Eftir Kristínu Einarsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2011

 

Inngangur

Kristín Einarsdóttir

Kristín Einarsdóttir / Mynd: Aldís Pálsdóttir, Vikan

Gamlárskvöldi eyða flestir Íslendingar með stórfjölskyldunni í hefðbundinni áramótaveislu sem samanstendur af hátíðlegum kvöldverði, flugeldasprengingum og áhorfi á áramótaskaup sjónvarpsins. Þarna eru afar og ömmur, pabbar og mömmur, ásamt fjölda barna á ýmsum aldri. Fullorðna fólkið spjallar, fær sér vínglas eða kaffi og gæðir sér á afgöngunum af jólakonfektinu. Börnin hlaupa um húsið, með hurðasprengjur og við og við heyrist hvellur þegar einhver í sakleysi sínu opnar dyr þar sem slíkri sprengju hefur verið komið fyrir. Þegar klukkan nálgast hálfellefu eykst spennan, skaupið er að byrja. Börn og fullorðnir setjast fyrir framan sjónvarpið og þögn færist yfir húsið og nágrennið. Úti fyrir hljóðna sprengingarnar sem hafa dunið allan daginn og dagana áður. Einn gestanna gæti mögulega verið útlendingur, boðinn í mat þetta kvöld en þótt vitað sé að hann geti ekki skilið nokkuð af því sem fram fer á skjánum hvarflar ekki að neinum að sleppa skaupinu og sinna gestinum. Hann verður að horfa eins og aðrir.

Fyrsta skaupið var flutt árið 1966, aðeins nokkrum mánuðum eftir að sjónvarpið hóf göngu sína hér á landi (Fréttablaðið 2008, 30. desember). Það hefur frá upphafi notið gífurlegra vinsælda og áhorfstölur slegið öll met. Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í viðtali í Fréttablaðinu 22. febrúar 2007 um áhorf á áramótaskaupið:

Þær tölur eru með ólíkindum. Síðasta skaup mældist með 93,3 prósent í uppsafnað áhorf sem er aukning um tæpt prósent frá árinu áður. En árið 2002 fór það upp í 95,5 prósent (Fréttablaðið 2007, 22. febrúar).

En slíkt fjöldaáhorf er þó ekki einsdæmi, oft sameinast stórir hópar við sjónvarpið og fylgjast með atburðum sem oftast eru fyrirfram kunnir og má kalla einu nafni „fjölmiðlahátíð“ (Þorbjörn Broddason, 2005). Hér er til dæmis um að ræða íþróttaviðburði og er skemmst að minnast handboltakappleikja íslenska handboltalandsliðsins í janúar 2010 og ágúst 2007 þegar svo að segja öll þjóðin fylgdist með. Á slíkum stundum er þjóðin nánast sem einn maður, fjöldinn sameinast um eitt takmark og flestir geta á sama hátt tekið sameiginlega þátt í undirbúningi og úrvinnslu atburðarins. Skaupið er einmitt slík fjölmiðlahátíð.

Hvað er það í skaupinu sem verður til þess að nánast öll þjóðin situr við sjónvarpið þessa klukkustund sem það tekur? Á skaupið ef til vill eitthvað sameiginlegt með óeirðum og óspektum almennings sem áttu sér til dæmis stað hér á landi á gamlárskvöld eða vikivakasamkomum fyrr á öldum? Almenningi á Íslandi virðist vera mikilvægt að horfa á skaupið á gamlárskvöld og ekki degi síðar. Hér verður leitast við að greina áramótaskaupið með tilvísun til ýmissa hugtaka og kenninga um tímamót, jaðartímabil og karnival.

Óeirðir um áramót

Áramótabrennur byrjuðu hér á landi um miðja 19. öld og heimildir eru um að við brennurnar hafi á þeim tíma komið til ryskinga og drykkjuláta (Klemenz Jónsson í Árni Björnsson, 1993). Sá siður að safna í áramótabrennu og kveikja í henni breiddist hratt út um landið og munu brennur hafa verið nokkuð algengar hér á landi frá upphafi 20. aldar, en ekki er frekar minnst á óeirðir í beinum tengslum við þær (Árni Björnsson, 1993). Aftur á móti héldu óeirðaseggirnir uppteknum hætti þótt þeir hafi kosið að láta brennurnar eiga sig og um miðja síðustu öld bárust fréttir af miklum óspektum í miðbæ Reykjavíkur. Morgunblaðið segir þannig frá gamlárskvöldi ársins 1948:

Óvenjuleg skrílslæti voru höfð í frammi hjer í bænum á gamlárskvöld og það svo að sjaldan munu hafa verið gerðar fleiri tilraunir til skemdarverka. Lögreglunni tókst hinsvegar vel, að halda fólkinu í skefjum og stöðva skemdarverkatilraunir. Eitt alvarlegasta skemdarverkið var er tilraun var gerð til að kveikja í skúr þar sem sprengjuefni var geymt (Morgunblaðið 1948, 3. janúar).

