Jólin á Íslandi

eftir Guðmund Steingrímsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 5-6. hefti 2001

 

Guðmundur SteingrímssonJólin eru heilmikil tónlistarhátíð. Það sem er hins vegar sérkennilegt við jólin sem tónlistarhátíð er að ár eftir ár hljóma sömu lögin aftur og aftur í eyrum landsmanna um mánaðarskeið. Í desember taka útvarpsstöðvarnar fram jóaplöturnar, kórarnir syngja sömu jólasálmana og börnin tralla sömu gömlu lummurnar á jólatréskemmtunum. Tilgangurinn með þessu hefðbundna jólaspili er auðvitað að bregða fólkinu í landinu til sjávar og sveita í jólaskap. Jólalögin eru órjúfanlegur hluti af jólahaldinu. Yrkisefnið í textum jólalaganna er nokkuð fjölbreytilegt, en þó er í þeim persónur og minni sem koma fyrir aftur og aftur. Þessi grein fjallar um jólin og textar jólalaganna verða lagðir til grundvallar. Í þeim endurspeglast ef vel er að gáð margar forvitnilegar hliðar á jólahaldi samtímans jafnframt því sem fjölmargar spurningar vakna um íslenska menningu og þjóðfélag því jólin skipa stóran sess á Íslandi.

Ætlunin er að grennslast yfir um það hvaða fyrirbæri þetta er, jólin. Ætlunin er ekki að býsnast og sveia yfir hamagangi jólanna heldur einungis að spá í spilin. Jólin eru auðvitað dásamleg. Það er að segja ef fólki tekst að hrökkva í jólaskap í miðjum smákökubakstri, tiltektum jólagjafaþeytingi, jólatréskaupum, skreytingum, jólaseríuviðgerðum, gjafaaustri í skóinn, jólaboðskvöðum, jólatrésskemmtanaerli og Visa-reikningsáhyggjum.

Samkvæmt samkomulagi útvarpsstöðvanna fara jólalögin ekki að hljóma fyrr en 1. desember, en þá fá líka landsmenn allir, ef svo má að orði komast, væna flís af þeim feita tónlistarsauð. Spurt er. Hvaða mynd af jólunum birtist okkur í textum jólalaganna gömlum og nýjum, ef við leyfum okkur ögn frjálslega túlkun en þó studda með vísunum í tölulegar og samfélagslegar staðreyndir.

 

Jólagjöfin í ár

Jólin er hátíð verslunar og viðskipta. Þess sér víða stað í jólatextunum. Gefðu mér eitthvert glingur, góði jólasveinn í nótt, söng Ellý Vilhjálms við lagið um Rúdolf hið rauðnefjaða hreindýr. Á margan hátt væru jólin einfaldari ef jólasveinninn sæi um að gefa gjafirnar. Spyrja má hvort sum þekkt jólalög og persóna jólasveinsins sem slík, sem hins gjafmilda, gamla manns með skegg – og er þá hér ekki vísað til íslensku jólasveinanna sem þó hafa færst nær þessari hugmynd á síðari árum, heldur hins „alþjóðlega“ rauða jólasveins á sleða með hreindýrum – innihaldi þá duldu ósk fólksins að jólasveinninn bjargi málunum. Það er vel skiljanlegt.

Tíu til tuttugu jólagjafir á einu bretti, sem allar eiga að lýsa væntumþykju og velvildar auk talsverðrar vitneskju um þarfir og langanir viðtakendanna, geta verið stór biti að kyngja fyrir hvern og einn einstakling ár eftir ár. Að mörgu leyti hafa kaupmennirnir gengið í hlutverk jólasveinsins hvað þetta verðar. Á hverju ári freista þeir þess að setja fram eitthvað sem heitir „jólagjöfin í ár“. „Jólagjöfin í ár“ er ætluð öllum – eitthvað sem allir geta keypt handa hverjum sem er. Þar með er málunum bjargað. Á meðal slíkra „jólagjafa í ár,“ eða glingurs sem „góði jólasveinninn í nótt“ gefur fólkinu má nefna Soda Stream og Cariol fótanuddtækið vinsæla.

