Flöskuskeyti frá Bosníu

eftir Ásgeir H. Ingólfsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2008

 

Ásgeir H. Ingólfsson

Ásgeir H. Ingólfsson / Mynd: Tyko Say

Við höfum hlykkjast um bosníska fjallvegi í þrjá tíma þegar ég sé hana. Bílstjórinn kallar „Višegrad – stari grad“ og ég tek saman föggur mínar og stekk út úr bílnum, næ naumlega að veifa bílstjóranum til að hindra hann í að hverfa á braut með bakpokann minn þunga. Og ég endurtek; ég sé hana.

Þarna blasir hún við. Brúin. Með táninga á brúarsporðinum og ástfangin pör á brúarhandriðinu, brúin hans Ivo Andrić yfir fljótinu hans Saša Stanišić. Brúin á Drínu, nafn og sögusvið þekktasta skáldverks sem frá Balkanskaganum hefur komið.

Hér mætir mesta fegurðin mesta ljótleikanum, helstu bókmenntaverk þeirrar þjóðar sem eitt sinn hét Júgóslavar renna saman við einhver hryllilegustu fjöldamorð sömu þjóðar á þessari risastóru brú sem tengir árbakka þessa smábæjar sem liggur báðum megin árbakkans. En ég er kominn hingað með heimilisfang í vasanum, ég þarf að hitta gamla konu og skila henni kveðju frá barnabarninu hennar úr fjarskanum.

 

Brú yfir vandræðavatn

Þetta hófst allt fyrir tæpum fimm hundrað árum þegar tíu ára snáði var hertekinn í fjallaþorpi skammt frá og var fluttur fram hjá Višegrad. „Hann festi sér rækilega í minni grýttan fljótsbakkann, vaxinn strjálum pílviðartjám gráum og blaðvana. Hann gleymdi ekki fatlaða ferjukarlinum né hrörlegu myllunni, sem full var af köngulóarvef og dragsúg. Þar hafði hann orðið að gista um nóttina, því það tók svo langan tíma að ferja allan þennan fjölda yfir gruggugt fljótið, þar sem loftið kvað við af gargandi krákum. Líkt og fyndi hann til sjúklegs sársauka í líkama sínum, líkt og hnífur væri rekinn á kaf í brjóst hans, hvað eftir annað með óbærilegri kvöl, geymdi hann minninguna um þennan stað, þar sem fljótið rauf þjóðveginn, svo að öll hin vonlausa örbirgð og eymd eins og safnaðist fyrir í urð árbakkans þar sem fljótið tók við, hættulegt og oft ófært eða illfært yfirferðar. Fljótið varð í augum hans eins og opið, blæðandi sár á þessari fátæku fjallabyggð, þar sem örbirgð og umkomuleysi manneskjunnar varð ekki lengur skýlt, sem þar varð að nema staðar, vegna ofurvalds höfuðskepnanna, og standa þar augliti til auglits, ekki aðeins við eigin vanmátt, heldur við þann vesaldóm og úrræðaleysi allra, sem hér blasti við.“

Þannig lýsir Andrić ferð bosníska piltsins sem seinna varð Mehmed Pasha Sokolovic, sigursæll vésír í heimsveldi Tyrkja. En hann gleymdi aldrei Drínu og sársaukinn hvarf ekki, loks lét hann reisa á henni voldugustu brú Balkanskagans til þess að deyfa sársaukann, loka sárinu. Titilpersóna bókar Andrić er líka aðalpersóna hennar, manneskjurnar koma og fara eftir því sem aldirnar líða en alltaf er brúin til staðar, þögult vitni flónsku okkar og hugvits, grimmdar og gæsku.

Saga Andrić hefst á Mehmed Pasha, serba sem býr í landi tyrkja, og lýkur á Ailhodzja, tyrkja sem býr í landi serba. Þeir eru tvær hliðar á sama teningnum, í Bosníu, þessu litla landi þar sem austrið mætir vestri, kristnin mætir Múhameðstrúnni, þar sem djöfulgangur heimsstyrjaldarinnar er settur af stað af svartri hönd sem slær nógu fast til þess að höggva skarð í hina óbrotgjörnu brú.

