Minningarorð frá Baugspenna

Eftir Hallgrím Helgason

Úr Tímarit Máls og menningar 2. hefti 2010

1.

Hallgrimur HelgasonBaugsmálið var upptakturinn að Hruninu. Með því hófst hið einkennileg stríð stjórnmála og viðskipta sem stóð með hléum og útúrdúrum í sjö löng ár og lauk með allsherjarhruni Íslands. Ekki auðvelt að koma auga á sigurvegara í þeim leik.

Einhverntíma fyrir aldamót gerðist það að sitjandi forsætisráðherra fann til yfirburða sinna á pólitísku sviði, sá enga verðuga andstæðinga lengur, og leitaði yfir í viðskiptalífið. Þegar allt var sigrað á vettvangi stjórnmála mátti finna átök í bönkum og bisness. Þar voru þeir sem vertvar að kljást við.

Hinir nýju óvinir forsætisráðherrans fundu til sín og létu hart mæta hörðu; ákveðnir í því að verða stærri og sterkari en hann. Í millitíðinni hafði hann veðjað á „sína menn“ í bankabisness. Síst vildu þeir verða minni menn en hinir og stækkuðu sig af megni, tróðu sig út af skuldum, snúðum og vafningum, sem varð til þess að hinir útbelgdu sig ennþá meir, fylltu sig af lánum og snúningum. Bullöldin gekk í garð. Í millitíð ákvað forsætisráðherra að láta af störfum. Síðasta verk hans í embætti var að skipa sjálfan sig Seðlabankastjóra. Fyrsta verk hans í því embætti var að þakka fráfarandi forsætisráðherra starfið. (Því miður var það bréf ekki sent í tölvupósti og hafa því fáir séð.)

Þannig gerðist það að viðskiptastríðsmaður var allt í einu orðinn Seðlabankastjóri. Sem átti að hafa yfirumsjón með bönkum landsins. Mikið gaman, mikið grín. Hvernig passar maður upp á óvini sína? Vonar maður ekki bara að þeir fari sér að voða og mætir svo til að hirða hræið? Verst að vinir manns skyldu fara með. Og já, þjóðfélagið líka.

2.

Með Baugsmálinu náðum við loksins Davíð. Yfirgangsmaður í Stjórnarráði, sem lagt hafði niður stofnanir í geðþóttaköstum, látið reka fólk úr ríkisstofnunum, lokað á ríkisbankafyrirgreiðslu óþægra fjölmiðla, öskrað á fólk í síma, tekið annan hvern mann á teppið og undirbjó nú þjóðargjöf til bjórbruggara, náðist allt í einu á mynd. Hann hafði verið með Baug á heilanum, haft við hann í hótunum, og rak nú sinn langa arm inn í bókhald og skúffur fyrirtækisins.

Vandinn lá í trausti, eða vantrausti öllu heldur. Með því að tala sig til óvinar eins af fyrirtækjum Íslands hafði forsætisráðherra fyrirgert öllu faglegu hlutleysi gagnvart því. Og nú komu mannaráðningar karli í koll: Þar sem hann hafði sett „sinn mann“ í stól Ríkislögreglustjóra voru aðgerðir efnahagsbrotadeildar beintengdar við geðþótta ráðherrans. Misbeiting valds blasti við. Davíð sigaði lögreglu sinni á andstæðinga sína.

3.

Um þetta skrifaði ég grein („Baugur og Bláa höndin“, Mbl. 13 sept. 2002) og var í kjölfarið kallaður niður í Stjórnarráð. Ég vissi auðvitað hvað ég átti þar í vændum en forvitnin er frumhvöt rithöfundarins sem stóðst ekki mátið að fá að sjá inn í kjarnhol valdsins. Fyrir dyrum stóðu ritarinn og aðstoðarmaðurinn brúnaþung á svip og vísuðu mér leið inn til ráðherrans.

„Er það þetta teppi hér?“ spurði gesturinn og benti á myndarlega mottu sem stóð undir sófasetti næst dyrum. Húmoristinn frægi hló ekki, heldur bauðst til að sýna slotið. Í fjærenda skrifstofunnar stóð skrifborð með síma en engri tölvu en í afherbergi annað borð með hvítum tölvuhnullungi. „Hér hef ég næði til að skrifa og sinna ýmsum málum.“ Bauð svo aftur fram, í sófasettið. Það var þá semsagt þetta teppi.

