Slaufunarmenning, forréttindi og útskúfun

eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2021

 

 

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Á undanförnum árum hefur umræða átt sér stað um það sem hefur á ensku verið kallað „cancel culture“ en á íslensku slaufunarmenning eða útskúfunarmenning. Sumir hafa áhyggjur af því að slaufunarmenning sé eitthvað sem einkenni tíðarandann, hún vegi að tjáningarfrelsi og leiði til útskúfunar fólks sem lítið eða jafnvel ekkert hefur til saka unnið. Í þessari grein mun ég fjalla um ýmsar spurningar sem koma upp varðandi þetta hugtak. Jafnframt mun ég greina ýmis önnur hugtök sem oft eru nefnd í samhengi við slaufunarmenningu og skoða tengsl þeirra.

Mikilvægt er að átta sig á hvað slaufun felur í sér og skoða tengsl hennar við útskúfun og útilokun; hvort hún snúist um refsingar, og ef svo er hvers konar refsingar og í hvaða samhengi. Ég mun fjalla talsvert um forréttindi í ýmsum myndum og gagnrýna villandi notkun þess hugtaks. Ástæða umfjöllunarinnar um forréttindi er að ég tel afar mikilvægt að draga fram hvernig forréttindi koma við sögu þegar slaufun er annars vegar.

Ég mun halda því fram að við höfum ekki forsendur til að segja að slaufunarmenning sé sérstakt einkenni á okkar tímum. Ýmiss konar útilokun og útskúfun hefur tíðkast í aldanna rás í hinum ýmsu samfélögum og hið sama gildir um fordæmingar fjöldans þegar honum er misboðið. Niðurstaðan verður sú að miklar áhyggjur af slaufunarmenningu séu iðulega tilkomnar vegna væntinga um forréttindi eða ósnertanleika.

 

 

Hvað er slaufun?

Svokölluð slaufunarmenning hefur verið talsvert til umræðu síðustu árin. Meðal annars hefur verið fjallað um hana nýlega á síðum þessa tímarits, af þeim Rúnari Helga Vignissyni[1] og Birni Þór Vilhjálmssyni.[2] ‘Slaufunarmenning’ er þýðing á ‘cancel culture’ á ensku. Hugtakið „cancelled“ felur í sér að hætt sé við eitthvað sem annars var á dagskrá. Einstaklingur sem er „cancelled“ er einhver sem hefur verið í sviðsljósinu, verið ofarlega í virðingarstiga samfélagsins, notið áheyrnar eða haft aðgang að fjölmiðlum eða öðrum leiðum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, en eitthvað verður svo til þess að viðkomandi er ekki lengur velkominn á þeim vettvangi. Þannig getum við sagt að frami hans stöðvist og að hlaupið sé yfir aðkomu hans sem annars hefði orðið. Með orðinu slaufun er vísað til þeirrar merkingar sagnorðsins ‚slaufa‘ að hætta við eitthvað eða hlaupa yfir það. ‚Cancel culture‘ hefur stundum verið þýtt sem ‚útskúfunarmenning‘ eða ‚útilokunarmenning‘ en ég tel að ‚slaufunarmenning‘ sé heppilegri þýðing. Auk þess má vel vera að slaufun eigi sér stundum stað án þess að til sé sérstök menning sem elur á henni og því þurfum við að geta greint að spurningar um hvort og hvenær slaufun eigi rétt á sér og hvort samtíminn einkennist af slaufunarmenningu.

Benda má á ýmis dæmi af slaufun á undanförnum árum, bæði hérlendis og erlendis. Til að mynda hefur verið nokkuð um að stúdentahreyfingar eða jafnvel starfsfólk háskóla mótmæli heimsóknum fyrirlesara sem þykja hafa skaðlegan boðskap fram að færa. Þetta hefur einkum verið áberandi hjá enskumælandi þjóðum. Meðal nýlegra dæma sem vakið hafa athygli má benda á róttæka femínistann Germaine Greer, sem þykir boða transfóbíu í skrifum sínum, og fjölmiðlamanninn Ben Shapiro sem boðar ýmis viðhorf sem hafa þótt íhaldssöm. Misjafnt er hvort mótmæli sem þessi beri árangur, oftar en ekki er fyrirlesturinn sennilega haldinn þrátt fyrir mótmæli, en það getur þó verið misjafnt. Listinn yfir þá fyrirlesara sem hefur verið mótmælt með þessum hætti er nokkuð langur og ekki er um eina pólitíska hreyfingu eða afstöðu að ræða; bæði hægrisinnaðir og vinstrisinnaðir fyrirlesarar hafa til dæmis orðið fyrir þessu.

Slaufun af þessu tagi hefur verið umdeild. Er rétt að hætta að hlusta á þau sem við erum ósammála eða er mikilvægt að hlusta og skiptast á skoðunum? Stundum hefur því verið haldið fram að um sé að ræða hatursorðræðu sem mikilvægt sé að stöðva. Á hinn bóginn hefur svo verið minnt á mikilvægi tjáningarfrelsis og frjálsra skoðanaskipta og m.a. vísað í grundvallarhugmyndir um tjáningarfrelsi sem settar voru fram af John Stuart Mill í Frelsinu.[3] Í þeim efnum verður væntanlega afar mikilvægt að gera greinarmun á hatursorðræðu og annarri orðræðu sem okkur líkar ekki eða við erum ósammála. Þannig hafa tilraunir verið gerðar til að móta afstöðu til þess nákvæmlega hvenær sé réttlætanlegt að afturkalla boð til fyrirlesara við háskóla.[4]

En vissulega er fjarri því að öll slaufun snúist um fyrirlesara við háskóla. Slaufun vegna skoðana eða orðræðu hefur átt sér stað á öðrum vettvangi, til dæmis þegar sumir fyrrum aðdáendur bókanna um Harry Potter hafa sagt skilið við þær vegna ummæla höfundarins, J.K. Rowling, um trans fólk. Meðal fleiri dæma úr listaheiminum má nefna kvikmyndargerðarmennina Woody Allen og Roman Polanski, sem mörg hafa sniðgengið vegna ásakana þeim á hendur um kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Hér er auðvitað um að ræða gjörólíka ástæðu fyrir slaufuninni; það er tvennt ólíkt að láta slæm orð falla sem beinast gegn ákveðnum hópum fólks og að beita ofbeldi. Í síðarnefnda tilvikinu getur ágreiningur um málið tæpast staðið um tjáningarfrelsi og oft er um að ræða hegðun sem flest fólk er sammála um að sé óviðunandi. Ágreiningurinn hefur þá ýmist staðið um hvort við eigum að taka því trúanlega að viðkomandi hafi brotið af sér eða þótt svo sé, hvort við eigum að sniðganga verk þeirra, þ.e. hvort við eigum að geta skilið á milli listamannsins og verka hans.

 

Slaufun, útilokun og útskúfun

Slaufun felur í sér einhvers konar útilokun sem getur verið af ýmsum toga. Það segir ekki svo mikið að einhver sé útilokaður frá einhverju. Frá hverju er hann útilokaður? Hvaða áhrif hefur það á líf og lífsgæði viðkomandi? Hvert er tilefni útilokunarinnar? Hver stendur að baki henni? Útilokun getur ýmist verið réttmæt eða óréttmæt, að gefnu tilefni eða tilefnislaus, léttvæg eða þungbær, haft lítil eða mikil áhrif og svo framvegis. Það getur verið gagnlegt og mikilvægt fyrir samfélag að grípa til útilokunar til að koma í veg fyrir að fólk valdi skaða, hvort sem það væri með því að brjóta á öðrum manneskjum eða taka að sér verkefni sem það ræður ekki við.

