Sigríður Dúna Kristmundsdóttireftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2016

 

Femínismi sem pólitísk hugmyndafræði á sér aldalanga sögu og kvennabaráttu í formi baráttuhreyfinga má rekja aftur um að minnsta kosti 150 ár. [1] Í þessari sögu hefur hugtakið „bylgjur“ gjarnan verið notað um ris og hnig baráttunnar og er þá talað um fyrstu bylgju, aðra bylgju o.s.frv. [2] Hér er lagt til að hugtökin „gosvirkni“, „skjálftar“ og „gos“ séu hentugri samlíkingarhugtök því þau lýsa betur þeim óróa sem á sér stað áður en baráttuhreyfing verður til og þeim sprengikrafti sem einkennir störf og áhrif slíkra hreyfinga. Einnig, eins og ég hef áður ritað um, nýtist persónuhugtakið í mannfræði einkar vel til að skýra hvers vegna konur leggja út í kvennabaráttu og sameinast um ákveðin málefni er varða réttindi, tækifæri og stöðu kvenna. [3]

Í þessari grein er fyrst fjallað um gosvirkni og persónuhugtakið og síðan er saga íslenskrar kvennabaráttu fram til dagsins í dag rakin með tilvísun til þessara hugtaka. Stiklað er á stóru því þessi saga er bókarefni. Að lokum verður sjónum beint að því hvort greina megi gosóróa eða jafnvel gos í kvennabaráttu samtímans.

 

Gosvirkni

Jarðskorpan er á sífelldri hreyfingu og nú er sú kenning viðtekin að jarðskorpan skiptist í fleka sem rekur um yfirborð jarðar. Þessir flekar rekast á, nuddast saman, ýtast hvor frá öðrum eða annar þrýstist undir hinn. Á flekasamskeytum byggist upp spenna sem losnar við jarðskjálfta, en einnig geta skjálftar orðið á miðjum flekum vegna staðbundins þrýstings. Jarðskjálftar eru vísbending um gosóróa en hann kemur fram á skjálftamælum sem nær samfelldur lágtíðnititringur. Gosórói getur verið undanfari eldgoss en þá brýst kvika upp á yfirborð jarðar í formi hrauns, ösku og lofttegunda. Það er kallað gosvirkni. Undir eldstöð myndast kvikuhólf en kvikan getur brotið sér leið úr megineldstöðinni og komið upp annars staðar. Ef endurtekið gýs í sömu eldstöð hlaðast upp eldfjöll og þau eigum við mörg á Íslandi. Eldgos tekur enda þegar kvikuhólfið er tæmt eða þegar kvikan leitar annað. [4]

Kenning mín er sú að kvennabarátta falli að þessum lögmálum gosvirkni. Eins og jarðskorpan er samfélagið á stöðugri hreyfingu, það er lifandi ferli en ekki eitthvað stöðugt og líkt og á flekasamskeytum byggist upp spenna á kynjasamskeytum samfélagsins. Það gerist vegna núnings eða misgengis á milli félagslegra breytinga sem breyta aðstæðum kvenna og gamalla menningarbundinna hugmynda um hlutverk og stöðu kvenna. Þær hugmyndir breytast mun hægar en yfirborðsgerð samfélagsins. Spennan, sem núningur á milli þessara fleka mannlífsins orsakar, veldur óróa eða skjálftum og það safnast í kvikuhólfið. Þegar losnar um spennuna flæðir kvikan upp á yfirborðið í formi baráttuhreyfinga kvenna. Það gýs.

Eftir ákveðinn tíma taka gos af þessu tagi enda, ýmist vegna þess að baráttuhreyfingar ná markmiðum sínum og kvikuhólfið tæmist eða vegna þess að kvikan leitar annað. Svo fer gosórói aftur að mælast, spennan eykst og aftur verður gos og þannig koll af kolli. Á þennan veg má líkja kvennabaráttunni við eldfjall sem gýs aftur og aftur. Það er í samræmi við þá skoðun að markmiðum kvennabaráttunnar sé enn ekki náð.

