eftir Ewu Marcinek

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2021

 

Ewa Marcinek

Ewa Marcinek // Mynd: Patrik Ontkovic

Elena fæddist þann 22. nóvember 1982.
Sporðdreki, hugrökk og ástríðufull,
eða
Bogmaður, sjálfstæð og jákvæð.
Stjörnurnar gátu ekki ákveðið sig. 

Makedónía fæddist þann 8. september 1991.
Meyja. Stjarnan Spika skín skærast.
Örlát og hagsýn.
Það var tilkynnt í útvarpinu.

Bosníustríðið fæddist þann 6. apríl 1992.
Hrútur. Úrræðagóður og óútreiknanlegur.

Elena var níu ára. Klukkan var fimm um morgun. Það var kveikt á sjónvarpinu.
„Þetta er byrjað,“ sagði pabbi hennar. „Serbarnir eru farnir að sprengja í Sarajevo.“
Elena sat við hlið hans og horfði á. Á skjánum var stríðið dökkgrænt með hvítum blossum.

 

Mér þykir gott að skrifa um Elenu. Hún er vinkona og skáldsystir. Annar útlendingur á Íslandi. Annar höfundur sem skrifar þvert á tungumál. Saga hennar og hugarfar. Hún er algjör dásemd. Tungumálasjálfsvitund hennar er flókin. Í íslensku samhengi, á eyju þar sem hafið og tungumálið aðskilur mann, er það efni í góða sögu. Áminning um það að veggir herbergisins þar sem við mætumst eru ekki veggir heldur röð dyra, sem leiða inn í langa ganga sem teygja sig undir, yfir og í kringum okkur.

 

„Hún er makedónsk en skrifar aðallega á ensku,“ segi ég í léttu spjalli við annan vin minn af Balkanskaga. Ég var í kaffipásu í vinnunni á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Ég, pólskur þjónn. Hann, búlgarskur kokkur. Hvað vissi ég? Ég var of niðursokkin í söguna sem ég var að segja til að sjá hvernig hann yggldi sig sífellt meira. Kurr. Ég blaðraði áfram. „Ég held ekki að hún skrifi mikið á makedónsku. Móðurmál hennar er ekki opinber makedónska heldur ein af mörgum mállýskum. Vissir þú að það eru fleiri en tuttugu mállýskur í Makedóníu? Maðurinn hennar er frá sama bæ, Strumitsa, svo þau tala Strumitsa-mállýskuna heima, þó að þau búi á Íslandi, og hún talar íslensku í vinnunni, þó að hún sé rithöfundur sem skrifar aðallega á ensku –“

Vinnufélaga mínum, Búlgaranum, var nú öllum lokið. Með sársaukafullri grettu greip hann fram í fyrir mér í miðri setningu.

„Makedónska er ekki til,“ sagði hann.

Ég steinþagnaði.

„Trúðu mér. Slíkt tungumál fyrirfinnst ekki.“

Ég vissi ekki hverju ég átti að svara. Ég vildi að hann tæki þetta til baka eða viðurkenndi að hann væri að rugla í mér. Það gerði hann ekki. Nú var það ég sem yggldi mig. Orð hans ristu í yfirborðið, skildu eftir sig för. Örþunnt lag af sannleika flagnaði af fyrir framan augun á mér.

„Trúðu mér. Slíkt tungumál fyrirfinnst ekki.“

 

Maður þarf að biðja um leyfi áður en skrifað er um lifandi manneskju að einhverju ráði. Það er eins og að taka ljósmynd. Stela sál. Læsa hana inni í orðum. Það minnsta sem þú getur gert er að spyrja. Þegar viðfangsefnið er líka rithöfundur ættir þú að spyrja tvisvar. Einu sinni vegna sögunnar og í annað sinn vegna höfundarréttarins. Ég bauð Elenu að vera titlaður meðhöfundur að hverju því sem myndi koma út úr viðtölum okkar, en hún brosti bara yfir tvöföldum cappuccino, sagði að þetta væri í lagi og að ég gæti hætt að reyna að finna afsakanir til að verja tíma með henni.

