eftir Úlfhildi Dagsdóttur

úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020.

 

Myndin birtist fyrst á Facebook-síðu Lóaboratóríum 7. janúar 2018 með færslutextanum: 7. janúar. Aldrei friður.

Hún er að reyna að hafa það náðugt og miðað við svipinn gengur það ágætlega. Enda er listakonan sjálf viðfangið og getur hún því búið til bil milli sín og gráa óhroðans með því að teikna hann í öðrum ramma. En við sjáum líka að sá grái hefur náð að láta sig leka yfir í rammann hennar, einn anginn er kominn alveg að rúminu og spurning hversu lengi friðurinn endist. Grái óhroðinn kemur oft og víða við sögu í myndum Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur, þó að hann sé ekki alltaf sýnilegur. Á annarri mynd situr hann í sófa með konu, sem er að reyna að hafa það náðugt, og minnir hana þurrlega á að einu sinni hafi hún verið ung og mjó.

Myndin birtist 24. febrúar með færslutextanum: Gott kvöld.

En hver er þessi iðandi slímugi óhroði? Birtingarmynd samfélagsins, í stuttu máli. Væntingar samfélagsins, stress og pressa, kröfur og tilætlunarsemi – að ekki sé talað um spillingu, misrétti og vanmat; á störfum og stöðu kvenna og listafólks, til dæmis. Lífsgæðakapphlaupið sem er knúið áfram af hugmyndum um að neysla sé nauðsynleg til að öðlast lífsfyllingu. Ekkert af þessu er skemmtilegt. Þvert á móti, þá eru þessar aðstæður sem velflestir upplifa sig í gersamlega óþolandi. Það kemur þó ekki í veg fyrir að við hlæjum, hátt og í hljóði. Og jafnvel í nokkra daga samfleytt. Því í höndum listakonunnar Lóu og tilraunastofu hennar, Lóaboratoríum, verður allt fyndið. Okkur verkjar, því þetta er óþolandi – en með því að hlæja getum við þó glaðst, yfir því að geta glaðst, til dæmis. Coulton Waugh, sem var einn af þeim fyrstu til að fjalla um myndasögur sem form, segir að myndasagan sé lítill spegill sem sýnir okkur eigin sérviskur og tilfinningar og býður okkur þannig að hlæja að sjálfum okkur.[1]

 

Hlæjum hærra

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hefur birt myndir á samfélagsmiðlum í mörg ár undir yfirskriftinni Lóaboratoríum. Orðið vísar til tilraunastofu í myndrænum orðaleik sem einnig stokkar upp hefðbundnar kynjaímyndir, en margir tengja (enn sem komið er) tilraunir á stofum við karla í hvítum sloppum (þó að reyndin sé að fleiri og fleiri konur eru komnar í svona dótarí). Tilraunastofan er færð í kvenlegan búning þegar henni er slegið saman við lóuna, sem er kvengerður fugl og kvenmannsnafn. Í tilraunastofunni er svo unnið að rannsóknum sem felast í því að beita listinni í tilraunaskyni, meðal annars tilraunir með konur og kynhlutverk og þá kannski sérstaklega kvenhlutverk, femínisma og jafnrétti. Og tungumál, ekki má gleyma tungumálinu sem gegnir sérlega mikilvægu hlutverki í myndasögum Lóu. Hún leikur sér með myndir tungumálsins og notar textann á margvíslegan hátt, hvort sem það er í titlum, talblöðrum eða í öðrum orðum.

Úr Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós (2015)

Rannsóknarþátturinn kemur skýrt fram í undirtitli þriðju myndasögubókar Lóu, Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós (2015). Á undan henni komu Lóaboratoríum (2014) og Alhæft um þjóðir (2009, á ensku 2011). Síðan hefur komið út bókin Why are we still here (2017). Lóa er fædd árið 1979 og byrjaði að birta myndasögur árið 1996 í framhaldsskólablöðum og hefur teiknað allar götur síðan, þó að myndasöguáherslan hafi verið mismikil. Hún er með B.A.-próf í myndlist frá Listaháskóla Íslands (2003) og lærði myndasögugerð í Parson‘s New School for Design í New York (2007–2008) undir handleiðslu gamalla neðanjarðarmyndasöguhöfunda. Seinna stundaði hún ritlistarnám við Háskóla Íslands og lauk þar meistaragráðu árið 2016.

