Salman Rushdie

Salman Rushdie heldur á bók sinni Söngvar Satans

Eftir Salman Rushdie

Árni Óskarsson þýddi.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 1990

 

Nú er ár liðið frá því ég tók síðast til máls til varnar skáldsögu minni Söngvar Satans. Ég hef verið þögull, enda þótt mér sé ekki tamt að þegja, vegna þess að mér fannst rödd mín einfaldlega ekki nógu sterk til að yfirgnæfa þau hróp sem beindust gegn mér.

Ég vonaðist til að aðrir töluðu máli mínu, og margir hafa gert það með ágætum, þeirra á meðal hópur lesenda úr röðum múslima, að vísu lítill en vaxandi, bæði rithöfundar og fræðimenn. Aðrir, meðal annarra kreddumenn og kynþáttahatarar, hafa reynt að færa sér mál mitt í nyt (til dæmis með því að nota nafn mitt til að hæðast að börnum og fullorðnum af Asíuættum, hvort sem um múslima var að ræða eða ekki) á ógeðfelldan, sóðalegan og niðurlægjandi hátt að mínu mati.

Styrinn stendur um skáldsögu, hugsmíð, sem ætlað er að verða metin sem bókmenntir. Mér hefur oft virst að fólk með allskonar skoðanir á málinu hafi misst sjónar á þeirri einföldu staðreynd. Söngvum Satans hefur verið lýst og þeir meðhöndlaðir sem lélegt sagnfræðirit, andtrúarlegur áróðurspési, afsprengi alþjóðlegs samsæris kapítalista og gyðinga, morð („hann hefur deytt í okkur hjartað“), og verk manns sem helst mætti líkja við Hitler og Atla Húnakonung. í slíku írafári fannst manni það þjóna litlum tilgangi að hamra á því að hugsmíðin væri tilbúningur.

Leyfið mér að útskýra: Ég er ekki að reyna að halda því fram að Söngvar Satans séu „bara skáldsaga“ og þurfi þess vegna ekki að taka alvarlega, eða einu sinni að vekja ákafar deilur. Ég lít ekki svo á að skáldsögur verði léttvægar fundnar. Þær sem mér eru kærastar eru þær sem leitast við að endurnýja tungutak, form og hugmyndir, þær sem reyna að gera það sem enska orðið novel virðist fela í sér: að sjá heiminn á nýjan hátt. Ég geri mér fulla grein fyrir að slíkar tilraunir geta valdið úlfúð og reiði.

Það sem mig hefur hins vegar langað til að segja er að þau sjónarmið sem ég hef alla mína ævi leitast við að leggja til grundvallar þessari bókmenntalegu nýsköpun eru ekki sprottin af sjálfshatri, afneitun eigin kynþáttar í anda Tómasar frænda eins og sumir hafa sakað mig um, heldur þvert á móti af þeim ásetningi mínum að móta skáldskaparmál og skáldskaparform sem nýtast mætti til að tjá reynslu þeirra þjóða sem fyrrum voru nýlendur og enn eiga undir högg að sækja. Ef eitthvað er, þá eru Söngvar Satans heimssýn hins burtflutta. Þeir eru einmitt skrifaðir út frá þeirri reynslu af rótleysi, aðskilnaði og ummyndun (hægfara eða hraðri, sársaukafullri eða ánægjulegri) sem hinn burtflutti býr við, og þar er að mínu mati hægt að sjá myndhverfingu mannkyns alls.

Sagan snýst um nokkrar persónur sem flestar eru breskir múslimir, eða sprottnar úr þeim jarðvegi, án þess að rækja mikið trú sína, og glíma einmitt við þau alvarlegu vandamál sem hafa komið upp á yfirborðið í tengslum við bókina, vandamál blöndunar og einangrunar, vandann að sætta hið gamla og nýja. Þeir sem snúast nú ákafast gegn skáldsögunni eru þeirrar skoðunar að það muni óhjákvæmilega veikja og rústa þeirra eigin menningu ef hún blandist annarri. Ég er á öndverðum meiði. í Söngvum Satans er haldið á lofti merki blöndunar, óhreinleika, víxlverkunar, þeirrar umbreytingar sem verður þegar manneskjur, menningarheildir, hugmyndir, stjórnmálastefnur, kvikmyndir og söngvar tengjast á nýjan og óvæntan hátt. Þar er blendingnum fagnað og látinn í ljós uggur um óbilgirni hins Hreina. Hrærigrautur, kássa, sittlítið af hverju, þannig verður nýjung til. Það er hið stórkostlega tækifæri sem viðamiklir fólksflutningar færa veröldinni, og ég hef reynt að grípa það. Söngvar Satans eru hlynntir því að eitthvað sé í deiglunni, að eitthvað sé á seyði. Þeir eru ástaróður til blendingseðlis okkar.

I gegnum mannkynssöguna hafa postular hreinleikans, þeir sem hafa talið sig geta útskýrt allt, leitt hörmungar yfir venjulegar, ráðvilltar manneskjur. Líkt og margar milljónir manna er ég bastarður sögunnar. Kannski erum við það öll, hvort sem við erum svört, brún eða hvít, og við flæðum inn í hvert annað, eins og ein sögupersóna mín sagði einhvern tíma, líkt og kryddtegundir þegar maður eldar.

Glíma hreinleika og saurgunar, sem er líka glíma Robespierre og Dantons, glíma munksins og óstýriláta drengsins, glíma siðavendni og óknytta, þeirrar forheimskunar sem í þrælsóttanum býr og stráksskapar, þessi glíma er ekki ný af nálinni; ég segi, megi hún halda áfram. Manneskjan skilur sjálfa sig og skapar sér framtíð með því deila og takast á og draga í efa og segja hið ósegjanlega; ekki með því að kikna í hnáliðunum, hvort heldur er fyrir guðum eða mönnum.

Söngvar Satans eru vonandi verk sem í er róttækt andóf og efasemdir og nýsköpun. En þeir eru ekki sú bók sem haldið hefur verið fram að hún sé, sú bók sem geymir „ekki annað en óþverra og dónaskap og níð“ og hefur ýtt fólki út á göturnar út um allan heim.

Sú bók er einfaldlega ekki til.

Ég vil segja þetta við hina fjölmörgu venjulegu, heiðarlegu og sanngjörnu múslima, á borð við þá sem ég hef þekkt allt mitt líf, og hafa veitt mér mikið af innblæstrinum í verk mitt: að vera hafnað og hrakyrtur af, svo að segja, sínum eigin sögupersónum er áfall fyrir hvern rithöfund. Mér er ljóst að margir múslimar hafa orðið fyrir áfalli líka. Kannski væri gagnkvæm viðurkenning á því gagnkvæma áfalli spor í rétta átt. Reynum að treysta á góða trú hver annars.

Ég geri mér grein fyrir að þarna er til mikils mælst. Það er búið að nota nóg af stóryrðum. Múslimar hafa verið kallaðir villimenn og siðleysingjar eða eitthvað ennþá verra. Ég hef líka fengið minn skerf af svívirðingum. Samt trúi ég því enn — kannski er ég tilneyddur — að mögulegt sé að koma á gagnkvæmum skilningi, án þess að varpa tjáningarfrelsinu fyrir róða.

Til þess þarf jákvætt hugarfar; við þurfum öll að fallast á að aðrir aðilar málsins komi fram, og hafi komið fram, í góðri trú.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að bara ef við gætum fallið frá ásökuninni um „dónaskap og níð“, sem kemur í veg fyrir að þeir sem á hana trúa viðurkenni Söngva Satans sem metnaðarfullt eða merkilegt verk af einhverju tagi, þá gætum við að minnsta kosti komið okkur saman um að hafa ólíkar skoðanir á því sem raunverulega stendur í bókinni, á umdeildu ágæti hins heilaga og hins jarðneska, á því hvers virði hreinleikinn eða hrærigrauturinn er, og á því hvernig manneskjur verða heilar: með því að tilbiðja Guð eða með því að unna sínum meðbræðrum og -systrum.

