Jón GnarrFerðalag um sjálfsævisöguleg skrif Jóns Gnarr

Eftir Gunnþórunni Guðmundsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2016

‚Reynslusaga‘ er nokkuð gott íslenskt orð sem er full ástæða til að dusta rykið af og jafnvel hrista svolítið upp í. Vissulega hefur það ekki mjög bókmenntalegan blæ yfir sér, jafnvel mætti segja að það væri notað sem skammaryrði í daglegu tali: „Æ, þetta er svona reynslusaga,“ eða „hún er alltaf að segja einhverjar reynslusögur af sjálfri sér“. Reynslan sem um ræðir er nær undantekningarlaust einhvers konar hörmungar eins og einföld netleit sýnir fram á, en fyrstu 20 færslurnar þar sem orðið kemur fyrir eru allar tengdar alkóhólisma, eiturlyfjum, geðsjúkdómum, misnotkun eða krabbameini. Reynslusögur af þessu tagi eru svo uppistaðan í þeirri bókmenntategund sem hefur verið nokkuð áberandi á metsölulistum síðustu tvo áratugi eða svo og kölluð hefur verið á ensku ‚misery memoirs‘. Þetta eru harmsögur, hörmungasögur eða játningabókmenntir sem gjarnan fjalla um hvernig sögumaður hefur sigrast á hrikalegri reynslu.

Fjölmörg dæmi eru um slíka texta en einn dæmigerður er harmsaga Dave Pelzers A Child called „It“: One Child‘s Courage to Survive (1995; Hann var kallaður „þetta“: barátta drengs fyrir lífi sínu, 2001), sem segir frá skelfilegri misnotkun í barnæsku. Slíkar bækur njóta ekki endilega mikillar virðingar, þær eru nokkuð neðarlega í virðingarstiga bókmenntanna, höfundarnir jafnvel sakaðir um ýkjur og tilbúning, verkin kennd við tilfinningaklám og staða þeirra á sölulistum talin staðfesta þá hugmynd að höfundurinn hafi í ákveðnum skilningi selt sig og fortíð sína. Svona verk hafa þó eins konar tilfinningavald, þ.e. sögur sem segja frá ofbeldi, illri meðferð eða viðlíka, er vandasamt að gagnrýna og vefengja, þótt fjölmörg dæmi séu um vafasama meðferð á staðreyndum í slíkum textum.

Viðtökur þeirra eru um margt athyglisverðar og ýmislegt í umræðunni um slíkar bækur minnir á orðræðu um sjálfsævisöguna almennt sem ávallt hefur loðað við hana, einkum þó metsölusjálfsævisögur. Þetta er gagnrýni sem beinist að því þegar höfundur er talinn hafa gengið of langt í útlistun sinni á fortíðinni og sjálfum sér, farið yfir einhver mörk, ögrað á einhvern ósæmilegan hátt. Þá er ekki litið á slíkar sögur sem ‚bókmenntir‘, heldur einhvers konar óhefta sjálfstjáningu, eins og sögurnar hreinlega frussist út úr höfundinum, formlausar og gersneiddar listfengi. Ekki er laust við að þessar hugmyndir um reynslusögur, játningabókmenntir, eða hvað við viljum kalla þær, hafi komið upp í hugann í umræðunni sem átti sér stað hér á landi fyrir jólin 2015 þegar bækur Hallgríms Helgasonar (Sjóveikur í München), Jóns Gnarr (Útlaginn) og Mikaels Torfasonar (Týnd í paradís) voru spyrtar saman í hóp tilfinningasölukláms.[1] Þær umræður voru ekkert sérlega upplýsandi um verkin sem um ræðir, en sögðu manni þó nokkuð um staðsetningu sjálfsævisögunnar í stigveldi bókmenntanna. Ekki síður var það athyglisvert að sjá hvernig það horfir við þegar karlmenn segja reynslusögur, því að ekki hefur maður orðið var við slíkar viðtökur við sjálfsævisögulegum verkum Elísabetar Jökulsdóttur, Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur eða Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur á umliðnum árum, en allar hafa þær leikið sér með sjálfsævisögulega formið á einhvern máta.[2]