Síðan hófst málsvörn stjórnmálamanns sem hugsar allt í persónum en fátt í pólitík. Ég var mættur í hjarta smáríkisins.

„Það er auðvitað af og frá að ég hafi sent lögregluna á eftir þessum mönnum. Af og frá. Fyrir það fyrsta er Tryggvi Jónsson (þáverandi forstjóri Baugs) heimilisvinur dómsmálaráðherra (Sólveigar Pétursdóttur) þannig að þú sérð það að ég færi auðvitað aldrei að beita mér gegn fyrirtæki hans …“

Vinir vina minna eru mínir vinir. Það þurfti ekki sterk sjóngler til að sjá í gegnum vörnina. Sá sem lýgur leitar vars í samskonar rökum og sækja að honum. Persónupólitíkusinn notar persónupólitísk rök. Síðan fylgdi frásögn sem ég man ekki vel en gekk út á það að sem ungur maður hefði hann, Davíð Oddsson, staðið uppi í hárinu á viðskiptavaldhöfum tímans og fyrir vikið þegið frá þeim reiðifull símtöl, og nefndi til dæmis Óttar Möller, fyrrum forstjóra Eimskips. Seinna í samtalinu kom þó í ljós að borgarstjórinn ungi hafði lært sína lexíu í hlýðni við eigendur Íslands, því hann hafði nýverið sem fullþroska forsætisráðherra setið fund í Ráðherrabústaðnum með gólandi heildsölum sem kvörtuðu sáran yfir uppgangi Baugsmanna – hvort hann gæti ekki gert eitthvað í málunum?

Jú, það var hann einmitt að reyna. Þess vegna sátum við hér. Þess vegna varð Baugsmálið til.

4.

Upphaf Baugsmála var of borðleggjandi til að láta það óhreyft. Davíð var búinn að pirra okkur svo oft að nú varð einhver að segja eitthvað. Ég skrifaði greinina og velktist með hana í tölvunni í tvo daga áður en ég ákvað að ýta á „send“. Hver var ég að hætta haus mínum út á milli þessara stóru stríðandi blokka? Yrði ég ekki dreginn í þann dilkinn sem ég var „að verja“? Átti lítill rithöfundur ekki fremur að standa hjá í leik sem hann var ekki þátttakandi í, og þekkti ekki til fulls? Að þegja eða segja, þarna var efinn. En fjandinn hafi það, átti þessi maður að geta ráðskast með allt og alla og komist upp með hvað sem er, án þess að nokkur þyrði að æmta? Og hvað með það þótt þessir Bónusmenn væru sekir um svindl í braski sínu, það gat aldrei orðið jafn alvarlegt og sigun lögreglu af forsætisráðherra á óvini forsætisráðherra. Í hverskonar landi bjuggum við eiginlega? Ég tók sénsinn, ýtti á „send“. Það er ekkert gaman að öryggi óttans.

Þremur árum síðar birti Fréttablaðið stolna tölvupósta þar sem upphaf málsins var staðfest. Grunur var á rökum reistur. Málsókn gegn Baugi var gerð úr helsta innvígi Davíðs, hönnuð af ritstjóra hans og kærasta vini með hjálp frá uppáhaldslögmanni. (Hér birtist okkur DO í öllu sínu ægifagra veldi: Besti vinurinn er stjórnarformaður Landsbankans sem heldur skuldavendi yfir ritstjóranum, sem ræður uppáhaldslögmanninn til verksins sem hlýtur að launum hæstaréttardómarastöðu nokkrum misserum síðar.) Aðeins á Íslandi gæti einu þjóðfélagi tekist að fara ekki ofan í saumana á svo háttsettu svínaríi.

Greinin var því í meginatriðum rétt.

5.