Lóa hefur gert myndasögur fyrir tímarit og blöð, meðal annars The Reykjavík Grapevine og Fréttatímann. Nú síðast hefur hún birt myndasögu á dag frá upphafi ársins 2020 á samfélagsmiðlum undir merkjum Lóaboratoríum. Auk myndasagnanna er hún myndhöfundur fjölda bóka og meðlimur hljómsveitarinnar FM Belfast. Svo hefur hún skrifað leikrit og gert teiknimyndaþætti og er líka starfandi myndlistakona. Hún getur allt.

Úr Lóaboratoríum (2014)

Í fyrstu bókunum er gróteskur stíll helst áberandi, stundum með krúttlegu ívafi. Alhæft um þjóðir er svarthvít en í seinni bókunum eru litir, stundum í bland við svarthvítt. Í þessum myndum eru allir gallar (kven)líkamans miskunnarlaust dregnir fram og ýktir. Oft eru þetta konur að borða eða hugsa um mat, en rússneski bókmenntafræðingurinn Mikhaíl Bakhtín ræðir mat sérstaklega í tengslum við grótesku: „Matur og drykkur – um þetta snýst líf hins gróteska líkama. Sérkenni þessa líkama felst í því að hann er opinn upp á gátt, hálfkaraður, og í sérstöku sambandi við heiminn. Í átinu birtast þessi sérkenni með fyllstum og greinilegustum hætti. Hér fer líkaminn út fyrir mörk sín, kyngir, gleypir og tætir í sig heiminn, tekur hann til sín, svalar sér á honum og vex á kostnað hans.“[2]

Umfjöllun Bakhtíns miðast við ofvaxna karlmannslíkama í skrifum franska rithöfundarins Rabelais, en í myndasögum Lóu eru það kvenlíkamar sem gleypa, þenjast út og breiða úr sér. Í því felst jafnvel enn meiri ögrun, því kvenlíkaminn hefur lengi mátt búa við hvers kyns takmarkanir og aðhald, kannski einmitt vegna stórhættulegrar tilhneigingar sinnar til að ‚tæta í sig heiminn, svala sér á honum og vaxa‘.

Lóa - kventár

Myndin birtist fyrst 20. janúar 2020 á vefmiðlum Lóaboratóríum með færslutextanum: Ég er hér ef einhvern vantar svör við öllum lífsins gátum.

Þessar konur eru ekki í samskonar veislugleði og persónur Rabelais og át þeirra er ekki jafn frelsandi – en samt. Húmorinn í myndunum býr til rými fyrir ósvikna gleði þess að hafa gefist upp fyrir freka samfélags-óhroðanum og leyfa sér bara að vera. Dæmi um þetta má finna í daglegu 2020-syrpunni, en þar vinnur listakonan með mýkri línur og heila litafleti, hver mánuður hefur sína eigin litapallettu. Þegar litið er yfir myndasögur Lóu er ljóst að rannsóknirnar fela í sér könnun á möguleikum formsins ekki síður en efnisins.

Hér má aftur kalla til Bakhtín sem lagði áherslu á að skop og hlátur væru mikilvægir undanfarar skáldsögunnar og jafnframt mikilvægir þættir hennar og þá sérstaklega í gegnum það sem hann kallaði margröddun. Margröddun og skop birtast í mótsögnum og margræðni, þar sem tungumálið er í stöðugri samræðu við sjálft sig, það einkennist af fjöltyngi.[3] Þessi lýsing á fullt eins við um myndasögur, en þar skapar samspil orða og mynda óstöðuga merkingu, sérstaklega þegar hláturinn er ríkjandi. Þetta sýnir Lóa bæði í formi og efni myndasagna sinna, þar sem endurtekin þemu mynda vefnað tilvísana og samtala.