Áður en ég opnaði skrifblokkina mína kyngdi ég kröftuglega. Ég átti ekkert erfitt með að spyrja Elenu spurninga, við höfðum alltaf getað talað um hvað sem var, en ég var smeyk um að taka af skarið. Að opna öskjuna. Hrædd við það sem ég vissi þá þegar.

Ég hafði séð það í sjónvarpinu sem barn. Eyðilögðu borgirnar. Fólk á flótta. Grátandi mæður. Best man ég eftir réttarhöldunum og fölum, fúlum andlitum silfurhærðra manna í jakkafötum, með eftirnöfn sem enduðu á „ic“. Þeir litu út eins og frændur einhvers, þreyttir en spariklæddir fyrir einhvern fjölskylduviðburð. Kannski jarðarför? Þeir voru stríðsglæpamenn.

Tuttugu árum síðar á Íslandi, á kaffihúsi í Hafnarfirði, sit ég gegnt Elenu og held áfram að kyngja. Ég reyndi að kyngja tilfinningunni um að vita án þess þess að skilja. Það var lítil, sársaukafull kúla sem ferðaðist á milli hálsins og magans. Saga til að segja frá.

 

Elena fæddist í Júgóslavíu. Fjölþjóðlegt bandalag sex sósíalískra lýðvelda og tveggja sjálfsstjórnarhéraða. Kommúnískur draumur. Þegar hún var lítil stúlka var Makedónía hægt og rólega að fikra sig í átt til sjálfstæðis en Elena leiddi varla hugann að því. Henni var kennt að elska Júgóslavíu og elska Tito.

Josip Broz Tito. Hann var öxullinn sem heimur hennar snerist um. Hann var faðir þjóðarinnar sem hélt júgóslavnesku fjölskyldunni saman. Í huga Elenu kom Tito fyrstur allra, svo afi hennar og þar á eftir faðir hennar. Einhvers staðar á neðri þrepunum var pláss fyrir hana sjálfa.

„Um æðar mér flæðir blóð Titos,“ var fyrsta ljóðið sem hún lærði í skóla. Elena fæddist tveimur árum eftir dauða Titos. Þessi tvö ár vantaði alltaf í líf hennar því þar sem hún ólst upp var tímanum skipt í fyrir, á tímum, eða eftir Josip Broz Tito. Elena lærði snemma að hún kom of seint í þennan heim.

Þegar Elena var um níu ára gömul varð Makedónía sjálfstætt ríki. Sú fátækasta af júgóslavnesku systrunum sex, sveitastúlkan, átti sér draum um frelsi og það áttu líka aðrir í fjölskyldunni.

Fyrst árið 1991, svo 1992, komu brestir í munaðarlausa, föðurlausa, júgóslavneska ríkið og loks hrundi það endanlega. Með því breyttist „bræðralag og samstaða“ í blóðuga martröð. Tíu ár af mannskæðustu átökum síðan í seinni heimsstyrjöld tóku við. Elena var örugg í Makedóníu, sem lýsti yfir sjálfstæði með friðsamlegum hætti, en táningsárin lituðust af fréttaflutningi af stríðinu, þjóðamorði, nauðgunum og óhæfuverkum í landi sem henni hafði verið kennt að elska og líta á sem eina heild. Ekki var lengur hægt að ganga að neinu sem vísu.

 

Fréttir dagsins. Stjörnuspá dagsins. Hvernig maðurinn lætur sig örlög sín varða. Að vita. Að skipuleggja. Að læra. Að vera öruggur og tryggja öðrum öryggi.

