Eftir Örn Daníel Jónsson

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2013

 

Jarðhitanotkun er afgerandi meiri hérlendis en annars staðar. [1] Það er ekki endilega vegna þess hve orkulindin er aðgengileg hér heldur er meginástæðan fólgin í því hvernig jarðvarminn var nýttur til að vinna á örbirgðinni sem þjóðin mátti búa við allt fram að síðari heimsstyrjöld. Með tímanum hefur heitavatnsnotkun orðið æ stærri þáttur í velsæld daglegs lífs. Á landinu eru 95% húsa hituð með jarðvarma, ylrækt er orðin vaxandi, ábatasöm atvinnugrein og sundlaugar eru orðnar vinsælustu samkomustaðir landsins. [2]

Hér verður fjallað um sundið og þá sérstaklega það samfélag sem sundlaugaferðir hafa myndað og orðið ríkur þáttur í daglegu lífi fjölmargra. Megintilgangur laugaferða er ekki lengur sundsprettur; laugarnar eru orðnar vettvangur félagslífs. Kannanir hafa leitt í ljós að rétt um helmingur gesta nefnir pottinn sem megintilefni heimsóknarinnar. Það er sérkennilegt í ljósi þess að hann á sér aðeins rúmlega fimmtíu ára sögu en fyrstu heitu pottarnir voru teknir í notkun í Vesturbæjarlauginni í Reykjavík árið 1961. [3]

Sundlistin

Sé hægt að kalla nokkra eina líkams íþrótt, íþrótt iþróttanna, þá er það sundlistin. [4]

Það að kunna að synda er sjálfgefinn hluti daglegs lífs, en það er í raun ekki svo langt síðan sundkunnátta varð almenn og enn styttra síðan Íslendingar fóru að synda í heitavatnslaugum. Í gegnum aldirnar voru gerðar tilraunir til sundkennslu og einhverjir tugir landsmanna kunnu að synda á hverjum tíma, en það er ekki fyrr en á fyrstu áratugum nítjándu aldar sem sund er iðkað að einhverju mark Fjölnismenn þýddu og staðfærðu Sund-reglur Prófessors Nachtegalls árið 1836 til að hvetja landsmenn til sundiðkunar en þar segir meðal annars: „Víðast hvar um Ísland er hægt að fá sundstæði, og sums staðar svo góð, að varla eru önnur betri í heiminum …“ Vísað er til þess að hægt sé að hlaða grjóti fyrir heitar uppsprettur. [5] En jafnvel þó að hægt væri að lauga sig í heitu vatni þá gat það verið varasamt eins og dæmin sanna allt fram á þennan dag. [6]

Árið 1884 var stofnað Sundfélag Reykjavíkur að frumkvæði Björns L. Blöndal. [7] Rétt fyrir neðan Þvottalaugarnar í Laugardalnum í Reykjavík var hálfgerður forarpyttur með leirbotni þar sem krökkum var kennt að synda. [8] Árið 1908 var þar byggð steypt laug og sund naut mikilla vinsælda, eins og víða um land.

Smám saman varð vitundarvakning með aukinni sjósókn og menn gerðu sér æ betur ljóst að sjómenn yrðu að vera syndir og var sundkennsla lögleidd árið 1927. [9]

sundkennslaSund var ekki aðeins talin nauðsyn heldur fékk það snemma táknræna merkingu heilbrigðis og ábyrgðarkenndar. Sundiðkun var leið til að halda þjóðinni frá sollinum, kenna börnum góða siði, þrifnað og endurheimta þar með sjálfsvirðingu; heilbrigða sál í hraustum líkama. [10] Ungmennafélagshreyfingin, sem á fyrstu áratugum síðustu aldar var einn öflugasti félagsskapur landsmanna, gerði sundnám að forgangsverkefni. Sundkennsla hefur síðan haldið mikilvægi sínu allt fram á þennan dag en með öðrum formerkjum þó. Nú er meginatriðið félagsþroski fremur en lífsorka; afslöppuð samvera fremur en keppni manna á milli.