 

Hin félagslega persóna

Í mannfræði er hin félagslega persóna álitin smækkuð mynd af samfélaginu. Hún er því mismunandi frá einu samfélagi til annars. Persónan er skilgreind sem gerandi með ákveðin réttindi og skyldur og þar með stöðu í samfélaginu sem er almennt viðurkennd. Sömuleiðis er hún viðurkennd sem dómbær. Mismunandi þættir fléttast saman í gerð persónunnar svo sem kyn, aldur, starf, menntun, ætterni og fjölskylda og fleira, og er mismunandi eftir samfélögum hversu þungt hver þáttur vegur.

Persónan getur endurskapað sjálfa sig með því til dæmis að krefjast nýrra réttinda sem gefa henni nýja stöðu í samfélaginu. Réttindabarátta kvenna snýst um að konur una ekki lengur viðtekinni skilgreiningu á því hverjar þær eru álitnar vera og krefjast nýrra réttinda, tækifæra og hugsunarháttar sem gefur þeim nýja virkni og gerendahæfni og endurskapar þær sem félagslegar persónur. Barátta kvenna fyrir kosningarétti og kjörgengi er gott dæmi um þessa endursköpun. Ef konur öðlast þau réttindi sem þær berjast fyrir og endurskilgreina sig þannig sem félagslegar persónur hefur það áhrif á samfélagið allt enda er persónan skilgreind sem smækkuð mynd af samfélaginu. Með því að endurskapa konur sem félagslegar persónur endurskapast því samfélagið, það breytist og það getur leitt til þess að enn þurfi að endurskilgreina konur sem félagslegar persónur og þannig koll af kolli. [5]

 

Fyrsta gos [6]

Á síðustu áratugum 19. aldar þegar Ísland tekur að iðnvæðast og þéttbýli að myndast skapast spenna á kynjasamskeytum samfélagsins. Þessar þjóðfélagsbreytingar höfðu í för með sér breytta stöðu og hlutverk kvenna í þéttbýli en aldagamlar hugmyndir og gildi bændasamfélagsins um stöðu og hlutverk kvenna sem mæður og húsfreyjur létu ekki undan síga enda fastar í sessi. Misgengi tekur að myndast milli félagslegs veruleika kvenna og þessara menningarbundnu gilda, konur skynja sig utangarðs og án raddar í hinu nýja þéttbýlissamfélagi eða sem ófullkomnar félagslegar persónur með skerta stöðu- og dómhæfni. Einnig berast hugmyndir erlendis frá þar sem konur bindast samtökum um að útvega konum ný réttindi, einkum réttinn til menntunar, kosningarétt og kjörgengi, svo þær verði gjaldgengar sem félagslegar persónur til jafns við karla. Spenna verður á kynjasamskeytum íslensks samfélags og eldstöð byrjar að myndast.

Gosórói tekur að mælast um 1870 þegar hópur fólks tekur sig saman um að safna fé til að reisa kvennaskóla í Reykjavík, en enginn skóli er þá í landinu fyrir konur. Skólinn tekur til starfa árið 1874 og fleiri slíkir skólar fylgja í kjölfarið. Árið 1885 veldur Bríet Bjarnhéðinsdóttir skjálfta með því að birta grein um stöðu og réttindi kvenna og aftur 1887 þegar hún heldur opinbert erindi um sama efni fyrst kvenna. Enn verður skjálfti 1893 þegar konungur neitar að staðfesta lög um að þær örfáu konur sem fengu kosningarétt til sveitarstjórna 1882 fengju líka kjörgengi. Rök konungs eru að fyrst þessar konur hafi ekki sjálfar beðið um þennan rétt yrði hann þeim til óþurftar. Konur sjá að þær verða sjálfar að berjast fyrir rétti sínum og kvikan nálgast yfirborðið.

