjöldinni síðari. Sögunni lýkur svo með því að amma fyrirgefur afa og Karen Karlotta býður ömmu sína velkomna í Fyrirgefningarfélagið (ÖS:108).

Öðruvísi sögurnar snerta streng í brjóstum allra sem opna fyrir mikilvægum viðfangsefnum þeirra. Þær snúast um grundvöll mannlegra samskipta og hvernig við lifum með öðrum. Þar eru fyrirgefning og kærleikur lykilatriði, hvort sem er í samskiptum milli ömmu og afa, Karenar og Elísabetar eða Ísraela og Palestínumanna. Þegar þetta leiðarstef er fléttað saman við litríkar persónur og vænan skammt af spaugi getur útkoman ekki orðið annað en góð. Óhætt er að spá því að þessi bókaflokkur muni brátt teljast til sígildra sagna, eins og svo margar fyrri bækur Guðrúnar Helgadóttur.