Eftir Kari Ósk Grétudóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021

 

 

Endurskin

 

þið báðuð okkur vinsamlegast að vera ekki lengur á meðal ykkar
svoleiðis að við hættum að vera meðal ykkar
létum okkur hverfa

urðum undirgefnar afturgöngur friðsælla grafa

þegar við urðum ónæm fyrir leysiefnunum
stóðum við upp
kveiktum eld
ristum mynd á hellisvegg
bundum skynjun við orð

uppvakningarnir sneru aftur

með flugrútu
í erindagjörðum
í frí

þið vissuð ekki hve stutt er á milli heima
þið vissuð ekki að á milli heima er aðeins örþunn himna
þið vissuð ekki að við erum mætt á BSÍ íklædd endurskini

 

 

 

Sara

 

þú leyfir mér að sjá gegnum vatnsbláa himnu
þar sem veröld er mild

að sorgin sem ég batt undir skó
er efni í leik

þú mýkir í mjólk
höndina þína roðarauða

þú kennir deigi að hefast
og eldi að nærast

margstrend er sýn þín
þú eilífðarvél

Kari Ósk