Og til að ljúka þessari röksemdafærslu verðum við að víkja um stund aftur að bókinni eins og hún er, ekki bókinni eins og henni hefur verið lýst í ýmsum áróðursritum sem dreift hefur verið til sanntrúaðra, ekki „ólæsilegum“ texta goðsögunnar, ekki tveimur köflum sem kippt hefur verið út úr heildinni; ekki bita af rengi heldur öllum aumingja hvalnum.

Ég tek fram áður en lengra er haldið: ég hef aldrei litið á þennan ágreining sem baráttu vestræns frelsis og austræns ófrelsis. Með réttu hrósa menn sér af frelsinu á Vesturlöndum, en margs konar minnihlutahópum finnst með jafn miklum rétti þeir vera útilokaðir frá því að nýta sér þetta frelsi að fullu — vegna kynþáttar, kynhneigðar, stjórnmálaskoðana; á hinn bóginn þekki ég af ævilöngum kynnum mínum af Austurlöndum, frá Tyrklandi og Íran til Indlands og Pakistans, að fólk þar um slóðir er fullt eins ákafir talsmenn frelsis og hvaða Tékki, Rúmeni, Þjóðverji, Ungverji eða Pólverji sem er.

Hvernig öðlast menn frelsi? Menn taka sér það: það er aldrei gefið. Til að verða frjáls, verður maður fyrst að ganga út frá því að maður hafi rétt á frelsi. Þegar ég skrifaði Söngva Satans gekk ég út frá því að ég hefði verið, og væri, frjáls maður.

Hvað er tjáningarfrelsi? Án frelsis til að hneyksla hættir það að vera til. Án frelsis til að ráðast gegn, jafnvel hæðast að hvers konar fyrirskipuðum sannleika, m.a. af trúarlegum toga, hættir það að vera til. Ef tungan og ímyndunaraflið eru hneppt í fjötra deyr listin, og þar með svolítið af því sem gerir okkur að manneskjum. Söngvar Satans eru, að hluta til, uppgjör trúleysingja við trúarandann. „Ef við skrifum á fordómafullan hátt um trúmál eins og þau séu eins konar blekking eða fals, gerum við okkur þá ekki sek um hroka, um að þröngva okkar lífsskilningi upp á fjöldann?“ spyr einn Indverjinn í sögunni. Samt sem áður býr sagan yfir efasemdum, óvissu, jafnvel hneykslunarefnum sem trúuðu fólki kann að vera á móti skapi. Slíkar aðferðir hafa samt sem áður lengi verið viðurkenndur þáttur í bókmenntum, meira að segja Islams.

Hverju andæfir skáldsagan? Alltént ekki trúfrelsi fólks, enda þótt ég sé trúlaus. Hún andæfir hvað greinilegast fyrirskipuðum rétttrúnaði af öllu tagi, því viðhorfi að veröldin sé alveg greinilega Þetta og ekki Hitt. Hún andæfir endalokum rökræðunnar, deilunnar, andófsins. Andæft er trúarlegri einangrunarstefnu hindúa, þeirri tegund hryðjuverkastarfsemi sikha sem sprengir flugvélar, heimsku kristinnar sköpunarhyggju jafnt sem þröngsýnni viðhorfa Islams. En slíkt andóf er langt frá því að vera „dónaskapur og níð“. Ég hef enga trú á því að flestum þeirra múslima sem ég þekki sé það nokkur þyrnir í augum.

Það sem er þeim þyrnir í augum eru staðhæfingar eins og þessar: „Rushdie kallar Múhammeð spámann homma“, „Rushdie segir að Múhammeð spámaður hafi beðið Guð leyfis að eðla sig með öllum konum í heiminum“, „Rushdie segir að eiginkonur spámannsins séu hórur“, „Rushdie kennir spámanninn við djöful“, „Rushdie kallar fylgismenn spámannsins úrþvætti og rœfla„, „Rushdie segir að allur Kóraninn sé verk Djöfulsins.“ Og svo framvegis.

Ég varð agndofa af að fylgjast með flóði þvílíkra staðhæfinga og að sjá hvernig þær hafa öðlast sannleiksígildi í krafti endurtekningarinnar. Ég varð agndofa þegar ég komst að því að fólk, milljónir á milljónir ofan, væri tilbúið að dæma Söngva Satans og höfund þeirra, án þess að lesa bókina, án þess að grafast fyrir um hvaða mann þessi náungi hefði að geyma, á grundvelli aðdróttana sem þessara. Ég varð agndofa þegar ég komst að því að fólki er alveg sama um listina. Samt er eina leiðin til að skýra málin, eina leiðin fyrir mig til að reyna að setja þá skáldsögu sem ég skrifaði í raun og veru í stað þeirrar sem ekki er til, sú að segja ykkur sögu.

Söngvar Satans er sagan um tvo menn sem eru hræðilega klofnir. Hvað annan þeira snertir, Saladin Chamcha, er klofningurinn af jarðneskum og samfélagslegum toga: segja má að hann sé rifinn milli Bombay og London, Austur- og Vesturlanda. I hinum, Gibreel Farishta, er tvídrægnin andlegs eðlis, klofningur í sálinni. Hann hefur glatað trúnni og togstreita hans felst í því að hann hefur ákaflega sterka þörf fyrir að trúa en er ekki lengur fær um það. Sagan er „um“ það hvernig þeir kappkosta að verða heilir menn.

Af hverju „Gibreel Farishta“ (Gabríel Engill)! Ekki til að ausa yfir hinn „raunverulega“ Gabríel Erkiengil „dónaskap og níði“. Gibreel er kvikmyndastjarna, og kvikmyndastjörnur svífa yfir okkur í myrkri, hátt yfir lifandi fólk hafnar, mitt á milli okkar og guðdómsins. Með því að gefa Gibreel nafn engils var hann gerður að jarðneskum samnefnara hálfguðdómlegra engla. En eftir að hann missir trúna stafa allar hans hremmingar af nafninu.

Chamcha lifir af. Hann verður heill með því að snúa aftur til uppruna síns og, það sem meira er, með því að horfast í augu við og læra að takast á við hin stóru sannindi ástar og dauða. Gibreel ferst. Hann getur hvorki farið að tilbiðja Guð á nýjan leik, né látið jarðneska ást koma í staðinn. Að lokum sviptir hann sig lífi þegar hann getur ekki afborið sálarkvalirnar lengur.

Mesta kvalræði hans birtist honum í draumum. Í þessum draumum leikur hann hlutverk nafna síns, Erkiengilsins, og verður vitni að og tekur þátt í atburðarás ýmissa harmrænna frásagna sem fjalla um eðli og afleiðingar opinberunar og trúar. Það eru ekki bara efasemdir sem setja svip á þessa drauma. Trúlaus landeigandi hefur horft upp á allt heimaþorp sitt og konu sína drukkna í Arabíuflóa eftir að hafa lotið leiðsögn skyggnrar stúlku sem haldið hafði því fram að vötnin mundu opnast svo að pflagrímarnir kæmust til Mekka, en sannfærist svo um kraftaverk á sama andartaki og hann deyr, er hann opnar hjarta sitt fyrir Guði, og „sér“ vötnin klofna. En í öllum draumunum eru átökin milli trúar og efasemda sett á svið.

Teikning af Rushdie eftir Lurie.

Teikning af Rushdie eftir Lurie.

