eftir Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur og Jovönu Pavlović

Kynþáttafordómar, hvítleikinn og mörk listarinnar

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2022

 

 

Jovana Pavlović

Jovana Pavlović

Styttumálið svokallaða var áberandi í fjölmiðlaumræðu fyrri hluta þessa árs. Málið má rekja til þess þegar listaverk birtist óvænt á bílastæðinu við Nýlistasafnið þann 9. apríl sl., í tengslum við sýningu safnsins Immune/Ónæmi. Verkið var skúlptúr eftir listakonurnar Bryndísi Björnsdóttur (f. 1983) og Steinunni Gunnlaugsdóttur (f. 1983). Stuttu áður hafði leiðsögumaður uppgötvað að stytta af Guðríði Þorbjarnardóttur eftir Ásmund Sveinsson (1893–1982) hafði horfið frá Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Verkið sem hvarf er afsteypa af verki Ásmundar frá árinu 1938, Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku, og var gert fyrir heimssýninguna í New York 1939. Hún sýnir Guðríði og son hennar, Snorra Þorfinnsson, sem hún fæddi í Norður-Ameríku, á því landsvæði sem þá var kallað Vínland. Guðríður er þekktust fyrir að hafa verið mikill landkönnuður og er hennar getið í tveimur Íslendingasögum. Afsteypan í Laugarbrekku er frá árinu 2000 og var sett upp í tilefni af þúsund ára afmæli landafundanna[1] svokölluðu, þess þegar norrænir menn komu fyrst til Norður-Ameríku.[2]

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir

Verk Bryndísar Björnsdóttur og Steinunnar Gunnlaugsdóttur ber titilinn Farangursheimild — Fyrsta hvíta móðirin í geimnum og er skúlptúr sem samanstendur af geimflaug, skotpalli, skilti úr brotajárni og afsteypunni af verki Ásmundar sem tekin var frá Laugarbrekku og komið fyrir inni í geimflauginni. Verkið gerðu Bryndís og Steinunn vegna þess að þær vildu vekja athygli á og skapa umræðu um rasíska undirtóna verksins. Í því felist „átök um tákn í almannarými og átök um óuppgerðan menningararf,“ eins og segir í yfirlýsingu listamannanna, en ekki sé verið að ráðast gegn Guðríði, Snorra syni hennar né Ásmundi Sveinssyni sjálfum.[3]

Höfundar greinarinnar eru listfræðingur og mannfræðingur og munu fjalla um skúlptúr Ásmundar og verk Bryndísar og Steinunnar, um myndmálið og mörk listarinnar, íslenska sjálfsmynd, hvítleika og kynþáttafordóma. Umfjöllunin grundvallast á eftirlendurfræðum (e. postcolonialism)[4], sérstaklega kenningu Edwards Saids (1935–2003) um „annarleika“[5] og kenningu Michels Foucaults (1926–1984) um orðræðu, samtvinnun valds og þekkingar, sem og rannsóknum Kristínar Loftsdóttur um kynþáttafordóma á Íslandi. Kenningar Saids og Foucaults leggja áherslu á að greina frásagnir og framsetningu á viðfangsefnum og eru gagnlegar til þess að rýna verk Ásmundar, rasíska orðræðu og verk Bryndísar og Steinunnar vegna þess að þær sýna fram á að birtingarmyndir valds eru ekki aðeins landvinningar eða hernám, heldur einnig orðræða og list.

 

​​​​Orðræða, vald og þekking

Í samfélagi manna er helsta tól okkar til tjáningar tungumálið. Við skiljum heiminn út frá því sem við lesum í bókum og fjölmiðlum, því sem við heyrum í rökræðum í sjónvarpinu eða samræðunum sem við hlustum á og tökum þátt í — allt er þetta orðræða.[6] Franski heimspekingurinn Michel Foucault hélt því fram að þar sem orðræða hefur það hlutverk að móta skilning okkar á heiminum hljóti hún að vera birtingarmynd valds. Hann hélt því fram að tengsl væru á milli valds (e. power) og þekkingar (e. knowledge); vald er byggt á þekkingu og notfærir sér hana, skapar skilning okkar á þekkingunni sjálfri, þannig eru vald og þekking samtvinnuð fyrirbæri orðræðunnar og mynda valdasamband.[7] Hugmyndum Foucaults hefur verið beitt sem leiðarvísi til þess að koma auga á valdið í tungumálinu, betur þekkt sem orðræðugreining Foucaults.[8] Þessum hugmyndum um vald og þekkingu er einnig hægt að beita til þess að greina vald í myndrænni framsetningu.

Ómögulegt er að finna eina reglu eða fastmótaðan ramma um hvernig eigi að koma auga á vald í orðræðunni, því það er flæðandi. Myndræn framsetning, eins og list, fylgir oft þessari ríkjandi orðræðu, enda er hún spegill þess samfélags sem listamaðurinn lifir og hrærist í. Síðast en ekki síst er einn meginpunktur Foucaults[9] áherslan á normalíseringu á valdinu og því sem telst viðunandi þekking hverju sinni. Hægt væri að taka dæmi um „hvíta“ eða ljósa plástra sem sagðir eru vera „húðlitaðir“. Þannig verður „hvítleikinn“ valdið, hann er miðjan og þekkingin sem er sköpuð um hann segir að „hvíleikinn“ sé „eðlilegur“, um leið verða aðrir húðlitir „óeðlilegir“ og óalgengir. Valdið er réttlætt með normaliseríngu. Oft er enginn ásetningur til staðar, þ.e. útilokunin og jaðarsetningin eru ekki með vilja gerð. Framleiðendur plástra ætla sér ekki að útiloka fólk með aðra húðliti en „hvítan“. Fáir karlar taka að sama skapi meðvitaða ákvörðun um að útiloka konur. Hegðunin er lærð í gegnum valdkerfi samfélagsins, að „svona sé þetta bara“, og ómögulegt væri að viðhalda framsetningunni nema að samfélagið í heild samþykki að einhverju leyti að þekkingin sé „sönn“.[10]

 