Augljóst dæmi um réttmæta útilokun að gefnu tilefni væri að hindra dæmdan barnaníðing í að vinna með börnum. Í slíku tilviki vegur tilefnið svo þungt að okkur þykir sennilega litlu máli skipta hvort útilokunin sé viðkomandi erfið eða hafi mikil áhrif á líf hans. Annars konar dæmi af réttmætri útilokun er að við sem ekki höfum aflað okkur tilskilinnar menntunar og þjálfunar erum útilokuð frá því að framkvæma skurðaðgerðir á öðru fólki, enda gætum við valdið miklum skaða ef við fengjum að leika lausum hala við slíkar tilraunir. Enn eitt dæmi er svo að við erum öll útilokuð frá einkalífi fólks sem við þekkjum ekki eða kærir sig ekki um að deila lífi sínu með okkur. Gjörólíkt dæmi, af rangmætri útilokun, felst svo í slæmu aðgengi að opinberum byggingum sem getur hindrað hreyfihamlað fólk í að sækja sér ýmsa þjónustu eða að taka þátt í samfélagsviðburðum og -verkefnum. Annað augljóst dæmi um rangmæta útilokun er svo þegar tilteknum samfélagshópum, til dæmis konum, er bannað að stunda nám eða atvinnu.

Þessi dæmi gefa til kynna að útilokun geti stundum verið nauðsynleg, stundum þurfi að beita henni öðrum til verndar, stundum eigi fólk rétt á að útiloka aðra frá einkalífi sínu, en jafnframt að stundum sé útilokun skaðleg og rangmæt. Stundum þarf að útiloka einstaklinga sem hafa brotið af sér frá þátttöku í opinberu lífi eða afmörkuðum sviðum samfélagsins sem við flest teljum sjálfsagt að hafa aðgang að undir venjulegum kringumstæðum. Stundum þarf að útiloka okkur flest frá tilteknum sviðum eða verkum vegna þess að mikilvægt er að þau séu aðeins í höndum þeirra sem hafa hlotið sérstaka þjálfun. Slík útilokun felur tæplega í sér útskúfun frá samfélaginu, enda aðeins þröngur hópur sem ekki býr við þá útilokun. Í dæminu um skort á aðgengi fyrir hreyfihamlaða er sennilega ekki um vísvitandi útilokun að ræða heldur kerfislæga útilokun og ef til vill skort á vilja til úrbóta en áhrifin geta verið veruleg og bitnað á hópi fólks sem ekkert hefur til saka unnið og á tilkall til þess sem hann er útilokaður frá. Í síðasta dæminu af útilokun kvenna frá menntun og atvinnu er um vísvitandi útilokun að ræða og jafnframt augljóslega rangmæta.

Útskúfun felur í sér útilokun frá mikilvægum þáttum samfélagsins. Eins og komið hefur fram getur hún stafað af ýmsu og verið ýmist réttmæt eða rangmæt. Eins eru áhrif hennar á þau sem verða fyrir henni margs konar. Það væri heldur ýkjukennt að kalla alla útilokun útskúfun. Við hljótum þó að þurfa að gera ráð fyrir að útskúfun feli í sér útilokun, ekki aðeins frá afmörkuðum gæðum, heldur sé um að ræða útilokun frá einhverju samfélagi í heild, eða einhverjum grundvallarþáttum þess sem erfitt er að vera án. Útskúfun getur þannig falist í að geta ekki stundað atvinnu við hæfi, geta ekki tekið þátt í félagslífi, geta ekki fengið heilbrigðisþjónustu eða aðra mikilvæga þjónustu eða fá ekki þau tækifæri sem sjálfsagt þykir að fá í viðkomandi samfélagi. Og til að við köllum það útskúfun hlýtur hegðun eða afstaða annarra með einhverjum hætti að búa að baki, hvort sem um er að ræða meðvitaða og markvissa útilokun eða kerfislæga. Útskúfun felur þannig í sér að fólk er hindrað í fullri þátttöku í samfélaginu og því er ýtt út á jaðra þess.

Er slaufun það sama og útilokun eða útskúfun? Tökum sem dæmi slaufun í háskólasamfélagi þar sem vinsæll fyrirlesari er ekki lengur velkominn vegna ummæla eða hegðunar sem hefur gengið fram af fólki. Viðkomandi fær þá til dæmis ekki að halda fyrirlestra, í það minnsta ekki við suma háskóla. Þetta er vissulega ákveðin útilokun. Hvort hún felur í sér útskúfun er meira málum blandið, ef til vill má tala um útskúfun frá ákveðnum geira samfélagsins sem hefur verið viðkomandi mikilvægur. En þetta er ekki útskúfun frá öllum mikilvægustu sviðum samfélagsins sem hindrar viðkomandi í almennri samfélagsþátttöku og þannig nákvæmara að tala um útilokun en útskúfun.

Slaufun er þannig mögulega útskúfun að einhverju marki og hún felur vissulega í sér útilokun. En þetta er ekki endilega það sama. Slaufun getur falið í sér að hafa ekki lengur aðgang að gæðum eða fríðindum sem viðkomandi hafði áður, að tapa greiðum aðgangi að tjáningu á opinberum vettvangi eða að vera ekki lengur valinn í landsliðið í knattspyrnu. Slíkt getur mögulega leitt til þess að viðkomandi hafi ekki lengur tækifæri til fullrar samfélagsþátttöku en það gerir það alls ekki alltaf. Slaufun getur verið þannig að viðkomandi sé útilokaður frá afmörkuðum gæðum, fríðindum eða frama sem hann hafði áður en ýmsar aðrar leiðir til samfélagsþátttöku geta staðið opnar, ásamt öðrum tækifærum, og þær leiðir sem lokast eru ef til vill lokaðar mörgum öðrum hvort sem er. Eins er rétt að minna á að slaufun varir ekki endilega að eilífu; stundum stígur viðkomandi til hliðar og hefur hægt um sig tímabundið en birtist svo aftur og hefur þá oft sama greiða aðganginn að fríðindunum og áður. Að lokum bera ekki allar kröfur um slaufun tilætlaðan árangur.

 

Refsingar og dómstólar

Stundum er talað um að útilokun, útskúfun eða slaufun sé beitt í refsingarskyni. En er það svo? Refsingar eru auðvitað margs konar og þeim er beitt af mismunandi aðilum í mismunandi tilgangi. Fólk sem brýtur af sér er stundum dæmt til einhvers konar refsingar, eins og fangelsisvistar eða greiðslu fjársektar, fyrir afbrot sín. Þegar talað er um refsingar í samhengi við slaufun er hins vegar ekki endilega átt við refsingar sem fólk er dæmt til innan dómskerfisins. Þvert á móti er jafnvel talað um dómstól götunnar og að fólk taki lögin í eigin hendur. Þessi umræða getur orðið villandi, ekki síst ef hamrað er á þessum hugtökum og orðasamböndum án þess að skýrt liggi fyrir með hvaða hætti þau eru talin eiga við viðkomandi mál.

Hlutverk dómskerfisins er meðal annars að fjalla um lögbrot eða meint lögbrot, leggja mat á málsgögn, fella dómsúrskurði og leggja á viðurlög samkvæmt ramma laganna. Þegar fólk telur dómskerfið ekki hafa staðið undir hlutverki sínu er stundum gripið til þess sem kallað er að taka lögin í eigin hendur. Á ensku er það stundum nefnt vigilante justice. Það felur í sér að útfæra sjálf viðurlög sem í raun þarf dómsúrskurð til að beita, og jafnvel ganga lengra í framkvæmd refsingar en lög hefðu nokkurn tíma heimilað. Við þekkjum þetta kannski best úr kvikmyndum eða öðrum skáldskap; söguhetjan leitar hefnda og myrðir jafnvel þá sem hún á eitthvað sökótt við, eða gerir þeim einhvern annan óleik.