Pabbi Elenu var einn af upplýstustu mönnum sem hún hefur kynnst. Hann las öll tiltæk blöð og tímarit. Hann bar saman upplýsingar, skoðanir. Alltaf opinn fyrir nýjum röddum. Á meðan Júgóslavía var að liðast í sundur var Elena vön að sækja fyrir hann serbnesku og króatísku blöðin, sem var ekki alltaf auðvelt á þeim tíma. Það var ekki heldur öruggt að lesa þau. Alls staðar voru augu og eyru. Þjóðernissinnarnir sóttu í sig veðrið og kaup á erlendu dagblaði gátu endað illa. Faðir Elenu trúði því að það væri á ábyrgð hans sem eiginmanns, föður, sem manneskju, að afla sér þekkingar.

Hann vildi gjarnan deila litlum fréttabrotum með börnunum. Eitt kvöldið las hann heila langa grein upphátt. „Það hlýtur að hafa verið eitthvað mjög mikilvægt.“ Elena man eftir hlýjum faðmi hans, höndunum sem héldu utan um hana og blaðinu. Höfuð hennar hvíldi í hálsakoti.

Mest af öllu man hún eftir heillandi muninum á hljóðunum sem bárust úr munni hans og umlinu sem hún heyrði í brjóstinu þegar hann las fyrir hana. Upplýsingarnar voru hljóðbylgja. Alvarlegu orðin sem munnurinn, tennurnar og varnirnar skáru út gátu ferðast í báðar áttir, að innan og út. Undir náttskyrtunni, inni í hlýjum líkama hans, urðu jafnvel mikilvægustu tilkynningar, kramdar milli hjartans og lungnanna, vöðvanna og beinanna í brjóstkassanum, aðeins undarlegt muldur. Lágt gutl sem hún tengdi við en skildi ekki.

Skyndilega vissi hún að sumir af bestu hlutunum í lífi hennar myndu ekki endast að eilífu. Hún samþykkti það á augabragði. Hún skipti á kennslustund í sögu fyrir stutta stund með hjartslætti föður síns.

 

Feður sem lesa og dætur sem skrifa. Feðurnir sem halda á börnum sínum eins og þeir myndu halda á bók, blaða varlega einni blaðsíðu í einu, gaumgæfa, velja, virða. Feður sem yfirgefa fjölskyldur sínar fyrir orðin. Dætur sem nota móðurmál sitt heima og föðurmálið við umheiminn. Dætur sem lýsa yfir sjálfstæði með því að velja sér eigin tungumál. Hvernig á að verja landamæri sín þegar þörfin fyrir að vera lesin er svona sterk?

Kannski var það af því að hún kom tveimur árum of seint í þennan heim. Kannski af því að blöð föður hennar gátu ekki komið öllum sannleikanum til skila. Af því að sögubækur breyttu skyndilega sjónarhorninu. Af því að stríðið átti sér stað hinum megin við girðinguna og ekki einu sinni stjörnuspáin aftan á skólablaðinu gat sagt henni hver hún væri, og hvað myndi verða um hana. Kannski var það þess vegna sem Elena áttaði sig á að hún yrði að vitkast fyrir sjálfa sig. Föst milli tveggja stjörnumerkja, sporðdrekans og bogmannsins, og skilin út undan í stjörnukortum, var hún samt ákveðin í að finna sér sínar vörður og stika sína eigin leið um heiminn. Hún var enn ekki meðvituð um það en þessi ákvörðun, meira en nokkur önnur fyrr og síðar, opnaði henni allar dyr upp á gátt.

 

Elena vildi verða rithöfundur og lærði bókmenntir í Skopje. Hún hitti mann með forvitin huga og hún vissi að hún gæti náð langt með hann sér við hlið. Þau fluttu til Ísraels, hún lærði hebresku. Þau fluttu til Íslands. Hún hélt námi sínu í bókmenntum, menningar- og fjölmiðlafræðum áfram og tók fyrir fjöltyngd skrif í lokaverkefni sínu. Í þetta sinn ákvað hún að vera praktísk og læra ensku áður en hún hóf nám í íslensku. Annars, ef þau flyttu aftur, myndi hún sitja uppi með makedónsku, serbnesku, búlgörsku, serbókróatísku, hebresku og íslensku. Hún, rithöfundurinn.