Jólalög snúast mörg um jólagjafirnar. Skyldi það vera jólahjól, söng Sniglabandið og er það eitt laganna sem hljómar hvað mest í aðdraganda jólanna. Reyndar virðist það ekki endilega einungis vera einkenni á nýrri jólalögum að þau snúist um jólagjafnir, eins og ef til vill mætti ætla með hliðsjón af þeim vaxandi fjármunum sem er varið til jólagjafakaupa og þeim aukna sessi sem þær skipa, heldur eru þær einnig algengt yrkisefni í eldri söngvum. Jólagjafirnar sem þar birtast okkur eru vissulega öllu hófsamari og lögð er megináhersla á það, þá sem nú, að börnin fái gjafir, en sjaldan virðist vera minnst á gjafir milli fullorðinna. Þannig segir: Það á að gefa börnum brauð / að bíta í á jólunum / kertaljós og klæðin rauð / svo komist þau úr bólunum. Og Jóhannes úr Kötlum orti um jólin og spáði því að þá fengju börnin eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil.

En ljóst er að landsmenn setja talsvert meira í pakkana en kerti og spil núorðið. Samlögð kreditkortavelta Visa Íslands og Europay innanlands í desember síðastliðnum var 10,9 miljarðar króna. Samanlögð debetkortavelta var 13,1 miljarður. Samanlagt notuðu Íslendingar því kort innanlands fyrir 24 miljarða í desember 2000. Í viðtali í Morgunblaðinu 3. apríl á þessu ári sagði Ragnar Önundarson, framkvæmdastjóri Europay á Íslandi að það væri reyndar „útbreiddur misskilningur að Íslendingar séu mestir skuldarar á kreditkortum“. Þeir væri að vísu þjóða mestir kortanotendur, en þeir væri fyrst og fremst debetkortaþjóð, eins og aðrar þjóðir í Evrópu. Ragnar vitnar í orð starfsbræðra sinna í Evrópu sem útskýra debetkortanotkunina þannig að í Evrópu, og það með talið hér á landi, „séu þeir Marteinn Lúter og Kalvin að hafa áhrif“. Þeir hafa kennt fólki að skulda ekki.

Ein tilraun til þess að sporna gegn því sem virðist vera efnishyggja jólanna birtist í lagi sem Eiríkur Hauksson og Halla Margrét gerðu frægt ásamt kór Öldutúnsskóla. Lagið heitir „Ég og þú“. Í því syngur Halla Margrét: Jólagjöfin mín í ár / ekki metin er til fjár / Jólastjarnan hefur svarað mínum bænum. Og Eiríkur svarar: Ég vil líka gefa þér / sálina úr sjálfum mér / og ef viltu mig þá veistu hvar ég er. Og þau halda áframsaman í kór: Jólagjöfin er ég / og þú. / Það er sælla að gefa en þiggja o.s.frv. Það er athyglisvert að þetta er eitt af sífellt fleiri jólalögum sem samin eru um fullorðinsástir og tilhugalíf, eins og ég mun víkja að síðar, en ekki um börn eða frá sjónarhóli barna.

 

Börnin fara að hlakka til

Það er oft sagt að jólin séu hátíð barnanna. Í þessu felst hugsanlega athyglisverður undirtónn. Ef til vill er með þessu verið að gefa í skyn að jólin séu fyrst og fremst hátíð barnanna. Þau eru ekki hátíð fullorðan fólksins sem margt hvert á í sífellt meiri erfiðleikum með að viðhalda sálarfriði á meðan á jólahaldinu stendur. Páskarnir höfða líklega betur til þeirra sem í raun og veru vilja slaka á og stunda íhugun, en verslunareigendur og hagsmunaaðilar hafa enn ekki náð að búa til neinn tiltakanlegan eril í kringum páskahátíðina, sem þó táknar ekki síðri tímamót í kristnum sið, Jólin, aftur á móti, snúast um að rumpa af hellingi af venjum og siðum, nánast eins og samkvæmt fyrirframskrifuðu handriti – svona eins og í einu allsherjar „Nú skal segja, nú skal segja, hvernig allir eiga að gera“ – sem ekki síst snúast um að gleðja börnin, sem er vitaskuld vel.