Að taka lögin í eigin hendur á sér vissulega ekki aðeins stað í skáldskap og má nefna ýmis raunveruleg dæmi um slíkt. Til dæmis skemmdarverk á eignum fyrirtækja eða stofnana sem viðkomandi telja að stundi skaðlega starfsemi sem beri að uppræta eða þegar fólk á vegum dýraverndunarsamtaka brýst inn í rannsóknarstofur eða búgarða og bjargar þaðan dýrum sem það telur búa við óviðunandi aðstæður. Svo eru til ýmis dæmi þar sem fulltrúar almennings hafa hindrað fólk úr jaðarsettum hópum í að neyta lagalegs réttar síns vegna þess að þeir hafa talið að fólk úr þessum hópum ætti ekki þessi lagalegu réttindi skilið, til dæmis ferðafrelsi, að stunda tiltekið nám eða atvinnu, eða að taka þátt í kosningum. Við þekkjum líka dæmi úr sögunni þar sem múgur hefur ofsótt fólk, ráðist á það og jafnvel drepið. Hengingar Ku Klux Klan á blökkumönnum og aðrar ofsóknir þeirra eru augljóst dæmi um þetta.

Sem sagt felur það að taka lögin í eigin hendur í sér brot á lögum; einhver fer af stað og útdeilir refsingum sem hann hefur ekki lagalegt umboð til að gera. En á þetta hugtak við um samfélagslegar fordæmingar á hegðun fólks sem hafa stundum verið álitnar dæmi um slaufun? Svarið við því hlýtur að felast í því hvaða aðgerðir það eru sem gripið er til. Ef ég heyri að einhver hafi gert eitthvað sem gengur fram af mér og ákveð í kjölfarið að bjóða viðkomandi ekki í afmælið mitt þá er ég auðvitað ekki að taka lögin í eigin hendur, enda er fullkomlega löglegt að velja gesti í afmælið sitt eftir eigin geðþótta. Sama máli gegnir um hluti eins og að segja frá slæmri hegðun, vara annað fólk við einhverjum vegna hegðunar, ráða hann ekki til að koma fram á skemmtun eða lýsa yfir þeirri skoðun að við teljum hann ekki góða fyrirmynd. Þetta eru allt athafnir sem við þurfum ekki dómsúrskurði til að framkvæma, né þurfa þær að vera framkvæmdar af sérstökum stofnunum eins og gildir til dæmis um frelsissviptingu í kjölfar dóms. Hins vegar get ég verið að brjóta lög ef ég opinbera trúnaðargögn um viðkomandi sem ég hef ekki lagalega heimild til að birta eða ef ég hóta honum líkamsmeiðingum.

Að undanförnu hafa helstu ásakanir um að taka lögin í eigin hendur hér á landi komið fram í kringum aktívisma gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi og því sem hefur verið kallað nauðgunarmenning. Þannig hafa komið fram kröfur frá almenningi um að einstaklingar sem hafa orðið uppvísir að kynferðisofbeldi séu ekki fengnir til að skemmta á tónlistarhátíðum eða valdir sem fulltrúar þjóðarinnar í landslið í knattspyrnu. Slíkar kröfur falla varla undir að taka lögin í eigin hendur nema þær feli í sér ólöglega opinberun trúnaðarupplýsinga. Á hinn bóginn má minna á að algengt er að konur sem hafa sig mikið í frammi í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi fái sendar hótanir um líkamsmeiðingar, nauðganir og jafnvel líflát, sem er væntanlega tilkomið vegna þess að einhverjum blöskrar svo tjáningarfrelsi þeirra að þeir telja sig þurfa að taka lögin í eigin hendur til að þagga niður í þeim.

Við getum líka velt því fyrir okkur hvort aktívismi á borð við þennan snúist um refsingar eða eitthvað annað. Það flækir að vísu málið að ekki eru allir á einu máli um tilgang eða markmið refsinga og þá í raun hvað þurfi til að eitthvað geti talist refsing. Er markmiðið að ná fram hefndum með því að valda þeim sem hefur brotið af sér sársauka og vanlíðan? Þetta er viðhorfið sem kalla mætti „Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“. Annar möguleiki er að markmiðið sé að fæla viðkomandi frá því að brjóta af sér aftur og aðra frá því að brjóta af sér með sama hætti. Sé það eina markmiðið þá skiptir mestu máli að fólk telji að það muni sæta refsingu ef það brýtur af sér, en minna máli skiptir hvort og hvernig refsingin er útfærð í raun. Þriðja mögulega markmiðið er að vernda annað fólk eða samfélagið fyrir skaðlegri hegðun þess sem hefur brotið af sér. Þá felst aðferðin í að útiloka viðkomandi frá samfélaginu til að hindra að hann valdi meiri skaða. Og að lokum telja margir að helsta markmið refsivistar ætti að vera betrun.

Þegar slaufun er beitt getur því verið óljóst hvort málið snúist um refsingu, og ef svo er, hvers konar refsingu og hvort hún sé réttmæt eða ekki. Vissulega þykir óæskilegt að almennir borgarar taki lögin í eigin hendur í þeim skilningi sem rætt var hér að ofan, eða að þeir taki að sér hlutverk dómskerfisins og dæmi einhverja til refsingar í sama skilningi og það gerir. En ekki liggur fyrir að það eigi sér stað við slaufun. Þetta er mikilvægt að hafa í huga því gjarnan er hamrað á því að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð og að dómstóll götunnar sé hættulegt fyrirbæri. Eitt af grundvallaratriðunum í réttarríki er að enginn skuli látinn sæta refsingu án þess að dómur hafi verið kveðinn upp um sekt hans sem byggir á fullnægjandi sönnunum þess efnis. Þar er átt við refsingar á borð við frelsissviptingu eða önnur viðurlög sem er beitt í kjölfar dóms. Það er því réttur okkar allra að skoðast sem saklaus í augum laganna og dómskerfisins nema sekt okkar hafi verið sönnuð fyrir dómi.

Þetta þýðir auðvitað ekki að við séum öll bókstaflega saklaus ef sekt okkar hefur ekki verið sönnuð fyrir dómi. Klókur glæpamaður sem aldrei kemst upp um er bullandi sekur þótt enginn hafi getað sannað það. Sekt þarf að vera til staðar áður en hægt er að sanna hana; ef viðkomandi er saklaus er tæpast hægt að sanna sekt sem ekki er til. Eins má skoða málið úr hinni áttinni: Að einhver sé dæmdur tryggir ekki sekt hans; það finnast því miður dæmi úr réttarkerfinu, bæði hérlendis og erlendis, um fólk sem hefur verið dæmt saklaust til refsivistar. Með öðrum orðum þá er það ekki dómurinn í réttarsalnum sem gerir einhvern sekan eða saklausan heldur athafnir hans; annaðhvort framdi hann, eða hann framdi ekki, glæpinn sem um ræðir. Þetta er vonandi flestum ljóst en af athugasemdakerfum netmiðlanna er svo að skilja að fyrir sumum sé þetta eitthvað á reiki.

Það er því tvennt ólíkt að vera saklaus í augum laganna og að vera bókstaflega saklaus. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að ekki takist að sanna sekt einhvers sem samt sem áður er sekur, til dæmis að honum takist að leyna glæpnum eða eigin tengslum við hann, eða að ekki takist að afla nægra sönnunargagna þrátt fyrir að við höfum góða ástæðu til að ætla að viðkomandi sé í raun sekur. Ef einhver gerir eitthvað á hlut minn eða einhverra sem mér þykir vænt um en ekki tekst að sanna sekt hans fyrir dómstólum þá skoðast hann saklaus í þeim skilningi að ekki er hægt að setja hann í fangelsi. En það útilokar auðvitað ekki að ég felli mína persónulegu dóma um viðkomandi og að vinir mínir geri það líka. Okkur er frjálst að sniðganga hann, hvort sem það felst í að bjóða honum ekki í afmælisveislur eða með því að ráða hann ekki til að skemmta unglingum á skólaböllum. Þannig þurfum við að geta gert greinarmun á rétti okkar fyrir lögunum og rétti okkar í félagslegu samhengi. Við eigum rétt á að teljast saklaus fyrir lögunum og vera ekki látin taka út refsingar á borð við fangavist eða annað sambærilegt á vegum hins opinbera, nema dómstóll hafi fellt þann úrskurð að sekt okkar sé hafin yfir vafa. Hins vegar eigum við ekki sams konar rétt á að fólki úti í bæ líki vel við okkur eða að það bjóði okkur ýmiss konar gæði og fríðindi.