Gos verður þegar Hið íslenska kvenfélag er stofnað 1894, fyrsta félag kvenna á Íslandi sem hefur réttindi allra kvenna á stefnuskrá; kosningarétt, kjörgengi og rétt kvenna til framhaldsmenntunar og fjárhagslegs sjálfstæðis. Stofnun háskóla á Íslandi og bindindi á áfengi eru einnig meðal baráttumála félagsins. Félagið vinnur ötullega að þessum málefnum fram um aldamótin 1900 en þá dofnar yfir gosinu meðal annars vegna þess að frumkvöðlarnir, Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir og Ólafía Jóhannsdóttir, fósturdóttir hennar, heltast úr lestinni.

Gosinu er þó engan veginn lokið. Lítið þokast í réttindamálum kvenna næstu ár og konur eru orðnar óþolinmóðar. Kvikan í kvikuhólfinu bætir á sig og árið 1907 gýs myndarlega þegar Kvenréttindafélag Íslands er stofnað meðal annars fyrir forgöngu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Félagið hefur kosningarétt og kjörgengi kvenna efst á stefnuskrá sinni enda hafði nokkuð þokast í menntunarmálum kvenna og árið 1900 höfðu giftar konur fengið fjárhagslegt sjálfstæði. Árið 1907 veitir Alþingi konum í Reykjavík og Hafnarfirði takmarkaðan kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna og Kvenréttindafélagið með Bríeti í broddi fylkingar bíður ekki boðanna og setur fram kvennaframboð til bæjarstjórnar Reykjavíkur 1908. Það gengur vonum framar, framboðið hlýtur 21,3% atkvæða og fjórar konur kjörnar. Kvennaframboð til bæjarstjórna koma fram næstu ár og áfram er barist fyrir fullum kosningarétti og kjörgengi kvenna. Gosið er í fullum gangi.

Með stjórnarskrárbreytingum árið 1915 hafa konur fullnaðarsigur í baráttu sinni en þá fá allar konur fertugar og eldri kosningarétt og kjörgengi til Alþingis og sveitarstjórna. Þær bjóða fram kvennalista við Alþingiskosningarnar 1922, fá 22,4% atkvæða og fyrstu konuna, Ingibjörgu H. Bjarnason, kjörna á þing. Með þessum sigrum tekst konum að endurskapa sig sem félagslegar persónur. Þær eru nú fullgildir gerendur á hinu pólitíska sviði samfélagsins og hafa formlega rödd í almannarýminu. Ekki hefur þeim samt tekist að breyta grunngildum samfélagsins um stöðu og hlutverk kvenna enda hafa þær öðrum þræði barist fyrir réttindum sínum í nafni þeirra, í nafni sérstöðu sinnar sem mæðra og umönnunaraðila. Misgengið er því enn undirliggjandi. Árið 1926 bjóða konur aftur fram kvennalista við Alþingiskosningar en hafa nú ekki erindi sem erfiði og fá ekki konu kjörna. Þá lýkur þessu fyrsta gosi íslenskrar kvennabaráttu enda markmiðum þess náð þar sem konur höfðu fengið þau réttindi sem þær börðust fyrir.

Hinar endursköpuðu félagslegu persónur kvenna eru nú komnar út á samfélagsvöllinn og næstu áratugi einhenda þær sér í ýmiss konar félagsstörf. Þær starfa innan stjórnmálaflokka og bjóða sig fram á þeirra vegum, stofna Kvenfélagasamband Íslands, starfa í verkalýðsfélögum og kirkjufélögum og sinna margvíslegum velferðarmálum svo eitthvað sé nefnt. Kvenréttindafélagið starfar enn að málefnum kvenna en er nú aðeins eitt af félögunum á vettvanginum. Húsmæðrahyggja fer á flug, ekki síst fyrir atbeina Jónasar frá Hriflu, og húsmæðraskólar eru stofnaðir víða um land. [7] Heimssögulegir atburðir hafa áhrif þessi ár; kreppan um 1930, heimsstyrjöldin síðari og svo barnasprengjan sem átti sér stað að henni lokinni. Það er kyrrt í eldstöðinni fram yfir 1960.

