Eftir Silju Aðalsteinsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2008

Mér hefur alltaf fundist Grænland minna en Ísland – óljós hvít klessa fyrir ofan stórt hvítdoppótt Ísland. En reyndar hef ég aldrei velt fyrir mér stærðarmun landanna fyrr en í september síðastliðnum. Þá var haldin í bænum Qaqortoq á suð-vestur Grænlandi, þar sem hét Eystribyggð til forna, ráðstefna um byggð norrænna manna á Grænlandi á miðöldum. Ráðstefnugestir fóru víða, á sjó og í lofti, og mér fannst við hafa farið yfir geysimikið svæði. En þegar þetta svæði var skoðað á landakorti Grænlands var það bara eins og nett blýantstrik á því glannalega flæmi. Þá áttaði ég mig á því að á móti hundrað og þrem þúsund ferkílómetrum Íslands þekur Grænland tvær milljónir og tvö hundruð þúsund ferkílómetra. Það er tuttugu sinnum stærra! Og gersamlega töfrandi.

Við flugum til Narssarssuaq, flugstöð með hóteli innst í Eiríksfirði (Tunugdliarfik), og gistum þar fyrstu og síðustu nóttina. Þar hefur verið sett upp talsvert safn um bandaríska herstöð og stóran herspítala sem þarna var á stríðsárunum og fram á sjöunda áratuginn. Hafði til dæmis verið safnað minningum Bandaríkjamanna sem þar höfðu dvalið, m.a. lækna og hjúkrunarfólks. Það vakti þá spurningu hvort ekki yrði slíkt safn þáttur í starfseminni sem nú er í yfirgefnu herstöðinni á Miðnesheiði.

Brattahlíð, bær Eiríks rauða, er beint á móti Narssarssuaq, hinum megin við fjörðinn, og þangað sigldum við strax nýlent. Ég hugsa að ég hafi ekki verið ein um að taka tugi mynda af hafísnum sem sigldi hátíðlega allt í kringum bátinn. Maður verður hálfvitlaus af að sjá svo óvænta sjón. Hlíðarnar upp af Narssarssuaq voru alvaxnar birkikjarri sem skartaði brjálæðislegri litablöndu af grænu, gulu, rauðu og brúnu. Í Brattahlíð er dálítið þorp þar sem einkum búa sauðfjárbændur og okkur var sagt að þeir væru uppi á fjalli að smala þegar við spurðum hvers vegna ekki sæist neitt heimafólk á stjái. Þarna hefur verið endurgerður bær sem minnir á þjóðveldisaldarbæinn í Þjórsárdal og dálítið bænhús, og var gaman að skoða hvort tveggja.

Daginn eftir sigldum við í fögru veðri um það bil hundrað kílómetra leið niður eftir Eiríksfirði (allur er hann helmingi lengri en leiðin frá Reykjavík að Gullfossi) og komum við í Igaliko þar sem biskupssetrið Garðar var á miðöldum. Þar eldaði brosmildur innfæddur kokkur handa okkur indæla kjötsúpu. Síðan sigldum við yfir í Julianehåbsfjörð til Qaqortoq sem áður hét Julianehåb. Þar var ráðstefnan haldin í Samkomuhúsi staðarins, myndarlegu gömlu félagsheimili og leikhúsi við ána sem rennur gegnum bæinn. Bærinn er sláandi þegar siglt er inn í höfnina, byggður á granítklettastöllum og alskreyttur tröppum frá götunum upp að húsum. Úr fjarlægð minntu þær á músastiga. Húsin eru litrík og byggðin til að sjá eins og fallegur dúkkubær með sínum bláu, beiku, gulu og rauðu timburhúsum.