 

 

Konur innan og utan ramma

Myndin birtist fyrst á vefmiðlum Lóaboratóríum 3. júní 2020 með færslutextanum: Ekki á morgun heldur.

Kvenleikinn tekur á sig margar myndir í teikningum Lóu og hún nær stöðugt nýjum hæðum í því að sýna fjölskrúðugar birtingarmyndir hans. Konurnar í myndum hennar eru þreyttar og áhyggjufullar, fullar samviskubits og kvíða. Þær eru mæður og dætur, ungar og eldri, í námi og vinnu, heima og að heiman og þær eru aldrei ánægðar með sig – nema þegar þær ákveða að ‚nenna ekki að vera óánægðar með sig í dag‘ og jafnvel ekki heldur á morgun.

Og þær eru allar fyndnar. Jafnvel þegar höfundurinn tekur sérstaklega fram að þetta sé ekki brandari eða að hún hafi ömurlegan húmor. Og biðst afsökunar.

Líkt og kvikmyndin er myndasagan tiltölulega ungt listform (sem samt er vinsælt að rekja aftur til hellamynda fornaldar) og engum ber saman um hvenær saga hennar hefst. Er það í Bandaríkjunum með Gula krakkanum árið 1895 eða 1896? Eða í Bretlandi með vandræðagemsanum Allie Sloper árið 1867? Eða í Sviss með myndaseríum Rodolphe Topffers sem hann birti á árunum 1837–46? Ekki tekur betra við þegar á að fara að skilgreina hverskonar fyrirbæri myndasagan er.

Sambland mynda og orða er almennt viðurkennt sem grundvallareinkenni formsins, þótt vissulega séu til myndasögur án orða. Endurtekin þemu og persónur, saga sögð í mörgum myndarömmum, eru önnur einkenni sem margir telja tilheyra forminu. Afar vinsælt er að gera greinarmun á skopmyndum í einum ramma og myndasögum sem lengri frásögnum í fleiri römmum. Mín helsta niðurstaða, eftir áralangar rannsóknir og lestur, er að myndasögur eru allskonar og það eru til allskonar skilgreiningar á þeim.[4] Og allavega er ljóst að þótt engin samstaða hafi náðst um aldur, uppruna og helstu einkenni þá eru myndasögur til, úti um allt.

Myndin birtist 28. mars með færslutextanum: Ég skulda sjálfri mér nokkrar sögur í mars svo hér kemur önnur í dag(nótt)

Myndasögur Lóu má telja til skopmynda sem eiga sér (mögulega) mun lengri sögu en ‚myndasagan‘. Ég ætla ekki að rekja hana, en í stuttu máli tengist skopmyndin frekar dagblöðum og er þekktust fyrir pólitísk tengsl sín, samanber ‚pólitískar skopmyndir‘. Sem slík hefur hún því þótt merkilegri en önnur form myndasögunnar, skopmyndin felur gjarnan í sér ádeilu og stendur nær myndlistinni. Flestir skopmyndateiknarar í gegnum söguna hafa verið karlkyns, líkt og reyndar flestir höfundar myndasagna yfirleitt. Þó hafa konur haslað sér völl innan skopmyndarinnar og meira að segja tekið þátt í því að móta myndasöguformið, því þótt karakterinn Allie Sloper sé iðulega kenndur við karlhöfund var það kona sem lengst af teiknaði hann og gerði hann vinsælan.[5]