En við gætum líka notað orðið ‚reynslusaga‘ yfir annars konar bókmenntir (sem þó geta á stundum skarast við flokkinn hér að ofan), þ.e. þær sem byggja á þeirri hugmynd að reynsla veiti þekkingu, jafnvel kennivald, eins og í vel þekktum enskum frasa ‚the authority of experience‘. Sá frasi heyrðist oft í baráttu ýmiss konar hópa fyrir réttindum sínum á liðinni öld. Þá varð stundum sjálfsævisagan fyrir valinu sem baráttutæki, verkfæri sem hentaði einmitt vel til að koma röddum sem lítt höfðu heyrst á framfæri. Þá er talað í nafni reynslunnar af því að tilheyra ákveðnum kúguðum hópi vegna litarháttar, kyns, kynhneigðar o.s.frv. Í þess konar reynslusögum er höfundur fulltrúi hóps, hans líf er á einhvern hátt dæmigert fyrir örlög og hlutskipti hópsins og sagan getur mögulega breytt einhverju þar um. Lesendur fá tækifæri til að lifa sig inn í líf höfundarins og þannig kynnst af eigin ‚raun‘, ef svo má segja, stöðu hans, áttað sig á þörfinni fyrir breytingar og tengt betur við slíka frásögn heldur en abstrakt pólitíska umræðu. Ákveðinn boðskapur liggur því gjarnan til grundvallar, þær eru ákall um athygli, um breytingar og eitt af höfuðritum slíkra sagna væri þá The Autobiography of Malcolm X sem Alex Haley skrifaði.

Reynsla á þessum vettvangi gefur rétt á rödd, á frásögn, en þá fylgir sá böggull skammrifi að sá sem hefur ekki reynslu hefur ekki rödd, sem er kannski ekki ákjósanleg niðurstaða. Reynsla er þá prófsteinn á þekkinguna, kennivaldið, og íslenska orðtakið að þessi eða hinn ‚hafi aldrei migið í saltan sjó‘ lýsir hugsuninni þar að baki í hnotskurn. Sú hugmynd býður þó þeirri hættu heim að freistandi verður að búa sér til slíka reynslu, að þykjast hafa migið í saltan sjó, jafnvel að taka reynslu annarra og gera að sinni. Reynslan verður í svona tilvikum eftirsóknarverð því hún veitir ákveðið vald. Falsanahættan er þó ekki síður bundin við fyrri flokkinn þar sem markaðurinn fyrir reynslusögur hefur oft reynst mun gjöfulli en fyrir skáldsögur.3 Þrátt fyrir þessa margvíslegu fyrirvara þá eru reynslusögur sem eru settar fram til skilnings og meðvitundar um ákveðna pólitíska eða samfélagslega sýn oft merkilegt og frumlegt framlag í pólitíska baráttu og sumar þeirra hafa ótvírætt bókmenntalegt gildi.

 

Minningar og skáldskapur

Útlaginn (2015)

Nú um síðustu jól birtist þriðja bindið í sjálfsævisögulegum bókaflokki Jóns Gnarr sem er unninn í samvinnu við Hrefnu Lind Heimisdóttur. [4] Indjáninn kom út 2006, þá Sjóræninginn 2012 og nú síðast Útlaginn 2015. Bækurnar hafa notið töluverðra vinsælda, vakið þó nokkra athygli og umtal og verið þýddar á nokkur tungumál. Fyrri tvær bækurnar báru undirtitilinn skálduð ævisaga, en það gerir Útlaginn ekki, en ekki er laust við að manni þyki að hér hafi verið full ástæða til að halda í þann undirtitil af viðbrögðunum að dæma, en sem frægt er hafa fyrrverandi skólafélagar á Núpi og fleiri mótmælt ýmsu sem fram kemur í frásögninni. [5] Það er þó kannski ekki einfalt að átta sig á hvað titillinn ‚skálduð ævisaga‘ þýðir – spurningar vakna á borð við hvað er ‚skáldað‘ og hvað ekki og eru til sjálfsævisögur þar sem skáldskapur kemur ekki við sögu?

Verkin þrjú eru uppvaxtarsaga; barnæska og unglingsár eru skoðuð í baksýnisspeglinum og eins og oft er undir ákveðnum formerkjum. Í eftirmála Indjánans undir titlinum „Fáein orð frá höfundi“ segir: „[Bókin] er ekki alveg sönn. Þó er engin bein lygi í henni. […] Ég skrifa eftir minni. Sumt man ég hreinlega ekki og þarf því að stóla á minni annarra.“ [6] Þessi hugsun hefur hljómað í aðfaraorðum, inngöngum og eftirmálum sjálfsævisagna um langa hríð og eru dæmin of mörg til að hér verði upp talið. Nærtæk íslensk dæmi eru þó inngangsorð Guðbergs Bergssonar að minningabók sinni Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar (1997) og umfjöllun Sigurðar Pálssonar um minnið í Bernskubók (2011). [7] Innihaldið er gjarnan á þá leið að sannleikurinn í sjálfsævisögum byggi fyrst og fremst á minni þess sem skrifar, ekki á ítarlegum sagnfræðilegum rannsóknum og því er sannleikurinn einstaklingsbundinn, bundinn við skilning höfundarins á sjálfum sér og sinni sögu, sínu minni, sinni sjálfsmynd, frekar en sannreynanlegum atburðum. Minnið er brigðult, óáreiðanlegt og minningar þróast og breytast með tímanum, sem hráefni frásagnarinnar er það óstabílt efni en óskaplega heillandi og knýjandi að koma því í orð.

