eftir Sölva Halldórsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020.

 

 

Ljóð um það sem ég er alltaf að reyna segja

 

Ég er búinn að vera að ýja að því
en segi það svo

svo segi ég það aftur

ég hamra á því.

Ég ræski mig
ég segi það hægt
ég segi það aftur hægar
ég segi það með grínrödd
ég segi það og reyni að meina það
ég segi það með íslenskum blómum
ég segi það með öndina í hálsinum
ég segi það með límmiðavélinni í vinnunni
ég segi það með öðru orðalagi og festi sem viðhengi
ég segi það aftur með hástöfum og ítrekun á fyrri skilaboðum
ég segi það með skaftfellskum einhljóðaframburði
ég segi það í sparifötum á degi íslenskrar tungu.

Vitið þér enn eða hvað?
Nei?
Nei, OK …
Ég segi það aftur!

Ég segi það og set hægri höndina inn
ég segi það og set hægri höndina út
ég segi það meira og minna undir rós

ég segi það með rauðum hjörtum fyrir augunum
ég segi það með tveimur gulum köllum sem glotta út í annað
ég segi það í talhólfsskilaboðum

ég segi það einu sinni enn
í blikkandi þyrpingunni rétt fyrir lokun
en kannski við heyrumst bara betur eftir helgi.

 

 

 

 

Ljóð um björn og rjúpu

 

Hvítabjörn rekur á land
snemma vors á Skagaströnd.

Kemur auga
á hvíta rjúpu
blikkar hana

á með henni
fjórar nætur
djúpt ofan í dalverpi.

Viku síðar
liggja þau enn
í sama móa

hann skotinn –
kemst ekki á fætur

hún íhugar að
lita á sér hárið.

 

 

.

Sölvi Halldórsson

Sölvi Halldórsson