Eftir Fríðu Ísberg

Úr ljóðabókinni Leðurjakkaveður sem er væntanleg 10. október. Mál og menning gefur út.

 

Fríða Ísberg

Fríða Ísberg / Mynd: Saga Sig

Viðkvæmni

þegar ég var sex ára
gaf pabbi minn mér
leðurjakka

minn fyrsta leðurjakka

hann hefur þekkt á eigin skinni
að þau viðkvæmu
þurfa vörn

hann sagði: ef þau stríða þér
hlæðu að þeim

skilningur kemur í lögum

ekki eins og húð
heldur setberg

kemur
eins og rykský
á eftir jeppanum hans pabba míns

með hlátri sem höktir í takt við vélina

hlátrinum sem heyrist bara
þegar honum sárnar


Leðurjakkaveður

föstudagskvöld

það hringlar í stígvélasylgjunni
þegar þú gengur eins og Clint Eastwood
upp Tjarnargötuna á leiðinni í partí

„i have a very strict gun control policy:
if there’s a gun around, i want to be in control of it“

það rúmast ýmislegt
í hreyfingunni milli valds og valdaleysis

hávær hlátur
hársveifla

júníbirtan er plássfrekt barn
sem tekur allt rúmið

þú minnir þig á
að vera ekki eins og hún

í jakkavösunum
býrðu samt til byssur úr höndunum