Fyrirvarar sem þessir eru einhvers konar ákall til lesandans, tilraun til að koma á sambandi og hafa áhrif á lesháttinn, en einnig ákveðin leið til að fría sig ábyrgð á því að aðrir gætu haft allt aðrar hugmyndir um eða minningar af sömu atburðum. Það telst nú eiginlega ekki til tíðinda að sjálfsævisagan sé ekki sagnfræði í hefðbundnum skilningi, Halldór Laxness segir til dæmis í Úngur ég var: „Sögu sín sjálfs getur einginn sagt, hún verður því meira þrugl sem þú leggur meira á þig til að vera sannsögull.“ [8] En kannski felst vandinn í því að í umræðunni er ekki endilega haldið til haga muninum á ævisögunni, sem byggir á rannsóknum á heimildum og þvíumlíku, og sjálfsævisögunni sem að jafnaði byggir fyrst og fremst á minninu, sjálfsskilningi og sjálfsmyndartilbúningi. Þá fylgir oft að höfundur lýsi því jafnframt yfir að hann sé alls ekki að skrifa sjálfsævisögu, Guðbergur Bergsson nefndi sínar minningabækur ‚skáldævisögu‘, Halldór Laxness kallaði sínar ‚essay rómana‘, og viti menn, næst í eftirmála Indjánans segir:

Ég yrði miður mín ef þessari bók og þeim sem á eftir fylgja yrði tekið sem ævisögum. Ég mun gera athugasemd við það ef eitthvað bókasafn flokkar bókina sem endurminningar eða ævisögu. Af hverju? Vegna þess að endurminning er skáldskapur. Öll minning er skáldskapur. Heili okkar er mesti blekkingameistari alheimsins. Tveir menn geta haft mismunandi minningu frá sama atviki. (I, 221)

Það má gleðja höfundinn með því að á Landsbókasafninu eru öll þrjú bindin flokkuð með skáldsögum undir flokkunartölunni 813. En bíðum nú aðeins hæg, því það er langt því frá að afstaða höfundarins til verkanna sé á einn veg, innan verks eða utan, og þótt eftirmálar og undirtitlar séu góðra gjalda verðir þá er margt annað sem ræður leshætti verkanna. Í ‚paratextanum‘ (þ.e. öllu sem hangir við bókina án þess að vera beinlínis hluti af textanum sjálfum: viðtöl, umfjöllun, káputexti o.s.frv.) er nokkuð eindregið gefið til kynna að þetta sé sjálfsævisögulegt verk, þrátt fyrir fyrirvara. Í viðtölum um verkin, sem eru fjölmörg, er áherslan fyrst og fremst á að þetta séu sögur úr uppvexti Jóns, hans minningar, hans reynsla. [9] Þetta eru sögur af fjölskyldu hans, skólagöngu, vinum og ekki síst af hans líðan og sjálfsmynd. Það er því óhjákvæmilegt að viðbrögðin ráðist nokkuð af því og að verkið sé lesið sem sjálfsævisögulegt, sem ‚reynslusaga‘, frekar en skáldsaga. Það kann að hljóma einkennilega að fólk mótmæli því sem stendur í bókmenntatextum, en þegar umfjöllunarefnið er einhvers konar ofbeldi, ill meðferð og þess háttar – í raun sögur af glæpsamlegu athæfi – þá flækjast gjarnan málin. Því verri sem ‚reynslan‘ er, því berskjaldaðri er höfundurinn fyrir ásökunum um rangfærslur og ónákvæmni.

Í verkunum er líka lögð nokkuð eindregin áhersla á það hvernig reynslan hafi mótað sögumann og skýri hans pólitísku afstöðu og lífssýn. Reynslan er sögumanni mikilvæg, mótandi og alltumlykjandi. Mikið er lagt upp úr því með öllum sögunum sem sagðar eru, að þessi reynslubanki sé lykillinn að manneskjunni, persónunni sem skrifar. Því gæti mögulega orðið góða, „reynslusaga“ leyst okkur úr mótsögnunum og flæktri snöru flokkana í bókmenntagreinar sem verkin, höfundurinn og paratextinn hafa hnýtt.