En líka má segja að jólin snúist á einhvern hátt um að finna og gleðja barnið í sjálfum okkur. Það er athyglisvert að helstu jólakvæðin sem stórskáld þjóðarinnar hafa samið eru samin af þeim á fullvaxtarárum þeirra, en fjalla aftur á móti um þau sem börn. Skáldin á gamals aldri lýsa ekki jólunum frá eigin sjónarhóli þá stundina, heldur þeim sjónarhóli sem þá rekur í minni til að þeir hafi horft á jólin frá í bernsku sinni. Bráðum koma blessuð jólin, orti Jóhannes úr Kötlum, börnin fara að hlakka til. Í þessari línu virðist felast, þegar hún er skoðuð eins og sér, dálítill uppgjafartónn, líkt og Jóhannes sé hér að segja með örlitlum orðalagsbreytingum: „Æ, bráðum koma þessi blessuðu jól“. Börnin hlakka þá alla vega til, en ekki ég neitt sérstaklega. Ef til vill var Jóhannes hættur að hlakka til en orti hins vegar kvæði til þess að reyna að upplifa aftur barnið í sjálfum sér og þar með einhvern hátt hinn sanna jólaboðskap.

Þetta er í öllu falli rauði þráðurinn í kvæði Matthíasar Jochumssonar. „Jólin 1891“. Matthías lýsir því hvernig hann man mæta vel „meir en hálfrar aldar jól“. Man það fyrst, er sviptur allir sút, yrkir Matthías, sat ég barn með rauðan vasaklút. Hann lýsir því hvernig hann man enn ljóslifandi orð móður sinnar, þar sem hún segir honum að þessi hátíð “gefi okkur guð“, og að það sé guð sem skapi „allan lífsfögnuð“. Himnesk birta skein í sál Matthíasar á bernskujólunum og hann endar kvæði sitt á þessum orðum: Alrei skyn né skilningskraftur minn / skildi betur jólaboðskapinn.

Samkvæmt þessu nam Matthías ekki lengur jólaboðskapinn fyllilega. Aðeins sem barn gat hann upplifað hann í tærum einfaldleika sínum. Stefán frá Hvítadal tekur í sama streng og Matthías í kvæði sínu „Jól“. Þau lýsa fegurst, yrkir Stefán, er lækkar sól / í blámaheiði / mín bernsku jól. Og síðar í kvæðinu ákallar hann hin einu sönnu jól bernsku sinnar með þessum orðum: Ó, blessuð jólin / er barn ég var/ Ó, mörg er gleðin / að minnast þar.

Ótal jólalagatextar samtímans, samdir af fullorðnum eins og gefur að skilja, reyna með sama hætti að miðla hinum sanna anda jólanna með því að lýsa þeim sem hátíð bernskunnar. Ljósadýrð loftin gyllir, yrkir Ólafur Gaukur við lagið „Hátíð í bæ“, lítið hús yndi fyllir / og hugurinn heimleiðis leitar því æ / man ég það er hátíð var í bæ. Og hann heldur áfram að lýsa því hvernig jólahald bernskunnar náði hápunkti þegar söngurinn dvínaði og svefninn sótti á og systkinin tvö gátu ei betur en sofnað mömmu sinni hjá.  Það er auðvitað skiljanlegt að þannig hápunktur verði ekki endurtekin frameftir öllum aldri. Í öllu falli er það grundvallaratriði í kveðskap og textum um jólin að falleg og sönn jól verða best greind, og jafnvel aðeins greind, með augum barnsins.

 

Jólalögin

Börnin borðuð

Reyndar er samband jólanna og barnanna athyglisvert af öðrum sjónarhóli einnig. Grýla, hin dularfulla íslenska jólanorn, var upphaflega hvorki meira né minna en barnafæla. Hún át börn, var sagt. Hún var barnaæta. Jólasveinarnir voru sama skapi barnaskelfar. Á tuttugustu öld breyttist þetta smám saman, enda ekki á neinn hátt í anda nútímajólahalds að gömul kona éti börn. Reyndar er hugmyndin um Grýlu og jólasveinanna sem illmenni svo fjarlæg nú á dögum, að það er við búið að magir eigi hreinlega erfitt með að skilja hvað Íslendingar voru að hugsa fyrr á öldum. Eitt er víst að þetta breyttist snarlega með aukinni áherslu á verslun og viðskipti. „Smám saman verða jólasveinarnir smáskrýtnir vinir barna fremur en fjendur,“ skrifar Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, „færa þeim gjafir, syngja fyrir þau og segja sögur.“ Árni telur að verslanir hafi ekki síst stuðlað að þessari þróun, „með því að nota jólasveina í búðargluggum og seinna blaðaauglýsingum að erlendri fyrirmynd“. (Árni Björnsson: Saga daganna, Mál og menning, Reykjavík 1993, bls. 352).