Í öðrum atriðum var hún hinsvegar röng. Í henni birtist barnaleg trú á unga viðskiptamenn. Að Björgólfur Thor og Jón Ásgeir þyrftu að fá að blómstra. Að landvinningar þeirra gætu orðið þjóðinni til tekna. „Bestu viðskiptasynir Íslands“. Mikil var trú mín. Ég hef það mér eitt til málsbóta að þarna var árið 2002. Bjöggi Thor var enn ekki búinn að opna pakkann frá DO og fyrstu útrásarsamningar enn ekki komnir á blað. Reyndar hafði Davíð tekist að eyðileggja þann fyrsta, við Arcadia, með innrás lögreglu sinnar í Baug.

Þess vegna má halda því fram að þarna hafi Davíð einmitt haft rétt fyrir sér; hann reyndi að kæfa útrásina í fæðingu. Á móti kemur: Hefði hann gefið sér meiri tíma í pólitík og minni í persónur hefði hann getað komið almennum og regluverkandi böndum á banka og fyrirtæki. Hefði forsætisráðherra ekki verið beinn þátttakandi í viðskiptastríði, hnjáforugur á vellinum miðjum, hefði honum ef til vill auðnast meiri yfirsýn: Í stað þess að einblína á nokkra leikmenn og reyna að bregða fyrir þá fæti hefði hann getað hugað að heildarmyndinni og beitt sér gegn því hömluleysi sem síðar fór úr böndunum. Davíð gleymdi sér í leiknum, gleymdi að hann var kosinn til að stýra landi. Svo gripið sé til fótboltamáls átti hann að vera formaður KSÍ en ekki fyrirliði stærsta félagsliðsins.

Eftirmálar Baugsmála urðu því sorglegir á allan hátt. Málatilbúnaðurinn reyndist ófullburða. Baugsmenn sluppu nánast óflekkaðir. Töldu sig sakhreinsaða og urðu þá fyrst þjóðhættulegir. En þá hafði Davíð tapað aðstöðu til að stöðva þá. Hafði talað frá sér hlutleysi, virðingu og traust. Sem Seðlabankastjóri gat hann ekki hamið banka þeirra án þess að allt yrði vitlaust, heldur varð hann að bíða þar til sá lyppaðist niður lánabólginn. Vítahringur vantrausts varð þjóðinni dýr.

6.

Auðvitað var okkur ljóst að helmingaskiptaflokkarnir voru viðskiptablokkir í eðli sínu. Saga íslenskra stjórnmála á tuttugustu öld gæti heitið „Hundrað ára meinsemd“. En undir lokin gerðist það þó að Sjálfstæðisflokkurinn hætti endanlega í pólitík og sneri sér alfarið að viðskiptum. Allt í einu var höfuðandstæðingur hans ekki einn af vinstriflokkunum heldur verslunarkeðja. Snarundarlegt ástand.

Sömu leið fór Framsókn. Fram að þessu hafði verkaskipting þar verið skýr: SÍSmenn sáu um fyrirtækin en þingmenn um lagaumhverfið. En nú var veldið fallið og mörkin urðu óljós. Formaður flokksins var ekki bara höfundur kvótakerfisins heldur kvótakóngur sjálfur. Finnur flokksins fékk ekki bara að vera Seðlabankastjóri heldur líka gefins ríkisbanka. Allt í einu var stjórnmálamaður orðinn milljarðamæringur, í krafti flokks síns. Snargalið ástand. Jafnvel maður sem var að byrja í pólitík hóf þann leik með nokkur hundruð milljónir í vasanum. Gamli bændaflokkurinn var orðinn fjárglæfraflokkur.

7.

Því var ekki skrýtið þótt formenn hinna flokkanna ættu í vandræðum með að fóta sig á þessum hála velli. Þau Steingrímur J. og Ingibjörg Sólrún reyndu enn að stunda stjórnmál upp á gamla mátann. Sú síðarnefnda hélt ræðu í Borgarnesi í janúar 2006 og talaði til skynseminnar, mælti með almennum reglum og heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Ræddi um pólitík, ekki persónur. En menn sem voru hættir í pólitík og komnir á kaf í persónustríð skildu ekki orð hennar. Þeir stóðu langt inni í teig og heimtuðu víti á andstæðinginn. Höfðu þarafleiðandi hvorki tíma né aðstöðu til að huga að almennum reglum leiksins. Fyrir þeim talaði „þessi kona“ aðeins fyrir hitt liðið, Baugsliðið. Flokkur hennar hlaut að vera fjármagnaður af fyrirtækinu. Í raun var hann ekkert annað en „dótturfyrirtæki auðhrings“!