 

Bingósjúklingar og hótelskortur

En hvernig blandast ég inn í þessa sögu sem gerist jú hinum megin í álfunni? Ég man þegar ég dvaldi vetrarlangt í Austurríki og kynntist aðallega fyrrum íbúum Júgóslavíu, ég varð Rodjo og þeir eignuðust í mér hvert bein. Ég man þegar ég kom fyrst til Bosníu og gisti hjá leigubílstjóranum og varð skotinn í dóttur hans á fimmtán mínútum. Kannski var þetta byrjunin, en líklega er rétt að byrja samt þegar ég hitti Saša Stanišić á bókmenntahátíð í Reykjavík síðasta haust, með flugmiða til Króatíu í vasanum, og spurði hann hvaða staði ég ætti að heimsækja. Hann mælti með Sarajevo og Mostar, Dubrovnik þar sem sögurnar flæða um strætin – „og ef þú ferð til Višegrad verðurðu að heimsækja ömmu mína. Hún talar að vísu enga ensku en það er aukaatriði, þú segir henni bara að ég hafi sent þig.“ Ég komst að vísu ekki til Višegrad fyrr en vorið eftir en vitaskuld geymdi ég heimilisfangið vandlega.

Og þarna er ég, við brúarsporðinn, og vantar gistingu yfir nóttina. Það er of seint til þess að banka upp hjá gömlum konum. Bílstjórinn segir mér að hótelið sé hinum megin brúar – en rútan er ekki fyrr horfin en mér er heilsað af hóp unglingspilta, sem eftir á að hyggja voru mestu enskumennirnir sem ég átti eftir að hitta í Višegrad. Þeir segja mér að hótelið sé í fimm kílómetra fjarlægð, inni í skógi. Hotel Višegrad standi að vísu við brúna hinum megin, en það sé verið að gera það upp. Ég held yfir brúna með tuttugu kíló af farangri á bakinu og þegar ég kem yfir um sýnist mér við fyrstu sýn að hótelið sé við ágætis heilsu – en þegar ég kem nær sé ég að það eru bara ljós í bingósalnum, enda virðast íbúar bæjarins ólæknandi bingósjúklingar upp til hópa – seint á laugardagskvöldi virðist þetta vera aðalstaðurinn í miðbænum.

Þannig að ég tek að því er virðist eina leigubíl bæjarins til Vilina Vas, heilsuhótels í skógi töluvert fyrir utan bæinn. Þetta er fjögurra stjörnu hótel samkvæmt anddyrinu og þar er að minnsta kosti tveimur stjörnum logið, en sem betur fer er verðið meira í takt við gæðin en stjörnugjöfin. Ég fer svo aftur niður í bæ bakpokalaus, reyni að átta mig á þessum sögulega bæ. Hér gerast þær tvær bosnísku bækur sem ég hef lesið á íslensku, hér er sú voldugasta steinbrú sem ég hef enn fundið í Evrópu – og umhverfis allt þetta er eitthvert mesta krummaskuð sem ég hef augum litið í gömlu Austur-Evrópu. Bærinn er hótellaus, barirnir loka klukkan eitt um helgar – en tæmast á miðnætti – og allt bendir til þess að hér sé einfaldlega ekkert að gera, nema auðvitað að spila bingó.

Þetta er ekki staður sem maður býst við að fóstri skáld á borð við Andrić og Stanišić. Og það er synd að brúin sé ekki betur nýtt. Í Mostar, hinum megin í Bosníu, varð brúin til þess að bærinn breyttist úr smábæ í höfuðstað Herzegóvínu. Brúin var endurbyggð eftir stríðið og er nú eitt mesta friðartákn Balkanskagans og langvinsælasta forsíðufyrirsæta ferðahandbóka um svæðið. En brúin yfir Drínu er miklu voldugri, stærri og glæsilegri. Hún myndast að vísu ekki jafn vel en það er miklu betra að sitja á henni, þetta er brú sem býr til líf, hér stoppa allir ef veður leyfir, ástfangin pör láta vel hvort að öðru, unglingar og gamlingjar spjalla á kapíjunni, eins konar samkomustað á miðri brúnni – en lífið virðist varla ná út fyrir brúna núorðið.