Til vandræða horfði í miðbæ Reykjavíkur á gamlárskvöld ár eftir ár um miðja síðustu öld, vegna mikilla óeirða sem þar urðu. Yfirvöld brugðu þá á það ráð að leyfa áramótabrennur í úthverfum til að lokka unglinga og óeirðaseggi burt úr miðbænum (Árni Björnsson, 1993). Þetta ráð mun hafa dugað til að slá á óeirðir í miðbæ Reykjavíkur. Flosi Ólafsson – sem sá um fyrstu skaupin í sjónvarpinu – minnist þessara óeirða í viðtali í Helgarpóstinum 23. desember 1996 og virðist hann standa í þeirri trú að áramótaskaup sjónvarpsins hafi átt sinn þátt í að koma í veg fyrir téðar óeirðir:

Það sem mér er einna eftirminnilegast við þessi skaup er að þegar þau hófust breyttist nær allt atferli manna til hins betra. Fyrir þann tíma hafði allt verð hálfvitlaust niðri í bæ á gamlárskvöld og lögreglan réði ekki neitt við neitt, en eftir að skaupin byrjuðu var nær enginn á ferli; allir héldu sig heima og horfðu á skaupið (Helgarpósturinn 1996, 23. desember).

Tímamót

Það er manninum eiginlegt að halda hátíð á tímamótum hverskonar, en segja má að hægt sé að skipta hátíðum gróflega í tvo aðalflokka. Annarsvegar eru hátíðir sem yfirvöld, veraldleg og andleg á hverjum stað og tíma stjórna og skipuleggja. Hér er um að ræða trúarlegar hátíðir, jól og páska og þjóðhátíðir ýmiskonar þar sem valdhafar þjóðarinnar eru áberandi og reglur hátíðarinnar eru settar af þeim sem valdið hafa. Hátíðir af þessu tagi leggja í rauninni sitt lóð á vogarskálarnar til að festa valdhafana í sessi. Hinsvegar eru hátíðir alþýðunnar. Hér á landi má til dæmis nefna forna dansleiki eða vikivakasamkomur þar sem almenningur kom saman og viðhafði ýmsan háttskap sem yfirvöldum var oft ekki að skapi (sjá t.d. Aðalheiður Guðmundsdóttir, 2009). Á seinni tímum má til dæmis nefna hátíðir ungs fólks um hvítasunnu- en einkum um verslunarmannahelgar. Á hátíðum sem þessum eru aðrar reglur en þær sem viðhafðar eru á hinum hefðbundnu hátíðum yfirvalda, þar sem eru hefðbundnar fastar reglur, stéttskipting er augljós og undirstrikuð með ýmsu móti. Á hátíðum almennings er allt annað yfirbragð og stéttskipting er lítil eða engin. Slíkar hátíðir einkennast oft af mikilli drykkju, kynlífi og svalli. Almenningur tekur völdin og hlutverkum er snúið við (Bakhtin, 1984). Sama hátíð getur í raun bæði talist hátíð þeirra sem stjórna og alþýðunnar og má nefna 17. júní, þjóðhátíðardag okkar Íslendinga sem hefst með árvissum atburðum þar sem stjórnvöld landsins eru í aðalhlutverki en lýkur svo oftar en ekki með karnivalsástandi þar sem alþýðan er í aðalhlutverki.

Áramót Íslendinga og þá fyrst og fremst áramótaskaup sjónvarpsins eiga ef að er gáð ýmislegt sameiginlegt með slíkum almenningshátíðum þar sem gert er grín að yfirvöldum og ýmsu því sem hátíðlegt þykir á öðrum tímum er snúið á hvolf og gert skoplegt. Skaupið beinir fyrst og fremst sínum spjótum að þeim sem valdið hafa hverju sinni, hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn, „frægt“ fólk eða þá sem á einhvern hátt standa upp úr fjöldanum. Í skaupinu er oft hæðst að því sem alla jafna er tekið hátíðlega í þjóðlífinu og nýtur almennrar virðingar. Í gegnum tíðina hefur grínið til dæmis oft beinst að gamla bændasamfélaginu, Þingvallahátíðum, æðri listum og svo framvegis. Í skaupum síðustu ára er þetta þema ekki síður áberandi og má nefna að í skaupinu 2007 beindist til dæmis grínið að álfatrú Íslendinga.