Þótt jólasveinarnir hafi hlotið farsæla lendingu, þá veit þjóðin varla hvað á að gera við Grýlu. Dánarúrskurður hefur reyndar verið kveðin upp fyrir þó nokkru. Nú er hún gamla Grýla dauð / gafst hún upp á rólunum. Við það situr, þótt ef til vill skilji fáir hvaða rólur þettaeru sem Grýla gafst upp á og af hverju hún dó af því að gefast upp á þeim. Í öllu falli er þögult samkomulag um að þessi stórhættulega kona komi ekki nálægt börnunum okkar.

Þjóðin hefur hins vegar verið smá tíma að ná jafnvægi í samskiptum við börnin yfir hátíðirnar. Skiljanlegt er að eftir allar hrellingarnar fyrr á öldum hafi Íslendingar vijað koma betur fram við afkvæmi sín. Ef til vill hafa þeir sem ólust upp undir ógn Grýlu haft þar einhver áhrif. Í öllu falli var tekið upp á því af miklum móð hér á landi að uppúr 1950 að gefa í skóinn. Árni Björnsson talar um að siðurinn hafi orðið „mjög hamslaus á Íslandi“ fyrst eftir að hann var tekinn upp. Árni greinir svo frá að stundum hafi komið „stórar fjárfúlgur í skóinn“, og segir jafnframt að slíkt hafi valdið „bæði metingi og sárindum þegar börn báru sig saman í skóla, og leiðindum fyrir alla uppalendur.“ Þetta leiddi til þessað fjallað var um málið í Ríkisútvarpinu og „[á]rangurinn varð sá,“ skrifar Árni, „að upp úr 1970 tókst smám saman að innræta þá eðlilegu meginreglu að ekkert kæmi í skóinn fyrr en fyrsti sjólasveinninn kemur til byggða 13 eða 9 nóttum fyrir jól, og ekki væri annað en smáræði skónum.“ (saga daganna, bls. 353).

 

Jólin og erótík

Mér hefur verið tíðrætt um áhersluna sem lögð er á börn í jólahaldinu. Áherslan á börn og sjónarhó bernskunnar er auvitað skilanleg með hliðsjón af því að tilefni jólanna er fæðing barns. Hjá venjulegu fullmennsku og fullvaxta fólki, sem ekki er eingetið, bendir fæðing barns þó jafnframt til þess að kynmök hafi átt sér stað og því má kannski segja að hátíðarhöld vegna fæðingar barns séu líka hátíðarhöld ástar og erótíkur. Á það hefur hins vegar verið lögð lítil áhersla, nema auðvitað að áherslunni á jólin sem hátíð fjölskyldunnar sé jafnframt ætlað að innihalda óskir um ástríki og unaðssemdir innan hennar. Lagið „Ég sá mömmu kyssa jólasvein“ bregður upp athyglisverðri mynd að þessu leyti. Lítið barn sér mömmu sína kyssa jólasvein í stofunni. Jólasveininn hlær út um skeggið þegar móðirin kítlar hann. Hér eiga sér augljóslega stað ástarleikir, með búningum og örðu tilheyrandi.

Lagið spilar með athyglisverðum hætti inn á efasemdir um barnatrúna. Barnið horfir á mömmu sína og jólasveininn kyssast og kitla. En það dregur þá ályktun að líklega hefði pabbi sinn hlegið líka, ef hann hefði séð mömmu kyssa jólasveininn. Aðkoman að þessum ástaratlotum veldur barninu miklum heilabrotum. Barnið er í mikilli klemmu sem við getum lýst sem svo: a) mamma er að kyssa jólasvein, b) mamma á ekki að kyssa annan en pabba, c) ef jólasveinninn er pabbi minn þá er jólasveininn ekki til og ég hef lifað í blekkingu. NIÐURSTAÐA: Jólasveinninn er nú meiri karlinn og pabbi myndi líklega hlægja líka, með mömmu, ef hann sæi mömmu kitla hann og kyssa.