Linsa eftirlendufræða

Þekkasta kenning Edwards Saids er án vafa hugmynd eftirlendufræðanna um „okkur“ og „hin“. Birtingarmyndir hennar eru t.d. karlar (við) – konur (hin), „hvítir“ (við) – „litaðir“ (hin), Vesturlönd (við) – Austurlönd (hin), og svo framvegis. Fjöldamörg dæmi eru um að listamenn, fræðimenn og sýningarstjórar noti kenningar Saids í samtímanum til þess að fjalla um og koma auga á stöðu jaðarsettra hópa í heimi valdaójafnvægis, sérstaklega þann „annarleika“ sem myndaðist á tímum evrópskrar nýlenduhyggju. Má þar nefna Feneyjatvíæringinn árið 1993, Documenta XI og verk listamanna á borð við Yonka Shonibare, Rebecca Belmore og Andrew Gilbert.[11]

Á sama tíma er mikilvægt að muna að listheimurinn heldur áfram að nota „annarleika“, tókenisma[12] og orðræðu til þess að viðhalda ríkjandi valdakerfi, sem í grunninn hampar „hvítum“, vestrænum, ófötluðum, gagnkynhneigðum karlmönnum. Eitt það athyglisverðasta við greiningu Saids er hvernig hann kom auga á mynstur í framsetningunni á „hinum“ sem eru rótföst í formgerð samfélaga; framsetningin á hinum sem „óæðri“ eru ekki stök atvik, heldur kerfisbundin. „Annarleiki“ er því ekki aðeins orðræða eða listræn framsetning, heldur hugmyndafræðilegt mynstur sem fyrirfinnst í stofnunum, akademíunni, orðaforða og listheiminum. Eins og áður hefur verið nefnt eru hugmyndir Foucaults og Saids einhvers konar leiðarvísir um það hvernig við getum skoðað valdasambönd sem fyrirfinnast í samfélögum okkar út frá hugmyndum um „okkur“ og „hin“ sem eru ríkjandi hverju sinni. Kynþáttahugtakið er eitt þessara dæma.[13]

 

Rasismi og myndmál skúlptúrsins

En hvað er þetta fyrirbæri, kynþáttafordómar eða rasismi? Hlýtur það ekki einfaldlega að fela í sér þá trú að aðrir kynþættir en sá hvíti séu óæðri á einhvern hátt? Er ekki í eðli manneskjunnar að vera tortrygginn gagnvart þeim sem eru af framandi kynþáttum? Er ekki eðlilegt að Vesturlandabúar séu tortryggnir í garð múslima því þeir eru svo ólíkir „okkur“?[14]

Kynþáttahyggja er valdasamband, byggt á hugmyndinni um valdatengsl á milli hópa, hugmyndinni um „okkur“ og „hin“. Hún þarf ekki alltaf að tengjast kynþætti, heldur vísar hún stundum til menningar, litarhafts, trúarbragða eða landfræðilegs uppruna. Hugtakið kynþáttur er samt sem áður notað eins og samþykki ríki um þýðingu þess þó að fræðimenn hafi bent á að hugmyndin um það hafi aldrei haft neina stöðuga merkingu.[15]

Þótt hugtakið einkennist af óstöðuleika er samþykkt sjónarhorn meðal fræðimanna að kynþáttahyggja eigi rætur að rekja í nýlendu- og heimsvaldatíma Evrópuþjóða. Hugmyndir Evrópuþjóða voru byggðar á yfirráðum yfir þeim samfélögum sem þeir drottnuðu yfir. Ein af þeim var hugmyndin um „hvítleikann“. Mikilvægt er að hafa hugfast, eins og mannfræðingurinn Kristín Loftsdóttir hefur bent á, að hugmyndir nýlenduherra um kynþætti dreifðust víða um heiminn og Ísland var þar engin undantekning, sama hve saklaus þjóðin kann að telja sig.

Verkið Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku (1939) eftir Ásmund Sveinsson fjallar um Guðríði Þorbjarnardóttur, íslenskan landkönnuð frá Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Óumdeilt er að afrek Guðríðar voru óvenjuleg fyrir konu sem lifði á hennar tímum, enda er hún gjarna kölluð Guðríður víðförla. Í verki Ásmundar stendur Guðríður í stafni skips, kraftmikil og skörungleg, og á annarri öxl hennar stendur smábarn með aðra höndina upprétta í kveðju – sonur hennar, Snorri. Verkið á Laugarbrekku er afsteypa af verkinu, en aðrar afsteypur er að finna í Páfagarði og í Glaumbæ í Skagafirði.[16]

Farangursheimild - Fyrsta hvíta móðirin í geimnum

Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum / Ljósmynd: Steinunn Gunnlaugsdóttir

Saga Guðríðar, líkt og annarra landnema, er samofin hugmyndum um yfirburði norrænna manna sem finna má í sögubókum og umfjöllunum um Íslendingasögurnar. Óskar Bjarnason sagnfræðingur hefur fjallað um áhuga þýskra menntamanna og útgefenda á Íslendingasögunum á fyrri hluta 20. aldar, þar sem fornköppunum, og um leið Íslendingum öllum, er lýst sem einhvers konar óspjölluðum fyrirmyndar-„kynþætti“ sem varðveiti forngermanskan menningararf. Íslensku fornkapparnir voru notaðir til viðmiðunar um „þrjár grundvallargerðir þýskrar karlmennsku“: karlmannlegi verkmaðurinn Egill, hinn yfirvegaði Njáll og ungi ofurhuginn Grettir, og stríðsrekstur og kynþáttahatur réttlætt með tilvísunum í Íslendingasögurnar.[17] Íslendingar mótuðu hugmyndir sínar um „okkur“ og „hin“ á nýlendutímanum og listaverk voru nýtt til þess að styðja við hugmyndir um yfirráð og yfirburði norrænna manna. Á 3. og 4. áratug 20. aldar var til dæmis algengt að listamenn gerðu verk af fornköppunum. Má þar sem dæmi nefna skúlptúr Einars Jónssonar af Þorfinni karlsefni frá árinu 1920, sem frumsýndur var í Fíladelfíu í Bandaríkjunum en stendur nú við Hrafnistu í Reykjavík. Þá gerði Nína Sæmundsson skúlptúr af Leifi Eiríkssyni árið 1930, sem var framlag hennar til samkeppni vegna þúsund ára afmælis Alþingis og var gjöf til Íslendinga frá bandarísku þjóðinni til minningar um landafundi Leifs Eiríkssonar. Stirling Calder sigraði í þessari samkeppni og er verk hans eitt frægasta kennileiti Reykjavíkur þar sem það stendur við Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti.[18] Þegar stytta Calders var afhjúpuð ávarpaði Sveinbjörn Johnson gesti fyrir hönd Bandaríkjaþings og forseta Bandaríkjanna og sagði meðal annars:

Það er vel til fallið, að Bandaríkin skuli opinberlega heiðra minningu Leifs Eiríkssonar á 1000 ára afmæli Alþingis, þessarar merkilegu stofnunar. Leifur Eiríksson var ósvikinn kvistur á þeim meiði, sem hann var sprottinn. — Norðurlandabúar voru þá bestu sjómenn í heimi, og þeir kunnu jafn vel við sig á sjó eins og á landi. Þeir voru gersneyddir þeim hjátrúarkennda ótta við höfin, sem einkenni menn á dögum Kólumbusar. Hugdirfð Norðurlandabúa kemur hvergi betur í ljós, en með hinni miklu þorraun Leifs heppna. Hann má því kalla einn hinn fegursta kvist á þeim þjóðarmeiði, sem á sjer rætur og yptir greinum jafn vítt og hinn frægi askur Yggdrasils.[19]

Á þessum nótum var orðræðan um fornkappa og ljóst að myndlist var notuð til að upphefja íslenska sjálfsmynd og rétta hlut Íslendinga á alþjóðavettvangi. Þótt Ísland hafi ekki tekið þátt í hernámi eða landvinningum nýlendutímans var þjóðin samt undir áhrifum frá hugmyndafræði hennar. Íslendingar litu ekki á sig sem undirokaða og veikburða nýlenduþjóð, heldur værum við komin af mestu köppum mannkynssögunnar og ættum því frekar að bera okkur saman við nýlenduherra.

Ásmundur Sveinsson var frumkvöðull í íslenskri höggmyndalist. Hann ferðaðist víða, nam við listaakademíuna í Stokkhólmi og dvaldist í lok 3. áratugarins í París, Grikklandi og á Ítalíu. Hann var því augljóslega enginn heimalningur þótt list hans hafi sterkar rætur í íslenskri menningu. Á 5. áratugnum gerði hann fjölda verka sem hylltu undirokaða hópa, sem stundum eru þekkt sem atvinnulífsmyndirnar. Þar á meðal eru Kona að strokka (1934), Járnsmiðurinn (1936), Þvottakonur (1936), Vatnsberinn (1936–37) og Þvottakona (1937). Alþýðumenning, sem og upphafning verkakvenna, hefur verið þráður í verkum Ásmundar en ekki síður sagnahefðin. Má þar nefna verkin Sæmundur á Selnum (1922 og 1927), Dauði Grettis (1928), Helreiðin (1944), Sonartorrek (1948) og Höfuðlausn (1948).[20] Þá var samband móður og barns stef í mörgum verka hans, svo sem Fýkur yfir hæðir (1933), Móðir jörð (1936), Móðurást (1948) og Sköpun (1949). Verkið Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku fellur vel inn í þessa þræði Ásmundar, þar sem kvenhetju er gert hátt undir höfði í afar karllægum sagnaheimi Íslendingasagnanna og samband móður og barns er gert að þungamiðju verksins.

Í grein sem birtist í Alþýðublaðinu 1. desember 1938 er fjallað um verkið og sagt að Ásmundur hafi snemma viðrað þá hugmynd að gera styttu til að sýna á fyrirhugaðri heimssýningu í New York. Því sé æskilegt að sýningarnefndin „gæti séð sér fært að koma þessari mynd á framfæri á heimssýningunni, því að það er glæsilegt til kynningar þjóðinni, að vekja athygli hinna fjölmörgu sýningargesta, sem þar verða samankomnir frá öllum þjóðum heims, á því, að það var íslenzk kona, sem var fyrsta hvíta móðirin þar vestra.“[21] Í viðtali við bæði Alþýðublaðið og Vísi árið eftir segir Ásmundur frá frumkvæði sínu við gerð styttunnar og hvernig sýningarnefnd heimssýningarinnar hafi með vali á verki hans viðurkennt Guðríði sem „hina fyrstu hvítu móður í Vesturheimi“. Er verkinu og staðsetningu þess á aðalsýningasvæði heimssýningarinnar hampað sem þjóðarsigri, bæði af blaðamönnum og Ásmundi sjálfum.[22]

 

Póst-kólóníalíska Ísland: „hvítleiki“ og Guðríður Þorbjarnadóttir

Kynþáttahyggjan sem finna má í umræðu um sögu Íslands, landafundina og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga er hluti af þeirri póst-kólóníalísku menningu sem lýst er hér að framan. Hægt er að fallast á þau rök að það hafi verið Ásmundi til framdráttar, og til marks um áhuga hans á stöðu kvenna í samfélaginu, að hann hafi ákveðið að lyfta sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur en ekki til dæmis Leifs heppna. En þó að verk Ásmundar fjalli með sanni um Guðríði er titillinn ekki tilvísun í afrek hennar sem landkönnuðar eða stöðu hennar sem konu á þjóðveldisöld. Titillinn bendir á þá staðreynd að Guðríður hafi fyrst „hvítra“ kvenna fætt barn í Norður-Ameríku og á sama tíma hyllir það hlutskipti hennar sem móður.