Í sögu skopmyndarinnar allt frá tíma neðanjarðarmyndasögunnar í Bandaríkjunum er hægt að tína til ýmsar konur, sem eru vissulega misþekktar en hafa þó gert sig breiðar innan formsins. (Ó)þekktasta dæmið er Alison Bechdel, en myndasaga eftir hana, „The Rule“ (1985), er fyrirmynd Bechdel-prófsins, þar sem kvikmyndir eru metnar út frá því hvort þar séu nafngreindar kvenpersónur sem tali saman um eitthvað annað en karlmenn (eina dæmið sem hún finnur árið 1985 er kvikmyndin Alien (1979), en þar tala tvær konur um skrímsli). Eins og Trina Robbins hefur sýnt fram á í bókum og greinum þá geymir sagan fjölda dæma um kvenkyns myndasöguhöfunda en hún geymir þá vel og vandlega í neðstu skúffunni, innst.

 

Veisla í veskinu

Myndin birtist 20. mars með færslutextanum: Allir eru að gera sitt besta.

Eftir að hafa fylgst með Lóu í áratugi og glaðst yfir myndasögum hennar kom það mér verulega á óvart, á fyrirlestri sem ég hélt um verk hennar á málþingi til heiðurs Helgu Kress á síðasta ári, hvað mörg viðstaddra þekktu ekki til hennar. En þegar nánar er að gáð er það kannski ekki svo skrítið, því þótt hún hafi teiknað lifandis ósköp af myndasögum þá hafa þær ekki komið fyrir almenningssjónir á sama hátt og myndir vinsælla skopmyndateiknara á borð við Halldór Baldursson, sem birtir sínar skopmyndir í einu mest lesna dagblaði landsins, og Hugleik Dagsson sem hefur gefið út fjölda bóka.

Hvernig mætti þá kynna Lóu fyrir þeim sem mögulega hafa aldrei séð myndirnar hennar? Hún er fyndin, það hlýtur að vera upphafspunkturinn. Skopmyndin er frekar gagnslaus ef hún er ekki fyndin. Þetta þekkja lesendur Morgunblaðsins vel. (Tekið skal fram að allar skoðanir sem birtast í þessari grein eru alfarið á ábyrgð greinarhöfundar.) Fyndnin felst meðal annars í sambandi mynda og orða. Myndirnar eru oft fyndnar í sjálfum sér og textinn jafnvel líka, en samspilið þarna á milli er aðalatriðið. Að þessu leyti falla myndir hennar að lýsingu Topffers á sínum myndasögum, myndirnar án textans hafa óljósa merkingu og textinn án mynda enn minni, en samsetning þessa býr til sögu sem er sérstök að því leyti að hún líkist ekkert sérstaklega sögu frekar en einhverju allt öðru.[6] Á samskiptamiðlum bætist við aukatexti, myndatexti sem höfundur setur inn með færslunni. Þannig nýtir Lóa miðilinn til að bæta aukavídd í húmorinn og fjölga röddum. Fyndnin beinist oft gegn henni sjálfri, en sjálfsmeðvitund og sjálfsháð er þekkt stef myndasögunnar, eins og fram kemur í orðum Coultons Waugh um skopmyndina sem spegil.

Myndin birtist fyrst á vefmiðlum Lóaboratóríum 1. febrúar 2020 með færslutextanum: Ekki trufla nema þig vanti nauðsynlega rauðan ópal.

Tökum dæmi af þessari mynd af töskunni. Þar sjáum við tvær myndir kvenleikans: annarsvegar konuveski og hinsvegar dæmigerða sjálfsgagnrýna konu að fela sig í veskinu: „Ég ætla bara að fela mig í þessu veski um stund.“ En textinn með færslunni býður einnig upp á aðra möguleika: „Ekki trufla nema þig vanti nauðsynlega rauðan ópal.“ Kannski þarf konan bara frið í smástund og finnur hann í veskinu sínu? Ekki má heldur gleyma því að kvenveski af þessu tagi minnir strax á handtösku Múmínmömmu, en í henni er bókstaflega allt – sjálfsagt líka rauður ópal. Ef ég man rétt átti Mía það til að koma sér þægilega fyrir í veski Múmínmömmu.