Það tilheyrir jólaveruleika hvers og eins að missa barnatrúna. Við það breytast jólin. Jólin verða þá ekki síður tækifæri til að sýna hvert öðru ástúð. Það verður einn megintilgangur jólanna. Spurningin er hvort við breytumst úr þiggjendum, sem við erum óneitanlega sem börn á jólunum, og yfir í meiri gefendur. Ég hef áður minnst á lagið „Ég og þú“ sem fjallar um ástfangið par og vilja þau gefa hvort öðru sjálft sig í jólagjöf. Í praxís gæti orðið úr því nokkuð magnaður ástarleikur með jólaslaufum og sellófón, en burtséð frá því er hugsunin þessi: Þegar barnatrúnni sleppir, verða jólin tími elskenda. Þetta túlkar Helga Möller í „Heima um jólin“: Vertu hér hjá mér um jólin / þá mun ég ætíð verða þín. / Ég hélt að hamingjan hefði yfirgefið mig / en núna veit ég vel / að ég mun ætíð elska þig. Ellen Kristjánsdóttir túlkar þessar sömu tilfinningar í laginu: „Minn eini jólasveinn“ með eftirfarandi hætti: Því hvar sem leiðin liggur / get ég sagt þér þú verður einn / alltaf í huga mínum / Þú ert minn einni jólasveinn. Og Helgi Björnsson syngur í jólalaginu „Ef ég nenni“: Gimsteina og perlur / gullsveip um enni / sendi ég henni / ástinni minni. / Öll heimsins undur / ef ég þá nenni / færi ég henni / ástinni minni.

 

Uppgefin og vitstola?

Í skóginum stóð kofi einn, / sat við gluggann jólasveinn. / Þá kom lítið héraskinn / sem vildi komast inn. Það er athyglisvert að mörg jólalög, einkum þau sem sungin eru eftir að jólahaldið hefur náð hámarki, það er að segja á jólatrésskemmunum fyrir börn sem haldnar eru milli jóla og nýárs, eru mörg hver virkilega furðuleg, nánast súrrealísk. Lagið „Í skóginum stóð kofi einn“, er dæmi um þetta. Þar er brugðið upp einfaldri en skringilegri mynd af jólasveini sem stendur við glugga í kofa í skógi og héri kemur þar að. Hérinn segir: „Jólasveinn ég treysti á þig, / veiðimaður skýtur mig!“ Og Jólasveininn svarar: „Komdu litla héraskinn / því ég er vinur þinn.“ Og þá er laginu lokið. Jóalsveininn er sem sagt vinur hérans, sem er fallegt og gott, en engu að síður er það síður eitthvað sem fólki dettur fyrst í hug þegar jólasveininn er annars vegar, að hann sé vinur hérans.

Aðrir textar eru einnig sérkennilegir. Til að mynda: Gekk ég yfir sjó og land / og hitti þar einn gamlan mann. / sagði svo og spurði svo / Hvar áttu heima?  Hér gengur viðkomandi, líkt og Frelsarinn, yfir sjó og land, hitti þar gamlan mann og segir fyrst, og spyr svo – sem er athyglisvert –, líkt og krakki spyr félaga sína á leikskóla: Hvar áttu heima? Ekki fylgir sögunni hver þessi gamli maður er, en leikurinn fer að æsast þegar hann – ef við gefum okkur að hér sé ætíð sami gamli maðurinn á ferð – í verulegri óákveðni sinni, segist fyrst eiga heima í Klapplandi, síðan Stapplandi, þá Grátlandi, Hnerrlandi, Hlælandi og Hvísllandi. Lagið nær hápunkti í einkennilegum þjóðernisblossa, þegar fólk í dansinum og söngnum réttir út hendur og syngur með stolti að gamli maðurinn eigi heima á Íslandi.

Við lestur þessara jólalagatexta koma upp í hugann kenningar rússneska bókmenntafræðingsins Mikhails Bakhtin. Bakhtín hélt því fram að ákveðið mynstur einkenndi það þegar þorri manna í þjóðfélögum ákveður, eða fær tilefni til að sleppa af sér beislinu, eins og gleggst dæmi er um í kjötkveðjuhátíðum í Suður-Ameríku og ýmsum hátíðum í Evrópu. Í stuttu máli fær almenningur vettvang til að snúa öllu á haus, gera kóngafólkið að betlurum og betlara að kóngum, klæðast furðufötum og gefa rökleysunni og samhengisleysinu lausan tauminn, Jólatrésskemmtanir komast auðvitað ekki með tærnar þar sem kjötkveðjuhátíðir hafa hælana, en engu að síður er hér þráður sameiginlegur. Í samhengi við allan jólaskarkalann sem á undan er genginn er ekki óeðlilegt að fólk líkt og kasti frá sér höndum, segi, „æ, hvaða stress er þetta“ og steypi sér af krafti í hreint og tært samhengisleysi og syngi með vitfirringslegu brosi á vör: Adam átti syni sjö / sjö syni átti Adam. / Adam elskaði alla þá / og allir elskuðu Adam / Hann sáði, hann sáði / hann klappaði saman lófunum, / stappaði niður fótunum, /ruggaði sér í lendunum / og snéri sér í hring.