Skaupið hefst á atriði í flugvél þar sem þýsk hjón skiptast á skoðunum um hvort svokallaðir álfasteinar séu venjulegt grjót eða ekki, en slíkt grjót höfðu hjónin einmitt keypt í verslun á Íslandi. Í könnun sem gerð var árin 2006 og 2007 kom fram að meira en helmingur íslensku þjóðarinnar telur mögulegt, líklegt eða öruggt að álfar séu raunverulegir (Gunnell, 2007). Þessari trú flíka menn líklegast ekki hversdags en þrátt fyrir það þykir sjálfsagt að segja útlendingum frá þessari trú og má jafnvel halda því fram að álfatrú hafi verið markaðssett fyrir ferðamenn og dæmi eru um að erlendir ferðamenn komi hingað beinlínis með það fyrir augum að kynnast álfatrú Íslendinga. Trú á álfa eða aðrar vættir þykir ekki hæfa vel upplýstu fólki og bókmenntir þar sem söguhetjur láta tilfinningar sínar óspart og opið í ljós njóta ekki þeirrar virðingar sem áður var (Oring, 2003). En þrátt fyrir það að ekki þyki lengur við hæfi að setja á bók lýsingar á miklum tilfinningum hefur fólk samt sem áður tilfinningar og þeirra farvegur getur til dæmis verið húmor af ýmsu tagi. Ýmsar tilfinningar fólks fá útrás í húmor eða skemmtiefni yfirleitt og er skaupið dæmi um þessa útrás tilfinninga sem annars eru bældar.

Dagsdaglega vilja Íslendingar ekki gera lítið úr því sem oft er kallað „menningararfur“ þjóðarinnar. Á hátíðastundum koma Íslendingar saman á Þingvöllum, heiðra minningu forfeðranna og hlusta á valdhafa flytja ræður. En þegar kemur að áramótaskaupinu er gert grín að þessum sömu valdhöfum og hátíðunum sem nokkrum mánuðum áður voru fjölmennar á Þingvöllum. Sú tilfinningasemi og virðing sem flestir bera fyrir hinum sögufræga stað víkur fyrir gríninu. Það er nefnilega ekki bara reiði og hatur sem fá útrás í gríninu heldur líka tilfinningasemi sem á vissum tímabilum snýst upp í andhverfu sína (Oring, 2003).

Í skaupinu 2009 sást fjallkonan hlekkjuð á vegg eftir mikið samkvæmi á Bessastöðum sem greinilega hafði farið úr böndunum. Fjallkonan er flestum Íslendingum heilagt tákn fyrir þjóðina, frelsið, fjöllin, íslenskar konur og mæður yfirleitt. Bessastaðir eru helsta höfuðból landsins, aðsetur forseta landsins. Skaupið verður hér sérlega „karnívalískt“ og ósvífið – valdhafar eru sýndir í hlálegu ljósi. Hlutverkum er snúið á hvolf, almenningur hlær að þeim sem venjulega eru taldir æðri (sjá Bakhtin, 1984).

Ólafur Ragnar er af mörgum talinn hafa verið of mikill talsmaður útrásarinnar og þar með í hópi þeirra sem urðu valdar að hinu mikla efnahagshruni. Útrásarvíkingarnir svokölluðu nutu athygli og virðingar í opinberri umfjöllun meðan allt lék í lyndi en eftir hrunið má segja að sú virðing hafi snúist upp í andhverfu sína og þeim verið hegnt fyrir þau afglöp sem mörgum þykir þeir hafa gert sig seka um. Í skaupinu 2009 voru leikarar í hlutverkum Jóns Ásgeirs og Björgólfs Thors flengdir opinberlega á Austurvelli. Árið 2007 var litað af fréttum af forstöðumanni Byrgisins, meðferðarheimilis fíkniefnaneytenda, en hann varð uppvís að ýmiskonar misnotkun og dæmdur til fangelsisvistar. Hér eins og víðar í skaupinu er þeim sem talinn er hafa brugðist trausti almennings hegnt eftirminnilega og hann gerður einn helsti skotspónn skaupsins – rétt eins og Árni Johnsen mátti þola árið 2001 þegar hann varð uppvís að misferli með opinbert fé.