Í sársaukafyllstu draumum Gibreels, þeim sem styrinn stendur um, er sagt frá upphafi og vexti trúarbragða svipuðum Islam, í töfraborg úr sandi sem kölluð er Jahilía (það er „fáfræði“, en svo kalla Arabar tímabilið fyrir Islam). Næstum allt sem kallað hefur verið „dónaskapur og níð“ er tekið úr þessum draumköflum. Það fyrsta sem rétt er að taka fram um þessa drauma er að þeir eru hrœðilega sársaukafullir fyrir dreymandann. Þeir eru „næturhefnd, refsing“ fyrir það að hann er genginn af trúnni. Þessi maður, sem reynir í örvæntingu að endurheimta trúna, er gagntekinn, kvalinn, af efasemda- og vantrúarvitrunum og spurningum og staðhæfingum sem brjóta í bága við trúna og verða æ öfgakenndari eftir því sem á líður. Hann reynir árangurslaust að flýja þær með því að berjast við svefninn; en síðan flæða sýnirnar yfir landamæri draums og vöku, þær fara að smita daglegt Iíf hans; þær gera hann með öðrum orðum sturlaðan. Draumaborgin er ekki kölluð „Jahilía“ til að „dára og níða“ Mekka Sharif, heldur vegna þess að trúleysið hefur varpað Gibreel aftur í það ástand sem orðið lýsir. Tilgangur þessara kafla er ekki fyrst og fremst að lasta eða „afsanna“ Islam, heldur að lýsa örvæntingarfullri sálu, að sýna að tapi maður Guði eigi hann á hættu að týna lífi sínu.

 

Séu „hneykslanlegu“ kaflarnir skoðaðir gegnum þessa linsu, verður margt skýrara. „Atvikið í kringum satanísku versin“, sem svo er kallað, hálf-sagnfræðileg frásögn af því að í opinberun Múhammeðs virtist um hríð gælt við þann möguleika að hleypa þremur heiðnum gyðjum inn í trúarbrögðin, sem hálfguðum, eða þeim milligönguaðilum sem erkienglar voru, og síðan því hvernig hann svo afneitar þessum versum af því að þau séu innblásin af djöflinum — þessu atviki er, fyrst og fremst, ætlað vera meginóvissuatriðið í þeim draumum sem ofsækja dreymandann með því að gera ljóslifandi þær efasemdir sem hann hefur skömm á en getur ekki lengur vikið sér undan.

Öfgafyllsti efasemdakaflinn í skáldsögunni er þar sem sögupersónan „Persinn Salman“ — sem ekki er svo nefndur til að „dára og rægja“ Salman al-Farisi, félaga Múhammeðs, heldur fremur sem háðsk vísun til höfundar skáldsögunnar — viðrar hinar mörgu efasemdir sínar. Vissulega er tungutakið hér þróttmikið, háðst, og ekki öllum að skapi, en hafa verður í huga að þegar Gibreel er vakandi er hann grófyrtur náungi, og það væri kynlegt ef draumverurnar væru aldrei eins grófar eða kjaftforar og sá sem dreymir þær. Einnig ber að hafa í huga að þetta gerist seint í draumnum, þegar ekki bara gömlu sannindin eru að hrynja heldur er dreymandinn sjálfur að brotna saman, orðinn verulega truflaður, meðal annars vegna þeirra efasemda sem látnar eru í ljós með svo ofsafengnum hætti.

Það var samt ekki bara þetta sem fyrir mér vakti. Þegar gyðjunum þremur er hafnað í draumútgáfu skáldsögunnar af frásögninni af „satanísku versunum“ er það líka til að vekja athygli á öðru, til dæmis hvaða afstöðu trúin hefur til kvenna. „Ber Honum (Guði) að eignast dætur þegar þér eignist syni? Það væru ójöfn skipti.“ Þannig hljóma erindi sem enn er að finna í Kóraninum. Mér þótti það þess virði að benda á að ein af ástæðunum fyrir því að gyðjunum var hafnað hefði verið sú að þœr væru kvenkyns. Höfnunin felur ýmislegt í sér sem er vel þess virði að hugleiða. Ég lít svo á að það sé í verkahring bókmenntanna að draga slíkt fram.

Eða þegar Persinn Salman, draumsýn Gibreels, óskapast gegn þeirri áráttu draumtrúarbragðanna að setja „reglur fyrir allan fjandann“, þá er hann ekki bara að kvelja dreymandann, heldur að biðja lesandann að hugleiða hvers virði kennisetningar trúarbragða eru. Ég spyr þá deiluaðila sem þóst hafa geta réttlætt öfgafyllstu hótanir múslima gegn mér og öðrum með því að segja að ég hafi brotið kennisetningu Islams: eru allar reglur sem settar eru þegar trúarbrögð eru grundvölluð óhagganlegar að eilífu? Hvað um refsingar fyrir vændi (að grýta í hel) eða þjófnað (limlestingar)? Hvað um bann við samkynhneigð? Hvað um erfðalögmál í Islam, þar sem ekkju er einungis leyft að erfa áttunda hluta, og synir bera tvöfalt meira úr býtum en dætur? Hvað um lögmál um vitnaleiðslur í Islam, þar sem framburður konu er einungis hálfgildur á við karlmann? Á lfka að virða þessar reglur skilyrðislaust: eða mega rithöfundar og menntamenn spyrja þeirra óþægilegu spurninga sem er hluti af tilverugrundvelli þeirra?

Vissulega er daglega deilt þannig um reglur út um allan múslimaheiminn. Trúarleiðtogar múslima kunna að óska þess að meybörn frá múslimaheimilum séu sett í sérskóla, en stúlkurnar vilja það ekki, og láta það í Ijós í hvert sinn sem þær eru spurðar. (Breski Verkamannaflokkurinn spyr þær ekki, og hyggst framselja þær í hendur kennimannanna.) Sömuleiðis kunna geistlegir múslimar að krefjast þess að konur beri „látlausan“ klæðnað, samkvæmt Hijab-reglunum, og hylji meira af líkamanum en karlar vegna þess að þær hafi „aðdáanlegri líkamshluta“, eins og einn múslimi orðaði það svo afkáralega í sjónvarpinu um daginn; en í múslimaheiminum er fjöldi kvenna sem láta ekki segja sér þannig fyrir verkum. Kannski boðar Islam að konur víðs vegar krefjist þess að fá að yfirgefa heimilið til að vinna. Fyrst samfélag múslima dregur daglega reglur sínar í efa — og það þarf ekki að fara í grafgötur um það að múslimar eru jafn handgengnir háðsádeilu og allir aðrir — hvers vegna þarf þá að bannfæra skáldsögu fyrir að gera það sama?

En snúum okkur aftur að textanum. Vissan meintan „dónaskap“ þarf að hrekja sérstaklega. Til dæmis er atriðið þar sem félagar Spámannsins eru kallaðir „úrþvætti“ og „ræflar“ lýsing á ofsóknum á hinum trúuðu í öndverðu, og þau hrakyrði sem vitnað er til eru greinilega ekki mín heldur láta hinir óguðlegu þau dynja á hinum sanntrúuðu. Maður spyr sig hvernig hægt er að lýsa ofsóknum í bók án þess að sýna menn stunda ofsóknir. (Eða: hvernig er hægt að lýsa efasemdum í bók án þess að leyfa efasemdamönnum að láta óvissu sína í ljós?)