Samkvæmt þessu hefur verið sjón að sjá Adam þá, dansandi á akrinum, fúlskeggjaðan ættföður mannanna í góðu stuði. Það er helst að John Travolta kemur upp í hugann. Líklega má þó segja að þessi lög orki ekki furðuleg á fólk lengur og hafi því ekki þann mátt fáránleikans sem ég eigna þeim hér. En einhver samdi þessa texta einhvern tímann og það sem er skemmtilega við það er að hann eða hún gerði það í tilefni jólanna. Og hvaða erindi á gamall maður í Klapplandi við jólin, gæti maður spurt sig, það er að segja, ef maður væri með fullkomlega réttu ráði.

 

Myndin af jólunum

Einhveri mögnuðustu og dularfyllstu mynd af séríslenskum jólum er brugðið upp í laginu „Jólasveinar ganga um gólf“. Þar ganga jóalsveinarnir um gólf með gildan staf í hendi. Móðir þeirra, sem er skapstirð að vanda, flengir þá með vendi. Við sjáum hér fyrir okkur níu eða þrettán, eða jafnvel fleiri,eldri menn meðskegg ganga í  hring og gamla konu lemja þá með priki. Senan er væntanlega hellir í óbyggðum Íslands á miðri 17. öld. Við þessa mynd tekur lagið mjög svo óvænta stefnu, þegar fáránleikinn fær svo að segja lausan tauminn í þessum línum: Upp á stól stendur mín kanna / níu nóttum fyrir jól þá kem ég til manna. Samhengið milli þess að kanna standi upp á stól og jólasveinarnir fara til mann er ekki alveg augljóst.

Það eru margar hliðar á jólunum. Í þessari grein hef ég lagt áherslu á nokkra hluti, sem ég til einkenna jólahaldið og þar með íslenska þjóðarsál að stóri leyti: a) klassísk íslensk jólalög eru skrýtin, b) skáldin skildu bara jólin þegar þeir voru börn, c) ekki fyrr en á síðari hluta 20. Aldar lærði þjóðin hvernig á að gleðja afkvæmi sín, d) Grýla er úti, e) með kynþroskanum víkur barnatrúin og jólasveinninn skríður upp í bólið að kilta konuna sína og f) við fögnum jú fæðingu frelsarans og allt það, en nú er þörf okkar fyrir að gleðja hvert annað orðið nærtækara tilefni til að halda hátíð. Þetta er túlkað með svolítið Ameríku-skotinni poppheimspeki í jólalögum, þar sem ástin á guði – sem hvort sem er hefur alltaf bara verið í yfirfærði merkingu – hefur vikið fyrir tilhugalífi og rómantík.

Ofan á þetta er lögð áhersla á frið og ljós og dýrð og englasöng. Í íslenskum jólalögum er reyndar að finna mjög sterka áherslu á ljós, nánast fetisisma fyrir ljósi. Ranghildur Gísladóttir syngur í „Lítið jólalag“: Í myrkir og kulda er gott að hlýja sér / við draum um ljós og betri heim. Myndin af íslensku jólunum er mörkuð af mikilli áherslu á myrkrið fyrir utan og ljósið fyrir innan. Ljósadýrð og kertaljós / lýsa upp allt húsið, syngir Sigríður Beinteinsdóttir í „Senn koma jólin“. Líður að kveldi / líður að jólum / lýsir af eldi / ljósadýrð, syngur Stefán Hilmarsson í „Líður að jólum“. Hér í desembermyrkrinu á hjara veraldar er líklega einföld skýring á þessari áherslu á ljós. Alla vega kemur greinilega fram í textum jólalaganna sterk krafa um góða og fallega birtu.

Íslendingar eru jólafólk. Við tökum jólin föstum tökum og við förum raunverulega í hátíðarskap á jólunum. Gunna fer á nýja skó, Siggi á síðar buxur og Solla á bláan kjól. Pabbi er í ógnarbasli með flibbann sinn og ilmurinn úr eldhúsinu er lokkandi. Indæla steik við fáum síðan upp á stærðar fat. Jólatréð í stofunni stendur, stjörnuna glampar á. Kertin standa á grænum greinum gul og rauð og blá. Eins og kór Öldutúnsskólasögn svo fagurlega: Svona eru jólin, svona eru jólin, svona eru jólin.