 

Ýkjur og úrdráttur

Lýsingarnar sem beitt er þegar talað er um slaufun eiga það til að verða ýkjukenndar. Til að mynda er oft talað um að einhver hafi verið tekinn af lífi án dóms og laga. Aftaka án dóms og laga má segja að sé einn af undirflokkum þess að taka lögin í eigin hendur. Orðasambandið á auðvitað illa við í íslensku lagaumhverfi nútímans þar sem dauðarefsingar hafa fyrir löngu verið aflagðar og því engar aftökur til sem gætu falið í sér að framfylgja lögum. Hið raunverulega vandamál felst þá kannski í aftökunni sem slíkri, en ekki endilega því að hún eigi sér stað utan laganna. Stundum er talað um að einhver hafi verið tekinn af lífi á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum eða á netinu, án þess að vísað sé í aðkomu laganna eða skortinn á henni.

Þetta orðasamband, að vera tekinn af lífi, er yfirleitt notað um að vegið sé að æru einhvers. Í raun hefur orðasambandið orðið svo vinsælt í þessu samhengi að það virðist orðið að fastri klisju og mörgum reynist ómögulegt að tala um ærumissi eða jafnvel bara gagnrýni án þess að halda því fram að viðkomandi hafi verið tekinn af lífi, jafnvel að hann hafi „bókstaflega“ verið tekinn af lífi.

Líkingamál á auðvitað fullan rétt á sér í alls konar samhengi og málumhverfi okkar væri heldur dauflegt ef við notuðum aldrei líkingamál. Ýkjukenndar líkingar skemma hins vegar fyrir ef ætlunin er að eiga í vitrænni samræðu um hluti sem raunverulega hafa átt sér stað og réttmæti þeirra. Það hefur lítið upp á sig að spyrja hvort rétt sé að taka einhvern af lífi fyrir tiltekna hegðun, eða á grundvelli tiltekins vitnisburðar, ef það sem hefur raunverulega gerst er að hann hafi orðið af starfstækifæri eða hlotið skammir og gagnrýni. Þá er verið að afvegaleiða umræðuna. Við hljótum að þurfa að geta rætt um réttmæti þeirra afleiðinga sem viðkomandi hefur í raun og veru orðið fyrir og þá er tímasóun að ræða um hvort rétt sé að taka viðkomandi af lífi, sem við teljum væntanlega flest augljóst að ætti ekki að gera.

Það eru ekki aðeins ýkjur sem trufla umræðuna heldur líka andstæða þeirra, úrdrátturinn. Stundum er talað um að sá sem verður fyrir slaufuninni hafi „misstigið sig aðeins“ eða „farið aðeins yfir mörk“. Sjálfsagt kemur það fyrir að refsiglaður hópur heimtar útskúfun einhvers sem hefur gert smávægileg mistök en oftast snýst málið um eitthvað alvarlegra. Þetta á ekki síst við þegar farið er fram á að brugðist sé við kynferðisbrotum. Kynferðisofbeldi hlýtur að vera meira en smávægilegt misstig eða að ruglast aðeins á því hvar mörk í samskiptum eigi að liggja. Ýkjum og úrdrætti er jafnvel beitt í sömu setningunni, til dæmis þegar sagt er að maður sé tekinn af lífi fyrir að hafa misstigið sig aðeins, þegar það sem gerist í raun er að hann þurfi að þola gagnrýni eða missi atvinnutækifæra fyrir að hafa orðið uppvís að alvarlegu broti.

Í bók sinni A Theory of Jerks and Other Philosophical Misadventures[5] setur Eric Schwitzgebel fram kenningu um hvað það feli í sér að vera skíthæll (e. jerk). Skíthæll er samkvæmt Schwitzgebel sá sem bregst með vítaverðum hætti í að taka tillit til annarra og kemur fram við aðra eins og verkfæri til að nota eða kjána sem þurfi að eiga við fremur en sem siðferðilega og þekkingarlega jafningja.[6] Hann talar um skinhelga skíthælinn (e. moralistic jerk) sem sérstaka útgáfu af skíthæl. Skinhelgur skíthæll er gjarnan í einhvers konar ábyrgðarstöðu þar sem hann notar aðstöðu sína til að finna að hegðun annarra og fella um þá dóma. Schwitzgebel tekur sem dæmi ýmsar persónur úr bókum Charles Dickens, eins og Scrooge sem skammast yfir leti hinna fátæku og herra Bumble sem hneykslast á því að Oliver Twist leyfi sér að biðja um meiri mat. Skinhelgur skíthæll lítur þannig niður á aðra en álítur sjálfan sig fyrirmynd annarra og notar siðferðisskoðanir sínar til að upphefja sig og gera lítið úr öðrum í leiðinni, án nokkurrar miskunnar.

Þegar opinber fordæming og kröfur um slaufun eiga sér stað er vissulega mögulegt að skinhelgir skíthælar í anda Schwitzgebels séu að verki, sem vilji refsa einhverjum með látum fyrir smávægilega yfirsjón. Við könnumst sjálfsagt flest við slíkar sögur, þar sem einhver sem okkur virðist aðeins hafa misstigið sig lítillega hefur orðið fyrir háværum skömmum og jafnvel kröfum um útilokun. Í slíkum tilvikum má segja að ýkjurnar beinist ekki að viðbrögðunum heldur að tilefninu eða glæpnum. En þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að slíkt eigi við um allar kröfur um slaufun.

Til að geta rætt um það hvort slaufun eigi rétt á sér, og ef svo er í hvaða mynd, er nauðsynlegt að geta fjallað um raunverulegar afleiðingar hennar og eins að tengja þær við tilefnið. Afleiðingar slaufunar geta falist í vanþóknun fjöldans, atvinnumissi, missi tækifæra og missi ýmiss konar fríðinda. Tilefnið getur spannað klaufaleg ummæli, viðvarandi hatursorðræðu, kynferðisbrot af ýmsum toga, annað ofbeldi og ýmsa aðra slæma hegðun sem ber þess merki að viðkomandi sé ekki heppileg fyrirmynd og jafnvel hættulegur öðrum.

 

 

Forréttindi

Slaufun er gjarnan sett í samhengi við forréttindi. Þau sem tala fyrir slaufun, eða sniðgöngu einhvers sem þau gagnrýna, halda því stundum fram að gagnrýnin beinist að misnotkun forréttinda. Þetta er einkennandi í þeim tilvikum sem kröfur um sniðgöngu eru settar í samhengi við baráttu fyrir félagslegu réttlæti. Á hinum pólnum eru svo þau sem telja slaufunarmenningu og kröfur um sniðgöngu hafa gengið of langt og halda því þá meðal annars fram að réttindabaráttuhópar fari fram á forréttindi sér og sínum skjólstæðingum til handa. Því er mikilvægt að beina sjónum að forréttindahugtakinu og hlutverki þess í slaufun og afstöðu til hennar.

Orðið ,forréttindi‘ er notað á mismunandi vegu og getur þannig haft ólíkar merkingar.[7] Þessum merkingum er stundum blandað saman og ef til vill liggur ekki alltaf fyrir hverja þeirra um ræðir, en til að geta lagt mat á aðrar spurningar um forréttindi er nauðsynlegt að geta greint þessar mismunandi útgáfur forréttinda að.

