Valgerður Kristín BrynjólfsdóttirEftir Valgerði Kristínu Brynjólfsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2019

 

Úr böndum

stálgrár himinn hleypir brúnum
niður í miðjar hlíðar

lausbeislaður
hvæsandi heybaggi
lemur frá sér með bægslagangi
á hrímfölu túni

hvítur plastfugl
á girðingu
ber vængjum í staur
og strekkist við að losna
af gaddavírsstreng

mórauður poki slær taktinn
með víðihríslu
á frostbólgnum lækjarbakka

skýjaslæður leggjast með lindum
á leið til hafs
ætla að finna það í fjöru

 

 

Martröð

við vöknum

vakin af óværum
blundi

himinninn grætur
kafnandi jörð
sökkvandi land

mara við stjórn
mara

troðum systkin
troðum
plastið marar

himinn og jörð eru í stríði
ísköldu stríði
í bráðnandi ís
köldu stríði

troðum systkin
troðum
plastið marar

troðum