Hvað eiginkonur Spámannsins snertir: það sem gerist í draumum Gibreels er að mellur í hóruhúsi taka sér nöfn eiginkvenna Magúns spámanns til að æsa viðskiptavini sína. Skýrt er skilmerkilega frá því að „raunverulegu“ eiginkonurnar „lifi siðprúðar“ í kvennabúrinu. En til hvers að draga upp svo hneykslanlega mynd? Af þessari ástæðu: í gegnum skáldsöguna leitaði ég að myndum sem kristölluðu andstæðuna milli hinna heilögu og jarðnesku heima. Kvennabúrið og hóruhúsið skapa líka andstæðu. Hvort tvegga eru staðir þar sem konur eru hafðar í einangrun, í kvennabúrinu til að halda þeim fjarri öllum karlmönnum nema eiginmanni þeirra og nánum fjölskyldumeðlimum, í hóruhúsinu ókunnum karlmönnum til nytja. Kvennabúrið og hóruhúsið eru andstæðir heimar, og það að í kvennabúrinu er Spámaðurinn, viðtakandi heilags texta, svarar líka til þess að í hóruhúsinu er hið útjaskaða skáld, Baal, skapandi jarðneskra texta. Heimunum tveimur sem takast á, hinum hreina og óhreina, siðprúða og grófa, er stillt upp hlið við hlið með því að gera þá að endurómi hvors annars; og loks upprætir hinn hreini hinn óhreina. Hórur og rithöfundur („Ég sé á þeim engan mun,“ segir Magún) eru líflátin. Hvort mönnum finnst þetta gleðileg eða dapurleg málalok veltur á viðhorfi þeirra.

Tilgangur „hóruhússkaflans“ var því ekki að „dára og níða“ eiginkonur Spámannsins, heldur að færa í leikrænan búning vissar hugmyndir um siðferði; og kynferðismál líka, því að það sem gerist í hóruhúsinu — sem kallað er Hijab eftir heitinu á „láflausum“ klæðnaði til að undirstrika enn frekar með háðskum hætti hvernig heimarnir tveir kallast á — er að karlmennirnir í „Jahilíu“ fá ævagamlan draum um vald og eignir uppfylltan, drauminn um að eignast drottninguna. Það að karlmenn skuli æsast svo af mellustælingunum á hinum tignu konum segir eitthvað um þá, ekki hinar tignu konur, og um það hve mikla þýðingu eignarhald hefur í samskiptum kynjanna.

Ég hlýt að hafa vitað, segja þeir sem ásækja mig, að það hleypti í menn illu blóði að ég notaði gamla djöflanafnið „Mahound“, evrópskt púkauppnefni á „Muhammad“ frá miðöldum (í íslensku útgáfunni er hann nefndur Magún (aths. þýð.)). Þetta er raunar dæmi þess að merking snúist gjörsamlega við þegar orð er rifið út úr samhengi sínu. Hluti af samhenginu sem skiptir máli er á blaðsíðu 97 í skáldsögunni. „Til þess að snúa skammaryrðum upp í styrkleikamerki hafa whiggar, toríar, svartir allir kosið að bera með stolti þau nöfn sem þeim voru gefin þeim til hnjóðs: á sömu lund á þessi fjallklífandi spámennskuhvatti einfari okkar að vera barnagrýlan frá miðöldum, samheiti djöfulsins: Magún.“ Eitt af því sem liggur Söngvum Satans til grundvallar er að endurheimta tungutak andstæðingsins. (Annars staðar í skáldsögunni er sagt frá því hvernig skáldið Jumpy Joshi reynir að endurheimta hina alræmdu líkingu Enoch Powells um „blóðfljótin“. Hægt er að líta á mannkynið sjálft sem blóðfljót, segir hann; fljótið rennur í líkömum okkar, og við, sem heild, erum blóðfljót sem flæðir gegnum aldirnar. Hvers vegna að láta kynþáttahöturum eftir svo öfluga og ljóslifandi líkingu?) Trotskí var nafnið á manninum sem varpaði Trotskí í fangelsi. Með því að taka sér það sjálfur, sigraði hann fangavörð sinn á táknrænan hátt og leysti sjálfan sig úr haldi. Það var dálítið í þessum anda sem ég notaði nafnið „Magún“.

Tilraunin til að endurheimta er meira að segja ekki bundin við þetta. Þegar Saladin Chamcha uppgötvar að hann hefur umbreyst í geitarlegan djöful með horn og klaufir, á hjákátlegu heilsuhæli sem er fullt af öðrum vanskapningum, er honum tjáð að þeir séu allir, líkt og hann, framandi aðkomumenn sem „menning gestgjafanna“ hafi gert að djöflum með viðmóti sínu. „Þeir hafa lýsingar á sínu valdi og við látum undan fyrir myndunum sem þeir búa til.“ Þótt aðrir kalli hópa aðkomumanna djöfla, gerir það þá í sjálfu sér ekki djöfullega. Og ef djöflar eru ekki endilega djöfullegir, eru englar ekki endilega neinir englar . . . Segja má að það sé út frá þessari forsendu að í skáldsögunni er litið á siðferði sem eitthvað innra með okkur og breytingum undirorpið (fremur en eitthvað utanaðkomandi, guðlega ákvarðað, altækt).

Sjálfur titillinn, Söngvar Satans, er þáttur í þessari tilraun til að endurheimta. Þið kallið okkur djöfla? er eins og hann segi. Gott og vel, hérna hafið þið þá útgáfu djöfulsins á veröldinni, á „ykkar“ veröld, útgáfu sem skrifuð er útfrá reynslu þeirra sem hafa verið kenndir við djöfla af því að þeir eru öðruvísi. Alveg eins og Asíubörnin í sögunni eru hreykin af leikfangadjöflahornum sem þau skrýða sig með, til að sýna stolt sitt yfir því hver þau eru, ber skáldsagan hróðug sinn djöfullega titil. Markmiðið er ekki að gefa í skyn að Kóraninn sé skrifaður af djöflinum; heldur að reyna að ryðja nýja braut, eins og þegar merking orðsins Svartur breyttist í Bandaríkjunum frá því að vera fastur liður í ókvæðisorðum kynþáttahatara yfir í það að tjá þá „fegurð“ sem býr í menningarlegu stolti.

Og svo framvegis. Stundum finnst mér atvikin hafa fært upphafleg markmið með Söngvum Satans svo rækilega úr skorðum að þau hljóti að vera glötuð að eilífu. Stundum gremst mér að það er eins og leiðtogar múslima hafi ráðið því einir hvernig rætt er um skáldsöguna (þar á meðal menn, eins og Sher Azam í moskuráðinu í Bradford, sem segir ósköp blátt áfram í sjónvarpinu, „Ég er ekkert fyrir bækur“).

Þegar allt kemur til alls þýðir blöndunin, sem er aðalhreyfiafl skáldsögunnar, að hugmyndir hennar eru fengnar víðar að en frá Islam. Þarna er, til dæmis, sú forkristna trú, sem lýst er í Bókum Amosar og Jesaja Annars í Biblíunni og vitnað er til í Söngvum Satans, að Guð og Djöfullinn hafi verið eitt og hið sama: „Það er ekki fyrr en með Kronikubók, aðeins fjórum öldum f.Kr., að orðið Satan er notað til að tákna veru, en ekki eiginleika Guðs.“ Rétt er að geta þess einnig að Kóraninn er ekki önnur af þeim tveimur bókum sem höfðu mest áhrif á þá mynd sem skáldsagan tók. Önnur þeirra var Tengsl Himins og Heljar eftir William Blake, sú klassíska hugleiðing um samtvinnun góðs og ills; og Meistarinn og Margaríta eftir Mikhail Búlgakof, sú stórkostlega, rússneska, ljóðræna gamansaga þar sem Djöfullinn tekur til hendinni í Moskvu og gerir usla hjá hinum spilltu, gráðugu og úrkynjuðu íbúum, og reynist er frá líður alls ekki vera sem verstur. Meistarinn og Margaríta og höfundur bókarinnar urðu fyrir barðinu á sovéskri alræðishyggju. Það er einkennilegt til þess að hugsa að skáldsögu minni skuli tekið á svo svipaðan hátt og einni aðalfyrirmynd hennar á sínum tíma.

