AðfaranóttÞað gefst fremur nöpur innsýn í líf ungs fólks í Aðfaranótt Kristjáns Þórðar Hrafnssonar sem útskriftarnemar af leikarabraut LHÍ sýna í Kassanum þessar vikurnar. Ókeypis er inn á sýninguna og full ástæða til að hvetja alla – og kannski einkum ungt fólk – til að slá þarna tvær flugur í einu höggi, sjá splunkunýtt verk og hóp leikara sem munu skemmta okkur í íslenskum leikhúsum á næstu árum.

Í Aðfaranótt kynnumst við nokkrum einstaklingum og pörum gegnum eintöl og samtöl. Þetta er fólk sem þekkist flest innbyrðis og hittist á djamminu þetta kvöld, ýmist af ráðnum hug eða tilviljun. Allar persónurnar þurfa að fá umtalsvert hlutverk vegna þess að þetta er útskriftarsýning – það eru sem sagt eintóm aðalhlutverk. Snemma í sýningunni komumst við að því að kvöldið hefur endað með dauðsfalli því við fáum að heyra vitnisburð nokkurra einstaklinga sem vel geta verið úr yfirheyrslum lögreglu um atburðinn. Þetta er snjallt bragð til að halda athygli áhorfenda vakandi og bregður lit á öll samskipti þótt þau snúist um hversdagslega hluti og tilfinningar – afbrýðisemi, öfund, minnimáttarkennd, sjálfsupphafningu, gremju yfir sambandsslitum, slæmar minningar úr sameiginlegri fortíð … Eiginlega fannst manni að hvaða átök sem sáust á sviðinu hefðu getað endað á banvænu ofbeldi.

Tómas (Hákon Jóhannesson) langar ekki út þetta kvöld, gengið sem kærastan hans, Kata (Þórey Birgisdóttir), vill að þau hitti er ekki af hans tagi. Tómas er blankt tónskáld en afmælisbarnið Hörður (Júlí Heiðar Halldórsson) er verkfræðingur og búinn að koma sér vel fyrir í lífinu. Við fáum nasasjón af eilífðarrifrildum þeirra tveggja um opinbera styrki til menningarstarfsemi og samúð manns er öll með Tómasi, að sjálfsögðu. Í þá deilu blandar sér Þórir (Árni Beinteinn Árnason), ævinlega með réttar skoðanir á vörunum en allt annað býr undir. Gerður (Ebba Katrín Finnsdóttir), kærasta Harðar, skiptir sér hins vegar ekkert af þeim deilum því hún er upptekin af gömlum ástmanni, Erni, Herði til sárrar gremju. Súsanna (Elísabet Skagfjörð) er líka treg til að fara á djammið þetta kvöld, hún hefur fengið góða hugmynd að smásögu sem hún þarf að skrifa í hvelli ef hún á að geta sent hana í samkeppni eftir helgina. En Vigdís (Eygló Hilmarsdóttir) vill endilega að Súsanna komi með og lofar henni að Magga muni koma á staðinn og Súsanna verði auðvitað að sættast við Möggu áður en Magga hverfur til útlanda. Súsanna hefur það eitt upp úr krafsinu að barþjónninn Bergur (Sigurður Þór Óskarsson) nær að króa hana af og kvarta við hana undan því að hann fái aldrei að hitta soninn sem hann á með systur Súsönnu. Og inn í allar þessar deilur blandast Reynir (Hlynur Þorsteinsson) sem er í partýinu í eigin hefndarleiðangri …

Eins og þeir munu átta sig á sem eru kunnugir bráðskemmtilegum sonnettum Kristjáns Þórðar þá er í Aðfaranótt falinn heill sonnettusveigur – en kannski ekki eins ljúfur og hans er vandi.
Leikararnir nýttu sér vel það sem textinn bauð upp á í persónusköpun. Eygló var slettirekan Vigdís lifandi komin en gaf svo alveg í lokin óvænta innsýn í flóknari tilfinningar. Júlí Heiðar og Hákon töluðu fyrir andstæðuparið Hörð og Tómas eins og þeir meintu hvert orð. Hlynur var svo sannfærandi naut í flagi að mér finnst erfitt að sjá hann fyrir mér í öðruvísi hlutverki. Þórey var góða stelpan sem alltaf reynir að miðla málum en uppsker kannski ekki annað en óvild beggja aðila. Elísabet fór vel með það hlutverk að vilja helst ekki vera þar sem hún var.

Einu leikararnir sem ég kannaðist við fyrir voru Ebba Katrín og Árni Beinteinn. Ebba Katrín lék eftirminnilega vel í páskaleikriti sjónvarpsins, Mannasiðum, og hún gefur skýra mynd af allt öðruvísi stúlku í Aðfaranótt, sjálfstæðri og viljasterkri. Árna Beintein hef ég séð í mörgum sviðsverkum á undanförnum árum, oftast í skólasýningum, ævinlega mér til ánægju. Hann fór afar vel með flókið hlutverk dekurdrengsins Þóris, sem er eins konar Loki í verkinu, gaf hugmynd um talsvert hættulegan einstakling sem þó er handviss um að hann sé bestur allra. Sigurður Þór er svo í láni frá Þjóðleikhúsinu í sýningunni, það stafaði af honum sérkennilegri ógn í hlutverki Bergs barþjóns. Þá eru ótalin hlutverk Möggu og Arnar; það er í stíl við húmor höfundar að láta okkur aldrei hitta helstu örlagavalda í verkinu.

Sýningin er furðu einlit en mjög smart, leikmyndin hrá og grá og búningarnir í gráum og bláum tónum, Rebekka A. Ingimundardóttir sér um hvort tveggja. Una Þorleifsdóttir leikstýrir Aðfaranótt og er vandi á höndum því atriðin eru stutt, flest tveggja manna samtöl, einstaka þriggja manna eða fjögurra. Til þess að vinna gegn einhæfni brýtur hún sýninguna upp með fjörugum dansatriðum. Jóhann Friðrik Ágústsson hannaði ljósin sem léku stórt hlutverk sitt vel, ekki þó eins vel og tónlist Gísla Galdurs sem var vægast sagt áhrifamikil. Einu sinni munaði litlu að ég flýði í fang sessunautar míns af ótta, svo notuð séu orð Tómasar Guðmundssonar.

Þetta er stórskemmtileg sýning og ætti skilið að ganga í allt sumar.

-Silja Aðalsteinsdóttir