Það fór vel á því að sjá einleikinn Fastur næst á eftir Beðið eftir Godot. Bæði verkin eru dularfull, segja lítið á yfirborðinu en þeim mun meira undir niðri. Munurinn er þó talsverður. Til dæmis er mikið mas í síðarnefnda verkinu en hitt er orðalaust, og Beðið eftir Godot er þrír tímar með hléi en Fastur bara hálftími (nokkuð stuttur tími fyrir sérstaka ferð í leikhús).

Fastur er látbragðsleikur eftir leikarann, Benedikt Karl Gröndal, og leikstjórann, Árna Kristjánsson, sýndur í Norðurpólnum. Um flókið tónlistarmunstur sem á stóran þátt í sýningunni sér Einar Helgason, 19 ára plötusnúður og menntaskólanemi. Hann verður einhvern tíma góður.

Við erum stödd í heldur niðurníddum verksmiðjusal. Á sviðinu er fátt að sjá annað en stóran kassa með smellulásum og hringlaga gati. En þegar ljósin slokkna fer þessi kassi að hreyfast með talsverðum látum, hendur troða sér út um rifu nálægt neðri lásnum – sem greinilega er kviklæstur – og svo brýst handleggur út um gatið og höndin fer að rjála við efri lásinn. Það er maður inni í kassanum sem tekst eftir talsverða erfiðleika að brjótast út úr honum. Hann hefur greinilega verið þarna inni lengi því fæturnir neita að hlýða honum framan af. Þegar þeir loksins gera það fer hann að athuga möguleika á að komast út úr herberginu en það tekst ekki. Allt er lokað og læst. Ofarlega á vegg er þó gluggi og með miklum erfiðismunum tekst okkar manni að færa kassann að veggnum, klifra upp á hann og ná upp í gluggann. En hann reynist ekki heldur vera útgönguleið …

Benedikt Karl er menntaður trúður og sýndi dásamlega tækni í sýningunni – jafnvel svo að maður greip andann á lofti eða greip í fáti í næsta mann þegar mest gekk á. Hann vakti líka vissulega hlátur, jafnvel dillandi hlátur, en það besta við sýninguna var samt ekki það heldur hvað hún rambaði skemmtilega á milli þess að vera fyndin og dapurleg. Maðurinn var jú lokaður inni, ekkert af því skondna og sniðuga sem hann gerði breytti þeirri staðreynd. Hann komst út úr sínu fyrsta fangelsi (hvort sem það var leg móðurinnar eða “skápurinn”, tákn leyndrar kynhneigðar), en umhverfið hélt áfram að setja honum takmörk. Hann býr sér til félaga úr því sem hendi er næst en þó að þeir stytti honum stundir um skeið valda þeir honum sárum vonbrigðum að lokum – enda ekki annað en tilbúningur hans.

Fastur vísar í ýmsar áttir og minnir á verk af ýmsu tagi, ævintýri, Chaplin-myndir, teiknimyndir … þó er það alveg út af fyrir sig. Og ber höfundum sínum fagurt vitni.

Silja Aðalsteinsdóttir