 

Annað gos

Á sjöunda áratugnum tekur íslenskt samfélag stórstígum breytingum. Það eru þenslutímar og konur streyma út á vinnumarkaðinn sem þurfti á vinnuafli þeirra að halda. Margar hafa einnig sótt sér menntun og vilja nota hana. Á vinnumarkaðnum hafa konur mun lægri laun en karlar. Ætlast er til að þær sjái áfram um börn og bú því kynbundin verkaskipting hefur lítið breyst, ekki frekar en gömlu hugmyndirnar um stöðu og hlutverk kvenna. Útivinnandi konur búa því við tvöfalt vinnuálag auk úrræðaleysis því ekki er komið til móts við þær með byggingu dagvistarheimila né viðunandi fæðingarorlofi. Í nágrannalöndunum þar sem konur búa við svipað hlutskipti er efnt til mótmæla og baráttuhreyfingar stofnaðar. Það fór ekki framhjá íslenskum konum og ljóst er að enn þurfa konur að endurskapa sig sem félagslegar persónur. Þær vilja sömu réttindi og karlar á vinnumarkaði, að viðurkennt sé að þær séu fyrirvinnur eins og þeir og einnig að börn og heimili séu ekki þeirra einkamál. Það er órói, kvikan rennur hratt í kvikuhólfið.

Þann 1. maí 1970 gýs. Þann dag tók hópur kvenna sig saman og marseraði í göngu verkalýðsins niður Laugaveg með stórt kvenlíkneski sem bar áletrunina „Manneskja – ekki markaðsvara“. Gos er hafið. Verkalýðshreyfingin var ekki hrifin af þessu tiltæki kvennanna. Í kjölfarið er Rauðsokkahreyfingin stofnuð og berst fyrir að konur séu metnar á sömu forsendum og karlar, ekki á sérforsendum sem konur. Af baráttumálum má nefna sömu laun fyrir sömu vinnu, byggingu dagvistarheimila fyrir börn, jafna vinnuskiptingu á heimilum, rýmkun fóstureyðingarlaga og auðveldara aðgengi að getnaðarvörnum. Hreyfingin vinnur ötullega og nær fram þessum baráttumálum nema jafnri vinnuskiptingu á heimilum sem ekki er hægt að færa í lög.

Þetta gos nær hápunkti sínum á degi Sameinuðu þjóðanna 24. okt. 1975 þegar kvennahreyfingar í landinu sameinast um að skora á konur að leggja niður vinnu þennan dag til að sýna fram á mikilvægi vinnu kvenna. Konur safnast saman á fundum víða um land, sýna samstöðu og krefjast aðgerða. Aðgerðin er afar vel heppnuð og vekur alþjóðlega athygli. Eftir þetta hjaðnar kvikan í kvikuhólfinu. Aðgerðin útheimti mikla vinnu sem bættist ofan á tvöfalt vinnuálag þeirra kvenna sem að henni stóðu og konur eru þreyttar. Innan Rauðsokkahreyfingarinnar verða nokkrar deilur um pólitíska stefnu og hún einangrast. Það má því segja að þessu gosi ljúki með flugeldasýningu kvennafrídagsins sem tæmir kvikuhólfið – en aðeins í bili því fljótlega tekur kvika að safnast þar fyrir á nýjan leik.