 

Veröld sem var

Hér er þó rétt að minnast þess að Višegrad er ekki sami bær og fyrir aðeins tæpum tveimur áratugum. Brúin var aftökustaður hersveita Serba, hér voru múslimar skotnir eða skornir á háls, einir hundrað á nóttu hverri. Fjöldi fórnarlamba er talinn vera á bilinu 1600 til 3000, hér er tölfræðin sjaldnast skotheld. En hvað sem tölum líður þá er líklega besta leiðin til þess að skilja harmleikinn að fletta upp á blaðsíðu 115 í teiknimyndasögu Joe Sacco, Safe Area Goražde, og sjá gamlan mann sleppa frá Višegrad með því að arka yfir tveggja sentimetra djúpan poll af blóði á brúnni með skó fórnarlambanna tvist og bast í blóðpollinum.

Og nú þegar hugtakið fjölmenning er að skjóta föstum rótum á áður einangruðu Íslandinu sem og fleiri Evrópulöndum sem áður voru mun fábreyttari erum við búin að glata mörgum merkilegustu og best heppnuðu fjölmenningarsamfélögum Evrópusögunnar, samfélögum sem höfðu lifað um aldir. Sarajevo, sem áður var merkilegasti suðupottur Evrópu með óteljandi þjóðarbrot og trúarbrögð, er nú nær eingöngu byggð múslimum, ef undan er skilinn serbneski hlutinn, sem er einangraður í bæjarhluta sem fæstir ferðalangar eru líklegir til þess að hafa áhuga á. Í Višegrad er þessu öfugt farið, hér eru engir múslimar lengur þótt áður hafi þeir verið í meirihluta, þeir sem ekki voru drepnir flúðu – og þessi suðupottur menningarheima sem lesa má um í bókum Andrić og Stanišić kemur seint aftur. Bærinn er tvöfalt fámennari, tíu þúsund eru eftir, önnur tíu þúsund látin eða farin. Þar á meðal Saša Stanišić og foreldrar hans, en pabbi hans var serbi og mamman múslimi. Nú býr Saša í Þýskalandi og foreldrarnir í Bandaríkjunum – og enginn er að fara að flytja heim.

Fjölmenningin og listræn óreiðan er eini sannleikurinn um Balkanskagann, þjóðernishyggjan er lygi rómantískra þjóðsagnahöfunda. Serbar, bosníumenn og króatar tala nánast sama tungumálið og eru nauðalíkir, jafnvel trúin er eftiráskýring á átökum sem höfðu lítið með trú að gera, enda hafa íbúar Balkanskagans sjaldnast talist sérstaklega heittrúaðir. Því er varla tilviljun að bók Andrić snýst aðallega um það að afbyggja þjóðsögur og búa til manneskjulegri sögur í staðinn. Hann skilur sem er að það eru mýturnar um þjóðir Júgóslavíu sem ollu allri ógæfu landa hans, ógæfu sem átti bara eftir að magnast eftir hans dag.

En sá Andrić sem skrifaði Brúna á Drínu hafði séð tvær heimsstyrjaldir spretta úr jarðvegi þjóðernishyggju og bjartsýni. Upplifun hans á mannkynssögunni er mörkuð vonbrigðum hans með stjórnmálabaráttu sem svo oft verður mannvonskunni að bráð. En þrátt fyrir óreiðuna sem alls staðar veður uppi í mannkynssögunni þráir Andrić að koma á reglu þar. Hann snýr baki við mannkynssögunni og snýr aftur til hennar í formi skáldskaparins. Þannig togast á andstyggð á mannkynssögunni og umburðarlyndi gagnvart henni. En í leit sinni að hetju kemur hann ekki niður á manneskju, enda eru aðalpersónur mannkynssögunnar, allt frá Rómarkeisurum til Hitlers og Stalíns og nú á seinni tímum Milosevic og Tudjman, fæstir hetjunafnbótar virði.