Og bærinn reyndist ekki bara fallegur til að sjá. Hann var ævintýri að skoða, bæði vegna landslagsins og húsanna (sem enginn gróður skyggði á, þarna eru engin tré og fáir bílar því engir vegir liggja frá bænum og meiri ástæða til að eiga bát en bíl), en einkum þó vegna listaverkanna sem prýða hann. Fyrir fimmtán árum ákvað bæjarstjórnin að koma í verk hugmynd grænlensku listakonunnar Aka Høegh og bjóða norrænum listamönnum að skreyta bæinn. Verkefnið hlaut heitið “Steinn og maður”, og árið 1993 mættu ellefu myndhöggvarar með meitla sína og hamra til leiks. Þeir fengu fullt frelsi til að velja sér stað og viðfangsefni, og bæjarbúar fylgdust hugfangnir með þeim umbreyta grjóthnullungum og granítveggjum í listaverk. Árið eftir kom annar hópur og síðan enn annar; nú eru verkin orðin 31 og verkefninu er enn ekki lokið. Gestir bæjarins fá í hendur kort sem listaverkin eru merkt inn á og það er einstök ánægja að leita þau uppi, þó best af öllu sé að finna þau óvænt. Vera á leið niður tröppurnar í búðina og sjá allt í einu andlit meitlað í klett fyrir framan sig. Eða hurð mótaða í bergið eins og hér sé inngangur í höll álfakóngsins og einungis þurfi létt högg með töfrasprota til að dyrnar ljúkist upp. Þrír listamenn frá Íslandi eiga verk í Qaqartoq, Páll Guðmundsson (þrjú), Örn Þorsteinsson (tvö) og Guttormur Jónsson (eitt). Skemmtilegust þóttu mér verk hinna innfæddu, einkum Aka Høegh sjálfrar, en okkar menn voru líka fínir. Ekki hefði neinn listamaður í heimi getað átt “Álfkonuna í fellinu” annar en Páll á Húsafelli.

Ég segi og skrifa: Það er þess virði að gera sér ferð til Qaqortoq þó ekki sé nema til að skoða þessi einstæðu listaverk.

Hvalsey

Rústir stóru steinkirkjunnar í Hvalsey á Grænlandi.

Ráðstefnan var kennd við Hvalsey og tilefni hennar var að 16. september voru liðin 600 ár frá því að Sigríður Björnsdóttir og Þorsteinn Ólafsson giftu sig í steinkirkjunni miklu í Hvalsey innst í Julianehåbsfirði. Skjölin varðandi þá hjónavígslu eru síðustu menjar um norræna menn á Grænlandi á miðöldum. Eftir það virðast þeir hverfa af yfirborði jarðar. Ekki þori ég að koma með getgátur um örlög þeirra, nógir aðrir verða til þess, en staðurinn er göldróttur! Þangað var siglt á sjálfan brúðkaupsdaginn og var sú ferð hápunktur ferðalagsins. Þarna hefur verið glæsilegt býli, mikil kirkja, listilega hlaðin úr steini og sum björgin mörg tonn að þyngd, stórt íbúðarhús, mikil útihús og veislusalur sem hefur jafnast á við kirkjuna að stærð. Maður verður algerlega lamaður af undrun frammi fyrir þessum gríðarlegu rústum. Ekki eigum við hér á landi neitt sem jafnast á við þetta (nema náttúrlega sögur á skinnbókum en það er önnur saga).

Á leiðinni til og frá Hvalsey nutum við hrikaleika grænlenskrar náttúru í stafalogni og björtu veðri. Form fjallanna eru furðulega fjölbreytt, þarna hefur skaparinn fengið ævintýralega útrás fyrir hugmyndaflug sitt. Hvítbláir ísjakar af öllum stærðum og gerðum sigldu tígulega á gljáandi silfurgráum sjó og fjöllin bar við bláan himin, dökkbrún, grá og rauð.

Matarmenning innfæddra er í hraðri þróun, það upplifðum við til dæmis í matreiðsluskólanum í Narsaq þar sem við snæddum hádegismat á leið aftur til Narssarssuaq. Fiskréttirnir skiptu tugum og voru margir óviðjafnanlegir á bragðið. Meðal minnisstæðra rétta í ferðinni er hrár hvalur sem við fengum á Hótel Qaqortoq, laxinn hennar Eddu, íslenskrar veitingakonu á Napparsivik í Qaqortoq, kryddaður með jurtum úr fjallinu fyrir ofan bæinn, og þurrkuð loðna í Narsaq sem bragðaðist eins og sælgæti. En moskusuxinn olli vonbrigðum og líka selkjötið.