 

Utangarðsbarnið

Indjáninn

Indjáninn (2006)

Bækurnar byggjast fyrst og fremst upp á fjölmörgum stuttum anekdótum, meira og minna í tímaröð frá barnæsku til unglingsára, en tónninn í frásögninni, tungutakið og andrúmsloftið sem er skapað er kunnuglegt úr öðrum verkum Jóns eins og Fóstbræðrum og Vakta-þáttunum. [10] Í upphafi Indjánans segir frá fæðingu sögumanns: „Tilkoma mín var algjört reiðarslag fyrir fjölskyldu mína“ (I, 9). Hér gæti persóna Jóns úr síðarnefndu þáttunum, Georg Bjarnfreðarson, verið að tala, en tal hans einkenndist oft af yfirþyrmandi og útblásnum fullyrðingum, í tegund af gríni sem þrungið er alvöru, trega og jafnvel sorg. Þessi stílbrögð einkenna margar af þeim sögum sem sagðar eru, gefa þeim kraft og þótt þær séu ekkert grín, eru þær á stundum bráðfyndnar.

Áberandi er frá byrjun hvernig sögumaður staðsetur sjálfan sig stöðugt utan við samfélag og félagsskap, hvort sem það er í fjölskyldunni, meðal jafnaldra eða í skóla og áhrifin sem þetta hefur á sjálfsmynd og tilfinningalíf sögumanns er í forgrunni. Þetta er sköpunarsaga úrkastsins, utangarðsmannsins, og staða hans í heiminum er sögð hafa verið ljós frá byrjun: „En eftir fæðinguna blasir önnur hryllileg staðreynd við: Ég var rauðhærður“ (I, 10). Hann er umsvifalaust útlægur ger úr fjölskyldunni því í augum ömmunnar sýnir háraliturinn að hann sé „bastarður, svartur sauður í glæsilegum sauðahópi, og ljótur blettur á fjölskyldumyndinni“ (I, 10). Sjálfsmyndarsköpunin er því skýr frá byrjun: Hann er óvelkominn, öðruvísi en aðrir og jaðarsettur frá fyrstu stundu. Þannig lýsir hann upphafi sínu og æsku og hann samsamar sig fljótt við aðra jaðarhópa, þá sem hugsa öðruvísi og lifa á annan máta. Hann lýsir því yfir að hann sé indjáni en ekki kabboji, kabbojar eru nefnilega ferkantaðir, en indjánarnir frjálsir (I, 40–41).

Eins og áður segir samanstendur textinn fyrst og fremst af stuttum anekdótum, en er þó á stundum brotinn upp, t.d. með tveimur skýrslum frá geðdeild Barnaspítala Hringsins, sem lýsa drengnum að því er virðist frá sjónarhóli læknavísindanna: „Hann virðist mjög fjarlægur fólki, félagsleg aðlögun er langt á eftir því sem svarar til aldursins“ (I, 51). Ekki er lagt neitt frekar út af þessum skýrslum, þær eru þarna sem eins konar sönnun fyrir bágri stöðu barnsins og eiga þá væntanlega að skýra margt sem á eftir fer (hvort sem þær eru tilbúningur eða ekki). Skólagangan byrjar strax illa og versnar svo og er það rauði þráðurinn í gegnum verkin þrjú. Skólinn stendur þá fyrir ‚kerfið‘ í heild sinni; kerfið sem getur ekki tekið á móti ‚indjánum‘ heldur bara ferköntuðum ‚kabbojum‘. Hann getur ekki lært og varla hugsað: „Ég er að reyna að hugsa en ég get það ekki“ (I, 83). Og á endanum verða allir þreyttir á honum. Þetta ástand er gegnumgangandi í allri hans skólagöngu og um tilraunir sínar til náms á unglingsárum segir í Útlaganum að hann hafi verið eins og „haltur maður að taka þátt í kapphlaupi eða á einhvern hátt að reyna að gera eitthvað sem ég væri líkamlega ófær um“. [11] Þetta basl hans með lærdóminn og baráttan við skólakerfið setur mark sitt á allan hans uppvöxt og veldur endalausum vandamálum. Hér er jaðarsetningin ekki uppspretta gefandi krafta og skapandi hugsunar eins og rómantískar hugmyndir um slíkar manneskjur segja til um, heldur veldur þetta fyrst og fremst vanlíðan og einsemd: „Mér finnst ekki gott að vera svona. Ég er einhvern veginn krumpaður inni í mér og ég ræð ekki við það. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Mér finnst ég vera týndur lengst inni í mér og ég rata ekki út“ (I, 84).