Héraðsskólarnir voru sá vettvangur sem nærtækastur þótti til að efla sundmennt í upphafi 20. aldarinnar. Þessir skólar voru settir niður á völdum stöðum á landinu og þeim var ætlað það hlutverk að veita ungmennum um dreifðar byggðir landsins tækifæri til að menntast og þroskast. [11] Vandinn var sá að tilkostnaðurinn við stofnun og starfrækslu skólanna var ærinn. Eitt af þeim úrræðum sem notast var við til að gera verkefnið framkvæmanlegt var að staðsetja skólana á hverasvæðum jafnvel þó að þau væru úr alfaraleið. Jarðhitinn átti ekki aðeins að koma í veg fyrir að nemendur króknuðu úr kulda heldur að gera þeim betur kleift að lifa heilbrigðu lífi. Sundkennsla var þáttur í þeirri viðleitni.

Upphitun héraðsskólanna með heitu vatni sýndi með ótvíræðum hætti að jarðhitinn var í senn hagkvæmur og, að því er virtist, nærtækur möguleiki. Reyndin var þó sú að flutningurinn á varmanum frá uppsprettu til ætlaðs notkunarstaðar var í senn tæknilega vandkvæðum bundinn og kostnaðarsamur. [12]

Skólavörðuholtið, háborg Reykjavíkur

Skólavörðuholtinu var ætlað að verða miðbær Reykjavíkur á öðrum áratug síðustu aldar og þegar þær forsendur sem lágu þeirri ákvörðun til grundvallar eru skoðaðar var það ekki fráleit hugmynd. Holtið var miðja Reykjavíkur, landfræðilega séð háborg eða einskonar Akrópólis. [13] Sérhvert hús sem þar var reist gegndi lykilhlutverki þess tíma; Austurbæjarskóli, fagskóli, vettvangur handíðar og verktækni, Landspítali, sölustaður fyrir mjólkurafurðir, fataframleiðsla úr ull, Hnitbjörg, heimili og safn Einars Jónssonar; Sundhöllin átti þar heima sem ein af lykilstofnunum þjóðfélagsins.

Skipulag Reykjavíkur – Skólavörðuhæðin

Skipulag Reykjavíkur – Skólavörðuhæðin, Guðjón Samúlesson, 1924.

Upphafleg útfærsla Guðjóns Samúelssonar af sundlaug á holtinu var í burstabæjarstíl í svipuðum dúr og fyrstu héraðsskólarnir sem hann teiknaði. Sundlaugarnar áttu að vera þrjár; köld saltvatnslaug þar sem kenna átti sjómönnum sund; önnur var hugsuð sem vettvangur fyrir kappsund og sú þriðja var barnalaug. [14] Þegar á leið útfærði Guðjón húsið sem smækkaða útgáfu af sundlauginni við Austurbrú í Kaupmannahöfn en þó með sterkum einkennum þess fúnkisstíls sem hann hafði tileinkað sér.

Í nokkur ár gekk hvorki né rak með bygginguna vegna fjárskorts. Sundhöllin var loksins tekin í notkun 24. mars 1937, eða tæpum áratug eftir að hafist var handa við byggingu hennar.

Ætlunin var að hita hús Holtsins með vatni rétt eins og tilfellið var með héraðsskólana, en þá ráku menn sig á að heita vatnið er mjög staðbundin auðlind. Það tók meira en áratug að þróa nothæfa tækni til að veita vatninu frá uppsprettu til notkunar. [15] Það tókst og þar með hófst eiginleg saga jarðhitavæðingar samfélagsins.