Valdasambandið fyrirfinnst í verki Ásmundar með þeim hætti að „hvíta“ konan sem fæðir barnið er fókuspunkturinn. Þegar þeirri staðreynd er lyft á stall og henni gefin merking lenda aðrir þættir hinum megin við ásinn, þ.e. „ekki-hvítar“ konur sem höfðu lengi fætt börn sín í Ameríku áður en Guðríður kom þangað. „Hvítum“, „siðmenntuðum“, „sterkum“ landkönnuðum er teflt gegn hinum „ósiðmenntuðu“, „frumstæðu“ og „veiku“ frumbyggjum. Verk Ásmundar styður við hugmyndina um að landafundirnir hafi verið jákvæðir, til marks um það hve miklir kappar Íslendingar hafi verið og sigur hins „hvíta“ heims. Þannig er fókuspunkturinn sem listamaðurinn velur sér, líkamsstaða Guðríðar og sonar hennar, mótaður af hugmyndafræði nýlenduhyggjunnar sem einkenndi þennan tíma, hugmyndinni um yfirráð Evrópu sem einkenndist af „hvítleika“, og þannig er verkið hluti af því mynstri um yfirburði „okkar“ sem Said fjallaði um.

Ásmundur Sveinsson gerði á námsárum sínum verk sem er stúdía af líkamsbyggingu einstaklings af afrískum[23] uppruna. Ásmundur gaf verkinu titilinn Negri [24] (1928). Orðið negri þótti ekki niðrandi á þeim tíma en er engu að síður hluti af þeirri sársaukafullu sögu sem er meðferð hvítra Vesturlandabúa á arðrændum íbúum Afríku. Mannfræðingurinn Kristín Loftsdóttir fjallaði í grein sinni „Republishing ‘The Ten Little Negros’: Exploring nationalism and ‘whiteness’ in Iceland“ um endurútgáfu bókarinnar Tíu litlir negastrákar, sem kom fyrst út á Íslandi árið 1922. Þar segir hún frá því hvernig þeir sem voru hlynntir endurútgáfu bókarinnar hafi ekki litið á hana sem rasíska, heldur viljað sjá hana sem staðfestingu á sakleysi Íslendinga og sakleysislegri sögu þjóðarinnar í tengslum við rasisma og rasískar steríótýpur. Kristín segir slíka afstöðu gera „hvítleikann“ að hlutlausri breytu, sem sé þægileg staða og auðveld þeim sem geta „gleymt húðlit“ og tengslum hans við söguna og stöðu fólks í samfélaginu. Rasismi er í þessu samhengi álitinn huglægt val og mótmæli gegn myndum sem sýna rasisma dæmi um pólitískan rétttrúnað sem hafi gengið of langt.

Íslensku raddirnar í rannsókn Kristínar neita að skoða kerfi misréttis með þeim hætti að þau byggi á fyrri kynþáttahyggju og að nýjar birtingarmyndir kynþáttarhyggju hafi áhrif á og móti samtímann. Litið er á bókina sem íslenska arfleifð þótt textinn sé þýddur, og viðhorfin fléttast saman við hugmyndir um að heimurinn skiptist í Íslendinga og útlendinga, sem Kristín segir að hafi verið ríkjandi í öðrum umræðum sem tengjast kynþáttafordómum á Íslandi. Viðmælendur nefndu sérstaklega listamanninn sem teiknaði myndir bókarinnar, hinn ástsæla Mugg, sem mikilvægt tákn íslenskrar menningarsögu. Á sama tíma hafi þau sem voru mótfallin endurútgáfu bókarinnar ekki nefnt íslenska kynþáttahyggju sem mótrök, heldur tengdu bókina við fordómafullt myndefni frá Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta sýnir að mati Kristínar hvernig „kollektív gleymska“ hefur átt sér stað um það hvernig kynþáttaflokkun hefur verið hluti af sögu íslenskrar sjálfsmyndar. Litið er á bókina sem skaðlega í samhengi við hnattrænan heim en ekki í samhengi við íslenska kynþáttahyggju.[25]

Í ljósi skrifa Kristínar er fróðlegt að skoða verk Ásmundar. Það hefur rasíska undirtóna og er skapað á tímum þegar „svart“ fólk var annars flokks þjóðfélagshópur á Vesturlöndum með takmörkuð réttindi. Ásmundur er afsprengi þessara tíma. Vandamálið við orðræðu sem þessa er ekki augljóst okkur sem nú lifum, í eftirlenduheimi þegar almenningur áttar sig stundum illa á arfleið nýlenduhyggjunnar. Væri réttlætanlegt að sýna verkið Negri nú, til dæmis á yfirlitssýningu á verkum Ásmundar? Hvaða áhrif hefði það í fjölmenningarsamfélagi samtímans? Margir líta enn á verk Ásmundar, og fleiri verk frá hans samtíma, sem meistaraverk en koma ekki auga á rasíska undirtóna þeirra.

 

 

Geimferð Guðríðar

Þær Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir segja að verk Ásmundar, heimssýningin í New York og umræðan um landafundina kjarni þá hugmyndafræði sem ríkti þegar styttan var gerð og ríki enn í dag, rasisma. Að sama skapi segja þær að þegar athöfn, orði eða verki er lýst sem rasísku þýði það ekki endilega að verið sé að saka einstaklinginn sem fyrir þessu stendur um rasískan ásetning. „Sagan um viðburðaríka ævi Guðríðar er þar einfölduð niður í hvítan kvenlíkama sem fæðir hvítt barn á landsvæði þar sem heiðið fólk með lit í húð bjó fyrir – fólk sem síðar var myrt í milljónatali af annarri bylgju landtökumanna,“ segir í yfirlýsingu listamannanna.[26] Þá hafi Marshall-húsið verið heppilegur „bakgrunnur“ verksins, enda húsið byggt fyrir fjárstyrk frá Bandaríkjunum sem veittur var í gegnum Marshall-aðstoðina eftir seinni heimsstyrjöldina. Listamennirnir játa ekki að hafa stolið verki Ásmundar frá Laugarbrekku. Það er skýrt tekið fram í yfirlýsingu þeirra og klausu þess efnis hefur verið bætt við umfjöllunum fjölmiðla um verkið.