Elena fæddist í Júgóslavíu. Hún ólst upp í Makedóníu. Nú heimsækir hún ættingja sína í Norður-Makedóníu. Í áranna rás hefur nafn heimalands hennar verið tortryggt. Að lokum, árið 2019, var landinu gert að skipta um nafn vegna þrýstings frá Grikklandi.

Annar nágranni, Búlgaría, stendur enn í vegi fyrir inngöngu Norður-Makedóníu í Evrópusambandið, og krefst þess að fyrst gefist þjóðin upp og viðurkenni að makedónska tungumálið sé ekki til.

Makedónska er búlgarska skrifuð á serbneska ritvél.

Tungumál er mállýska með her.

Land án tungumáls og án nafns. Hljómar það ekki svolítið furðulega? Jafnvel svolítið galið?

 

„Heyrir þú rödd í höfðinu,“ spurði Elena mig einu sinni, „rödd sögumanns, þegar þú skrifar?“

Það geri ég ekki. Ég heyri ekkert. Enginn segir mér sögu. Innri rödd mín er mjög hljóðlát, næstum þögul. Hefur ímyndunaraflið tungumál? Ekki mitt. Það er engin pólska, enska eða íslenska. Ég skrifa af því að ég sé fyrir mér. Myndir, atburði, hluti. Hrífandi, skynræna kvikmynd. Fyrir mér eru skrif gjörðin að lýsa einhverju. Það sem mér er sýnt eða það sem skilið er eftir. Ég skrifa til þess að reyna að skilja það. Skipuleggja það, leysa það, losa um það. Það er eins og að sameina litina á réttar hliðar Rubiks-kubbsins. Eins og að skafa lottómiða. Hvað leynist undir? Hvað þýðir það? Hvernig virkar það? Af hverju er þetta þarna?

Í höfði mínu, innan um myndirnar, eru setningar úr daglegu lífi. Línur sem hafa fallið sakleysislega, orð skilin eftir eins og klink á afgreiðsluborði. Heilar einræður fólks sem ég þekki, hef hitt eða heyrt út undan mér. Einfaldir frasar sem geyma heila veröld.

„Trúðu mér. Slíkt tungumál fyrirfinnst ekki.“

 

Sannleikurinn birtist okkur í lögum. Það sem er sagt, það sem er vitað, það sem er skrifað, hin mannlega tilvist. Fyrir tveimur árum fór Elena til Norður-Makedóníu í sumarfríinu sínu til þess að rannsaka hermennina sem tóku þátt í stríðunum í Júgóslavíu. Heimurinn sem hún ólst upp í hefur aldrei verið sléttur og felldur.

Margar spurningarnar brunnu á henni. Hún lagði upp með að spyrja þá sem lögðu mest í sölurnar, mæðurnar. Fá þeirra hlið af sögunni.

Þrátt fyrir að Makedónía hafi aldrei tekið þátt í stríðunum voru makedónskir hermenn sendir út um öll sex lýðveldin, sem hluti af skylduþjónustu sinni við júgóslavneska alþýðuherinn. Árið 1991 voru foreldrar, aðallega mæður, um alla stríðshrjáða Júgóslavíu, að berjast fyrir því að synir þeirra yrðu látnir lausir úr ríkishernum, sérstaklega eftir að margar hersveitir voru sendar á óþekkt svæði.

Elena komst að því að þeir sem komu heim vissu ekki hvað þeir höfðu barist fyrir. Þeir voru sannfærðir um að þeir væru að verja Júgóslavíu. Fjarri heimaslóðum sínum. Einangraðir og þjálfaðir til hlýðni. Mörg orð voru sögð en enginn vissi hver sannleikurinn var.

 

„Þú getur rifið niður það sem þér var gefið og unnið með rústirnar,“ er ráðlegging Elenu til nemenda sinna sem eru að basla við að læra íslensku. Þeir sem eru nýlentir á Íslandi og innflytjendur af annarri kynslóð. Hún býður upp á hvatningu og hughreystingu í grunnskólum og ýmsum samfélagsverkefnum.