Lýsingarnar á foreldrunum eru í senn áhrifamiklar og óvenjulegar. Einkennilega tilfinningasöm hegðun föðurins þegar sonurinn biður hann um peninga er lýst á allt að því óbærilega nákvæman hátt; nándin verður þrúgandi, og frásögnin er harmræn og fáranleg í senn (I, 112–113). Móðurinni er á köflum lýst sem mjög svo fjarrænni og kaldri, en stundum er hún eina manneskjan sem sögumaður talar við. Sögumanni finnst hún svíkja sig, t.d. lýsir hann því svo þegar hann er sendur í sveit, grætur óskaplega í símtali við móður sína, sem lætur síðan eins og ekkert hafi í skorist og skrifar honum bréf um hvað hún sé ánægð með að honum finnist svona gaman í sveitinni (I, 169). Sögurnar af þeirra sambandi eru oftlega eins og vitnisburður um liðinn tíma og viðhorf horfinnar kynslóðar.

Allt ber þetta að sama brunni; hann er einn og á hvergi heima. Í fyrsta bindinu er varla nokkur lausn, það birtir lítið til og lokaorð Indjánans eru: „Ég hef engan til að tala við. Það er enginn sem segir mér neitt. Það finnst engum vænt um mig. Ég er ljótur og leiðinlegur og heimskur. Ég er eins og Gúmmítarsan. Ég er einn í heiminum. Ég er indjáni“ (I, 220).

 

Að vera utangarðs með öðrum

Reynslusögur eru þroskasögur og það er þessi svo sannarlega líka. Þroskasögur eru markaðar hvörfum, ákveðnir atburðir eru sagðir breyta þróuninni, kenna manni eitthvað, veita manni þroska og breyta þannig lífskúrsinum. Hvörf og vendipunktar eru hluti af tungumáli sjálfsævisögunnar, eins og Michael Sheringham hefur bent á, og ýmist gefa fortíðinni ákveðna byggingu og skipulag eða standa sem myndlíkingar, á einhvern hátt skáldleg hugmynd um reynslu og fortíð. [12]

Öll þurfum við einhverja samsömun við annað fólk og fyrstu hvörfin sem færa sögumanni slíka tilfinningu verða þegar hann sér leikritið Ofvitann og verður fyrir vitrun (I, 181). Rauðhærða skáldið sem barðist við skólakerfið og samfélagið fyrir tilvist sinni, skrifaði svo um það ódauðleg verk verður hin bókmenntalega fyrirmynd.[13] Hér eins og víða annars staðar sver verkið sig í ætt við bókmenntir um hlutskipti þess sem er öðruvísi en aðrir. Sjálfsævisaga útlagans er nefnilega allt að því jafngömul forminu. Jean-Jacques Rousseau skrifaði sínar Játningar til að sýna fram á hvernig hann hefði verið stöðugt á skjön við allt og alla og hvorki fjölskyldan né menntakerfið hafði nokkurn áhuga á honum. Honum tókst engu að síður að finna lykilinn að sjálfum sér fyrst og fremst í gegnum sjálfskoðun og sjálfsuppgötvun. Játningarnar eru þá tæki til að sýna öðrum inn í hugarheim þess sem fyrir utan stendur, burtséð frá því hversu mikið sú útlegð er sjálfskipuð eða jafnvel tilbúningur.

Sjóræninginn (2013)

Sjóræninginn (2012)

Önnur hvörf verða þegar Jón finnur utangarðsmenninguna sem talar til hans og fyrir hann eins og lýst er í Sjóræningjanum. Pönkið verður hans bjargvættur og býr til handa honum lífssýn og sjálfsmynd. Pönkið er eins og sérstaklega fundið upp fyrir hann, fyrir þá sem eru á jaðrinum og kerfið útilokar. Og pönkinu fylgir anarkisminn sem höfðar alveg sérstaklega til hans. Í kaflanum „Anarkistalandið“ í Sjóræningjanum er nokkurs konar kennslustund um anarkisma. Helstu stefnumál anarkismans eru útskýrð fyrir lesandanum, en þá ekki bara í sögulegu ljósi stefnunnar sjálfrar, heldur má þar sjá kirfilegan samslátt persónulegrar reynslu, persónugerðar, tilfinninga og pólitískra kerfa. Hér er ekki um að ræða analýtíska fjarlægð á viðfangsefnið, heldur fremur allsherjar sýn á kerfið sem byggir fyrst og fremst á tilfinningum og persónulegri reynslu. [14]