Stjórnmálin voru komin á bulluplanið.

Hvernig í ósköpunum var hægt að stunda póltíska umræðu í þessu andrúmslofti? Hvernig í ósköpunum var hægt að halda haus á þessum árum? Hvað áttum við sem í stúkunni sátum að gera? Sitja þegjandi og fylgjast með forsætisráðherranum og flokki hans atast með fautaskap inni á vellinum gegn liði, sem á endanum reyndist engu skárra en hann sjálfur, eða reyna benda á það sem allir sáu og kjósa það sem flestir þráðu: Sanngjarnar reglur sem allir yrðu að fylgja og stjórnmál sem fjölluðu um þjóðfélagið en ekki einstök hlutafélög.

Það er óendanlega sorglegt að manneskja sem hafði átt farsælar stundir í pólitík, sem sögulegur borgarstjóri í níu af tólf ára löngum merihluta vinstrimanna, skuli hafa mátt enda ferilinn í slagtogi við viðskiptastríðsmenn. Kosningaúrslit neyddu hana í faðm Geirs Haarde, hins bangsalega bestaskinns sem engum gat líkað illa við, en reyndist þó á endanum einn hættulegasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Við trúðum því mörg hver með Sollu og Samfó að undir Geir væri Sjálfstæðisflokkurinn betri
flokkur, sanngjarnari, stjórntækari. Við eigum því seint eftir að fyrirgefa Samfylkingarforkólfum að hafa viðhaldið vitleysunni, að hafa framlengt valdatíð Davíðs Oddssonar um tæp tvö ár.

Á mánudagsmorgni eftir „Glitnishelgi“, fyrsta degi í hruni, vöknuðum við vondan draum: Við höfðum sofnað í lýðræðisríki en vaknað í konungsríki: Allt í einu sáum við hver það var sem enn réð í landinu okkar. Nú 20 mánuðum síðar, í skýru skýrsluljósi, sjáum við hinsvegar að svo hafði gengið lengi. Við höfðum búið í konungsríki langa hríð. Og það í boði flokksins sem við kusum. Ófyrirgefanlegt! Okkur grunaði kannski að karl hefði tak á Geir, en Ingibjörg Sólrún hlaut að sjá og vita hve hreðjalegt það var. Hennar ábyrgð er að hafa treyst manni sem engan hafði að geyma og var þó verri en enginn. Og sannaðist hér hið fornkveðna að vondur er konungur harðráður en verri tvílráður. Og hér var mikið um „tvil“ – með norskum hreim.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði áður gefið okkur tvo verstu forsætisráðherra sögunnar, þá Geir og Gunnar, en gerði það nú aftur, með Geir og Davíð.

Sá síðastnefndi endaði sem einhverskonar norrænn Neró; maður sem naut sín best þá allt var að hrynja í kringum hann, óvinir allir að steypast á hausinn og bankar þeirra að brenna. Þá skipti hvert orð máli, og þá var svo gaman að öskra á fólk, fara með vísur, fitla við valdarán og vakna söngþunnur í morgunsárið til að velta sér beint úr rúmi í útvarpið með risalán frá Rússum.

8.

Sjálfur hafði ég séð glitta í hinn fræga æðisaugnaglampa á fundi okkar haustið 2002. Eftir að hafa hlustað langa stund á persónuregister forsætisráðherra hvarflaði hugurinn óvart út um gluggann. Eins og oft vill verða þegar maður hittir fólk sem er mikið niðri fyrir róast maður við rausið og hallast aftur í sæti. Ég vildi þó fyrir alla muni ekki sofna inni hjá forsætisráðherra og leiddi hugann að því að fyrir utan gluggann, þessa þunnu rúðu, var þjóðfélag á þeysireið. Menn á leið í bankann og börn í strætó,
konur á fund. Allir á fullu að reyna sitt besta á meðan toppurinn sjálfur eyddi deginum í að leiðrétta blaðagreinar við ábyrgðarlausa rithöfunda. Hefur þessi maður ekkert að gera? hugsaði ég. Leiðist honum í vinnunni? Leiðinlegt samt að hann hafi enga skemmtun af mér. Ég sem er að sofna. En allt í einu heyrði ég í gegnum hugsanakófið að hann nefndi ríkislögreglustjóra á nafn. Til að forða mér úr blundhættu sagði ég:

„Það trúir bara enginn að sá maður vinni faglega. Því miður. Það vita allir að hann er bara hundur í þínu bandi. Flokksráðinn.“
Hárvaxni maðurinn í stólnum gegnt mér glennti upp augun og lét reiði herða rödd:

„Það eru ALLIR ríkisforstjórar flokksráðnir. Líka pabbi þinn!“

Líka pabbi þinn. Persónupólitíkusinn gerði kúnstpásu og horfði ógnandi á gestinn. Á meðan ég glennti upp eyrun. Heyrði ég rétt?

Faðir minn átti þá nokkra mánuði eftir í embætti Vegamálastjóra og hvarf ég nú aftur út úr samtalinu, sá fyrir mér sorglegan og hneisufólginn endi á farsælum ferli mannsins sem teiknaði bæði Skeiðarár- og Borgarfjarðarbrú.

Hvað hafði sonur gert föður?

Margir sem heyrðu þessa sögu (sem ég fór með á Útvarpi Sögu og endurtók í DV) segja mér að þarna sé komin klassísk mafíuógnun.

„Don’t fool around with us. We know where you live …“

9.

Var þetta þess virði? Að láta toga sig inn á slíkan vitleysisfund? Að sitja undir fabúleringum forsætisráðherra í einn og hálfan tíma og fá svo yfir sig hótanir um bráðan enda föðurferils? Og hvernig gat maður unnið úr þessu? Sagt frá þessu? Hér fór tveggja manna tal. Ég kæmi út eins og vælukjói. Eftir smá hik kaus ég þó á endanum að þegja ekki um þennan skrýtna fund. Fyrir vikið varð hann frægur og hugtakið Bláa höndin festist við Davíð. Uppáhaldslögfræðingurinn mætti í Kastljós til varnar vini sínum: Teppistakan var rithöfundinum sjálfum að kenna vegna þess að hann svaraði ekki í símann og því varð að boða hann á fund … Skömmu síðar var sá rökfærslumeistari gerður að hæstaréttardómara. (Kannski var Sjálfstæðisflokkur Davíðs bara grínframboð eftir allt saman?)

En var þetta þess virði?

Til að hefna fyrir „Bláu höndina“ var undirritaður kallaður „Baugspenni“. Málflutningur minn og fleiri var tortryggður með þeirri kenningu að við hlytum að vera á launum hjá Baugi. Líka þetta kom á á óvart. Víst hafði ég hikað við að ýta á „send“– en að vera vændur um mútuþægni og að faðir minn ætti á hættu að missa vinnuna, hafði aldrei hvarflað að mér. Ég var kominn niður á skítaplanið í smáríkinu Ísland. Og leyniþjónustan stóð sína pligt: „Það sást til ykkar Jóns Ásgeirs á Apótekinu.“ Já, það sást til okkar, en fáir heyrðu að þar fóru skammir fyrir Skaupið 2002.

10.

Eftir það hitti ég Jón Ásgeir nokkrum sinnum, á börum og í partýjum. Hver var þessi dularfulli maður með sítt að aftan sem hafði komið heilu stjórnmálakerfi í uppnám? Var hann heiðarlegur? Eða var hann „götustrákur“? eins og Davíð hafði uppnefnt hann á fundinum góða. „Hann hélt áfram að funda heila helgi með Green þessum, án þess að segja honum að lögreglan væri á eftir honum hérna heima. Svona gera bara götustrákar.“ Aftur var hér komin setning sem lýsti innan höfuð Davíðs Oddssonar: Eins og krakki sem föndrað hefur heimagerða sprengju beið hann heila helgi eftir því að sjá hana vinna sitt tjón og var orðinn vel pirraður áður en yfir lauk.