Í sjálfu sér er ekkert sérstaklega fyndið við þetta, en samt. Það er eitthvað sem kitlar við tilhugsunina um konu í töskunni, ekki síst þar sem hún hefur sett sér það markmið að teikna mynd á dag – og endar á því að fela sig. Í veski. Á annarri mynd sjáum við þessa konu dansa um glaða, hún hefur ákveðið að vera ánægð með sig í dag, já og á morgun líka, samkvæmt textanum sem fylgir færslunni. Við erum búin að fylgjast með þessari konu í ýmsum útgáfum, að borða of mikið (af óhollustu), að horfa á sjónvarp, að stunda jóga og sinna börnum og heimili. Hún er oft þreytt, stundum örvæntingarfull, en í dag er hún ánægð með sig. Við gleðjumst með henni og flissum um leið yfir loðnum leggjunum sem engin kona gæti mögulega verið ánægð með á þessum fordómafullu tímum.

Þrátt fyrir að myndasögur Lóu séu velflestar einrömmungar, þá mynda þær heild, einskonar sögu sem er bæði sjálfsævisöguleg, um það að vera að teikna þessar myndir, og saga tímans, það er að segja þess tímaskeiðs sem sagan er sögð á. Coulton Waugh bendir á í lokaorðum bókar sinnar The Comics (1947) að myndasagan sé mikilvægur samfélagsspegill og fáir aðrir miðlar nái að fanga tíðarandann á þeim tíma sem hann andar.[7] Myndasögur eru þannig einskonar óformleg saga almennings.[8] Loks bendir hann á að myndasöguhöfundar taki ekki aðeins þátt í sögunni heldur geti þeir einnig mótað hana.[9]

Myndin birtist fyrst á vefmiðlum Lóaboratóríum 7. apríl 2020 með færslutextanum: Smá aulagrínsfórn fyrir páskahretsguðina.

Þetta raungerist í myndasögum Lóu sem birtust mánuðina mars, apríl og maí, verkefnið varð samfélagsspegill og saga af samfélagi á fordæmalausum tímum farsóttar. Við sáum myndir af einangrun, ótta, ráðaleysi og hetjudýrkun, heimanámi og ofáti. Og hún gaf okkur leyfi til að flissa, finna til og skynja tímabilið á allt annan hátt en við hefðum gert án myndasagna hennar. Þar sem þær birtust á samfélagsmiðlum varð til sameiginleg reynsla af samfélagi í samkomubanni, sem án efa mótaði upplifun margra og þannig þá sögu sem tímabilið mun skilja eftir sig.

Annað sem þetta tímabil hefur skilið eftir sig eru aukakíló.

Færslutextinn er: „Smá aulagrínsfórn fyrir páskahretsguðina“, sem tengir myndina við ‚söguna‘ og tímann og segir að auki sitt um húmorinn og ástandið. Því þótt textarnir séu stuttir er margræðni orðanna mikil, allt frá ‚aula‘-húmornum sem felst í samlokubanni vs. samkomubanni yfir í athugasemd um veðrið, sem ekki lék við landann á fordæmalausu tímunum, og þaðan yfir í aulahúmorinn sem fórn til veðurguða – hvort sem honum er ætlað að blíðka þá eða refsa þeim.

 

Hláturheimilið

Úr Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós (2015).

Annað einkenni fyndninnar er angistin. Eins og allt gott fólk er Lóa undir áhrifum frá hrollvekjum sem birtist meðal annars í gróteskum áhrifum í myndmálinu og margskonar óþverrum sem birtast hér og þar og skamma persónur. Angistin er sérlega fyndin, því hún myndar svo hreina andstæðu við fyndnina. Á myndinni af angistarsafanum hrynja höfuðkúputárin úr augum konunnar sem er með svart nef og gráa húð. Textinn, „Það sést hverjir drekka angistarsafa“, vísar beint í auglýsingu fyrir drykk sem sýnir fallega fólkið að kafna úr hamingju, á meðan það gerir allskonar glæsilegt. Svona útúrsnúningur er klassískt bragð skopmyndarinnar.