Neikvæðasta, og kannski algengasta, túlkunin er sú að forréttindi eða forréttindastaða sé í eðli sínu eitthvað ranglátt, til dæmis þegar einhver fær í krafti klíkuskapar að fara fram fyrir röðina sem aðrir þurfa að bíða þolinmóðir í eða fær að lifa í vellystingum og hafa meira en hann þarf af einhverju sem flesta aðra skortir. Í þessum skilningi geta þau sem njóta forréttinda jafnvel sloppið við refsingu fyrir afbrot í krafti þess að tilheyra réttu klíkunni eða vera ofarlega í virðingarstiga samfélagsins. Þær reglur sem við teljum almennt eðlilegt og rétt að gildi í samfélaginu gilda ekki um þau sem njóta forréttinda í þessum skilningi, þau þurfa ekki að taka afleiðingum gjörða sinna og þau njóta tækifæra sem gefast fáum öðrum, jafnvel á kostnað annarra.

Forréttindi í þessum skilningi hljótum við að vilja afnema ef við erum jafnréttissinnuð, þau trufla réttlætiskenndina og við reiðumst jafnvel yfir því að þau séu til staðar. Þegar einhver nýtur þeirra er það merki um ranglæti og mismunun, enda um að ræða að tiltekinn einstaklingur eða hópur fái að fara á svig við reglur sem gilda almennt í samfélaginu, jafnvel á kostnað annarra, og gefur til kynna að viðkomandi sé hafinn yfir fjöldann. Markmið jafnréttis- og mannréttindabaráttu er meðal annars að ná fram breytingum þannig að enginn njóti slíkra fríðinda.

Svo er annar skilningur á forréttindum sem virðist nokkuð algengur. Talað er um að það séu forréttindi hvítra umfram svarta að geta gengið um götur, til dæmis í Bandaríkjunum, án þess að liggja stöðugt undir grun um að vera glæpamaður og eiga á hættu handtöku, áreitni lögreglu eða þaðan af verra án þess að hafa gert nokkuð af sér. Annað dæmi eru þau forréttindi grannvaxinna að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk taki umkvörtunarefni þeirra alvarlega, eða að vera laus við aðfinnslur um holdafar og ráðleggingar óviðkomandi fólks um mataræði. Þriðja dæmið gæti verið þau forréttindi karla að þurfa ekki að hafa sífelldar áhyggjur af að verða fyrir kynferðislegri áreitni eða af því hvort þeir verði teknir alvarlega eða á þá hlustað í vinnunni.

Forréttindi í þessum skilningi snúast ekki um hluti sem eru slæmir í sjálfu sér; þvert á móti. Það er ekkert slæmt að einhver geti lifað í friði fyrir áreitni eða að hlustað sé á fólk og tekið mark á því. Það sem er slæmt er að það skuli ekki allir njóta þessara fríðinda. Í raun er varla hægt að segja að þau sem njóti þeirra geri það á kostnað þeirra sem geri það ekki;[8] fólk úr hópi A ætti að geta notið skoðanafrelsis, ferðafrelsis og virðingar án þess að það hindraði fólk úr hópi B á nokkurn hátt í að njóta sömu kosta.

Ég tel að það sé villandi að kalla það sem um ræðir hér forréttindi en að betra sé að tala um forréttindastöðu. Umrædd réttindi ættu að vera öllum sjálfgefin og ekkert er við þau sem slík að athuga. Vandamálið er hins vegar fyrirkomulag í samfélaginu sem felur í sér að sumir hópar fólks búa ekki við þessi sjálfsögðu réttindi. Misræmið sem af því stafar leiðir til ójafnvægis í aðstöðu, valdi, tækifærum og fleiru. Að vera í forréttindastöðu getur þannig falið í sér ákveðið forskot og aðstöðumun; þegar við erum í forréttindastöðu getum við notið góðs af misrétti sem hópar sem við tilheyrum ekki verða fyrir, án þess að það sé í sjálfu sér nokkuð athugavert við réttindin eða gæðin sem við búum við þegar þau eru skoðuð hvert fyrir sig. Markmið réttindabaráttu er þá að öll fái notið þessara réttinda og að þau hætti þar með að teljast til forréttinda þannig að enginn verði í forréttindastöðu.[9]

Þriðji skilningur orðsins ,forréttindi‘ á við þegar fólk segir að ákveðin reynsla sem það hafi fengið að njóta sé forréttindi, eins og: „Það eru einstök forréttindi að hafa fengið að kynnast Gunnu og starfa með henni að þessu verkefni.“ Þarna er viðkomandi ekki að segjast hafa notið góðs af ranglæti og mismunun heldur að tjá ánægju og þakklæti fyrir kynni sín af Gunnu. Orðið forréttindi er notað til að gefa til kynna að sú sem mælir líti ekki á það sem gefinn eða sjálfsagðan hlut að verða þeirrar gæfu aðnjótandi sem kynnin af Gunnu hafa borið með sér, heldur sé um að ræða eitthvað sem er meira en hægt hefði verið að fara fram á.

Við forréttindi í þessum þriðja skilningi er fátt að athuga og þau koma líklega minnst við sögu hér. Hér er um einhvers konar yfirfærða merkingu orðsins að ræða. Málið snýst ekki um að viðkomandi telji sig bókstaflega hafa notið forréttinda heldur er verið að lýsa þakklæti fyrir ánægjulega reynslu og auðmýkt gagnvart eigin gæfu.

Þegar við tölum um að einhver búi yfir forréttindum í samhengi við umræðu um misrétti gagnvart tilteknum samfélagshópum þá skiptir máli hvort um er að ræða forréttindi í skilningi eitt eða forréttindastöðu í skilningi tvö. Ef ég á að huga að forréttindum mínum í því skyni að verða meðvitaðri um stöðu mína, þá verð ég að geta áttað mig á því hvort þau feli í sér ranglæti sem bitnar á öðrum og ætti að afnema eða hvort um er að ræða lífsgæði sem ég hef í raun fullan rétt á en sem sum önnur fá því miður ekki að njóta vegna ranglætis eða fordóma sem þau verða fyrir. Í fyrra tilfellinu væri um að ræða fríðindi sem væru vissulega þægileg fyrir mig, eins og ef ég fengi að fara fram fyrir biðraðir, ég kæmist upp með að grípa fram í fyrir öðrum og sýna þeim lítilsvirðingu, eða ef ég gæti hreinlega brotið af mér án þess að þurfa að hafa áhyggjur af afleiðingunum vegna þess að klíka í kringum mig sæi um að þagga allt niður. En væri beinlínis rétt að kalla það gæði? Að minnsta kosti hlyti að vera rangt af mér að njóta þessara þæginda eins og ekkert væri, enda fælu þau beinlínis í sér ranglæti og brot á öðru fólki. Hvatning til að huga að forréttindum mínum sem leiddi í ljós að ég nyti forréttinda af þessum toga ætti með réttu að leiða til þess að ég gerði mitt besta til að losa mig við þau.

Í seinna tilvikinu, ef ég byggi við forréttindastöðu í skilningi tvö, nyti ég ýmissa gæða í lífi mínu, mér væri sýnd tilhlýðileg virðing við ýmsar aðstæður, réttindi mín væru virt og svo framvegis. Ég væri þó ekki í neinni sérstakri verndaðri klíku og kæmist ekki upp með yfirgang gagnvart öðru fólki, fengi ekki að brjóta reglur sem giltu almennt eða neitt slíkt heldur snerist málið um að mér væri ekki sýndur yfirgangur eða lítilsvirðing, að almennar reglur og lög væru virt þegar ég ætti í hlut og svo framvegis. Með öðrum orðum er hér átt við að mannréttindi mín og ýmis önnur réttindi væru virt, manngildi mínu sýnd virðing, ég byggi við sæmileg lífskjör og fleira í þeim dúr á meðan til væri annað fólk sem þetta gilti ekki um. Að ég gefi þessum lífsgæðum mínum gaum ætti eitt og sér ekki að leiða til annars en kannski þakklætis fyrir að fá að njóta þeirra. Það sem gæti hins vegar knúið mig til aðgerða væri að ég áttaði mig á að ósanngjarnt væri að einhver önnur nytu ekki þessara gæða, og að ég gæti gert eitthvað til að stuðla að úrbótum. Jafnframt gæti það hjálpað mér að átta mig á að skilningur minn á aðstæðum og afstöðu þeirra sem ekki væru eins gæfusöm og ég kynni að vera takmarkaður og að mikilvægt væri að hafa það í huga þegar ég móta eigin afstöðu og hegðun. Með öðrum orðum þyrfti málið að snúast um að vekja mig til vitundar um forréttindastöðu mína.