Onæm / Immune

Ónæm / Immune [Afhjúpun – útilistaverk og gjörningur]: Nýlistasafnið

„Stuldurinn“ í verki Ásmundar, nýting listamannanna á því og viðtölin við Bryndísi og Steinunni sem fylgdu í kjölfarið hafa vakið mikla umræðu og talsverða reiði og hneykslan meðal almennings. Meðal þeirra sem tjáðu sig um Farangursheimild – fyrstu hvítu móðurina í geimnum og lýstu yfir vanþóknun sinni á verknaðinum voru listamenn og listfræðingar,[27] stjórn Ásmundarsafns,[28] erfingjar Ásmundar Sveinssonar[29] og sjálfur menningarmálaráðherra.[30] Mörgum fannst ómaklega að Ásmundi vegið og sagði listfræðingurinn Eiríkur Þorláksson í aðsendri grein í Fréttablaðinu meðal annars: „Þessi ásökun listaverkaþjófanna [að verk Ásmundar sé rasískt] er hrein móðgun við minningu mikilfenglegs listamanns og afkomendur hans sem þær ættu að skammast sín fyrir og biðjast afsökunar á – og það hið allra fyrsta.“[31] Í sama streng tók Helgi Sæmundur Helgason, sem skrifaði fyrir hönd afkomenda Ásmundar.[32] Þau rök hafa verið sett fram, m.a. af Eiríki og Helga Sæmundi, að Ásmundur hafi viljað lyfta nafni og sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur og hafi allan sinn feril varpað ljósi á hlutskipti kvenna og störf þeirra, því séu ásakanir um rasisma fjarstæðukenndar. Þá viðruðu margir það sjónarmið að það væri ekki í verkahring listamanna að hafa afskipti af listrænu tjáningarfrelsi annarra listamanna; í þessu tilfelli af tjáningarfrelsi Ásmundar.[33]

Minna fór fyrir umræðu um skilaboð Bryndísar og Steinunnar um kynþáttafordóma[34] í íslensku samfélagi og verki Ásmundar, merkingu verkanna og myndmáli. Fáir komu listamönnunum og verki þeirra til varnar á opinberum vettvangi og umfjöllunin virkaði einsleit, þar sem stuldurinn sjálfur og hneykslan á framferði listamannanna var þungamiðjan. Undantekning frá þessu var þó útvarpsþáttur Jóns Ársæls Þórðarsonar, Guðríður og geimfarið, sem fluttur var á Rás 1 um miðjan júní.[35] Þar kvað við nýjan tón sé horft til þess sem áður hafði verið skrifað um verkið. Þar var talað við þau Æsu Sigurjónsdóttur listfræðing, Guðmund Hálfdánarson sagnfræðing, Gísla Sigurðsson rannsóknarprófessor við stofnun Árna Magnússonar og Sigríði Matthíasdóttur sagnfræðing. Þau settu verk Ásmundar og verk Bryndísar og Steinunnar í samhengi við fortíð og samtíma, og fjallað var með ítarlegum hætti um hugmyndir Íslendinga um kvenhlutverkið, landafundina, sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar og listrænt frelsi.

Þar sagði Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur meðal annars:

Þetta vekur ákveðnar tilfinningar hjá okkur nú og menn sjá þetta á vissan hátt sem rasískt verk. Auðvitað höfðu margar mæður verið í Ameríku fyrir þennan tíma. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvernig tilfinningar þetta vakti hjá sýningargestum í New York árið 1939. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá, og það sem mönnum þótti sjálfsagt þá þykir ekki sjálfsagt lengur. Og þá ekki síst fyrir baráttu minnihlutahópa í Bandaríkjunum gegn þessum greinilega rasisma, því auðvitað er þetta klár rasismi. Þetta er ekkert annað, ég meina, fyrsta hvíta barnið. Það er vel hægt að leggja áherslu á það að Guðríður Þorbjarnardóttir var sæfari, og að Íslendingarnir fundu Ameríku og týndu henni svo aftur. Það hefði vel verið hægt að sýna þetta á annan hátt en þann að undirstrika að hún hafi verið fyrsta hvíta móðirin. En þetta hefur örugglega stungið einhvern í augu, sérstaklega á þessu svæði Bandaríkjanna á þessum tíma. En ég veit ekki til þess að það hafi orðið nein sérstök mótmæli út af þessu, og ég hef ekki fundið í neinum blöðum neina sérstaka gagnrýni á það hjá Íslendingum á þessu. Þannig að mönnum þótti þetta sjálfsagt allt í lagi, á þessum tíma.[36]

Rétt eins og Kristín Loftsdóttir fjallar um líta Íslendingar á sig og sögu þjóðarinnar sem sakleysislega og að höfum ekki verið þátttakendur í nýlendustefnu og rasisma eins og aðrar þjóðir. Þess vegna megi, eða eigi beinlínis að, líta fram hjá rasískum undirtónum í listasögunni.[37] Í Guðríði og geimfarinu á Rás 1 sagði Guðmundur Hálfdánarson að fordómar Íslendinga hafi á 20. öldinni fylgt sömu mynstrum og í löndunum í kringum okkur, en fábreytni þjóðarinnar hafi gert það að verkum að Íslendingar hafi verið „sakleysislegir“. Það hafi hins vegar verið mikið kappsmál „að undirstrika það að Íslendingar séu ekki „skrælingjar“. Það er að segja að við séum ekki Grænlendingar. Þannig að í augum heimsins, að við séum alveg örugglega hluti af þessum hvíta kynstofni, sem menn töldu og sáu fyrir sér að væri öðrum kynstofnum æðri,“ segir Guðmundur.[38]

Í þættinum var einnig tekist á um tjáningarfrelsið og sagði Æsa Sigurjónsdóttir, þegar Jón Ársæll bryddaði upp á ummælum listamannanna um geimrusl:

Listamenn eru listamenn, og sem betur fer lifum við í frjálsu lýðræðislegu landi þar sem listamenn hafa leyfi til að skapa listaverk. Og þarna nota þær ýmsar aðferðir sem eru vissulega viðurkenndar innan listheimsins, eins og það að yfirtaka og jafnvel það að ræna verki. Þetta eru viðurkenndar aðferðir sem hafa lengi, lengi verið við lýði og kannski sjokkerandi fyrir marga að listheimurinn sé svona, að hægt sé að vera með alls konar uppistand innan listheimsins og hann sé fullur af óþekku fólki sem vilji alls ekki fylgja alltaf hefðbundnum reglum. En þetta er bara hluti af því að vera í frjálsu lýðræðislegu samfélagi, þar sem sköpun er viðurkennd og það er bara að mínu mati ekkert annað en gott um það að segja svo getur hver og einn haft sína skoðun á verkinu, og það er allt annað mál.[39]

Þarna birtist einn kjarni málsins og ljóst að listasagan myndi líða fyrir ef listamenn færu að sökkva sér í áhyggjur yfir að móðga, brjóta sæmdarrétt og valda usla.