Önnur aðferð sem Lóa beitir af mikilli dirfsku í Alhæft um þjóðir er að taka fordóma og ýkja þá. Bókin gengur öll út á fáránlegar alhæfingar um hinar ýmsu þjóðir, allt frá því að segja að fátt gleðji „börnin á Hawaii meira en að finna sjórekið lík“ eða lýsa Spánverjum sem áttavilltum, yfir í að taka þjóðareinkenni og búa til úr þeim mýtu: „Þybbnir Belgar eru tignaðir sem guðir. Hlutverk þeirra felst aðallega í því að blessa súkkulaði.“ Með þessu dregur Lóa fram fáránleikann í þeim algenga sið að alhæfa um þjóðir út frá afar takmörkuðum upplýsingum. Sem fyrr felst húmorinn í því að finna sig í brandaranum og hlæja (skömmustulega).

Skopmyndir Lóu eru rammpólitískar, eins og sést á þeirri margvíslegu samfélagsgagnrýni sem birtist í þeim, allt frá fegurðarkröfum til ádeilu á stjórnmál. Þungavigt þessarar gagnrýni er á forsendum kvenna og endurspeglar ‚reynsluheim‘ þeirra, en bæði er sá heimur ríflega helmingur heimsins og þar með ekki aðeins hagsmunamál minnihlutahóps og að auki eru átakamál hans ríkur þáttur í samfélagsumræðu allri. Þetta er þema sem Lóa vinnur markvisst með og þá ekki síst í tengslum við ímyndir, staðalmyndir, raunsæi, kynhlutverk og kvenhlutverk, deilna um femínisma og allt það áreiti og þær kröfur sem umkringja konur í kvenréttindabaráttu samtímans.

Myndin birtist fyrst á vefmiðlum Lóaboratóríum 26. apríl 2020 með færslutextanum: Brennd kveðja frá bleiknefjanum.

Helga Kress hefur fjallað um hlátur í tengslum við fornsögur og Íslendingasögur og bendir á að hlátur kvenna feli í sér ógn við karlveldið[10] – og fulltrúa karlveldisins – eins og óþverrinn með allar óraunhæfu samfélagslegu kröfurnar. Hér ber að hafa fyrirvara: það eru ekki aðeins karlar sem gera óraunhæfar kröfur til kvenna, aðrar konur gera það líka. Hinsvegar er staðreyndin sú að helstu viðmið samfélagsins eru mótuð af körlum og þetta birtist ekki síst í ímyndaiðnaðinum, auglýsingum, kvikmyndum, tölvuleikjum, myndasögum, hönnun og jafnvel myndlist. Helga minnir á að hláturinn er líkamsmál[11] og þetta er sérlega áberandi í myndasögum Lóu sem eru þrungnar af líkamleika, bæði í grótesku eldri myndasagnanna og 2020-syrpunni sem einkennist af mjúkum litaflötum.

Líkamleikinn er alltaf nátengdur gróteskunni og þá sérstaklega þegar kemur að fyrrnefndri ofgnótt líkamans, eins og fram kemur hjá Bakhtín.[12] Konurnar í myndum Lóu eru flestar afar mjúkar og holdmiklar, ef ekki það þá eru þær óvenju langar og teygjanlegar. Hláturinn og gróteskan tengjast svo karnívalinu þar sem öllum viðmiðum er snúið á hvolf. Karnívalið er heimur alþýðunnar og „einkennist af hlátri og gleði“, segir Helga Kress og vísar til skrifa Bakhtíns, þessi heimur er andstæða klassísku menningarinnar sem „er lokuð og tilheyrir yfirstétt og höfðingjum“.[13] Helga bendir ennfremur á að hláturinn leiki lykilhlutverk í karnívalinu, „og það er hlátur sem allir taka undir. Frelsandi hlátur, þar sem enginn er öðrum meiri.“[14] Lóa á að sjálfsögðu mynd um frelsandi hlátur:

Úr Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós (2015).