Götustrákur?

Ég varð litlu nær um Jón Ásgeir. Og átti allt eins von á því að hann yrði dæmdur fyrir eitt og annað. Í mínum huga snerist Baugsmálið ekki um sekt eða sakleysi Baugsmanna heldur misnotkun valds og einokun valds. Æðsti valdamaður landsins hafði ákveðið sig fyrirfram og síðan skipað löggu sinni að sanna það. Einn og sami maðurinn gat veist að óvinum
sínum, ímynduðum og raunverulegum, úr nokkrum hreiðrum samtímis: Stjórnarráðinu, Valhöll, Morgunblaðinu, Ríkislögreglu og RÚV.

„Bara samningurinn við Arcadia hefði haft sömu þýðingu fyrir Ísland og IKEA hefur fyrir Svíþjóð,“ sagði Jón Ásgeir á barnum og sýtti glatað tækifæri. Þarna var engu líkara en maðurinn væri að hugsa um þjóðarhag. Því miður hefur sagan og skýrslan leitt í ljós að einn maður kom langt á undan þjóðarhag: Hann sjálfur. Samanburðurinn við IKEA er þó athyglisverður, svo gjörólíkt Baugsveldinu sem IKEA-veldið er. Kannski er í þeim ólíkindum fólgin lexía fyrir útrásarvíkinga Íslands: Í stað þess að kaupa fleiri og fleiri fyrirtæki, fyrir meiri og meiri lán, og sífellt hraðari skyndigróða, er stærri framtíð fólgin í því að byggja upp raunverulegt fyrirtæki frá grunni og fylgja því alla leið. „IKEA was founded in 1943 by 17 year-old Ingvar Kamprad in Sweden,“ segir Wikipedia.

11.

„Baugspenni, Baugspenni …“ Seiglan í þessu liði er allt að því ómennsk. Átta árum síðar er hugtakið enn í fullri notkun, og það þótt fyrirtækið sé komið í tölu framliðinna. Sjálfur hef ég lagt mig fram við að búa til ný og ný uppnefni á hinn mikla DO og vasapeð hans, en andinn virðist ekki koma yfir Valhellinga nema á tíu ára fresti, auk þess sem þeir vita að áróður þarf að hugsa í áratugum. Með titli þessarar greinar vonast ég þó eftir uppfærslu. „Draugspenni“ væri hressandi nýbreytni.

Á fyrstu mánuðunum eftir hrun fékk ég ýmsa tölvupósta frá hinum og þessum flugumönnum Flokksins þar sem ég var beðinn að gera grein fyrir öllum þeim greiðslum sem ég hafði fengið frá Baugi. Þeim reyndist auðvelt að svara: 0 kr. Ég var aldrei þar „á launaskrá“, vann aldrei nein verkefni fyrir þá, þáði hvorki flugferðir né styrki, seldi þeim ekki einu sinni málverk. Í kjölfarið barst þá jafnan ítrekun og ég var minntur á „ómálaða málverkið“ sem slegið var á stórlaxauppboði fyrir 21 milljón.

Ég nýti hér tækifærið til að ítreka enn og aftur að uppboð þetta var góðgerðaruppboð á vegum UNICEF þar sem allur ágóði rann til veikra barna í Gíneu Bissá. Sjálfur fékk ég ekki krónu af kaupvirðinu sem að auki kom alls ekki frá Baugi. Hinsvegar fékk ég, fyrir vinnu og efniskostnað, greiddar 100.000 krónur frá UNICEF. Fyrirfram taldi ég þá upphæð ríflega en eftir að málverkið var slegið á 21 milljón króna neyddist ég auðvitað til að setja allt mitt í það og á endanum tók 3 mánuði að mála verkið. Hve margir Sjálfstæðismenn væru til í að vinna fyrir 33.000 kr. á mánuði?

12.