Þetta eru heldur ekki einu áhrifin frá öðrum en múslimum. Ég er fæddur Indverji, og ekki bara Indverji, heldur Bombaybúi — í Bombay, sem er heimsborgaralegust, blönduðust, kássulegust indverskra borga. Þess vegna hafa skrif mín og hugsun ekki síður orðið fyrir áhrifum af goðsögum og viðhorfum hindúa en múslima (og kvikmyndahetjan mín Gibreel er líka dæmi um slíkt umburðarlyndi í trúmálum, hann leikur guði hindúa án þess að vekja hneykslun þrátt fyrir uppruna sinn sem múslimi). Vesturlönd eru heldur ekki fjarri Bombay. Ég var þegar orðinn blendingur, bastarður sögunnar, áður en London bætti um betur.

Að vera Indverji af minni kynslóð þýddi líka að ég var sannfærður um að hugsjón Jawaharlal Nehru um veraldlega stjórnskipun Indlands hefði grundvallarþýðingu. Veraldlegt stjórnarfar er í tilviki Indlands ekki bara spurning um viðhorf; það er spurning um að lifa af. Ef deilur milli trúflokka ættu að ráða úrslitum í stjórnarfari á Indlandi, yrðu afleiðingar hroðalegri en hægt er að ímynda sér. Margir Indverjar óttast að sú stund gæti nú verið í nánd. Ég hef barist gegn stjórnmálum á trúarlegum grundvelli alla tíð síðan ég óx úr grasi. Verkamannaflokkurinn í Bretlandi hefði gott af því að skoða hvaða afleiðingar áhugi indverskra stjórnmálamanna á að leika eftir nótum ákveðinna trúarhreyfinga kann að hafa, og íhuga hvort greinilegur áhugi sumra stjórnmálamanna Verkamannaflokksins á að endurtaka sama leikinn í Bretlandi, af sömu ástæðu (atkvæðum), sé allskostar viturlegur.

Að búa í Bombay (og vera síðar Lundúnabúi) þýddi líka að ég heillaðist af stórborginni. Borgin sem raunveruleiki og myndhverfing er kjarninn í öllum mínum verkum. „Borg nútímans,“ segir sögupersóna í Söngvum Satans, „er dæmigerð fyrir ósamrýmanlega heima.“ Það reyndust orð að sönnu. „Svo lengi sem þeir mætast í nóttinni, það er í lagi. En ef þeir kynnast! Þá er það úran og plútan, sem brjóta hvort annað niður, bomm.“ Það er erfitt að lýsa því hvernig manni líður eftir að hafa reynt að lýsa hlutlægum veruleika og síðan orðið að leiksoppi hans . . .

Mergurinn málsins er þessi: Menning múslima hefur haft verulega þýðingu fyrir mig, en hún er alls ekki eini áhrifavaldurinn. Ég er nútímamaður, módernisti, í stórborg, sem sættir sig við óvissuna sem það eina sem er stöðugt, breytinguna sem það eina sem er víst. Ég trúi ekki á neinn guð, og hef ekki gert það síðan snemma á unglingsárunum. Ég hef andlegar þarfir, og ég vona að verk mitt hafi siðferðilega og andlega vídd, en ég læt mér nægja að reyna að svala þessum þörfum án þess að grípa til neinnar hugmyndar um Skapara alls eða hinsta dómara.

Í stuttu máli: Ég er ekki múslimi. Manni finnst það bæði afkáralegt og fráleitt að vera lýst sem einhvers konar villutrúarmanni eftir að hafa lifað lífi sínu sem trúlaus, marglyndur maður sem velur og hafnar. Ég er hjúpaður í, og mér lýst með tungutaki sem hæfir mér ekki. Ég neita ásökuninni um guðlast, vegna þess, eins og einhver segir í Söngvum Satans, að „þar sem er engin trú, er heldur ekkert guðlast“. Ég neita ásökuninni um að hafa svikið trú, vegna þess að síðan ég varð fullorðinn hef ég ekki játast undir neina trú, og það sem maður hefur ekki játast undir verður manni ekki brigslað um að hafa svikið. Það Islam sem ég þekki lýsir því greinilega yfir að „í trúarlegum efnum skuli ekki beitt þvingunum af neinu tagi“. Þeir mörgu múslimar sem ég ber virðingu fyrir hrykkju illilega við ef því væri haldið fram að þeir tilheyrðu trú sinni eingöngu vegna þess að þeir vœrufœddir inn í hana, og að hvern og einn sem væri fæddur slíkur og kysi af frjálsum vilja að vera ekki múslimi mætti því lífláta.

Þegar mér er lýst sem múslima sem genginn er af trúnni, finnst mér eins og mér hafi verið ýtt á bak fölsun á sjálfum mér, eins og skuggi hafi orðið áþreifanlegur en mér hafi verið vísað í raðir skugganna. Hluti af breskum fjölmiðlum, sem ekki lúta stjórn múslima, hefur lagt sitt af mörkum í þessa fölsun á sjálfum mér með því að lýsa mér sem sjúklega sjálfsánægðum, hrokafullum, gráðugum, hræsnisfullum og óáreiðanlegum manni. Því hefur verið haldið fram að ég kjósi frekar að fólk þekki mig af enskri útgáfu af nafni mínu („Simon Rushton“). Og, til að fullkomna þessa endaleysu, er þessi Salman Rushdie „hörundssár“ og „ofsóknarbrjálaður“, og því litið á sérhverja tilraun hans til að mótmæla þessum rangfærslum sem frekari staðfestingu á að fölsuninni á mér, góleminu.

Árásir múslima á hendur mér hafa verulega notið góðs af þessari fölsun á sjálfum mér. „Simon Rushton“ hefur komið við sögu í fjölmörgum lýsingum múslima á spilltum, rótslitnum persónuleikamínum. „Græðgi“ mín fellur vel að þeirri samsæriskenningu að ég hafi selt sál mína Vesturlöndum og skrifað vandlega undirbúna árás á Islam og þegið digra sjóði að launum. „Óáreiðanleiki“ er líka nytsamlegur í þessu samhengi. Jorge Luis Borges, Graham Greene og fleiri rithöfundar hafa skrifað um það hvernig er að eiga sér tvífara sem fari sínu fram í veröldinni undir manns eigin nafni. Stundum hef ég áhyggjur af því að tvífara mínum takist að koma mér fyrir kattarnef.

Svipmynd frá mótmœlum vegna Söngva Satans

Svipmynd frá mótmœlum vegna Söngva Satans.

14. febrúar 1989, nokkrum klukkustundum eftir að hin válegu tíðindi bárust frá Íran, hringdi þingmaðurin Keith Vaz í mig og lýsti fjálglega yfir fullum stuðningi við mig og verk mitt, og sagðist vera sleginn óhug yfir morðhótuninni. Nokkrum vikum síðar ávarpaði þessi sami maður mótmælafund þar sem saman voru komnir menn sem kröfðust þess að ég yrði drepinn, og börn sem skrýdd voru borðum með morðhótunum. Þegar hér var komið sögu vildi Vaz að verk mitt yrði bannað, og líflátshótanir gegn mér virtust ekki lengur trufla hann hið minnsta.

Þannig hefur þetta ár verið. Fyrir tólf mánuðum rambaði hinn virti dálkahöfundur Guardians, Hugo Young, á barmi kynþáttahaturs þegar hann sagði öllum breskum múslimum að ef þeim líkaði ekki ástand mála í Bretlandi, gætu þeir alltaf hypjað sig („ef ekki Dagenham, því þá ekki Teheran?“); nú vill téður Young kenna mér um að hafa hleypt öllu í bál og brand. (Ég hef að sönnu færri hersveitir í þjónustu minni.) Það yrði sjálfsagt léttir fyrir Young ef ég sneri nú aftur til æskustöðvanna.