Þarna ná þau öll saman, rússneski bókmenntafræðingurinn, bandaríski myndasögufræðingurinn og íslenski femínistinn. Hláturinn er frelsandi, hann er margræður og hann snýst um það að losa um hömlur og leyfa sér að hlæja, ekki síst að sjálfum sér, en líka að því sem er óþolandi og óbærilegt, því stundum er það að stíga hláturölduna eina leiðin til að lifa af. En þetta er ekki einfalt mál, það er ekki alltaf auðvelt að koma auga á skoplegar hliðar samfélagsins og sjálfs sín. Og þá er gott að eiga að sérstaka rannsóknarstofu í fyndni, Lóaboratoríum.

 

 

 

 

Fleiri myndir Lóabóratóríum frá vorinu 2020:

 

Myndin birtist 1. mars. með færslutextanum: Jább

Myndin birtist 24. mars með færslutextanum: Ég sakna fólks.

 

Myndin birtist 14. mars. með færslutextanum: Skrapp í búð.

 

Myndin birtist 31. mars. með færslutextanum: Það er langt síðan ég hef gerst sek um jafn mikla persónudýrkun.

 

Myndin birtist 8. apríl. með færslutextanum: Saman að bíða en hvert í sínu horni.

 

Myndin birtist 15. apríl. með færslutextanum: Skál í kókómalti fyrir metnaðarfullu heimaskólastjórunum.

 

 

 

 

 

 

Tilvísanir

 

[1] Coulton Waugh, The Comics, Jackson og London, University Press of Mississippi 1991 (1947), bls. 15.

[2] Mikhail M. Bakhtín, „Ímyndir veislunnar hjá Rabelais“, þýð. Jón Ólafsson, Orðlist skáldsögunnar: Úrval greina og bókakafla, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2005, bls. 94.

[3] Mikhail M. Bakhtín, „Úr forsögu orðlistarinnar í skáldsögum“, þýð. Jón Ólafsson, Orðlist skáldsögunnar. Sjá sérstaklega bls. 59, 63, 67–68.

[4] Sjá nánar um þetta vafstur með skilgreiningar og upphaf í bók minni Myndasagan: hetjur, skrýmsl og skattborgarar, Reykjavík, Froskur útgáfa 2014, I. hluti.

[5] Sjá aftur Myndasagan, bls. 32–33.

[6] Þetta er frjálsleg endursögn mín á enskri þýðingu á orðum Topffers, sem Robert C. Harvey vitnar til í grein sinni „Describing and Discarding „Comics“ as an Impotent Act of Philosophical Rigor“, í bókinni Comics as Philosophy, ritstj. Jeff. McLaughlin, Jackson, University Press of Mississippi 2005.

[7] Coulton Waugh, bls. 354. M. Thomas Inge fjallar sértaklega um þetta í formála sínum að endurútgáfunni 1991.

[8] Sama, bls. 15.

[9] Sama, bls. 354.

[10] Helga Kress, Máttugar meyjar: Íslensk fornbókmenntasaga, Reykjavík, Háskóli Íslands og Háskólaútgáfan 1993. Sjá t.d. bls. 117, 121–122.

[11] Sama, 122.

[12] Mikhail M. Bakhtín, „Ímyndir veislunnar hjá Rabelais“, þýð. Jón Ólafsson, Orðlist skáldsögunnar.

[13] Helga Kress, „Bróklindi Falgeirs: Fóstbræðra saga og hláturmenning miðalda“, Fyrir dyrum fóstru: Greinar um konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum, Reykjavík, Háskóli Íslands og Rannsóknarstofa í kvennafræðum 1996, bls. 53.

[14] Sama.