Auk greinarinnar um Bláu höndina skrifaði ég margoft um Baugsmálið. Og á köflum sauð blek á penna, sem ef til vill sveið saklausan. Jafnvel hundar valdsins eiga hvolpa. Hafi ég sært þá sé ég eftir því. En það var ekki auðvelt að halda í sér á þessum árum þegar lygin ríkti yfir Íslandi, og þurfti maður ósjaldan að hafa hönd á reiði þegar gengið var inn á kaffihúsin þar sem fagurslaufuð og innmúruð plottmennin fengu óáreitt setið á sannleikanum um öll sín sjálf.

Auðvitað var óskemmtilegt að blandast inn í þetta blokkastríð sem á endanum setti Ísland á hausinn. Auðvitað sjáum við nú að í þeim leik var enginn góður. Báðir jafn slæmir. Þetta var líkt og framhaldsmynd af Kalda stríðinu: Ef þú gagnrýndir eina hliðina varstu óðar negldur upp við hina. Ef þú gagnrýndir Davíð varstu „Baugspenni“. Ef þú fluttir ræðu í Borgarnesi varstu formaður í „dótturfélagi auðhrings“.

En afhverju gagnrýndi maður þá ekki Baug? Var það ekki besta leiðin til að stimpla sig frá þeim félagsskap? Oftar en tvisvar endaði ég úti í horni á bar eða bílastæði og hlýddi á Jónínu Benediktsdóttur útmála fyrir mér sóðaskapinn sem viðgekkst í íslensku viðskiptalífi. Það voru langar og eldheitar ræður um krosseignatengsl og bíræfnar lántökur, svik og pretti, og samantekin ráð. Ég verð að játa að ég skildi það ekki allt. Og get séð eftir því nú að hafa ekki sett mig inn í þá vafninga alla og skrifað upp úr því hyldjúpar fyrirhrunsgreinar. Útrásin var hinsvegar eitthvað sem fæst okkar skildu. Við skildum ekki hvernig þeim víkingum tókst að kaupa öll þessi hús og allar þessar verslanir. Allt þeirra yfirskuldsetta vafningadæmi kallaði á sérfræðiþekkingu. Peningar eru flóknara fyrirbæri en pólitík.

Þó blasti eitt við hverjum manni: Græðgin. Auðvitað var hægt að gagnrýna þessa kaupahéðna sem áttu að lokum annað hvert fyrirtæki á Íslandi. Ég hefði betur farið að dæmi míns eigin Roklands-Bödda og dúndrað á auðjöfranna af sama mætti og ég gerði á verstu ríkisstjórnir Íslandssögunnar. Sök mín er sú að hafa aðeins gagnrýnt til hálfs.

13.

Hér ber að játa: Við gáfum Jóni Ásgeiri ansi feitan séns. Í miðjuvinstrinu voru margir veikir fyrir honum. Og leyfðu honum lengi að njóta vafans. Hann kom eins og Napóleon inn í ævafornt konungsveldi og breytti hlutum, sneri þeim við, vakti vonir. Og hvarf síðan burt frá bullveldi sínu að leik loknum, eins og sá sami Naflajón, útlægur ger á suðrænni eyju. (Svo er það aftur spurning hvort Tortólan sú sé Elba Jóns Ásgeirs eða Sankti Helena?)

En hann kom inn með trukki. Skyndilega var gömlu kerfi ógnað. (Ísland er svo lítið land að ekki þurfti nema einn duglegan búðareiganda til að raska jafnvægi þess.) Hve langeyg var ekki vinstriþjóðin til dæmis eftir valkosti við Morgunblaðið? Við bíðum reyndar enn eftir því að Fréttablaðið verði gott og skemmtilegt blað, og alfrjálst af eiganda sínum, en þó verður það að teljast til hins skásta sem bullaldarárin skilja eftir sig. Á mektardögum sínum reistu útrásarvíkingar mikið fé. Sjálfsagt var megnið af því hugfé (fictional capital) en eftir á að hyggja hlutgerðist sorglega lítið af því: Bullöldin skildi nánast ekkert eftir sig, annað en nokkur uppdópuð sumarhús vítt um land, hálfbyggt tónlistarhús við Reykjavíkurhöfn og Fréttablaðið sem enn kemur út.