Og, og, og. Dacre lávarði leist vel á að ég yrði barinn í dimmu sundi. Rana Kabbani tilkynnti í sönnum stalínískum eldmóði að rithöfundar ættu að vera „ábyrgir“ gagnvart samfélaginu. Brian Clark (höfundur Er þetta ekki mitt líf?, svo hlálega sem það hljómar) sagðist styðja mig en skrifaði viðurstyggilegt leikrit sem enginn hefur fallist á að setja upp, sem betur fer, undir nafninu Hver drap Salman Rushdie?‘, og sendi mér það ef ske kynni að mig vantaði lesefni.

Og í Bretlandi urðu menn vitni að þvílíkri afskræmingu opinberrar umræðu að það er með ólíkindum. Látið var óátalið að hvatt væri til morðs á strætum landsins. (í Evrópu og Bandarfkjunum komu ríkisstjórnir með snarræði sínu í veg fyrir slíkar áskoranir strax á frumstigi.) Í sjónvarpsþáttum voru áhorfendur í sjónvarpssal látnir segja álit sitt á því hvort ég ætti að lifa eða deyja með því að rétta upp hönd. Morð á manni (mér) varð að fullgildu efni í skoðanakannanir meðal þjóðarinnar. Og smátt og smátt óx þeirri skoðun fiskur um hrygg, sem látin var í ljós af lýðskrumurum og biskupum, bókstafstrúarmönnum og John le Carré, að ég vissi nákvœmlega hvað ég vœri að gera. Ég hlyti að hafa vitað hvað mundi gerast; því hefði ég gert þetta að yfirlögðu ráði, til að notfæra mér þá athygli sem fylgja mundi í kjölfarið. Þessi ásökun er nú orðin talsvert útbreidd, og ég neyðist til að verja mig gegn henni líka.

Mig langar til að varpa fram nokkrum spurningum: þegar Osip Mandelstam orti ljóð sitt gegn Stalín, „vissi hann hvað hann var að gera“ og verðskuldaði því líflátið Þegar stúdentarnir söfnuðust saman á Torgi hins himneska friðar til að krefjast frelsis, voru þeir ekki líka, vísvitandi, að biðja um að uppreisnin yrði bæld niður með þeim grimmilega hætti sem raun varð á? Þegar Terry Waite var tekinn gísl, var hann ekki búinn að vera „að biðja um það“? Mér verður hugsað til Jodie Foster í Óskarsverðlaunahlutverki sínu í The Accused. Jafnvel þótt ég viðurkenndi (og það geri ég ekki) að það sem ég gerði í Söngvum Satans hafi verið bókmenntaleg samsvörun þess að dilla sér blygðunarlaust frammi fyrir augum æstra karlmanna, mundi það réttlæta það að manni væri, ef svo má segja, nauðgað af hópi manna? Er nokkur ögrun sem réttlætir nauðgun?

Við ættum ekki að láta ofbeldishótanir koma inn hjá okkur þeirri bábilju að fórnarlömb ógnananna beri ábyrgð á því ofbeldi sem hótað er. Eg geri mér samt ljóst að það er ekki nóg að svara með því að tala um hlutina. Það er heldur ekki nóg að benda á að ekkert í líkingu við þessa deilu hefur, svo ég viti, nokkurn tíma átt sér stað í bókmenntasögunni. Hefði ég sagt nokkrum áður en bók mín kom út að slíkir atburðir mundu fylgja í kjölfar hennar, hefði ég samstundis sannað að ásakanir um sjúklega sjálfsánægju ættu við rök að styðjast. . .

Satt er það að sumir kaflar í Söngvum Satans hafa nú öðlast spádómseiginleika sem valda meira að segja mér skelfingu. „Guðlast þitt er ófyrirgefanlegt, Salman . . . Að þú tefldir fram þínum orðum gegn Orðum Drottins.“ Og svo framvegis. En að skrifa draum byggðan á atburðum sem áttu sér stað á sjöundu öld eftir Krist, Og að búa til myndhvörf fyrir átökin milli mismunandi „höfunda“ og mismunandi „texta“ — að halda því fram að bókmenntir og trúarbrögð, líkt og bókmenntir og stjórnmál, berjist um sama landsvæði — er allt annað en að vita einhvern veginn, fyrirfram, að draumur manns er um það bil að verða að veruleika, að myndhvörfin eru um það bil að verða efniskennd, að átökin sem maður reynir að fjalla um í verkinu eru í þann mund að gleypa það, og útgefendur þess og bóksala; og mann sjálfan.

Það eru litlar sárabætur, að ég hafi alltént ekki haft á röngu að standa.

Bækur velja höfunda sína; sköpunarstarfið er ekki fullkomlega rökrænt og meðvitað. En svo ég lýsi þessu eins heiðarlega og ég get, er þetta það sem „ég vissi að ég var að gera“ hvað varðar umfjöllun um trúmál í skáldsögunni.

Ég einsetti mér að kanna, með aðferðum skáldskaparins, eðli opinberunar og mátt trúarinnar. Hin dulúðuga reynsla opinberunarinnar er augljóslega ósvikin. Þessi staðhæfing setur trúleysingjann í bobba: ef við föllumst á að dulspekingurinn, spámaðurinn, verði í raun og sannleika fyrir einhvers konar yfirskilvitlegri reynslu, en trúum samt ekki á yfirnáttúrlega veröld, hvað er þá á seyðil Meðal annars til að svara þessari spurningu hóf ég að vinna að sögunni um „Magún“. Mér var fullkunnugt um að atvikið í kringum „satanísku versin“ væri afar umdeilt meðal guðfræðinga múslima; að farið var að fjalla um líf Múhammeðs með eins konar lotningu sem sumir mundu telja að væri alls ekki í anda Islams, þar sem Múhammeð sjálfur hélt því ávallt fram að hann væri einungis boðberi, venjulegur maður; og því væri málið ákaflega viðkvæmt. Ég var sannfærður um að þar sem ég færi ekki í Iaunkofa með að ég væri að setja saman skáldskap yrði sérhverjum lesanda ljóst að ég væri ekki að reyna að falsa söguna, heldur að láta skáldskapinn taka við þar sem sögunni sleppti. Ætlunin með að nota drauma, hugarflug, osfrv. var að segja: það skiptir ekki máli hvort þetta á „raunverulega“ að vera Múhammeð, eða hvort atvikið kringum satanísku versin átti sér „raunverulega“ stað; það sem máli skiptir er að kanna hvað slíkt atvik gæti leitt í ljós um hvað opinberun er, um það að hve miklu leyti meðvituð skapgerð dulspekingsins hefur áhrif á og tengist hinum dulræna atburði; það sem skiptir máli er að reyna að skilja hinn mannlega þátt í opinberuninni. Skáldskapnum var beitt í því skyni að skapa þá fjarlægð frá veruleikanum sem ég hélt að kæmi í veg fyrir að menn hneyksluðust. Ég hafði á röngu að standa.

Jahilía, svo enn einu sinni sé beitt hinni fornu arabísku frásagnaraðferð sem ég greip oft til í Söngvum Satans, bæði „er og er ekki“ Mekka. Margt af því sem lýst er úr þjóðlífinu þar eru fengið úr sagnfræðilegum heimildum; en hún er líka draumur um indverska borg (gatnaskipanin út frá einni miðju er með vilja látin minna á Nýju Delhi), og, eftir að Gibreel er farinn að dveljast í Englandi, verður hún líka draumur um London. Sömuleiðis er trú „Undirgefninnar“ bæði Islam og ekki. I skáldskap eru staðreyndir notaðar sem upphafsstaður og síðan hnitar hann hringi í burtu til að kanna það sem honum er raunverulega ætlað að fjalla um og ekki er af sagnfræðilegum toga nema að litlu leyti. Að koma ekki auga á þetta, að meðhöndla skáldskap eins og hann væri staðreynd, er að gera sig sekan um alvarlegan hugtakarugling. Málið í kringum SöngvaSatans er kannski einn stærsti hugtakaruglingur bókmenntasögunnar.