Þegar fólki er bent á að íhuga forréttindi sín eða forréttindastöðu[10] er það yfirleitt sett í samhengi við einhvern undirskipaðan eða jaðarsettan hóp sem viðkomandi tilheyrir ekki. Athyglinni er þá beint að því hvernig viðkomandi sé í forréttindastöðu í samanburði við umræddan hóp. Og þá er talað um forréttindi til að undirstrika að þessi betri staða eða fríðindi séu ekki sérstaklega verðskulduð vegna þess að þau sem hafi hana séu eitthvað betri en aðrir, hafi áunnið sér hana eða eigi hana sérstaklega skilið, heldur sé hún tilkomin eingöngu vegna þess að viðkomandi tilheyri fyrir heppni eða tilviljun tilteknum hópi sem njóti tiltekinna fríðinda sem aðrir njóti ekki. Þau sem hafi forréttindi hvítra njóti þá sérstakra fríðinda eingöngu vegna þess að þau eru hvít, sem þau sem ekki eru hvít fari á mis við, og svo framvegis. Þannig er fólk minnt á að líf þess kunni að vera að einhverju leyti auðveldara eða þægilegra en líf annarra og að í því felist ranglæti.

 

 

Slaufun, forréttindi og ósnertanleiki

Stundum er talað um að tiltekið fólk sé ósnertanlegt. Það getur haft tvær gjörólíkar merkingar. Annars vegar hefur orðið verið notað yfir þau sem eru svo útskúfuð og fyrirlitin að öðru fólki finnst óhugsandi að snerta þau. Þannig hafa Dalítar á Indlandi verið kallaðir ,hin ósnertanlegu‘. Það felur í sér að samkvæmt erfðastéttakerfinu telst þessi hópur öllum öðrum óæðri og ekki hæfur til annarra verka en þeirra sem eru öðrum ekki þóknanleg. Eins og gefur að skilja fylgir þessum meinta ósnertanleika mikil kúgun og Dalítar verða daglega fyrir gríðarlegum fordómum og mismunun.[11] Hins vegar hefur orðið verið notað yfir einstaklinga og hópa sem virðast í krafti stöðu sinnar geta haldið sig utan seilingar arms laganna og haldið í frama sinn og fríðindi þrátt fyrir að vera staðin að einhverju misjöfnu. Þau sem eru ósnertanleg í þessum skilningi komast þannig upp með ýmislegt sem þau ættu í raun að taka út refsingu fyrir eða ætti í það minnsta að hindra frama þeirra. Í þessum skilningi eru hin ósnertanlegu fólk sem nýtur mikilla forréttinda í orðsins fyllstu merkingu.

Fólk sem hefur vanist því að vera í forréttindastöðu, og jafnvel því að búa við mikil forréttindi, á það til að taka gagnrýni á sig og verk sín illa og nýtur í því stuðnings annarra sem stafar ógn af því að skipting valds og gæða í samfélaginu riðlist. Þetta getur tekið á sig ýmsar myndir. Mörgum þykir til dæmis erfitt að viðurkenna að þau séu í forréttindastöðu, meðal annars vegna þess hvernig forréttindahugtakið er notað í mismunandi skilningi eins og ég hef þegar rætt. Þegar talað er um misrétti gagnvart einhverjum tilteknum hópi fólks er stundum látið að því liggja að öll þau sem ekki tilheyra hópnum búi við forréttindi. Samkvæmt því felast ákveðin forréttindi í að vera hvít, í að vera grönn o.s.frv. En hér snýst málið raunar miklu fremur um forréttindastöðu en forréttindi í fyrsta skilningi þess orðs. Engin manneskja er bara hvít eða bara grönn, bara svört eða bara feit. Hvert og eitt okkar tilheyrir fjölmörgum flokkum og hópum, líklega er það minnihluti sem tilheyrir eingöngu hópum sem verða aldrei fyrir neinu misrétti eða fordómum og þau sem tilheyra eingöngu hópum sem verða fyrir mismunun og fordómum eru væntanlega enn færri. Þannig getur einhver haft forréttindastöðu í ákveðnu samhengi án þess að búa almennt við forréttindi og viðkomandi getur jafnvel búið við misrétti í einhverju öðru samhengi.

Við erum konur, karlar, kynsegin, sís, trans, rík, fátæk, fötluð, ófötluð, samkynhneigð, gagnkynhneigð, ókynhneigð, tvíkynhneigð, hvít, svört, flóttafólk, íslenskir ríkisborgarar, feit, grönn, heilsuhraust, ófríð o.s.frv. Jafnvel þau sem lifa lífi sem litast mikið af fordómum og mismunun eru afar líkleg til að tilheyra líka einhverjum hópum sem ekki verða fyrir neinu slíku. Stundum er alveg nógu slæmt að þurfa að búa við eina eða tvær gerðir af alvarlegri mismunun. Frumbyggi í Ástralíu sem verður fyrir ákveðinni gerð mismununar þar í landi vegna kynþáttar síns tilheyrir ekki stétt Dalíta á Indlandi og er þar með laus við þá tilteknu mismunun sem Dalítar verða fyrir. Það getur samt hljómað ankannalega að segja að þar með búi frumbygginn í Ástralíu við forréttindi eða sé í forréttindastöðu vegna þess að hún þurfi ekki að hafa áhyggjur af að verða fyrir mismunun sem Dalíti. Þess vegna getur komið mjög undarlega út að kalla það forréttindi að vera laus undan einhverri ákveðinni gerð mismununar eða að ganga út frá því að öll þau sem eru laus undan einhverri gerð mismununar séu þar með í forréttindastöðu. Þau einu sem ekki væru í forréttindastöðu samkvæmt slíkum mælikvarða væru þau sem aðeins tilheyra hópum sem búa við mismunun og þar með höfum við gert flesta, ef ekki alla, íbúa heimsins að forréttindafólki.

Vitaskuld er sum mismunun alvarlegri og hefur meiri afleiðingar en önnur og það er ekki rétt að bera saman alvarlega mismunun og smávægilega. En ógjörningur er að skipta mannkyninu afdráttarlaust í tvo hópa: þau sem búa við mismunun og þau sem búa við forréttindi. Þess vegna getur forréttindahugtakið þvælst fyrir okkur þegar við viljum greina áhrif mismununar á hina ýmsu hópa og hvaða leiðir sé best að fara til að draga úr henni. Þetta getur líka þvælst fyrir þegar við viljum skoða áhrif forréttinda, þegar við viljum átta okkur á því hvenær einhver er í raun að fara fram á forréttindi og að hvaða leyti þurfi að berjast gegn forréttindum.

Gaile Pohlhaus ræðir í grein sinni „Gaslighting and Echoing, or Why Collective Epistemic Resistance is not a “Witch Hunt”“[12] um að við verðum að gera greinarmun á mismunandi kringumstæðum þegar gagnrýni kemur fram og farið er fram á að einhver stígi til hliðar. Hver er það sem setur fram gagnrýnina eða kröfurnar, hvers vegna og á hendur hverjum? Er það til dæmis hópur fólks í forréttindastöðu sem fer fram á að raddir jaðarsettra sem vekja athygli á ranglætinu þagni eða er það hið gagnstæða, jaðarsettur hópur sem vill ekki að hatursorðræða í þeirra garð fái að hljóma? Þetta skiptir máli ef við ætlum að mynda okkur skoðun.

