Þegar þau gengu inn á sviðið í Tjarnarbíó í gærkvöldi, Sveinn Dúa Hjörleifsson, Tómas Guðni Eggertsson og Kristrún Hrafnsdóttir, voru þau ekkert áberandi frábrugðin félögunum á upptökunni með Fischer Dieskau og Eschenbach sem ég hafði horft á fyrr um daginn á netinu flytja ljóðaflokkinn um Malarastúlkuna fögru eftir Franz Schubert og Wilhelm Müller. Dieskau og Eschenbach voru að vísu ekki með aðstoðarmann til að fletta nótnaheftinu enda reyndist Kristrún hafa ansi miklu viðameira hlutverk en svo.

Malarastúlkan fagra

Í fyrstu bar þó ekki á öðru en tenórsöngvarinn Sveinn Dúa og píanóleikarinn Tómas Guðni ætluðu að flytja klassískan söngvaseið Schuberts og Müllers á algerlega venjubundinn hátt – og fjarskalega vel, mætti bæta við. Söngvarinn var sjálfsöruggur og sæll malarasveinn á gangi gegnum skóginn, klæddur í hefðbundinn búning karlsöngvara á tónleikum, og píanóleikarinn hvergi banginn við ljúf náttúruhljóðin sem Schubert lætur píanóið framkalla. Verkið var flutt á frummálinu, þýsku, en íslenskum texta varpað á bakvegginn.

Fljótlega fóru þremenningarnir þó að sprengja upp formið; fyrst með smáum hvellum en um miðbik flokksins, eftir ljóðið sem heitir „Pause“ og endar á þessum áhrifamiklu hendingum:

„Ist es der Nachklang meiner Liebespein?
Soll es das Vorspiel neuer Lieder sein?“

(Er þetta endurómur ástarpínu minnar eða forleikur að nýjum söngvum?) gerði söngvarinn einmitt pásu. Hann og aðstoðarstúlkan hurfu af sviðinu og leyfðu píanóleikaranum að skemmta okkur stutta stund. Þegar þau sneru aftur hafði umbreytingin fullkomnast og það var bæði fyndin og áhrifamikil sjón sem ekki verður lýst nánar til að spilla ekki fyrir þeim sem eiga eftir að njóta þessarar athyglisverðu sýningar.

Eins og vænta mátti af leikstjóranum, Grétu Kristínu Ómarsdóttur, bauð leikhópurinn sem sé upp á óvænta túlkun á Malarastúlkunni fögru. Og það er ósköp tíðindalítið að horfa á venjulegan flutning eftir að hafa upplifað allt sem þremenningarnir höfðust að á sviðinu um leið og verkið var flutt svona skínandi skemmtilega.

 

Silja Aðalsteinsdóttir