Hér er fleira sem ég vissi: ég vissi að það úir og grúir af sögnum af efasemdum Múhammeðs, mistökum hans og kvensemi í munnlegri geymd múslima og skyldum hefðum. Þær gerðu hann meira ljóslifandi fyrir mínum hugskotssjónum, mannlegri, og þess vegna forvitnilegri, jafnvel aðdáunarverðari. Merkustu einstaklingar verða að berjast við sjálfa sig sem og veröldina. Ég dró aldrei í efa að Múhammeð hefði verið merkilegur maður, og ég tel ekki heldur að gert sé lítið úr „Magún“ í skáldsögu minni með því að hann er gerður mannlegur.

Ég vissi að Islam er engan veginn einsleitur heimur, eða jafn altækur og sumir talsmenn hans gefa í skyn. Islam hefur að geyma efasemdir Iqbals, Ghazali og Khayyams sem og þröngsýna fullvissu Shabbirs Akhtars hjá Moskusambandinu í Bradford og Kalims Siddiqui, forstöðumanns Múslimastofnunarinnar sem er höll undir írani. Islam hefur að geyma ósvífni sem og alvörugefni, virðingarleysi sem og einræðisstefnu. Ég kunni skil á mörgu í Islam sem ég var geysilega hrifinn af, og er enn; ég vissi jafnframt að mikil grimmdarverk höfðu verið unnin í nafni Islams, eins og allra annarra helstu trúarbragða heims.

Upphaflega atvikið sem draumurinn um þorpsbúana sem drukkna í Arabíuflóa er byggður á er líka hluti af því sem ég „vissi“. Sagan gerði mig agndofa, vegna þess hvað hún sagði mér um kynngimátt trúarinnar. Ég skrifaði þennan hluta skáldsögunnar til að kanna hvort ég fengi skilið fólk sem var svona guðhrætt, með því að setja mig í spor þess.

Hann gerði það að yfirlögðu ráði er ein furðulegasta ásökun sem nokkurn tíma hefur verið borin á rithöfund. Auðvitað gerði ég það að yfirlögðu ráði. Spurningin er, og það er henni sem ég hef reynt að svara: hvað er þetta „það“ sem ég gerði?

Það sem ég gerði ekki var að efna til samsæris gegn Islam; eða að skrifa — eftir að hafa unnið og skrifað gegn kynþáttafordómum árum saman — texta sem ýtti undir kynþáttahatur; eða neitt í þá áttina. Gólemið mitt, falsaði tvífarinn minn, kann að geta drygt slíkar dáðir, en ekki ég.

Hefði ég skrifað öðruvísi ef ég hefði vitað hvað mundi gerast? Satt að segja veit ég það ekki. Mundi ég breyta einhverju í textanum nú? Það mundi ég ekki gera. Eins og Friedrich Diirrenmatt skrifaði í Eðlisfræðingunum: „Það sem einu sinni er búið að hugsa verður ekki aftur tekið.“

 

Deiluna um Söngva Satans verður að líta á sem pólitísks eðlis, en ekki eingöngu trúfræðilegs. Á Indlandi, þar sem vandræðin hófust, notaði bókstafstrúarmúsliminn og þingmaðurinn Syed Shahabuddin skáldsögu mína sem barefli til að ógna ríkisstjórn Rajivs Gandhi sem stóð á brauðfótum. Krafan um að bókin yrði bönnuð var liður í valdatafli til að sýna hvers kjósendur múslima væru megnugir, en á þá hefur Congressflokkurinn hingað til treyst og má ekki við að missa. (Þrátt fyrir bannið, tapaði Congressflokkurinn múslimunum og kosningunum. Það er varasamt að treysta mönnum af sauðahúsi Shahabuddins.)

Í Suður-Afríku þjónaði styrinn um bókina hagsmunum ríkisstjórnarinnar með því að reka fleyg á milli þeirra meðlima UDF sem voru múslimar og þeirra sem voru það ekki. Í Pakistan sáu bókstafstrúarmenn sér leik á borði og efndu til úlfúðar út af bókinni til að reyna að endurheimta pólitískt frumkvæði sitt eftir að þeir höfðu beðið afhroð í kosningum. Meira að segja í íran var ekki hægt að skilja atburðinn til fulls nema með því að skoða hann í tengslum við innri baráttu stjórnmálaafla í landinu. Og í Bretlandi, þar sem veraldlegir og trúarlegir leiðtogar höfðu barist um völdin í samfélagi innflytjenda í meira en áratug, og þar sem mestanpart veraldleg samtök eins og Indian Workers Association (IWA) höfðu verið á uppleið, varð „málið“ til þess að færa völd aftur til moskanna. Það er því engin furða þótt hin ýmsu moskuráð hiki við að binda enda á mótmælin, jafnvel þótt mörgum múslimum víðs vegar um landið finnist óþægilegt að vera bendlaðir við ofstæki og ofbeldi af slíku tagi, ef þeir ekki hreinlega skammast sín.

Ábyrgðin á ofbeldi liggur hjá þeim sem beita því. Síðastliðna tólf mánuði hafa menn áreitt, hrækt á, atyrt starfsfólk bókabúða; bókaverslanir hafa fengið hótanir og þó nokkrum sinnum orðið fyrir sprengjutilræðum. Starfsfólk fjölmiðla hefur orðið fyrir herferð hatursfullra bréfa, ógnunum í síma, lífláts- og sprengjuhótunum. Stundum hafa mótmælaaðgerðir snúist í ofbeldi líka. Meðan á stóru göngunni í London síðastliðið sumar stóð börðu göngumenn friðsama andmótmælendur sem þarna voru mættir í nafni mannúðarstefnu og veraldlegra sjónarmiða, og andmótmælastaða hinna huguðu Kvenna gegn bókstafstrú (þar sem múslimar eru í meirihluta) varð fyrir hótunum og aðkasti.

Það eru engin hugsanleg rök fyrir því að taka vægar á slíkri framkomu bara vegna þess að hún er í nafni hinnar misboðnu trúar. Ef við á annað borð ræðum um „dónaskap“, „níð“, „hneyksli“, þá er baráttan gegn Söngvum Satans afar oft búin að vera eins dónaleg, níðangursleg og hneykslanleg og frekast má vera.

Afleiðingin er sú að kynþáttafordómar hafa aukist. Ég fann ekki upp breskt kynþáttahatur, né Söngvar Satans. Kynþáttajafnréttisráð (The Commission for Racial Equality, CRE), sem nú ásakar mig fyrir að spilla fyrir samskiptum milli kynþátta, er fullkunnugt um að árum saman lánaði ég alls konar svörtum og hvítum samtökum og námskeiðum myndband af þætti mínum gegn kynþáttafordómum frá Stöð 4. Lesendur Söngva Satans komast ekki hjá því að taka eftir hversu mjög þar er vegið að kynþáttafordómum. Ég hef aldrei veitt kynþáttahöturum minnstu umbun eða hvatningu; en það hafa þeir hins vegar gert sem stjórna herferðinni gegn mér, með því festa í sessi verstu klisjurnar um múslima sem þrúgandi, ófrjálslynda, bannlýsandi ofstækismenn. Ef Norman Tebbit[5] hefur tekið upp gömlu viðlögin frá Powell gamla og ef kveinstafir hans út af samfélagi margra menningarheima fá hljómgrunn meðal þjóðarinnar, þá bera þeir, sem brenna bækur og vilja banna þær, að minnsta kosti hluta af ábyrgðinni.