 

Uppgjör við söguna

Farangursheimild - Fyrsta hvíta móðirin í geimnum - Skiltið

Ljósmynd: Steinunn Gunnlaugsdóttir

Síðustu ár hefur færst í aukana að styttur og önnur minnismerki verði fyrir skemmdarverkum vegna tengsla við óuppgerða nýlenduhyggju, kynþáttahyggju og önnur atvik mannkynssögunar sem listamönnum og/eða almenningi finnst óeðlilegt að halda á stalli í breyttu samfélagi. Slíkt mál átti sér til dæmis stað í október árið 2020 þegar deildarstjóri og nemendur við Konunglegu listakademíuna í Kaupmannahöfn vörpuðu brjóstmynd af Friðriki V. Danakonungi ofan í síki við skólann og missti deildarstjórinn í kjölfarið vinnuna. Ástæða skemmdarverksins var að varpa ljósi á og mótmæla nýlendustefnu og þrælahaldi Dana, sem hópurinn sagði að hefði aldrei verið gert upp. Verknaðinn kölluðu þau gjörning (e. happening).[40] Slíkir „gjörningar“ hafa einnig átt sér stað í Bandaríkjunum og Bretlandi, og þá sérstaklega í tengslum við Black Lives Matter-mótmælin og réttindabaráttu „svarts“ fólks, þar sem almenningur hefur fellt styttur sem þykja tákn um kynþáttahyggju, kúgun, nýlendu- og heimsvaldastefnu.[41]

Þó að Fyrsta hvíta móðirin í geimnum sé mögulega fyrsta verkið sem stolið er til þess að stuðla að uppgjöri við söguna á Íslandi kom sambærilegt mál upp árið 2011 á sýningunni KODDU í Nýlistasafninu. Árið 2008 kom út í takmörkuðu upplagi bókin Flora Islandica með teikningum eftir Eggert Pétursson og texta eftir líffræðinginn Ágúst Bjarnason. Bókin hafði unnið til verðlauna fyrir glæsilegt útlit og var í kjölfarið auglýst sem „fegursta bók í heimi“. Mannfræðingurinn Tinna Grétarsdóttir og listamennirnir Ásmundur Ásmundsson og Hannes Lárusson tóku bókina, unnu á henni skemmdir með því að ata hana matarleifum, komu henni fyrir undir lampa úr nautspungi og kölluðu verkið Fallegasta bók í heimi. Hugmynd hópsins var að afbyggja og afhelga hugmyndir Íslendinga um bækur. Málið olli miklu fjaðrafoki í íslensku samfélagi og kröfuðust höfundar og útgefendur Flora Islandica þess að verkinu yrði fargað vegna brots á sæmdarrétti. Í kjölfarið var verkið fjarlægt af sýningunni og spruttu þá upp háværar raddir meðal listamanna og listfræðinga sem gagnrýndu Nýlistasafnið fyrir að hafa ekki þorað að standa með myndlistinni.[42]

 

Hvað svo?

Það er hlutverk listarinnar að vera óþægileg, ögra viðteknum hugmyndakerfum, þenja út þolmörkin, fara yfir þau, vekja spurningar, umtal og pota í kjarnann í okkur. Í tilfelli Fyrstu hvítu móðurinnar í Ameríku má sannarlega færa fyrir því sterk rök að undirtónn verksins sé rasískur, jafnvel þó að Ásmundur Sveinsson hafi lagt sitt af mörkum til þess að lyfta hlut kvenna og alþýðufólks með list sinni. Fólk og gjörðir þess eru marglaga og afsprengi af orðræðunni og samfélaginu á hverjum tíma. Þetta einstaka tilvik er hins vegar hluti af því mynstri sem við höfum fjallað hér um út frá hugmyndum Foucaults og Saids, verkið er birtingarmynd valdasambands, þar sem valdið yfir á „hinum“ er í forgrunni og birtist í yfirburðum „okkar“ – „hvítleikanum“.

Þrátt fyrir að nýlendustefna Evrópu hafi tekið enda lifa hugmyndir hennar og hugsunarháttur enn góðu lífi í nútímasamfélögum Vesturlanda. Þar af leiðandi verður kynþáttahyggja einungis skoruð á hólm með því að afnema kólóníalíska hugsun eða nýlenduhugarfar.[43] Við þurfum að viðurkenna að hér á landi séu kynþáttafordómar, bæði í fortíð og í samtímanum, þá fyrst getum við byrjað að afnema nýlenduhugafarið, gert atlögu að hugmyndinni um „yfirburði“ „hvítleikanns“. Slíkt verður ekki gert nema við tökumst á við söguna.

Það verður ekki annað sagt en að Bryndísi og Steinunni hafi tekist ætlunarverk sitt; það er að vekja athygli á og skapa umræðu um rasíska undirtóna verks Ásmundar Sveinssonar. Umræðan um verkið þurfti þó að líða fyrir það að fyrstu vikurnar snerist hún að mestu um hneykslan og fordæmingu vegna meints þjófnaðar og vanvirðinguna sem hann fól í sér, frekar en listaverkið sjálft. Fjölmiðlaumhverfi samtímans snýst að miklu leyti um hraða framleiðslu, smelli, viðbrögð og átök, svo að kannski er erfiðara en áður að kalla fram djúpa umræðu um átök listamanna við söguna. Vandaður þáttur Jóns Ársæls Þórðarsonar á Rás 1, sem útvarpað var tveimur mánuðum eftir afhjúpun listaverksins, dýpkaði hins vegar umræðuna og kallaði fram fræðilegri vangaveltur um verkið, söguna og kynþáttahyggju.