Ráðstefnan var fyrir sagnfræðinga og fornleifafræðinga svo ég segi sem minnst um hana. En það vakti sérstaka athygli mína hvað þeir innfæddu sem tóku til máls, bæði Simon Simonsen bæjarstjóri í Qaqortoq og Aleqa Hammond, hinn forkunnarfagri utanríkis- og fjármálaráðherra Grænlands, töluðu hlýlega um Íslendinga. Reyndar beindu þau máli sínu svo eindregið til Íslendinganna í hópnum að fulltrúum hinna þjóðanna tólf á ráðstefnunni þótti eflaust nóg um. Aleqa Hammond sagði frá því í upphafsávarpi sínu að hún hefði þá alveg nýlega deilt við Halldór Ásgrímsson um það hverrar þjóðar þeir norrænu menn hefðu verið sem fundu Ameríku. Gunnar Karlsson skar úr um það deilumál í erindi sínu daginn eftir. Ef innfæddir í Ameríku hefðu spurt Leif Eiríksson að því hverrar þjóðar hann væri, sagði Gunnar, hefði hann líklega svarað: “Ek em maðr grænlenskr!”

Menningin í haust

Það hafa orðið miklar sviptingar í íslensku þjóðlífi síðan síðasta Tímaritshefti kom út. Ekki vitum við enn hvaða áhrif þær hafa á menninguna í landinu þegar frá líður, en ýmislegt gerðist undir eins. Eitt var að fríblaðið 24 stundir var lagt niður. Þar með fækkaði stöðum þar sem fjallað var á gagnrýninn hátt um leiklist, en bókadómar tíðkuðust ekki í því blaði og þaðan af síður umfjöllun um myndlist og klassíska tónlist. En oft voru þar fróðleg og skemmtileg viðtöl við listamenn.

Þá eru dagblöðin orðin þrjú aftur, Morgunblaðið, DV og Fréttablaðið. Öll sinna bókmenntum og leikhúsi vel, en Morgunblaðið lætur eitt skrifa gagnrýni um myndlist og tónlist og er afar bagalegt að það skuli ekki vera gert víðar. Lítilsháttar breytingar hafa orðið á menningarsíðum Morgunblaðsins í haust, einkum þær að hámenningarsíðan sem var framan við miðju hefur nú verið flutt aftur til hinna menningarsíðnanna. Það gerir manni auðveldara um vik að lesa eingöngu menningarsíðurnar – byrja aftast og fletta fram að minningargreinum. Ósköp var það freistandi meðan svörtu sorgarborðarnir voru efst á öllum fréttasíðum í blaðinu. Teygst hefur úr Lesbókinni, einkum á hæðina, hún er nú í sömu stærð og blaðið sjálft. Reynt hefur verið að gera síðurnar fjörugri og fjölbreyttari og það tekst oft vel.

Þegar þetta hefti kemur fyrir augu áskrifenda verður jólabókaflóðið við það að ná hámarki. Ég ætla að dissa það í þetta sinn, bara nefna að 2. hefti tímaritsins Stínu á árinu kom út í október með miklu ljóðaúrvali auk sagna og greina, og nokkrar ljóðabækur hafa borist TMM síðustu vikur.

Þar er fyrst að nefna ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Sjáðu fegurð þína (Uppheimar), óvægna bók og grimmilega fyndna frá þessum sérstæða höfundi. Ég leyfi mér að benda á „hetjukvæði“ sem fjallar um óttann við ellina og það frábæra ljóð „Skáld taka gagnrýnanda höndum“. Sýnishornið hér heitir „Mynd“ (64):

Á Listasafni Íslands síðastliðinn sunnudag hittust tvær konur
vafðar inn í loðfeldi, hurfu bakvið súlu á meðan aðrir
fylgdu leiðsögumanninum sem fjallaði um hesta
í íslenskri málaralist. Og þar kysstust þær
húsmóðurkossum faldar í ljós refahár.