Því má sjá umræðuna um anarkismann í verkunum sem einhvers konar útskýringu eða upprunasögu pólitíkur Besta flokksins. Þessi tegund af stjórnmálaumræðu, reynsluviðhorfið, var oft áberandi í borgarstjóratíð Jóns Gnarr. Þetta átti til dæmis við um deilur um skólakerfið: „Það er ónýtt því það brást mér“, var gjarnan viðkvæði Jóns – en slíkar skoðanir og fullyrðingar voru misvinsælar meðal skólafólks og stjórnmálamanna. Í viðtali við Vísi 2011 gagnrýnir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri-Grænna, Jón fyrir að rifja stöðugt upp eigin reynslu af menntakerfinu þegar mikill niðurskurður blasti við: „Borgarstjóri fór upp í pontu og lýsti skólagöngu sinni. Þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti sem hann fer yfir það hvernig honum leið þegar hann var í skóla. Hann minntist hins vegar ekki einu orði á börnin sem núna eru í skóla,“ sagði Sóley og bætti því við að hún bæðist „undan því að borgarstjóri kæmi fram með sínar persónulegu reynslusögur án þess að leggja neitt til málanna.“[15] Reynslusagan á nefnilega ekki alltaf uppá pallborðið. Svona viðhorf byggja ekki á rannsóknum eða ráðgjöf þeirra sem þekkja til, þau hafna þannig ‚prófessjónalisma‘ sem hluta af kerfinu og þá ræðst umræðan fyrst og fremst af fortíð og reynslu þess sem talar.

En pönkið er ekki bara pólitík. Tónlistin var líka fyrir sögumann frelsandi afl, eða eigum við að segja, hefði getað verið það. Sögurnar af hljómsveitarferlinum flækja nefnilega aðeins áhrif þessara hvarfa sem vendipunkts og upphafs að nýrri sjálfsmynd í verkinu. Draumar hans virðast hafa ræst þegar hann stofnar hljómsveitina Nefrennsli, en hann ræður ekki alveg við að verða þessi nýi Jón og finnst algjörlega óbærileg tilhugsun að koma fram á tónleikum. Ferlinum lýkur þegar hann lætur sig svo detta fram af sviðinu frekar en að syngja (S, 131). Hér er það ekki kerfið eða samfélagið sem er honum mótdrægt, heldur hans eigin vandræðagangur og klúður. Engu að síður var pönkið það eina sem gilti, annað var drasl, og smám saman tók hringurinn að þrengjast meir og meir þar til að eina hljómsveitin sem var eftir var Crass. Sögumaður skilur ekki hvernig fólk getur hlustað á nokkuð annað: „allir voru tónlistarlegar hórur. Það hélt enginn tryggð við neitt“ (Ú, 333).

Sambandsleysi, einangrun, einelti og vanlíðan eru gegnumgangandi og ná einhvers konar hápunkti, eða ættum við að segja lágmarki, í Útlaganum. Þar eru unglingsárin undir, bókin er sú lengsta í flokknum, enda liggur sögumanni ýmislegt á hjarta. Fyrri hlutinn fjallar einkum um dvöl sögumannsins á Núpi í Dýrafirði, þeim sögufræga heimavistarskóla sem fjölmargir svokallaðir ‚vandræðaunglingar‘ úr bænum voru sendir í og margar sögur gengu um. Og síðari hlutinn eru árin sem fylgja á eftir, þar sem hann reynir fyrir sér í ýmiss konar verkamannavinnu og kannski ekki síður í atvinnuleysi. Í þeim hluta verða enn mikilvæg hvörf. Í samsömun sinni við pönkið, anarkismann og síðar krakkana á Núpi og á Hlemmi hafði hann öðlast einhvers konar sjálfsmynd, þó brothætta, sem veitti honum aðgang að lífinu á einhvern máta. Vendipunkturinn verður hins vegar þegar gerð er aðgerð á typpinu á honum sem verður til þess að unglingasjálfsmyndin hrynur. [16]

Hann missir smám saman sjálfsmyndina og vitundina sem pönkið og anarkisminn gaf honum, eftir typpaaðgerðina verður hann ekkert: „Ég var ekki einu sinni Jónsi pönk lengur“ (Ú, 261). Smám saman finnur hann einhvern grundvöll á ný, flytur að heiman, kynnist nýju fólki og gerist svo „tónlistarleg hóra“ eins og hinir og breytist í nýbylgjutöffara (Ú, 348). Skyndilega er hann vinmargur, sefur hjá stelpum og virðist vera orðinn nokkurn veginn partur af meginstraumssamfélaginu. En tímabilið einkennist af miklu djammi, drykkju og pillum af ýmsum sortum. Gefið er í skyn að þetta geti ekki verið lausnin eða leiðin út. Lokahvörfin verða svo þegar hann fær einhvers konar flogakast eftir mikla djammsessjón og ‚endurfæðist‘. Hann verður fyrir vitrun, frelsast frá fyrra lífi og fyrra sjálfi, og lokaorðin eru: „Ég er frjáls“ (Ú, 384). Líkamlegt áfall hefur leitt til nýrra tíma, nýs manns. Hvörfin í verkinu gefa því ákveðinn strúktúr, tilfinningu fyrir tímanum fyrir og eftir, og endurfæðinguna í lokin má sjá sem myndlíkingu fyrir möguleikann á því að frelsast frá óhamingju og einangrun.