Greinarhöfundar geta ekki fallist á að menningararfleið eða verðmæti hafi verið skemmd við það að afsteypunni var stolið – jafnvel þó að hún hefði skemmst við stuldinn. Verkið er afsteypa, rétt eins og Fallegasta bók í heimi er eitt eintak í takmörkuðu upplagi prentaðrar bókar. Færa má rök fyrir broti á höfundar- og/eða sæmdarrétti en ekki verður tekin afstaða til þess hér, þar sem slíkt verður alltaf aukaatriði í umræðu um list, tjáningarfrelsi og samfélagsgerð. Ef um slíkt brot er að ræða geta tryggingafélög og lögfræðingar vafalaust komist að samkomulagi um einhverjar bætur, en stuldurinn varðar ekki óbætanleg menningarverðmæti.[44] Skaðinn er kannski fyrst og fremst tilfinningalegur og af hugmyndafræðilegum toga, hann potar í auma bletti hjá þjóð sem álítur sig saklausa og fordómalausa. Hann ögrar líka hugmyndum um snillingsstimpilinn sem við erum svo gjörn á að setja á listamenn og kemur í veg fyrir að við getum viðurkennt breyttan tíðaranda og tekist á við söguna. Verk Bryndísar og Steinunnar krefur okkur nefnilega um að endurhugsa sögu okkar, hvernig við hugsum um landafundina, landnema, arðrán, þátttöku okkar í nýlendustefnunni, „hvíta“ norræna kynstofninn sem „yfirburðakynstofn“ og hvernig við miðlum þeim hugmyndum áfram til komandi kynslóða.

 

Farangursheimild - Fyrsta hvíta móðirin í geimnum

Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum / Ljósmynd: Steinunn Gunnlaugsdóttir

Tilvísanir

[1] Landafundir, á ensku Age of discovery, er hugtak sem notað er um ferðalög norrænna manna til Norður-Ameríku, en einnig um þau tímabil í mannkynssögunni þegar Evrópumenn ferðuðust um hnöttinn. Með þessu hófst blóðugt tímabil nýlenduvæðingar, m.a. á Ameríkulöndum. Hugtakið hefur verið gagnrýnt, enda voru löndin til áður en Evrópubúar komu þangað, og þar bjó fólk með blómleg samfélög, og því enginn sem fann þau. Hugtakið gerir Evrópu að þungamiðju. Í staðinn hefur hugtakið „first contact“, fyrstu kynni, verið notað til þess að varpa ljósi á þetta tímabil þar sem brýr voru byggðar á milli heimshluta sem höfðu fyrir þann tíma verið ókunnir hver öðrum. Sjá t.d. Assembly of First Nations (2018); „Dismantling the Doctrine of Discovery“ (2018); Annette Kolodny (2012): „In Search of First Contact: The Vikings of Vinland, the Peoples of the Dawnland, and the Anglo-American Anxiety of Discovery“; J. Brown Mitchell (2020): „European exploration.“ Encyclopedia Britannica.

[2] „Minnisvarði afhjúpaður á Laugarbrekku,“ Morgunblaðið, 29. júní 2000; „Ásmundur Sveinsson,“ Arkiv.is, https://www.arkiv.is/artist/246; Atli Ísleifsson, „Bronsstyttunni af Guðríði Þorbjarnardóttur á Laugarbrekku stolið,“ Vísir.is, 7. apríl 2022.

[3] Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir, „Yfirlýsing vegna listaverksins Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum,“ Vísir.is, 27. apríl 2022.

[4] Hugtökin eftirlendufræði, eftirlendustefna og póst-kólóníalismi eru notað jafnhliða í þessari grein. Þetta er hálfgert regnhlífarhugtak, og nokkuð vítt, en verður í þessari grein nýtt til þess að skoða hvernig áhrif evrópsk nýlenduhyggja hefur haft á samfélög samtímans.

[5] Þýðing á enska hugtakinu ‘otherness’ eða ‘the other’.

[6] Hardy, C. og N. Philips. 2004. Discourse and Power. Í D. Grant, C. Hardy, C. Oswick & L. Putman (ristj.), The SAGE Handbook of Organizational Discourse (bls 299–316). Sage Publications.

[7] Foucault, 1984/1990.

[8] Sjá t.d. ​​Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2006). Leitað að mótsögnum. Um verklag við orðræðugreiningu. Fötlun. Hugmyndir og aðferðir á nýju fræðasviði (ritstj. Rannveig Traustadóttir), bls. 178–195. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

[9] Foucault, 1970/1972.

[10] Sjá t.d. Lindgren, B. (2001). Representing the Past in the Present: Memory-texts and Nbele Identity. Í M. Palmberg (ritstj.), Encounter Images in the Meetings between Africa and Europe (bls. 121–134). Nordiska Afrikainstitute.

[11] Sjá t.d. The Swing (after Fragonard) (2001) eða The British Library (2014) eftir Yonka Shonibare, Fountain (2005) og Fringe (2013) eftir Rebecca Belmore og Fix Bayonets and Die like British Soldiers Die (2007) eftir Andrew Gilbert.

[12] Tókenismi er þegar handhafar valds gefa jaðarsettum einstaklingi eða hópi pláss, til þess að skapa þau hughrif að um sé að ræða raunverulegt jafnrétti og fjölbreytni án þess að þeim markmiðum sé raunverulega náð.

[13] Sjá t.d. Kristín Loftsdóttir, 2020, Kynþáttafordómar í stuttu máli. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

[14] Sama heimild, bls. 19.

[15] Sama heimild, bls. 190.

[16] Einar Örn Gíslason, „Gefur Páfa styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur,“ Morgunblaðið, 25.2.2011.

[17] Óskar Bjarnason, „Thule, land mitt, hvar ertu?“ Sagnir. 1. tbl., 13. árg. (1992); Óskar Bjarnason, „Þegar Íslendingar urðu forferður Þjóðverja,“ Skírnir. Vor 1999; Óskar Bjarnason (2002): „„Germanskur“ arfur á íslenskum bókum,“ Handritin. Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

[18] Ríkey Ríkharðsdóttir, „Frá Nikulásarhúsum til New York,“ Morgunblaðið, 27. júní 1998.