 

Þriðja gos [8]

Þótt mikið hafi áunnist í málefnum kvenna á áttunda áratugnum er enn spenna á kynjasamskeytum þjóðfélagsins og kynjaflekarnir nuddast saman. Konur hafa varla rödd í opinberri ákvarðanatöku og eru fáar á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þær búa við sama misgengið og áður því þótt konur hefðu orðið flest formleg réttindi að lögum voru þær enn í vitund manna skilgreindar sem mæður og húsmæður; heimilisstörfin og barnauppeldið eru á þeirra herðum og kynbundinn launamunur er viðvarandi. Þetta er ekki það sem konur höfðu barist fyrir. Hvernig eiga þær að útvega sér rödd sem hlustað er á? Hvernig eiga þær að „komast til valda“, verða „valdið“? Þessa vídd vantar í félagslega persónu kvenna og brátt tekur að skjálfa. Myndarlegur skjálfti, jafnvel sjálfstætt gos í eldstöðinni, verður árið 1980 þegar Vigdís Finnbogadóttir býður sig fram til forseta lýðveldisins og nær kjöri. Vigdís varð fyrst kvenna frá því á tímum kvennaframboðanna eldri til að nýta sér þann rétt, sem allar konur höfðu að lögum, að bjóða sig fram til kjörs á eigin forsendum. Það vekur konur til umhugsunar um að þetta geti þær líka gert, með samtakamætti sínum geti þær sett fram kvennaframboð við sveitarstjórna- og Alþingiskosningar og náð inn á svið valdsins með sína kvennapólitísku rödd. Kvikan streymir í kvikuhólfið og í nóvember 1981 skelfur þegar óformlegur hópur kvenna boðar til opins fundar á Hótel Borg í Reykjavík til að kanna áhuga á sérstöku kvennaframboði til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík vorið 1982. Áhuginn reynist mikill og fullt er út úr dyrum. Á sama tíma eru konur á Akureyri að hugsa á svipuðum nótum án þess að konur í Reykjavík viti af því. Það gýs.

Kvennaframboð til bæjarstjórna í Reykjavík og á Akureyri eru stofnuð snemma árs 1982, heyja kosningabaráttu um vorið og ná góðum árangri, 10,9% atkvæða í Reykjavík og 17,4% á Akureyri. Haustið á eftir fara konur að hugsa sér til hreyfings með framboð til Alþingis því það stefnir í þingkosningar vorið 1983. Ekki er eining innan Kvennaframboðsins í Reykjavík um þá aðgerð sem verður til þess að þær konur sem vildu bjóða fram til þings stofna nýtt framboðsfélag, Kvennalistann, í mars 1983. Í Alþingiskosningunum í apríl býður Kvennalistinn fram til Alþingis í þremur kjördæmum, nær 5.5% atkvæða og fær þrjár konur kjörnar á þing. Frá upphafi vega höfðu aðeins tólf konur setið á Alþingi, aldrei fleiri en þrjár í senn og stundum engin. Kosningarnar 1983 marka þáttaskil í fjölda kvenna á Alþingi og þær verða ekki aftur jafn fáar og verið hafði.

Framboðin berjast fyrir því að koma konum að við opinbera ákvarðanatöku, innleiða hugmyndina um reynsluheim kvenna sem móti rödd þeirra og krefjast þess að á þessa rödd sé hlustað á valdasviðinu. Þau setja fram stefnuskrár í sveitarstjórnar- og landsmálefnum, leggja áherslu á nauðsyn hugarfarsbreytingar og að kvennapólitík sé þriðja víddin í stjórnmálum, hvorki til hægri né vinstri. Næst þegar kosið er til Alþingis vorið 1987 býður Kvennalistinn fram í öllum kjördæmum, nær tvöfaldar fylgi sitt í 10,1% og fær sex konur kjörnar.