„Byrjaðu á að brjóta reglurnar og tengdu svo punktana saman.“

„Finndu þínar eigin leiðir.“

„Láttu vaða.“

Samkvæmt Elenu er meginreglan að skilja að tungumálið er aðeins hugmynd. Það hefur markmið. Það skiptir ekki máli hvort þú notar það til að skrifa ljóð eða kaupa kartöflur – því það er aðeins verkfæri. Hvaða tungumál sem er getur tilheyrt þér ef þú vilt, ef þú reynir að tengjast því. En það felur alltaf í sér skuldbindingu.

„Aldrei reyna að halda því fram að þú getir verið á tveimur stöðum í einu. Hvar ertu? Núna ertu á Íslandi.“

 

Elena hefur ferðast um langan veg, úr landluktu ríki sem þarf að ganga til samninga um sjálfsvitund sína við háværu frændþjóðirnar í kringum Balkanskagaborðið, til eyju, einangraðs samfélags umvafið sjó, varnarvirki íslensk-unnar.

Afmarkaðir heimar geta boðið upp á siðferðilegt og efnislegt öryggi, ýtt undir þjóðarstolt. Þess vegna elska kettir kassa og börn byggja virki. Virkisveggir úr pappa eða teppum færa manni huggun og öryggi hins lokaða rýmis og veita sömuleiðis vörn gegn óboðnum gestum. Það var ekki auðvelt fyrir Elenu að komast til Íslands með vegabréf frá landi utan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir álagið og kvíðann sem fylgdi því að útvega dvalarleyfi, fyrir hana, manninn hennar og börnin þeirra þrjú sem fædd eru á Íslandi, finnst henni í lagi að vera innflytjandi. Hún kann næstum að meta það, alveg eins og ég geri.

Við vorum innflytjendur löngu áður en við fluttum til Íslands. Í erfðu eða áskipuðu heimalöndunum okkar vorum við áhugasamari um það sem var á jaðrinum, undir teppinu, inni í skápnum.

Alltaf að leita að sögum.

Skafandi yfirborðið.

Í stað þess að standa teinréttar og keikar í aðalsalnum lékum við okkur á ganginum. Rannsökuðum sprungur sem við tókum eftir. Uppgötvuðum dulin göng, gleymd eða bæld herbergi sem fóru fram hjá öðrum, frumuveggi í vöðvavef sameiginlegs ímyndunarafls. Að endingu mætti halda því fram að við, innflytjendahöfundarnir sem skrifa þvert á tungumál, séum aðeins dramatískari birtingarmynd þess sem sameinar alla höfunda?[1]

 

Ewa Marcinek er rithöfundur og verkefnastjóri. Hún er einn stofnanda fjöltyngda útgáfuverkefnisins Ós Pressunnar og leikhópsins Reykjavík Ensemble International Theatre Company. Verk hennar, Polishing Iceland, var frumsýnt vorið 2020 í Tjarnarbíói.

Elena Ilkova er makedónsk en búsett á Íslandi. Hún uppgötvaði fjöltungubókmenntir (e. translingual literature) í meistaranámi sínu, Literature, Culture, and Media, við Háskóla Íslands og hefur notfært sér þær skáldskaparkenningar í skrifum sínum á ensku, íslensku og hebresku. Hún starfar sem leikskólakennari og gestafyrirlesari um tvítyngi í kennslu á íslensku sem annað mál á grunn- og framhaldsskólastigi.

 

Elín Edda Pálsdóttir þýddi.

 

Tilvísanir

[1] Í rannsóknum mínum á á óljósri stöðu fjöltyngdra rithöfunda og innflytjendahöfunda sem skrifa þvert á tungumál fann ég hughreystingu í orðum Steven G. Kellman. The Translingual Sensibility: A Conversation between Steven G. Kellman and Ilan Stavans , L2 Journal, 7. árgangur, 2015.