En þeir sem fá þó helst á baukinn eru stjórnmálamenn sem taldir eru hafa misstigið sig í því hlutverki sem þjóðin treysti þeim fyrir með því að kjósa þá til starfa á Alþingi. Skylt þessu er þema sem lengi hefur verið í áramótaskaupum en það er þegar gert er grín að æðri listum, óperum, ballettsýningum og þess háttar. Þar virðist vera markmiðið að þeim sem telja sig þess umkomna að segja almenningi hvað teljist til hinna æðri lista sé refsað eða þeim að minnsta kosti sýnt að hægt er að koma æðri listum niður á lægra plan með því að gera að þeim grín.

Í skaupinu 2008 var atriði þar sem borgarstjórn Reykjavíkur var sýnd sem hópur unglinga í gagnfræðaskóla og sameinaðist þar í raun og veru tvennskonar grín, annars vegar var gert grín að stjórnvöldum sem höfðu brugðist, en þetta ár voru tíð skipti á borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík og þótti reyndar ýmsum nóg um. Hins vegar er líka verið að setja þá sem hærra eru settir í þjóðfélaginu neðar í þjóðfélagsstigann þar sem hin virðulega borgarstjórn Reykjavíkur er sýnd tyggjandi tyggjó, með farsíma í annarri hendi og ipod í hinni.

Sjálft sameiningartáknið

Ef til vill má halda því fram að áramótaskaupið sé í raun og veru hið eiginlega sameiningartákn þjóðarinnar. Það er í beinu framhaldi af þjóðsögunum þar sem þeim sem reyndust vera svikulir er refsað og gamansögum sem sagðar eru um þá sem hreykja sér hærra en hinir. Í skaupinu fær almenningur útrás fyrir þörfina fyrir að koma þeim sem venjulega telja sig hærra setta niður á sama stað og við hin erum.

Fjölskyldur og vinir munu halda áfram að hittast og gera sér dagamun á áramótum sem og öðrum tímamótum, horfa um öxl og velta fyrir sér framtíðinni, hvort sem áramótaskaupið í hinu íslenska sjónvarpi heldur áfram eða ekki. Áramótaskaupið, óeirðirnar sem áður brutust út í miðbæ Reykjavíkur, drykkja og svall forfeðra okkar og -mæðra á vikivakadansleikjum fyrri alda og karnivalsamkomum miðalda eiga það sameiginlegt að það ber upp á tímamótum og er tæki almennings til að taka völdin í sínar hendur um stund.

 

Heimildaskrá

  • Aðalheiður Guðmundsdóttir (2009). „Siðferði gleðinnar“. Saga XLVII:1.
  • Árni Björnsson (1993). Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
  • Bakhtin, Mikhael (1984). Rabelais and his World. Bloomington: Indiana University Press.
  • Fréttablaðið (2007, 22. febrúar). „Áramótaskaupið margfaldur heimsmeistari í áhorfi“, 50.
  • Fréttablaðið (2007, 5. desember). „Yfir 50 leikarar í Skaupinu“, 46.
  • Fréttablaðið (2007, 6. desember). „Enginn vildi auglýsa í Skaupinu“, 66.
  • Fréttablaðið (2007, 31. desember). „Erum ekki að breyta stjórnarskránni“, 62.
  • Fréttablaðið (2008, 30. desember). „Þeir sem sáu fyrsta skaupið skemmtu sér hið besta“, 2.
  • Gunnell, Terry (2007). „Það er til fleira á himni og jörðu, Hóras …“ Í Rannsóknir í félagsvísindum VIII. Gunnar Þór Jóhannesson (ritstjóri). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. 801–812.
  • Helgarpósturinn (1996, 23. desember), 8.
  • Jón Árnason (1954–1960). Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1.–6. bindi). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Reykjavík: Þjóðsaga.
  • Morgunblaðið (1948, 3. janúar). „Óvenjuleg skrílslæti á gamlárskvöld“, 2.
  • Morgunblaðið (2002, 7. júlí). „Árni Johnsen dæmdur í 15 mánaða fangelsi“, 6.
  • Oring, Elliott (1992). Jokes and Their Relations. The University Press of Kentucky.
  • Oring, Elliott (2003). Engaging Humor. Urbana and Chicago: University of Illinois Press
  • Símon Jón Jóhannsson (1999). Stóra hjátrúarbókin. Reykjavík: Vaka-Helgafell
  • Turner, Victor (2008). „Liminality and Communitas.“ Í The Performance Studies Reader. Önnur útgáfa. Henry Bial (ritstjóri). New York: Routledge. 89–117.
  • Van Gennep, Arnold (1960). The Rites of Passage. The University of Chicago Press.
  • Þorbjörn Broddason (2005). Ritlist, prentlist, nýmiðlar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.