Ég er ekki fyrsti rithöfundurinn sem islamskir bókstafstrúarmenn ofsækja á okkar tímum; meðal þeirra fremstu sem orðið hafa fyrir barðinu á slíku eru íranski rithöfundurinn Ahmad Kasravi, sem ofstækismenn stungu til bana, og egypskinóbelsverðlaunahafinn Naguib Mahfouz, sem oft hefur fengið hótanir en er sem betur fer enn á meðal okkar. Ég er ekki fyrsti listamaðurinn sem ásakaður hefur verið fyrir guðlast og trúarníð; raunar eru þetta algengustu vopnin sem bókstafstrúin hefur beitt til að reyna að hefta frjálsa sköpun í nútímanum. Það er því dapurlegt að þessu þýðingarmikla bókmenntalega samhengi skuli hafa verið svo lítill gaumur gefinn; og að gagnrýnendur á Vesturlöndum, eins og John Berger, sem eitt sinn talaði spámannlega um nauðsyn nýrra leiða til að skoða heiminn , skuli nú lýsa sig fúsa til að taka eina slíka leið fram yfir aðrar, að vernda trúarbrögð sem státar af einni billjón áhangenda fyrir einu rithöfundargreyi með „ólæsilega“ bók á lofti.

Hvað hina bresku „leiðtoga“ múslima snertir, þá verða þeir að gera upp hug sinn. Stundum segja þeir að ég skipti engu máli, og að einungis bókin skipti sköpum; aðra daga halda þeir fundi í moskvum vítt og breitt um landið og ítreka áskorunina um að ég verði líflátinn. Þeir segjast fara að lögum þessa lands, en þeir segja jafnframt að þeir taki lög Islams fram yfir þau í siðferðilegum efnum. Þeir segjast ekki vilja brjóta bresk lög, en bara örfáir þeirra eru reiðubúnir að afneita hótuninni gegn mér opinberlega. Þeir ættu að gera grein fyrir stefnu sinni: eru þeir lýðræðislega þenkjandi þegnar í frjálsu samfélagi eða ekki? Hafna þeir ofbeldi eða ekki?

Eftir ár er kominn tími til að fá aðeins skýrari línur.

Við samfélag múslima í heild, í Bretlandi og á Indlandi og í Pakistan og allstaðar annarstaðar, vil ég segja þetta: farið ekki fram á það að rithöfundar ykkar semji dœmigerðan eða táknrœnan skáldskap. Slíkar bækur eru nánast undantekningarlaust andvana fæddar. Lífsmagn bókmennta liggur í því hversu einstakar þær eru, að þær eru sérstæð, sérviskuleg sýn einnar manneskju, þar sem við kunnum að sjá, okkur til ánægju og undrunar, spegilmynd okkar sjálfra. Bók er útlegging heimsins. Ef þér líkar hún ekki, láttu hana eiga sig; eða komdu með þína eigin útleggingu í staðinn.

Og ég vil segja þetta: trúuðum finnst líf án Drottins vera heimska, tilgangslaust, ekki einu sinni vert þess að fyrirlíta það. Það finnst trúleysingjum ekki. Að láta sér lynda að veröldin, hérna, sé allt og sumt; að ganga um hana til móts við dauðann, án þess að njóta huggunar trúarinnar, finnst okkur, tja, að minnsta kosti bera vott um jafn mikið hugrekki og þrautseigju og ykkur þykir trúariðkunin. Veraldlegur þankagangur og afsprengi hans eiga virðingu ykkar skilið, ekki fyrirlitningu.

Mikil frelsisalda hefur farið um heiminn að undanförnu. Þeir sem berjast gegn henni — í Kína, í Rúmeníu — standa í blóðbaði. Eg vil hvetja múslima — hina fjölmörgu venjulegu, heiðarlegu, réttsýnu múslima sem ég hef ímyndað mér að ég væri að tala við lungann úr þessari grein — að láta ölduna hrífa sig með; að hafna blóðsúthellingum; að láta ekki leiðtoga múslima koma því orði á múslima að þeir séu ofstækisfyllri en þeir eru. Söngvar Satans eru alvarlegt verk, sem skrifað er frá sjónarhóli trúleysingja. Megi trúaðir una því, og láta það í friði.

 

Meðan á þessu stendur er ég spurður hvernig mér líði. Ég er þakklátur bresku ríkisstjórninni fyrir að vernda mig. Eg vona að slík vernd standi hverjum borgara sem þannig er ógnað til boða, en það dregur ekki úr þakklæti mínu. Ég þurfti á henni að halda, og hún var veitt. (Ég er ennþá enginn íhaldsmaður, en svona er lýðræðið.)

Ég er líka þakklátur varðmönnum mínum, sem hafa staðið sig svo frábærlega vel, og hafa orðið vinir mínir.

Ég er þakklátur öllum sem hafa veitt mér stuðning. Það hefur verið mikill fengur að því á þessum erfiða tíma að uppgötva að svo margt fólk lét sig um mig varða. Eina mótefnið gegn hatri er kærleikur.

Umfram allt er ég þakklátur, hef samúð með og er stoltur af öllum þeim útgáfustarfsmönnum og bóksölum út um allan heim sem hafa staðist ógnanir, og munu, er ég viss um, halda því áfram eins lengi og nauðsyn krefur.

Mér finnst mér hafa verið varpað, eins og Lísu, inn í veröldina handan spegilsins, þar sem eina vitið er vitleysa. Og ég velti því fyrir mér hvort ég muni nokkurn tíma geta klifrað til baka gegnum spegilinn.

Harma ég eitthvað? Auðvitað: ég harma það að verk mitt skyldi vekja slíka reiði því að það var ekki ætlunin — þar sem ætlunin var að vekja upp umræður, og andóf, og jafnvel stundum beita háði, og gagnrýna þröngsýni, en ekki það sem ég hef aðallega verið ásakaður um, ekki „óþverra“, ekki „dónaskap“, ekki „níð“. Ég harma það að svo margt fólk sem hefði getað haft ánægju af því að fylgjast með veruleika sínum gerð viðunandi skil í skáldsögu skuli nú ekki lesa hana vegna þess hvað það heldur að hún sé, eða nálgast hana með hugann formyrkvaðan.

Og það hryggir mig að vera svo sárlega einangraður frá samfélagi mínu, frá Indlandi, frá daglegu lífi, frá veröldinni.

En hafið samt hugfast: ég kvarta ekki. Ég er rithöfundur. Ég sætti mig ekki við aðstæðurnar; ég mun leitast við að breyta þeim; en ég bý við þær, ég er að reyna að læra af þeim.

Svo lengi lærir sem lifir.

 

Greinin birtist í The Independent on Sunday 4. febrúar 1990.

 

Skýringar hér fyrir neðan eru eftir þýðandann.

  1. Þetta atvik byggir Rushdie á frásögn tveggja arabískra ævisagnaritara Múhammeðs (al-Waquidi, 747-823 e.Kr., og at-Tabari, 839-923 e. Kr.) er síðari túlkendur Kóransins hafa hafnað.
  2. Enoch Powell (f.1912) er fyrrverandi þingmaður og ráðherra breska fhaldsflokksins. Hann var einn frægasti andstæðingur þess að opna landið fyrir innflytjendum úr bresku samveldislöndunum.
  3. Í sagnaheimi gyðinga er gólem leirstytta sem gædd hefur verið lífi með yfirnáttúrlegum hætti.
  4. Skáldið Osip Mandelstam orti kvæðið um Stalín árið 1934 og er talið að hann hafi látist í fangabúðum í Síberíu fjórum árum síðar. Kvæðið birtist í íslenskri þýðingu Geirs Kristjánssonar í bók hans Undir hœlum dansara (Reykjavík 1988).
  5. Norman Tebbit er þingmaður Íhaldsflokksins og fyrrverandi ráðherra.
  6. Hér er vísað til listfræðibókar Bergers, Ways of Seeing (London 1972).