Í inngangi að Indjánanum er að finna hálfgerð manifesto fyrir verkið:

Allt sem þú gerir breytist í reynslu. Sérhver reynsla er eins og dásamleg uppgötvun. Heilinn man, dregur ályktanir og kemur með tillögur að rökréttu framhaldi miðað við aðstæður. Fortíðin tekur að hlaðast upp eins og óflokkaður ruslpóstur. Hún kemur í humátt á eftir þér, hvert sem þú ferð. Þú berð hana á bakinu eins og svartan ruslapoka. Hún verður leiðarvísir þinn inn í framtíðina, tæki til að takast á við það sem bíður þín þar. Sérhver framtíð verður umsvifalaust að fortíð um leið og þú kemur að henni. Og eftir því sem fortíðin stækkar því fleiri skoðanir hefur hún á framtíðinni. Áður en þú veist af byrja fortíðin og framtíðin að slást um hylli þína. Þú hættir að undrast yfir kraftaverki tilveru þinnar. Allt verður venjulegt. Ævintýrið missir að lokum töframátt sinn og verður aðeins röð hversdagslegra atburða. En inni á milli fortíðar og framtíðar er núið, staðurinn sem þú komst frá áður en allt hófst. Núið er eins og kaffi. Þú klárar það og eftir situr bara korgurinn. Og þú lærir að best er að drekka það heitt. (I, 7–8)

Það er kannski ekki sérlega auðvelt að fylgja hér röksemdafærslunni eða myndmálinu eftir frá reynslu til ruslpósts og kaffikorgs, en þó má segja að reynslan sé í öndvegi og áhrif hennar á líf okkar allra. Frásögnin af þeirri reynslu er fjörleg, litrík og grótesk í verkunum, en verður stundum höktandi, myndmálið stirt og stundum nokkuð um endurtekningar. En frásagnarmátinn er líka fullur af ákefð og einlægni og skýrri þörf fyrir að á hann sé hlustað.

Hér á undan var minnst á reynslusögur sem einhvers konar biblíur ákveðinna hópa og það má spyrja sig hvort með þessum þríleik sé Jón Gnarr orðinn að talsmanni útlagans, hins einelta, unglingsins sem er á skjön við kerfið og annað fólk, alfarið burtséð frá því hvort aðrir hafi aðrar minningar af þessum atburðum sem lýst er. Fyrri bækurnar tvær eru víða kenndar í skólum landsins og njóta mikilla vinsælda á þeim vettvangi. Sögumaður segir okkur að hann hafi verið úthrópað utangarðsbarn, en við vitum að allt fór vel, við þekkjum frama hans sem grínista, höfundar og borgarstjóra. Þarna geta hinir eineltu og utanveltu fengið samhljóm við eigin tilfinningar. Reynsla hans veitir huggun, reynsla hans bendir á leið út.

Að ferðast um þessi þrjú verk Jóns Gnarr er athyglisverð upplifun, augljóst er að honum liggur mikið á hjarta, það er einhver knýjandi þörf í textanum, stundum eins og hann vilji öskra í eyrað á manni óþægilegar sögur sem maður vill ekkert endilega heyra. Úr verður upprunasaga manns sem hefur átt merkilegan feril og haft alls konar áhrif á ólíkum sviðum sjónvarpsgríns og íslenskrar stjórnmálaumræðu. Verkin sem Hrefna Lind Heimisdóttir og Jón Gnarr hafa sett saman eru í senn vitnisburður um ákveðinn tíma, ákveðna pólitík og pólitískt tæki eða jafnvel sjálfshjálpartæki fyrir aðra í sömu sporum. Þau eru nú kannski ekki Alex Haley og Malcolm X, en ekki Dave Pelzer heldur. Verkin sverja sig í báðar hefðir; hefð harmsagna og hefð pólitískra upprunasagna og dansa þar á línu skáldskapar, endurminninga og boðskapar.