Pohlhaus setur þetta í samhengi við það sem hún kallar þekkingarlega gaslýsingu (e. epistemic gaslighting). Í stuttu máli snýst þekkingarleg gaslýsing um að fólk sem tilheyrir undirskipuðum eða jaðarsettum hópum reyni að segja frá ranglæti sem það hefur orðið fyrir en einhver sem hefur meira vald neitar að viðurkenna að það sem átti sér stað feli í sér ranglæti. Fyrir vikið lenda þau sem verða fyrir ranglæti í vandræðum með að fá það viðurkennt og fara sjálf að efast um eigið mat á atburðum og aðstæðum. Einmitt vegna hættunnar á þekkingarlegri gaslýsingu og slæmum afleiðingum hennar segir Pohlhaus að það geti verið mikilvægt að fjöldi fólks taki undir þegar undirskipaðir hópar rísa upp gegn ranglæti sem þeir verða fyrir. Þegar einhver stígur fram og segir frá erfiðri reynslu, sem hefur jafnvel verið samfélagslega viðurkennd og þótt sjálfsögð, er mikilvægt að fleiri taki undir. Þetta er það sem hefur verið kallað bergmál (e. echoing), til dæmis af spænska heimspekingnum José Medina.[13] Gott dæmi um notkun bergmáls er #MeToo-hreyfingin þar sem fjöldinn sem tók undir skipti sköpum við að koma því á framfæri hve algengt og útbreitt ýmiss konar kynferðisofbeldi og -áreitni væri og að það væri alls ekki í lagi.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við leggjum mat á fjöldamótmæli af þeirri gerð sem hafa verið kölluð slaufun. Hver er það sem er verið að slaufa og hvers vegna? Veldur viðkomandi viðkvæmum hópum alvarlegum skaða með hegðun sinni á opinberum vettvangi? Eða er það á hinn veginn, að verið sé að reyna að þagga niður í einhverjum sem hefur lítil völd og hefur ekki í frammi skaðlega hegðun? Pohlhaus bendir á að þegar um er að ræða fyrrnefndu gerðina þá snúist málið ekki fyrst og fremst um hefndaraðgerðir eða „nornaveiðar“, heldur séu undirtektir fjöldans mikilvægar til þess að boðskapurinn nái yfirleitt fram að ganga. Ef fjöldinn tekur ekki undir sé hætt við því að einmana raddir þeirra sem andmæla ranglæti séu strax kæfðar og ekki sé á þær hlustað, og að þeim sé jafnvel vísað á bug með þekkingarlegri gaslýsingu. Andófshreyfingar sem bregðast við kerfisbundnu ofbeldi, yfirgangi eða öðru ranglæti gagnvart viðkvæmum hópum þurfi þannig að reiða sig á þá endurtekningu skilaboðanna og þá viðurkenningu á þeim sem felst í bergmáli fjöldans.[14]

Tilefni slaufunar er þannig stundum að einhver misnotar forréttindastöðu sína og að sýnd er samstaða með undirskipuðum hópi með því að krefjast breytinga frá því sem tíðkast hefur. Þau sem bregðast illa við kröfum um slaufun geta þá í raun verið að fara fram á að forréttindastöðu sé viðhaldið. Þannig fái viðkomandi aðilar að njóta forréttinda í orðsins fyllstu merkingu og komast hjá því að taka afleiðingum þess að hafa brotið af sér. Kröfur um slaufun fela þá í sér andóf gegn ríkjandi valdakerfi. Þegar slaufuninni er mótmælt er þá farið fram á ósnertanleika í síðari skilningnum sem nefndur var hér að framan, þ.e.a.s. forréttindi. Þau sem fara fram á slíkan ósnertanleika eiga það til að bera sig afar illa og halda því jafnvel fram að þau verði fyrir ofsóknum og útskúfun.

 

 

Er slaufunarmenning nútímavandamál?

Í byrjun greinarinnar velti ég upp þeirri spurningu hvort slaufunarmenning væri eitthvað sem einkenndi sérstaklega samtíma okkar. Þessu er afar erfitt að svara án þess að gera á því sérstaka rannsókn. Ljóst er að finna má ýmis dæmi frá fyrri tíð af fólki sem hefur orðið fyrir útskúfun, útilokun eða annars konar sniðgöngu vegna skoðana sem það lét í ljós, eða vegna hegðunar eða annars í fari þess sem olli hneykslun eða reiði. Dæmi um slíkt er enski rithöfundurinn og heimspekingurinn Mary Wollstonecraft (1759–1797). Hún naut umtalsverðrar velgengni með ritstörfum sínum og þekktasta verk hennar, Til varnar réttindum konunnar, vakti mikla athygli og var víðlesið þrátt fyrir hugmyndir sem þóttu byltingarkenndar, eða ef til vill einmitt vegna þeirra hugmynda.[15] Skömmu eftir andlát Wollstonecraft skrifaði eftirlifandi eiginmaður hennar, William Godwin, ævisögu hennar og gaf út og dró þar ekkert undan um krassandi líf hennar.[16] Meðal annars kom þar fram að Wollstonecraft hefði átt í ástarsamböndum og eignast eldri dóttur sína utan hjónabands, og að hún hefði reynt að fremja sjálfsvíg vegna ástarsorgar. Þessar fréttir ollu miklu hneyksli og fyrir vikið voru verk Wollstonecraft sniðgengin næstu öldina. Raunar má líta á fallnar konur sem sérstakan flokk í þessum efnum; konum sem ekki þykja til fyrirmyndar í kynferðishegðun sinni hefur iðulega verið útskúfað á ýmsa lund.

Dæmi sem þetta gefa auðvitað engar upplýsingar um tíðni slaufunar á fyrri tímum en þau minna okkur á að það er ekkert nýtt að fólki eða verkum þeirra sé ýtt til hliðar eða að fjöldinn lýsi vanþóknun sinni þegar upp kemst um eitthvað sem ekki þykir í lagi. Væntanlega eru mörg af dæmum fortíðarinnar fallin í gleymsku, einmitt vegna þeirrar þöggunar og sniðgöngu sem fylgja eðli málsins samkvæmt. Manneskjurnar virðast hafa ríka tilhneigingu til að fella dóma vegna hegðunar sem gengur fram af þeim og jafnvel fara fram á að hlutaðeigandi aðilar dragi sig í hlé.

Við megum öll búast við því að vera stundum sammála gagnrýni á ummæli eða hegðun einhvers og stundum ósammála. Eins getum við búist við því að finnast einhverjar kröfur um að draga sig í hlé óhóflegar eða afleiðingarnar sem farið er fram á yfirdrifnar og ekki í samræmi við tilefnið, jafnvel þótt við séum í grunninn sammála inntaki gagnrýninnar. Eitt helsta einkennið á samtíma okkar er auðvitað sú mikla samfélagsbreyting sem er tilkomin með útbreiðslu veraldarvefsins og samfélagsmiðla. Vissulega eru ýmsir kostir við þann möguleika að geta dreift efni hratt og örugglega með lítilli fyrirhöfn en því fylgja líka ókostir. Einn þeirra er að viðbrögð og afleiðingar geta verið í miklu ósamræmi við undirliggjandi ,glæp‘.