Minnumst þess einnig hvernig Flokkurinn fór með RÚV. Pólitískum geldfuglum var stillt upp sem útvarpsstjórum svo gæðingarnir ættu greiða leið inn í stofur landsmanna og græðlingar fengu heilu laugardagskvöldin til að æfa þjóðina við sitt barnslega andlit. Fyrir afnotagjöld allra landsmanna stundaði flokkurinn leiðtogamátun og borgarstjórarækt.

14.

Þessu fína ójafnvægi raskaði „Baugsveldið“. Það bauð upp á ókeypis blað sem strax var stærra en Mogginn og tryggði Stöð 2, Bylgjunni og öllum þeim rásum líf eftir Jón Ólafsson.

Hvernig bar okkur að taka því? Hvernig tókum við því? Hvernig bregst fólk við þegar einokarinn fær óvænta samkeppni? Við hlutum að taka því fagnandi. Ekki fullkomið ástand en þó skárra en það sem var. Gerði það okkur öll að Baugspennum? Baugsverjum? Baugsdýrkendum?

Að mati hinna bláu herra: Já.

Og börðu okkur til hlýðni með fjölmiðlafrumvarpi. Þeir vildu fá gamla tímann aftur. Vildu fá að ráðskast með þjóðina eins og ómálga sjúkling, mata hana með „réttum fréttum“ og sjónvenja við „rétta fólkið“. Yfirdoktor á þeirri deild: Maður sem nú, eftir ýmsar detox-meðferðir, kallar sig Hr. Ógeðslegt Þjóðfélag.

Fjölmiðlafrumvarpinu var þó alls ekki beint gegn neinum ákveðnum fjölmiðli eða ákveðnu eignarhaldi, hét það í fögrum flokksmunni. Ekki fyrr en nýverið var annað viðurkennt þegar þáverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Illugi Gunnarsson, spurði í umræðum um fjármál flokkanna hvort það sýndi ekki fram á Baugsfjármögnun Samfylkingar að hún barðist á móti fjölmiðlafrumvarpinu? Semsagt: Eftir öll þessi ár: Viðurkennt að Sjálfstæðisflokkurinn flutti málið gegn Baugi, höfuðandstæðingi sínum í pólitík.

15.

Fjölmiðlafrumvarpsmálið sýndi Baugsvandann í hnotskurn. Þeir sem gagnrýndu eða lögðust gegn því breyttust umsvifalaust í „Baugsliðið“, sem fyrir vikið innihélt hálfa þjóðina, helming Alþingis, heilu stjórnmálaflokkana og forseta Íslands.

Að því leytinu var það eðlisskylt upphafi Baugsmála. Vandinn var samur: Sá sem gagnrýndi grunsamlega aðför stjórnvalda að fyrirtæki sem var þeim ekki að skapi var umsvifalaust sakaður um að vera á mála hjá því fyrirtæki. En síðan hvenær ber þeim sem gagnrýnir misnotkun valds sem bitnar á ákveðnum aðila að taka ábyrgð á öllum hans gerðum eftir það, bókhaldi jafnt sem bankalánum? Þótt ég hafi orðið til að benda á hlutdrægni forsætisráðherra í viðskiptalífinu neita ég alfarið að hafa þar með kvittað undir allt það sem fórnarlamb þeirrar hlutdrægni gerði þá eða síðar.

Hér kjarnast því vandi gagnrýnandans í málfrjálsu landi. Valdið reynir alltaf að ómerkja hann, skipa honum í sveit með „götustrákum“, ásaka hann um sálarsölu og mellugang. Sá sem vogar sér tekur áhættuna. Þægilegust er þögnin. En þegar valið stendur á milli þess að þegja með spilltu valdi eða tala gegn því er svarið augljóst, jafnvel þótt það kosti eitthvað. Því auðvitað reynir hið spillta vald að verja sig með öllum ódýrum ráðum. Slíkt er einmitt hlutverk hins spillta valds. Það refsar þér með brennimarki. En slíkt ber ekki að syrgja heldur bera með sæmd því brennimark valdsins er vegtylla.

Sjálfur skal ég glaður heita „Baugspenni“ ef það er verðið sem greiða varð fyrir að fá að gagnrýna Davíð Oddsson.