 

Tilvísanir

  1. Miklar umræður sköpuðust í athugasemdakerfum og á samfélagsmiðlum einkum í kjölfar tveggja greina: Guðbergur Bergsson, DV 27. október 2015. Sá pistill er ekki lengur aðgengilegur á vef DV. Óttar Guðmundsson, „Harmsaga ævi minnar“, Fréttablaðið, 31. október 2015, http:// www.visir.is/harmsaga-aevi-minnar-/article/2015151039849.
  2. Hér mætti nefna ýmis verk eftir þessa höfunda, en sjá t.d. Elísabet Jökulsdóttir, Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett (2014), Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, Stúlka með höfuð (2015), Oddný Eir Ævarsdóttir, Blátt blóð: Í leit að kátu sæði (2015).
  3. Nokkuð hefur verið fjallað um slíkar falsanir, en ég læt hér nægja að nefna tvær greinar á íslensku, sjá Hermann Stefánsson, „Strengurinn á milli sannleika og lygi: Um lygadverga og lasið fólk“, Ritið 2004:3, bls. 93–102 og Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Blekking og minni: Binjamin Wilkomirski og helfararfrásagnir“, Ritið 2006: 3, bls. 29–51.
  4. Hrefna Lind Heimisdóttir lýsir því í viðtali hvernig hún hafi komið að tveimur seinni bindunum í flokknum og má þá líta á verkin sem samvinnuverkefni. Höskuldur Daði Magnússon, „Stígur fram úr skugga Jóns Gnarr“, Fréttatíminn, 17. nóvember 2015, http://www.frettatiminn. is/stigur-fram-ur-skugga-jons-gnarr/.
  5. Sjá frétt í Stundinni um viðbrögð samnemenda frá Núpi: Hjálmar Friðriksson, „Birgitta Jónsdóttir segir að Jón Gnarr eigi að leiðrétta ásakanir um hópnauðgun í bók sinni“, 6. nóvember 2015, http://stundin.is/frett/birgitta-telur-ad-jon-gnarr-eigi-ad-leidretta/.
  6. Jón Gnarr, Indjáninn, Reykjavík: Mál og menning, 2014 (fyrst útg. 2006), bls. 221.
  7. „Ævisögur eru ekki til, strangt á litið, því fátt glatast jafn algerlega og ævi manns […] Þetta verk er því sagnfræðilega rangt. Því er einungis ætlað að vera nokkurn veginn rétt, tilfinningalega séð, hvað höfundinn varðar.“ Guðbergur Bergsson, Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar, Reykjavík: Forlagið, 1997, aðfaraorð. „Minnið er stöðugt að leita að sannleika þeirrar mósaíkmyndar sem við erum, myndar sem er í sífelldri mótun. Þannig býr minnið okkur til úr skáldskap sem vissulega er byggður að einhverju leyti á svonefndum raunveruleika.“ Sigurður Pálsson, Bernskubók, Reykjavík: JPV, 2011, bls. 56.
  8. Halldór Laxness, Úngur ég var, Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1990 (fyrst útg. 1976), bls. 236.
  9. Sjá til dæmis viðtal Egils Helgasonar við höfundinn í sjónvarpsþættinum Kiljunni 21. október 2015 og finna má í lengri útgáfu á vefnum, http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/vidtal-vid-jongnarr.
  10. Jón Gnarr var einn af höfundum og leikurum í sketsþáttunum Fóstbræðrum sem sýndir voru á Stöð 2 frá 1997, leikstjórar voru Styrmir Sigurðsson, Óskar Jónasson, Sigurjón Kjartansson og Ragnar Bragason. Vakta-þáttaraðirnar eru þrjár: Næturvaktin, Dagvaktin, Fangavaktin (2007–2008) og svo kom kvikmyndin Bjarnfreðarson (2010), Ragnar Bragason leikstýrði.
  11. Jón Gnarr og Hrefna Lind Heimisdóttir, Útlaginn, Reykjavík: Mál og menning, 2015, bls. 302.
  12. Sjá t.d. grein Michaels Sheringham, „Autobiographical turning points: Remembering and forgetting“, Literator 36(2), grein #1229, http://dx.doi.org/10.4102/lit.v36i2.1229.
  13. Soffía Auður Birgisdóttir bendir á þessar tengingar milli Jóns Gnarr og Þórbergs, sjá Ég skapa – þess vegna er ég, Reykjavík: Opna, 2015, bls. 280–282.
  14. Jón Gnarr, Sjóræninginn, Reykjavík: Mál og menning, 2012, bls. 211.
  15. „Barnæska borgarstjóra ótengd niðurskurði í menntamálum“, Vísir 2. febrúar 2011, http://www.visir.is/barnaeska-borgarstjora-otengd-nidurskurdi-i-menntamalum/article/2011242225664. Margar fleiri tengingar væri hægt að gera milli verkanna og pólitíkur Jóns og Besta flokksins, en ég læt öðrum það eftir.
  16. Um nákvæmni lýsinga Jóns á aðgerðinni sem var gerð er nokkuð deilt. Sjá skýringar áaðgerðum sem um ræðir Sigurður Sverrir Stephensen, „Drengjatyppi (í bókmenntalegum skilningi)“, Kvennablaðið, 19. desember 2015, http://kvennabladid.is/2015/12/19/drengjatyppii-bokmenntalegum-skilningi/.