Það er fjör í gosinu allan níunda áratuginn og konur láta rödd sína hljóma víðar en í sveitarstjórnum og á þingi. Samtök um kvennaathvarf eru stofnuð 1982, Samtök kvenna á vinnumarkaðnum 1983, Friðarhreyfing íslenskra kvenna 1984, Kvennaráðgjöfin 1984 og einnig Íslensk-lesbíska. Áhugahópur um íslenskar kvennarannsóknir er stofnaður 1985 og Stígamót 1989. Á tíu ára afmæli kvennafrídagsins 1985 standa konur fyrir fjölda atburða; Kvennasmiðjunni, Listahátíð kvenna, fyrstu ráðstefnunni um íslenskar kvennarannsóknir og Hlaðvarpinn, menningarmiðstöð kvenna, er keyptur með samskotum í formi hlutabréfa. [9] Persónusköpun kvenna er í fullum gangi.

Þegar kemur fram um 1990 hjaðnar gosið nokkuð. Í borgarstjórnarkosningunum 1990 fær Kvennaframboðið í Reykjavík aðeins 6% atkvæða og býður ekki aftur fram. Í þingkosningunum 1991 minnkar atkvæðahlutfall Kvennalista í 8,3% og fer niður í 4,9% í kosningunum 1995 og er þá orðið lægra en í fyrstu kosningunum 1983. Gosið hafði áhrif á hina hefðbundnu stjórnmálaflokka sem nú bjóða fram konur í vænlegum sætum á listum sínum og konum fjölgar verulega á valdaviðinu. Barátta framboðanna fyrir að koma konum að hefur náð markmiði sínu varðandi fjölda kvenna ef ekki hugmyndir. Sýnileg átök um stefnumótun innan Kvennalista gera einnig að verkum að hann lítur ekki lengur út sem samstæð fylking kvenna og fellur ekki að þeirri viðteknu hugmynd að konur hljóti að vera sammála um flest vegna þess að þær eru konur.

Árið 1994 gengur Kvennalistinn til samstarfs við miðju og vinstri flokkana í borgarstjórn Reykjavíkur og býður með þeim fram um vorið undir merkjum Reykjavíkurlistans. Hafði Kvennalistanum verið lofað borgarstjórastólnum ef Reykjavíkurlistinn næði meirihluta sem hann gerir, eða 52% atkvæða á móti 47% atkvæða Sjálfstæðisflokks. Ekki eru allar Kvennalistakonur sáttar við þessa aðgerð þar sem hún gengur þvert á þá forsendu Kvennalista að hann sé grasrótarhreyfing og hvorki til hægri né vinstri í hefðbundum stjórnmálum. Árið 1998 myndar Kvennalistinn svo formlega Samfylkinguna ásamt Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki og Þjóðvaka. Gosið er búið.

 

Það kraumar í kvikuhólfinu

Ekki fer þó öll kvikan í kvikuhólfinu þessa leið og gosórói mælist áfram. Árið 1999 er ráðstefnan Konur og lýðræði haldin sem stefnir saman konum frá tíu þjóðlöndum; norrænu löndunum, baltnesku löndunum, Rússlandi og Bandaríkjunum. Ráðstefnan er verkefnamiðuð og miðast við verkefni sem bætt geta stöðu kvenna í stjórnmála- og efnahagslífi. Sett eru á laggirnar fjármögnuð verkefni í þessum löndum og er framlag stjórnvalda á Íslandi óframseljanlegt fæðingarorlof feðra sem fært er í lög árið 2000. Árið 1999 er Félag kvenna í atvinnulífinu stofnað, 2003 Femínistafélag Íslands og 2006 Exedra, samtök kvenna í menningu, listum og atvinnulífi. Hugtakið femínismi heldur innreið sína og nær bæði til kvenna og karla, sem finnst sumum, rétt eins og konum, nauðsynlegt að endurskapa persónu sína í síbreytilegu samfélagi. Dæmi um það eru karlahópur Femínistafélagsins og átakið „Karlmenn segja NEI við nauðgunum“. Einnig er farið að kenna kynjafræði í framhaldsskólum. [10] Allt eru þetta skjálftar.