Vesturbær Einars Sveinssonar

Skólavörðuholtið var vissulega miðbær Reykjavíkur í landfræðilegum skilningi en fram eftir 20. öldinni gat Reykjavík varla talist borg heldur fremur safn misreisulegra kofa á suðvesturhorninu, svo aðeins sé fært í stílinn. Á þriðja áratug síðustu aldar var orðið tímabært að borgin stækkaði með skipulegum hætti. Einar Sveinsson skipulagði fyrsta eiginlega hverfið á Reykjavíkursvæðinu. Hann hafði lært arkitektúr í Leipzig með áherslu á borgarskipulag. Árið 1932, þremur árum eftir að hann kom heim að loknu námi, var hann ráðinn sem húsameistari borgarinnar. Sama ár var honum falið að skipuleggja Melana, svæðið sunnan Hringbrautar. Útfærsla hans var úthugsuð; blönduð stjörnulaga byggð í kringum torg. Blokkir og minni fjölbýlishús með góðu rými á milli, leikvöllum og göngustígum. [16]

Fjórum árum eftir að framkvæmdirnar hófust brast á stríðið. Það kom í hlut breska hersins að byggja nothæfan flugvöll og var honum valinn staður í Vatnsmýrinni. Það er til marks um almenna örbirgð að Bretavinnan var talin einstakt happ. Sveitir landsins þoldu einfaldlega ekki mannfjölgunina við þáverandi þróunarstig. Braggar voru byggðir til að hýsa hermennina meðan á framkvæmdunum stóð. Braggarnir, „einsog tunnur sem lágu á hliðinni hálfgrafnar í jörðu“, sem Einar Kárason lýsir svo ágætlega, breyttust í varanleg híbýli víðsvegar um bæinn og fylltust af fólki. [17] Þetta var húsnæði sem var hannað til nokkurra mánaða dvalar að hámarki. Hagatorgið sem samkvæmt hugmyndum Einars Sveinssonar átti að vera miðpunktur hverfisins hvarf undir braggabreiðu. [18]

Bæjaryfirvöld höfðu áhyggjur af því að efnaminna aðkomufólk sem flutti til borgarinnar í von um betra líf væri komið til að vera, jafnvel þó að litla vinnu væri að fá og aðstæður væru ömurlegar. [19] Þær áhyggjur voru á rökum reistar. Það er erfitt að ímynda sér hversu ömurlegar aðstæðurnar voru í braggahverfum borgarinnar og fljótlega fór að bera á biturleika og reiði. Lausnin fyrir Vesturbæinn fólst í að endurheimta byggðina til samræmis við skipulagstillögu Einars Sveinssonar. Með nokkuð kaldhæðnislegum hætti mætti segja að yfirlýsing Le Corbusiers, „arkitektúr eða bylting“, eigi við hér. Bæjaryfirvöld sameinuðust um að vinna úr vandanum, endurheimta Hagatorgið sem miðpunkt hverfisins en það var að fullu horfið undir braggabreiðu.

Við torgið voru byggðar þrjár veglegar byggingar til viðbótar við Melaskólann sem Einar hafði hannað og þegar var byggður; Hótel Saga með tilkomumiklum veitinga- og skemmtistað, Súlnasalnum og Grillinu, en húsið, „Bændahöllin“, var stórmannlegt framlag bænda eins og nafnið ber með sér; Háskólabíó, menningarsetur með aðstöðu fyrir sinfóníuhljómsveit og stærsta sýningartjald Evrópu að sögn; Neskirkja sem var byggð í anda Le Corbusiers. Torginu var síðan gefið rými í samræmi við hugmyndir Einars um borgarhverfi. Auðvitað væri ofsagt að Hótel Saga, Háskólabíó og Neskirkja hafi verið leið til að koma í veg fyrir byltingu. Réttara væri að segja að verkefnið hafi verið einarðleg yfirlýsing um nútímavæðingu og framlag til þeirra umskipta sem voru að eiga sér stað. Reykjavík var að verða borg.