[19] „Virðingargjöf Bandaríkjanna á 1000 ára afmæli Aþingis: Standmyndin af Leifi heppna,“ Lesbók Morgunblaðsins, 3. ágúst 1930.

[20] Nálgast má yfirlit af verkum Ásmundar á vef safneignar Listasafns Reykjavíkur, https://safneign.listasafnreykjavikur.is/.

[21] „Glæsilegt nýtt verk eftir Ásmund Sveinsson,“ Alþýðublaðið, 1. desember 1938.

[22] „Glæsilegur sigur Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara,“ Alþýðublaðið, 30. mars 1939; „Þvottakonan, veðurspámaðurinn og hin fyrsta hvíta móðir,“ Vísir, 19. október 1939.

[23] Í þessu samhengi er átt við Afríku sunnan Sahara.

[24] Orðið „negri“ kemur úr enska hugtakinu „negro“, þetta hugtak var enn í notkun þegar listaverkinu var gefið nafn í byrjun 20. aldar. Hugtakið er birtingarmynd af þeim kólóníska hugsunarhætti sem einkenndi byrjun 20. aldar og ætti að vera litið á með gagnrýnum hætti. Sjá umræðu Kristínar Loftsdóttur um hugtakið í „Republishing ‘Ten Little Negros’: Exploring nationalism and ‘whiteness’ in Iceland“, 2013.

[25] Kristín Loftsdóttir, „Republishing ‘The Ten Little Negros’: Exploring Nationalism and ‘Whiteness’ in Iceland,“ Ethnicities 13, nr. 3. Júní 2013: 295–315, https://doi.org/10.1177/1468796812472854.

[26] Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir, „Yfirlýsing vegna listaverksins Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum“.

[27] Eiríkur Þorláksson, „Þú skalt ekki stela,“ Fréttablaðið, 19. apríl 2022. Talsverðar umræður hafa skapast um málið í Facebook-hópum um íslenska myndlist og menningu.

[28] Sjá: https://www.frettabladid.is/frettir/stjorn-asmundarsafns-harmar-stuldinn-a-styttu-asmundar/.

[29] Helgi Sæmundur Helgason, „Hroki listakvenna,“ Fréttablaðið, 27. apríl 2022.

[30] Útvarpsviðtal við Lilju Alfreðsdóttur í Bítinu á Bylgunni, 19. apríl 2022.

[31] Eiríkur Þorláksson, „Þú skalt ekki stela“.

[32] Helgi Sæmundur Helgason, „Hroki listakvenna“.

[33] Atli Ísleifsson, „Við eigum að bera virðingu fyrir listrænu frelsi fólks,“ Vísir, 12. apríl 2022. Sjá einnig greinar Eiríks Þorlákssonar og Helga Sæmundar Helgasonar.

[34] Í þessari grein er notast jafnhliða við hugtökin rasismi, kynþáttafordómar og kynþáttahyggja sem íslenska þýðingu á enska hugtakinu racism, rétt eins og Kristín Loftsdóttir gerir í grein sinni „Endurútgáfa Negrastrákanna: Söguleg sérstaða Íslands, þjóðernishyggja og kynþáttafordómar“, Ritið, 13. árg. (2013), bls. 102. Sjá einnig í Kristín Loftsdóttir, Kynþáttafordómar í stuttu máli: „Ef við reynum að finna hugtak á íslensku yfir það sem á ensku er kallað racism, á frönsku racisme og á þýsku Rassismus má sjá vel hversu margflókið hugtakið er í raun og veru. Hugtakið „racism“ er oft þýtt sem svo að það vísi til kynþáttafordóma en sú þýðing nær bara yfir hluta af merkingu þess. Enska hugtakið vísar í raun ekki eingöngu til fordóma heldur nær einnig utan um það sem kalla má ákveðinn isma, eða hyggju á íslensku, sem vísar í stuttu máli til ákveðinnar kennistefnu, heimssýnar eða nálgunar til lífsins og tilverunnar“ (bls. 18).

[35] „Guðríður og geimfarið,“ Rás 1, 17. júní 2022.

[36] „Guðríður og geimfarið,“ Rás 1, 17. júní 2022.

[37] Kristín Loftsdóttir, sjá umfjöllun framar í greininni.

[38] „Guðríður og geimfarið,“ Rás 1, 17. júní 2022.

[39] Sama heimild.

[40] Kate Brown, „​​An Explosive Debate Has Roiled Denmark After a Department Head at Its Top Art Academy Was Fired for Drowning a Bust of a Former King,“ Artnet News, 3. desember 2020, https://news.artnet.com/art-world/katrine-dirckinck-holmfeld-royal-academy-of-art-1927592; „Det Kgl. danske kunstakademis grundlægger smidt i havnen,“ Idoart.dk, 6. nóvember 2020, https://www.idoart.dk/blog/det-kgl-danske-kunstakademis-grundlaegger-smidt-i-havnen.

[41] „How Statues Are Falling Around the World,“ The New York Times, 24. júní 2020, https://www.nytimes.com/2020/06/24/us/confederate-statues-photos.html.

[42] Ólöf Skaftadóttir, „Róttækni umborin upp að marki,“ Fréttablaðið, 4. júlí 2015; Jón Bjarki Magnússon, „Listaverk læst inni í mannheldum klefa,“ DV, 29. apríl 2011; Helgi Snær Sigurðsson, „Skemmdarverk eða betra verk?“ Morgunblaðið, 28. apríl 2011.

[43] „Að afnema hugann“ eða „nýlenduhugafar“ er þýðing okkar á enska hugtakinu „decolonizing the mind“. „Að afnema hugann“ er notað í eftirlendufræðum og hefur þá þýðingu að afbyggja hugsanir, sjónarhorn og gildi sem voru mótuð á tímum nýlenduhyggju. Hugtakið er notað til þess að líta gagnrýnum augum á það sem nýlenduríki töldu vera viðunandi þekkingu og sannleika.

[44] Þegar greinin er rituð er málið komið til saksóknara, eftir að Landsréttur veitti heimild til þess að lögregla fjarlægði styttuna úr geimflauginni. Styttan af Guðríði hefur verið endurreist á Laugarbrekku.