Veraldarvefurinn og samfélagsmiðlar geta gefið okkur þá tilfinningu að kröfum um að þaggað sé niður í fólki hafi fjölgað og að upp hafi risið það sem kallað hefur verið slaufunarmenning. Ómögulegt er að bera þetta saman við fyrri tíma en dómharka og ofsóknir fjöldans á hendur tilteknum einstaklingum eða hópum hafa alltaf verið til. Slíkt hefur oft komið upp í samhengi við siðferðilega sannfæringu, þ.e.a.s. þau sem hafa fordæmt hafa iðulega verið sannfærð um að hin fordæmdu hafi gerst brotleg við siðferðið og verðskuldi útskúfun samfélagsins. Breytilegt er frá einu samfélagi til annars og einum tíma til annars hvaða siðferðishugmyndir eru ríkjandi eða hvaða baráttuhreyfingar hafa sig í frammi. Flestum hér og nú þætti til dæmis út í hött að fordæma konu og sniðganga verk hennar fyrir að eignast barn utan hjónabands en það er fremur ný þróun og því miður er engin tilviljun að Drekkingarhylur beri það nafn. En við getum gengið út frá því að þegar almenningsálitið eða aðrir hópar fordæma einhvern þá séu flestir sannfærðir um að þeir hafi réttlætið og siðferðið sín megin.

 

 

Niðurlag

Félagslegt taumhald getur þjónað mikilvægu hlutverki og fælt fólk frá hegðun sem sannarlega er slæm og óæskileg. En það getur líka haft neikvæð áhrif, valdið útskúfun eða öðrum refsingum sem annaðhvort verða óþarflega harðar miðað við ,glæpinn‘ eða jafnvel fyrir eitthvað sem við erum ósammála um að hafi verið siðferðilega rangt. Hér er mikilvægt að hafa í huga að óformlegt kerfi félagslegs taumhalds og hið formlega dómskerfi eru ekki sami hluturinn. Þegar dómskerfið er annars vegar gilda strangar reglur um sönnunarbyrði, hvað er tekið til greina, hvers konar refsingum megi beita fyrir hvaða brot og svo framvegis. Í hinu óformlega kerfi félagslegs taumhalds gilda ekki sams konar reglur. Það getur stundum leitt til þess að einhver verði fyrir rangmætu aðkasti eða fái ýkt viðbrögð við smávægilegum yfirsjónum. Vissulega getur verið ástæða til að hvetja fólk til að vanda sig í þessu sambandi en við megum heldur ekki gleyma mikilvægi félagslegs taumhalds þegar það hefur góð áhrif.

Niðurstaðan er sú að ógjörningur er að taka afstöðu til slaufunar sem slíkrar. Hún á stundum rétt á sér og stundum ekki, stundum gengur hún of langt en oft gengur hún líka of skammt. Mikilvægt er að taka afstöðu til þeirra atburða og athafna sem eru tilefni slaufunarinnar. Snýst málið um að einhver hafi sagt eða skrifað eitthvað óviðeigandi í fljótfærni eða snýst það um að viðkomandi hafi árum eða áratugum saman beitt annað fólk ofbeldi? Slaufunin getur líka falist í mismunandi hlutum. Er viðkomandi krafinn um afsökunarbeiðni eða er hann hrakinn úr starfi? Gegnir hann starfi þar sem hann er í áberandi hlutverki og gengið út frá að hann geti verið fyrirmynd annarra? Er starfið illa samrýmanlegt þeirri hegðun sem hann hefur gerst sekur um?

Í stuttu máli má segja að þegar við tökum afstöðu til slaufunar hverju sinni þurfum við að kynna okkur hvers konar ósnertanleiki er á ferðinni. Er einhver að gera kröfu um að fá að vera ósnertanlegur í forréttindaskilningnum? Er verið að gera einhvern ósnertanlegan í útskúfunarskilningnum? Er einhver jafnvel að reyna að viðhalda ósnertanleika sínum í forréttindaskilningnum með því að skýla sér á bak við staðhæfingar um að hann verði fyrir óréttmætri útskúfun? Hvernig koma forréttindi og forréttindastaða við sögu? Er einhver að fara fram á forréttindi eða er verið að krefjast þess að einhver gefi eftir forréttindi sín eða forréttindastöðu?

 

 

Tilvísanir

[1] Rúnar Helgi Vignisson, „Skærurnar á netinu: útilokunarmenningin, hatursorðræðan og málfrelsiskreppan“, Tímarit Máls og Menningar 82(2)/2021, bls. 9–27.

[2] Björn Þór Vilhjálmsson, „Af hverju líkar ykkur ekki við mig?: Samræðumenning og útilokun á stafrænum tímum“, Tímarit Máls Og Menningar 82(3)/2021, bls. 81–108.

[3] John Stuart Mill, Frelsið, þýð. Jón Hnefill Aðalsteinsson, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1970.

[4] Mismunandi skoðanir á hvernig skuli draga mörkin í þessum efnum má t.d. finna í eftirfarandi greinum: Robert Mark Simpson & Amia Srinivasan, „No Platforming“, Academic Freedom, ritstj. Jennifer Lackey, Oxford: Oxford University Press, 2018, bls. 189–209; Neil Levy, „No-Platforming and Higher-Order Evidence, or Anti-Anti-No-Platforming“, Journal of the American Philosophical Association, 2019, bls. 1–16; David Estlund, „When Protest and Speech Collide, Academic Freedom, ritstj. Jennifer Lackey, Oxford: Oxford University Press, bls. 151–69.

[5] Eric Schwitzgebel, A Theory Of Jerks and Other Philosophical Misadventures, Cambridge (Mass.)/London: The MIT Press, 2019.

[6] Sama rit, bls. 4–5.

[7] Rétt er að benda á að enska orðið ‚privilege‘ virðist notað á nokkuð hliðstæðan hátt við íslenska orðið ‚forréttindi‘ þannig að sams konar margræðni kemur fyrir í ensku. Um þetta er t.d. rætt hjá Michael J. Monahan, „The Concept of Privilege: A Critical Appraisal“, South African Journal of Philosophy 33(1)/2014, bls. 73–83.

[8] Hér gætum við þurft að staldra við. Vissulega má hugsa sér aðstæður þar sem er til dæmis hlustað á suma á kostnað annarra, þ.e. þannig að þeir grípi fram í fyrir öðrum eða þaggi niður í þeim með öðrum hætti. En í sjálfu sér á það að hlustað sé á einhvern ekki að þurfa að gerast með þeim hætti að ekki sé hlustað á einhvern annan.

[9] Ýmsar hliðar á forréttindahugtakinu eru ræddar hjá Peggy McIntosh, „White Privilege: Unpacking the Invisible Knapsack“, White Privilege: Essential Readings on the Other Side of Racism, ritstj. P. Rothenberg, New York: Worth Publishers, 2002, bls. 123–128; Alison Bailey, „Privilege: expanding on Marilyn Frye’s “Oppression”“, Journal of Social Philosophy 29(3)/1998, bls. 104–119.

[10] Í umræðum á ensku er gjarnan sagt „check your privilege“. Á íslensku hafa sumir sagt í svipuðum anda „tékkaðu forréttindin þín“, sem er ekki þýðing sem ég get hugsað mér að mæla með, svona máltilfinningarinnar vegna.

[11] Tölum um fjölda Dalíta ber ekki alltaf saman, í þessari heimild er talað um 166,6 milljónir á Indlandi en hærri tölur hafa verið nefndar annars staðar: https://minorityrights.org/minorities/dalits/

[12] Gaile Pohlhaus, „Gaslighting and Echoing, or Why Collective Epistemic Resistance is not a “Witch Hunt”“, Hypatia 35(4)/2020, bls. 674–686. doi:10.1017/hyp.2020.29

[13] José Medina, The Epistemology of Resistance: Gender and Racial Oppression, Epistemic Injustice, and the Social Imagination, New York: Oxford University Press, 2013.

[14] Gaile Pohlhaus, „Gaslighting and Echoing“; José Medina, The Epistemology of Resistance.

[15] Mary Wollstonecraft, Til varnar réttindum konunnar, þýð. Gísli Magnússon, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2016.

[16] William Godwin, Memoirs of the Author of a Vindication of the Rights of Woman, London: J. Johnson, 1798.