Sundlaugin

„Kaupstaðir og þorp úti á landi hafa sínar eigin sundlaugar. Er ekki sjálfsagt og eðlilegt að Vesturbærinn, með um það 18 þúsund íbúa hafi einnig sína eigin sundlaug? [20]

Sund var hluti af skólaskyldu og börnum í Vesturbænum var ætlað að sækja námið í Sundhöllina. Þörfin var augljós en samt sem áður tók það tíu ár að byggja Vesturbæjarlaugina og hún var að þónokkrum hluta byggð fyrir frjáls framlög. [21]

VesturbæjarlaugTíðarandinn og í raun öll umgjörð daglegs lífs gjörbreyttist á þeim aldarfjórðungi sem leið frá því að Sundhöllin var tekin í notkun og þangað til Vesturbæjarlaugin opnaði árið 1961. Ef Sundhöllin var spartönsk og hugsuð sem slík, þá hafði laugin í Vesturbænum yfir sér hedónískt yfirbragð. [22]

Megintilgangurinn með sundlauginni í Vesturbæ, þegar ákvörðun var tekin um byggingu hennar, var sundkennsla barna. En þegar árin liðu varð hlutverkið annað og meira. Auknar væntingar, vaxandi velmegun og aukin bjartsýni voru nánast meitlaðar í arktitektúr laugarinnar. Anddyrið var skreytt með innsetningu eftir Barböru Árnason, hvolf með sterkri Miðjarðarhafstilvísun, djúpbláir veggir og líðandi bárur. Tilkomumest var þó gríðarstórt skrautfiskabúr. Ári eftir opnun sýndu fegurðardísir þar nýjustu sundfatatískuna. [23]

Richard Sennet skilgreinir borg sem stað þar sem líklegt sé að ókunnugir eigi það til að mætast. [24] Aðdráttarafl borgarinnar felst að vissu leyti í þessu, að geta lifað lífinu óáreittur en sótt í félagsskap þegar mönnum býður svo við að horfa. Henri Lefebvre bendir á að mikilvægi hverfisins vegi upp á móti þeirri mótsagnakenndu staðreynd að mannmergð geti leitt til einangrunar. Lausn vandans felst í endurtekningunni; þegar sama fólkið hittist reglulega myndar það samkennd og þar með taktfestu daglegs lífs. [25]

Sundnám var skylda en námið einskorðaðist ekki við auðlærð sundtökin. Sundlaugin var vettvangur þar sem börnum var kennd kurteisi, að umgangast hvert annað sem jafningja í öguðum leik. Þar átti sér stað áralöng félagsmótun þar sem áhersla var lögð á hreinlæti og umburðarlyndi. [26] Reglan um að fötin skapi manninnn var numin úr gildi hér. Laugarnar voru almannavettvangur og þar var markvisst dregið úr stöðumun manna. Fljótlega fóru þó að myndast hópar sem hittust nokkuð reglulega og þar gegnir heiti potturinn lykilhlutverki.

Heiti potturinn

Þetta er bara pottur. Hér sýð ég af mér spikið [27]

Gísli Halldórsson arkitekt sem hannaði setlaugarnar við Vesturbæjarlaugina árið 1961 hafði Snorralaug að fyrirmynd. Hluti náms hans við arkitektaskólann í Kaupmannahöfn var hönnun með hliðsjón af miðaldamannvirki og ákvað hann að velja Snorralaug. „Nú fékk ég þá hugmynd að notfæra mér þessa gömlu hugmynd Snorra Sturlusonar og færa hana til nútímans.“ [28] Annað atriði sem hafði áhrif á smíði sundlauganna var aðdráttarafl heita vatnsins á baðstöðum. „Það voru tvær sturtur í gömlu lauginni, þar sem ég hafði farið daglega, og þær stóðu í ferköntuðum pottum. Annar var með metraháu vatni og hinn þurr. Ég hafði tekið eftir því að fólk sóttist alltaf eftir því að fara þar sem það gat staðið í vatninu.“ [29]