Um svipað leyti á sér stað aukin klámvæðing og þar sem Netið er komið til sögunnar er klámið mun aðgengilegra og útbreiddara en áður var. Það hlutgerir og niðurlægir konur og gengur þvert á þá persónusköpun sem konur hafa stundað í meira en hundrað ár. Ekki líður á löngu þar til að skjálfa tekur hressilega í eldstöðinni. Árið 2011 er fyrsta druslugangan farin í Reykjavík og er markmið hennar að uppræta það viðhorf til kvenna að ef þær klæði sig á ákveðinn hátt, séu ofurölvi eða bara staddar á skemmtistað bjóði þær upp á kynferðislegt samneyti og að ekki sé ástæða til að spyrja hvort þær vilji það eða ekki. Þær séu druslur, hlutir sem má taka, eins og skilja má af kláminu.

Vorið 2015 brestur svo á brjóstabyltingin eða „frelsum geirvörtuna“. Að henni standa ungar konur sem búnar eru að fá nóg af þessu viðhorfi og með því að bera brjóst sín á almannafæri benda þær á að brjóst eru ekki kynlífsleikfang eða klámviðfang heldur hluti af líkama kvenna rétt eins og hendur og fætur. Ber brjóst á almannafæri eru aðferð til að afklámvæða líkama kvenna og gera konum kleift að taka líkama sinn til sín aftur. Hin félagslega persóna býr í líkama sem verður ekki aðskilinn frá henni eins og einhvers konar hlutur. Í kjölfarið brýst út „beauty tips“ byltingin sem felst í því að konur á öllum aldri greina á samnefndri vefsíðu frá kynferðislegu ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir og vekja þannig athygli á umfangi þess og skelfingu. Þessar aðgerðir vekja mikla athygli og umræðu í samfélaginu.

 

Stefnir í fjórða gosið eða er það hafið?

Ævinlega er erfitt að greina með vissu nýliðna atburði svo hér verður engu slegið föstu um hvort við séum stödd í miðju gosi eða hvort það sé yfirvofandi. Víst er að það skelfur og rymur í eldstöðinni. Nýliðnir atburðir vísa til viðhorfs til og misnotkunar á líkama kvenna, en undir því yfirborði má greina óþol gagnvart virðingarleysi í garð kvenna og því sem þær hafa fram að færa sem félagslegar persónur. Þessar aðgerðir snúast um viðvarandi ójöfnuð kynjanna og skeytingarleysi í þeim efnum, eða um sígild viðfangsefni kvennahreyfinga/femínískra hreyfinga. Með tilkomu Netsins hefur birtingarmynd baráttuhreyfinga breyst, þær eru ekki stofnaðar á sama hátt og áður með stefnuskrá og tilheyrandi, né eru þær sýnilegar á sama hátt. Netið býr stöðugt til nýja farvegi fyrir persónusköpun og andóf. Spurningin er hvort það skiptir máli?

Ýmislegt bendir til að líta megi á „frelsum geirvörtuna“ sem hreyfingu sambærilega við eldri hreyfingar. Á eins árs afmæli þessarar aðgerðar vorið 2016, þegar ýmsir viðburðir voru skipulagðir í tilefni afmælisins, segir ein talskona hennar: „Við þurfum að viðhalda umræðunni en hugmyndin var alltaf að gera þetta að árlegum viðburði … Það er búið að vera magnað að sjá hugarfarsbreytinguna á þessu eina ári en við erum hvergi nærri hættar … Það er svo margt sem þarf að berjast fyrir eins og til dæmis drusluskömm á stelpur … launamisrétti og margt annað. Brjóstin eru lang sýnilegasta dæmið þrátt fyrir að það sé aðeins agnarsmár partur“. [11]

Hér er á ferðinni sígilt viðfangsefni kvennahreyfinga, meiningin er að berjast gegn kynjamisrétti almennt og fyrir hugarfarsbreytingu. Aðferðin, að bera geirvörtuna, er nýstárleg og táknræn. Druslugangan er farin á hverju ári og segja má að líkami kvenna sé nú, í kjölfar klámvæðingarinnar, lykiltákn í baráttunni gegn kynjamisrétti. „Frelsum geirvörtuna“ kemur í ljós utan Netheima árlega og það á að halda áfram að berjast. Það má því skilgreina þessar aðgerðir kvenna sem hreyfingu á borð við fyrri hreyfingar. Hér er á ferðinni gosefni sem er sambærilegt við fyrri gos og enn leitast konur við að endurskapa sig sem félagslegar persónur í andófi við ríkjandi persónumynd sína.