 

Hirðskáld hins ófullgerða

How the Soldier Repairs the Gramophone

How the Soldier Repairs the Gramophone

Ég les bók Saša Stanišić, Hermaður gerir við grammófón (Veröld gaf út 2007 í þýð. Bjarna Jónssonar), á hótelinu í Sarajevo á meðan síðasti snjór vetrarins fellur fyrir utan. Hún er ókláruð, enda aðalpersónan Aleksandar (sem er í mörgu staðgengill Stanišić sem og nafni og andlegur tvíburi uppáhalds bosnísk-íslensk-austurríska náfrænda míns) sjálfskipað hirðskáld hins ófullgerða. Við sjáum lífið fyrir stríð, skrautlegar persónur og ólíkindaleg atvik beint upp úr Kusturica-mynd – en svo laumast stríðið upp að okkur og skyndilega riðlast öll frásögn bókarinnar, það sem áður var til þess að gera heilstæð línuleg frásögn leysist upp í sendibréf (frá Aleksandar og öðrum honum nákomnum), dagbókarfærslur, ritgerðir og ljóð, tíminn í sögunni fer allur úr skorðum og við taka örvæntingarfullar tilraunir fullorðins Aleksandars til þess að hafa upp á Asíu, stúlkunni sem hann varð viðskila við í Višegrad, sem er um leið tilraun hans til þess að klára allar ófullgerðu myndirnar sem hann hafði teiknað áður. Nú vill hann klára myndina sem áður var ófullgerð, en þetta er brotin þjóð, þjóð skipt í tvo hluta, múslimahlutann og serbahlutann (með stöku króötum inn á milli) og líklega verður þessi mynd ófullgerð um aldir.

En ég þarf að klára söguna mína. Mín saga fjallar um ömmuna, ömmuna sem talar enga ensku og býr enn í Višegrad. Í leigubílnum á leiðinni reyni ég að átta mig á því hvernig ég geti útskýrt fyrir konu sem talar annað tungumál að ég hafi hitt sonarson hennar í fimm mínútur í Reykjavík og sé þess vegna kominn hinum megin í álfuna til þess að heimsækja hana. Og svo er alls ekkert víst að hún sé heima og þá klárast þessi saga aldrei. Hnúturinn í maganum á mér minnkar lítið þegar leigubílstjórinn er ekki að finna réttu íbúðina og klifrar á endanum með mér upp tröppur blokkarinnar sem hún býr í – og nú þarf ég að útskýra leigubílstjórann líka. En svo römbum við á rétta dyrabjöllu og gömul kona með hárið litað dökkt kemur til dyra. Jú, hún heitir Kristina Stanišić. Fyrst er hún skiljanlega örlítið ringluð en um leið og ég hef komið henni í skilning um að ég hafi fengið heimilisfangið hjá Saša þá ljómar hún eins og sólin sjálf og býður mér inn þar sem nágrannarnir sitja og spjalla. Ung stúlka í húsinu er kölluð til þess að túlka, hún getur þó ekki stoppað lengi af því hún þarf að komast í sunnudagsbingóið.

En í áhyggjum mínum yfir tungumálaerfiðleikunum hafði ég gleymt einu – ég var að heimsækja ömmu. Og rétt eins og hjá flestum alvöru ömmum í gervallri veröldinni gefst manni hvort eð er ekkert tóm til þess að tala, því í mann er dælt Baklava og fleiri torkennilegum bosnískum réttum, rótsterku rakíja, bosnísku kaffi og ávaxtadjús. En ég tek að mér hlutverk týnda sonarins, Saša nýtur ekki við en ég verð óvænt tenging hennar við hans heim. Heim skáldskaparins, heim vestursins, heiminn handan þess heims sem við erum stödd í nú. Bókin er rétt óútkomin í Bosníu, þau hafa ekki enn lesið hana enda hvorki talandi á þýsku né íslensku. Seinna hringir pabbi Saša. Þau hjónin búa nú í Bandaríkjunum, hann hefur áhyggjur af því hvað þjóðernishyggjan er orðin sterk þar – og hver veit betur hversu hættuleg þjóðernishyggjan getur orðið en Bosníubúi? Seinna hringir Saša sjálfur, hann spáir réttilega fyrir um nágrannakonurnar sem eru í heimsókn og allan matinn og biður mig að lokum að skila kveðju. Skila kveðju til Drínu.