Það á vel við að grípa næst ljóðabókina Ref eftir Emil Hjörvar Petersen (Nykur). Þetta er önnur bók hans á tveim árum og kannski ekki að undra að yrkingarnar sjálfar verði áleitið viðfangsefni og líka hlutskipti ungra skálda á fleyi sem eldri og þekktari skáld stýra. Það eina sem þeir geta gert er að valda nógu miklum usla, eins og skýrt er gefið til kynna í prósaljóðunum „Refaklefinn I“ og „Refaklefinn II“.

Sigrún Björnsdóttir birti ljóðið „Flugdraum“ í fyrsta hefti TMM í ár, og í sumar varð það hluti af ljóðabókinni Blóðeyjum sem höfundur gefur sjálfur út. Þetta er falleg bók enda fjallar hún um fegurð, tilfinningar, ljúfar og sárar, og skáldskap, þetta sem svo erfitt er að tjá í orðum, eins og hún segir í „Engin orð“ (19):

engin orð
yfir það einstaka
bara myndir
maríutásur á himni
og jökull á flugi

Tvítólaveizlan er önnur ljóðabókin sem Ófeigur Sigurðsson gefur út á árinu. Hún hefst á alllöngum prósakafla, „XY“, þar sem Ófeigur fjallar um tvíkynið og millikynið á skýran og greinargóðan hátt, með vísunum í Biblíuna, Hamskipti Óvíðs og úrvinnslu úr vísindaritum nútímans. Hugleiðingarnar á hann svo sjálfur: „Tvítóla er rafmögnuð tilfinning, líkamlegur trúarneisti; veröldin hringar sig og lúrir í lófa manns; sjálfsvitund tvítóla liggur innan í mörkum svefns og vöku, handan við tungumálið, skynjandi það að líkaminn hvílir óendanlega sæll og vongóður í meyjarhafti tilvistarinnar; sjálfur eins og lirfa í púpu bíðandi í ofvæni eftir hamskiptunum.“ Og niðurstaða hugleiðinganna: „Tvítólaveizlan er draumur.“

Sjálf er ljóðabókin – „veizlan“ – í tveim köflum, X og Y, og gríðarlega mælsk, eins og ekki ætti að koma lesendum TMM á óvart.

Rósamál er önnur ljóðabók Steinunnar P. Hafstað á fjórum árum. Þetta er fremur ósamstæð bók, bæði að stíl, aðferð og efni, og gefur til kynna að árin hafi fært skáldinu margskonar reynslu sem hún vinnur úr á viðeigandi hátt. Hér hefur hamingjuna borið að:

Á grænu fjalli sköpunarinnar,
þar sem ekkert skyggir á birtu
og sterka lífsorku sólarinnar,
stígum við tvö
listrænan dans
undir regnboganum.

Mig langar líka til að benda ljóðavinum á að nú er Ljóðnámusafn Sigurðar Pálssonar fáanlegt í einni handhægri bók (JPV), en bækurnar þrjár sem mynda safnið hafa lengi verið uppseldar. Brotið er nýstárlegt á okkar slóðum en mun algengt í Frakklandi, ekta „vasabrot“, sirka 10½ x 17½ sm.

Það er ótrúlegt en satt að Pétur Gunnarsson varð sextugur í fyrra og nú eru komin á bók erindin sem flutt voru um hann á afmælishátíðinni: Af jarðarinnar hálfu heitir safnið (Háskólaútgáfan) og er einstaklega skemmtilegt og læsilegt, enda engin smámenni meðal höfunda.

Talandi um söfn langar mig að enda pistilinn á að nefna að Dimma gaf í ár út allar helstu hljóðritanir á söng Bergþóru Árnadóttur, vísnasöngkonu og lagasmiðs, samtals rúmlega 100 lög á fimm geisladiskum sem pakkað er í snotran kassa. Efnismikill bæklingur fylgir með yfirliti yfir líf og feril Bergþóru eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson, öllum söngtextum og fjölda mynda. Myndarlegt og tímabært framtak.