Á kvennafrídaginn 24. október 2016 söfnuðust þúsundir kvenna saman um land allt og kröfðust launajafnréttis strax. Á Austurvelli, þar sem safnast var saman í Reykjavík, voru yngri konur margar og athygli vakti beinskeytt og snörp ræða ungrar stúlku sem enn er í menntaskóla. Hvorki hún né konurnar á Austurvelli voru tilbúnar til að bíða fram til ársins 2068 eftir jöfnum launum á við karla eins og reiknað hefur verið út að konur þurfi að gera ef launajafnréttið mjakast áfram á sama hraða og undanfarin ár. [12] Þótt því verði ekki slegið föstu er freistandi að álykta að við séum nú, að undangengnum skjálftum, stödd í myndarlegu gosi, fjórða gosinu í gosvirknisögu íslenskrar kvennabaráttu.

 

 

Tilvísanir

 1. Sjá t.d. K. Offen 2000. European Feminisms 1700–1950. A Political History. Stanford University Press.
 2. Sjá t.d. H.R. Christensen, B. Haalsa, A. Saarinen, ritstj. 2004. Crossing Borders.Re-mapping Women’s Movements at the Turn of the 21st Century. University Press of Southern Denmark.
 3. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir 1994. „Að gera til að verða. Persónusköpun í íslenskri kvennabaráttu“, Fléttur, Rannsóknastofa í kvennafræðum, Háskóli Íslands – Háskólaútgáfan, 87–114.
 4. Stuðst er við eftirfarandi heimildir: Steinunn S. Jakobsdóttir „Hvað veldur jarðskjálftum“, Vísindavefur Háskóla Íslands, sótt 17.9.2015; Ármann Höskuldsson „Hvað er eldgos“; Vísindavefur Háskóla Íslands, sótt 5.9. 2015 Sigurður Steinþórsson „Hvernig myndast fellingafjöll“, Vísindavefur Háskóla Íslands, sótt 17.9.2015; „Orðskýringar – Hugtök“, Eldgos.is., sótt 17.9. 2015.
 5. Sjá t.d. G Harris 1989. „Concepts of Individual, Self and Person in Description and Analysis“, American Anthropologist, 911, 3, 599–612.
 6. Um atburði í íslensku kvennagossögunni sjá t.d. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir 1997. Doing and Becoming. Women’s Movements and Women’s Personhood in Iceland 1870–1990, Social Science Research Institiute, University press – University of Iceland.
 7. Sigríður Matthíasdóttir 2004. Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900 – 1930. Háskóli Íslands, Háskólaútgáfan.
 8. Gosvirkninni á áttunda og níunda áratugnum er skipt í tvö gos því hugmyndafræði og baráttuaðferðir Rauðsokka og framboðskvenna voru ólíkar. Á annan veg má líta á þetta sem samfellda goshrinu þar sem nýtt og öðruvísi hraun bætist eftir 1980 ofan á það sem nýlega var runnið.
 9. Þessi upptalning er ekki tæmandi en það helsta nefnt.
 10. Stiklað er á stóru og upptalningin er ekki tæmandi.
 11. „Frelsun geirvörtunnar fagnar árs afmæli“, Fréttablaðið, 23.3.2016, 42.
 12. „Samstaða sterkasta vopnið“, mbl.is., sótt 24.10.2016.