Heitur pottur

Í pottinum situr fólk þétt saman en þarf þó ekki að eiga samskipti og fær rými til að halda sér utan hópsins jafnvel þó takmarkað sé. [30] Fjölmörg dæmi eru um að pottgestir hafi komið nánast daglega og setið þar án þess að yrða á nokkurn mann. Heiti potturinn er opinber vettvangur rétt eins og sundlaugin. Nýir gestir átta sig fljótt á reglunum. Það má ekki spyrja persónulegra spurninga og samtöl við útlendinga ná yfirleitt ekki lengra en að spurningunni: ,,How do you like Iceland?“ Það kemur fljótlega í ljós ef reglur eru brotnar. [31] Potturinn er heimur hlutverkaleiks og gestir geta þóst vera aðrir innan laugar en utan, en þó aðeins að vissu marki. Aftur á móti má ekki trufla þekkta einstaklinga, stjórnmálamenn eða poppara, svo dæmi sé tekið. [32]

Að láta aðra í friði er almennt einkenni borgarlífs. Á kaffihúsi getur gestur gefið skýrt í skyn að hann vilji ekki vera truflaður; aftur á móti er líklegt að sá sem fer að venja komur sínar á stað sé spurður nokkuð persónulegra spurninga, t.d. hver hann sé og hvað hann geri. Sérstaða heita pottsins er nálægð gesta. Þeir sitja mjög nálægt hver öðrum, en snerting er forboðin og það er eðlilegt að láta líða úr sér ótruflaður í allra ásýnd. [33]

Á örfáum áratugum varð heiti potturinn vinsælasti samkomustaður landsins. Skýringin er varla sú ein að þægilegt sé að láta líða úr sér í heitu vatni útivið. Tilkoma pottsins sem félagslegrar stofnunar á sér margar skýringar en nefna má nokkrar. Í fyrsta lagi mikilvægi sundsins í uppeldi; í öðru lagi almenn notkun heita vatnsins til að losa landsmenn undan örbirgð, tákngildi þess sem frelsunarafls og loks má nefna skort á samverustöðum á opinberum vettvangi. Í öllum samfélögum eru staðir þar sem fólk venur komur sínar. Heiti potturinn hefur orðið táknmynd fyrir lífshætti nútímans hérlendis eins og Parísarkaffihúsið, enski pöbbinn, kirkjutorg Miðjarðarhafslandanna og finnska sánan. [34] Pottmenningin er þó líklega einna líkust því sem þekkist í baðhúsunum í Búdapest en þar eru fjölmörg jarðhitaböð þar sem fólk hittist reglulega. [35]

Hugtak Giddens, „structuration“, er gagnlegt þegar skýra á tilurð og vinsældir pottanna.36 Að dómi Giddens verður að leggja hegðun og formgerð til jafns, gerð er alltaf skilyrt af aðstæðum og hefðum. Að vissu marki vantaði opinberan vettvang í Reykjavík eins og félagheimili á smærri stöðum gegna í nærsamfélaginu. Þannig verður potturinn nærtækur opinber vettvangur án þess að nokkuð sé fyrir því haft. Pottferðir árið um kring verða vissulega nokkuð sérkennilegar utan frá séð; að stríplast um útivið í nístingskulda og niðamyrkri. Heiti potturinn hefur flesta þá eiginleika sem fjölsóttur vettvangur þarf.