Af brúnni

Amman biður mig fyrir bréf til Saša og ég skrifa mitt eigið bréf þar sem ég sit og horfi á brúna frá kaffihúsinu við árbakkann. Fáeinir heimamenn standa og dorga og ég segi Saša að ég sé ekki alveg að skilja Višegrad, spyr hann hvort bærinn hafi breyst svona mikið eða hvort maður þurfi kannski að vera barn til þess að skilja þennan bæ, hvort galdrar hans séu faldir fullorðnum, útlendingum. Ég segi honum hvernig bærinn minni mig samt á minn eigin fimmtán þúsund manna heimabæ í Eyjafirðinum – og ég segi honum hversu dýrmætt það sé að tala við fólk sem talar ekki sama tungumál, að tala með höndunum, augunum og fáeinum orðum sem hugsanlega gætu skilist. Ég spyr hann, kannski ættum við bara að hætta að tala?

En ég færi Drínu kveðju hans. Ég sendi henni flöskuskeyti í tómri bjórflösku og segi Saša frá grun mínum um að ég ferðist aðallega út af brúnum. Ég segi honum frá Drekabrúnni í Ljubljana og brúnni í Mostar, Karlsbrúnni sem sendi mér eldingu þegar ég steig undir brúargöngin og kenndi mér að gráta í bíó. Brúin sem ég stend á er aðalpersóna mestu bókmennta þessarar þjóðar, önnur brú er hennar helsta friðartákn. Svo má alltaf kíkja til Mitrovica í Kosovo þar sem brúin er ekki plástur á sárið heldur ókleifur múr milli tveggja menningarheima sem seint munu fyrirgefa. Samt labbaði ég yfir án þess að nokkur varðmanna Sameinuðu þjóðanna stoppaði mig, múrarnir eru nefnilega flestir í hausnum á okkur. Yfir þá múra þurfum við að byggja brýr ekki síður en fljótin. Með skáldskap og ljóðlist jafnt og steinum og steypu. Eða svo ég gefi Alihodzja gamla lokaorðin (sem finna má í íslenskri þýðingu Sveins Víkings á Brúnni á Drínu sem er nánast ófáanleg á Íslandi en er á sínum stað í Ivo Andrić-safninu í Belgrad):

Faðir minn sálugi sagði mér, þegar ég var drengur, og hafði það eftir Sjeh Dedija, hvernig brýrnar hefðu orðið til í veröldinni. Þegar hinn voldugi Allah skapaði heiminn, var jörðin rennislétt og flöt eins og hefluð fjöl. Þetta gramdist fjandanum og vildi ekki unna mönnunum þess að njóta þessarar gjafar drottins. Og þegar jörðin var þarna, rök og mjúk eins og óbrenndur leir, eins og Allah hafði skilið við hana, laumaðist hann að því að klóra með nöglunum í ásjónu jarðarinnar. Og þannig er sagt að árnar og gljúfrin hafi orðið til, sem skilja að bæði lönd og þjóðir og gjöra alla umferð örðuga um þá jörð, sem Allah gaf mönnunum til dvalar og mataröflunar. Þegar Allah kom auga á, hvað paurinn hafði gjört, en sá engin ráð til að laga þetta, þar sem hann vildi ekki snerta á því, sem fjandinn hafði saurgað, sendi hann engla sína til þess að létta mönnum umferðina. Þegar englarnir sáu, að aumingja mennirnir komust ekki yfir gljúfrin og stórfljótin, gátu ekki stundað sín störf, heldur stóðu eins og þvörur og reyndu árangurslaust að kallast á yfir torfærurnar, þá tóku þeir það ráð að breiða út vængina og á þeim gengu menn yfir fljótin. Með þessum hætti kenndu englarnir mönnunum að brúa árnar.

Og þess vegna er það mesta góðverkið – næst því að grafa brunna – að brúa á, og stærsta syndin að eyðileggja brú eða skemma hana, því sérhver brú, hvort heldur er yfir lítinn fjallalæk eða þrekvirkið hans Mehmed Pasha, á sér sinn verndarengil svo lengi sem henni er ætlað að standa.