 

Heimildir

  1. Kepinska, Beata 2005. Geothermal energy in human history, culture, and practices – selected highlights. International Energy Agency (IEA). 2
  2. Huijbens, Edward H. & Örn D. Jónsson 2006: Félagsvist heita vatnsinsReykjavík: Þjóðarspegillinn.
  3. Fjölmargir þeirra hella þar sem finna má steinristur fornra samfélaga eru staðsettir nærri heitavatnsuppsprettum eins og í frönsku Pýreneafjöllum og Kantrabíu á Spáni. Óþarft er að fjölyrða um þá spurningu hvort heiti potturinn sé séríslenskt fyrirbæri. Smith, Virginia 2007. Clean: A History of Personal Hygiene. Oxford: Oxford University Press. bls. 41.
  4. Sundíþróttin. Æskan, 1935, bls. 66.
  5. Nachtegall 1836, 17–3. Sjá Sveinn Þórðarson 1998. Auður úr iðrum jarðar. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  6. Ung stúlka lést í Bláa lóninu. Morgunblaðið 6. maí 1997.
  7. Guðjón Friðriksson. Saga Reykjavíkur bærinn vaknar – fyrri hluti. Iðunn 1991.
  8. Lúðvík Kristjánsson 1952. Úr bæ í borg: nokkrar endurminningar Knud Zimsens fyrrverandi borgarstjóra um þróun Reykjavíkur. Reykjavík: Helgafell.
  9. Sveitafélögum var leyft að gera að skyldunámi árið 1927. http://timarit.is/files/11867039.txt sótt 14. desember 2012.
  10. Lífsorka (vitalismi) er hugtak sem almennt er eignað Henri Bergson og fól í sér þá skoðun að í manninum búi óefniskennd orka. Þessi hugmynd var almennt viðtekin á þessum tíma; heilbrigð sál í hraustum líkama.
  11. Nánast allir héraðsskólar bera nöfn sem tengjast laugum og reyk.
  12. Innflutningur á kolum og olíu var lúxus, heita vatnið var því nærtæk lausn. Verkefnin voru aðkallandi, fæði, klæði og húsaskjól. Innri gerð samfélagsins varð að smíða frá grunni, ef svo má að orði komast. Áherslan á hagnýtingu heita vatnsins sem forgangsverkefni verður að skoðast í þessu ljósi. Örn D. Jónsson 2010. Geothermal Living. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  13. Skólavörðuholtið ber nýklassískt yfirbragð og er eins konar samsuða af breskri nytjahyggju, norrænni upplýsingarstefnu og manngildissjónarmiðum ungmennafélagshreyfingarinnar. Einkenni fyrsta tímabilsins í hagnýtingu heita vatnsins er því samtvinnun sjálfstæðis og sjálfræðis á grunni samvinnuhugsjónarinnar. Það má vera að Skólavörðuholtið hafi verið háborg en á forsendum landsbyggðarinnar. Í augum þeirra sem töldu Reykjavík tilheyra nútímanum var þetta heimóttarleg fortíðarhyggja. Sjá ágætt yfirlit um þessar deilur í bók Sigríðar Matthíasdóttur, Hinn sanni Íslendingur, Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900–1930. Háskólaútgáfan, 2004.
  14. Guðjón Samúelsson teiknaði upprunalegu tillöguna að Sundhöllinni 1920. Örn D. Jónsson 2010. Geothermal Living. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  15. Sveinn Þórðarson 1998. Auður úr iðrum jarðar. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
  16. „Einar Sveinsson arkitekt og nokkur verka hans.“ Morgunblaðið Fasteignablað 17. janúar 2005. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/839780/
  17. Einar Kárason 1989. Þar sem djöflaeyjan rís. Gulleyjan. Fyrirheitna landið. Reykjavík: Mál og menning, bls. 12.
  18. Bók Eggerts Þórs Bernharðssonar um braggalíf í Reykjavík veitir lesandanum innsýn í þennan heim og hversu nálægur hann er í tíma. Eggert Þór Bernharðsson 2000. Undir bárujárnsboga: braggalíf í Reykjavík 1940–1970. Reykjavík: JPV útgáfa.
  19. Deilurnar um hvort væri skárra, þéttbýlið eða sveitin, voru nánast óendanlegar. Halldór Guðmundsson hefur gert skemmtilega grein fyrir því hvernig Halldór Kiljan Laxness lagði til atlögu við þjóðernishyggjuna á þriðja áratug síðustu aldar. Halldór Guðmundsson 1987. Loksins, loksins, vefarinn mikli og upphaf íslenskra nútímabókmennta. Reykjavík: Mál og menning.
  20. Tilvitnunin er fengin úr bæklingi frá 1953 sem var hluti fjáröflunar til byggingar á sundlaug.
  21. Það segir ef til vill sína sögu um tíðarandann að nemendur Kvennaskólans náðu að safna 83 þúsund krónum á einum degi en framlag borgaryfirvalda var 75 þúsund krónur. Framlag nemendanna fór ekki í steypuna heldur til að kaupa verk eða innsetningu af Barböru Árnason.
  22. Hedonismi er þýtt sem unaðshyggja. Unaðurinn er alltaf nálægur þegar fjallað er um veru í vatni. Það væri fulllangt gengið að kalla laugina „unaðsreit“. Réttara væri að segja að hún væri vettvangur heilsusamlegrar og ánægjulegrar samveru. Lambton, Lucinda 1995. Temples of Convenience and Chambers of Delight. St. Martins Press. New York Brue, Alexia 2003. Cathedrals of the Flesh: My Search for the Perfect Bath. London: Bloomsbury.
  23. Örn D. Jónsson 2010. Geothermal Living. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  24. Sennet, R. 1977. The Fall of Public Man. Harmondsworth: Penguin Books.
  25. Lefebvre, Henry 2004. Rhythm Analysis: Space, Time and Everyday Life. London: Continuum.
  26. „Innan markmiða félagsþroska, tilfinningaþroska og siðgæðisþroska er stefnt að því að efla nemandann sem félagsveru, kenna honum að taka tillit til félaga sinna, vera sveigjanlegur í samskiptum og virða einstaklinginn. Enn fremur skal stefnt að því að auka skilning og hæfni nemenda til að fara eftir reglum og fyrirmælum.“ Aðalnámskrá, 2007 bls. 7.
  27. Guðmundur Jónsson við opnun laugarinnar. Sjálfsagt er þetta flökkusaga en Guðmundur var tíður gestur í pottinum. Sveinn Þórðarson 1998. Auður úr iðrum jarðar: Saga hitaveitna og jarðhitanýtingar á Íslandi, bls. 524.
  28. Gísli Halldórsson hannaði laugina að mestu en Bárður Ísleifsson sem hóf verkið þurfti að hverfa frá því vegna anna.
  29. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1288554/
  30. Hall, Edward T. 1973. The Silent Language. Anchor Books.
  31. Garfinkel, Harold 1967. Studies in Ethnomethodology. Englewood Cliffs, NJ: Prentice-Hall.
  32. Goffman, Erving 1986. Stigma. Notes on the Management of Spoiled Identity. New York: Touchstone.
  33. 33 Massey, Doreen B. 2005. For Space. London: Sage.
  34. Baðmenning hefur verið ólík frá einu sviði til annars og er sérstaðan bæði upphafin og fær á sig dulúðugt yfirbragð, eins og frásagnir af baðferðum Japana og Tyrkja bera vott um. Butler, Lee. Washing the Dust. Baths and Bathing in Late Medieval Japan. Monumenta Nipponica 60/1, vor 2005. Arvigo, Rosita, Nadine Epstein 2003. Spiritual Bathing, Healing Rituals and traditions from around the world. Lambton, Lucinda 1995. Temples of Convenience and Chambers of Delight. St. Martins Press.
  35. Anderson, Susan C., & Bruce Tabb 2002. Water, leisure and culture: European historical perspectives. 1959–. Oxford: Berg Publishers. 36 Giddens, A. 1984. The Constitution of Society. Outline of the Theory of Structuration. Cambridge: Polity.