Anton Helgi Jónsson

Anton Helgi Jónsson / Mynd: Jóhann Páll Valdimarsson

eftir Anton Helga Jónsson

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2014

 

Horfurnar um miðja vikuna

 

Það er bara miðvikudagur
enn getur allt gerst
enn er von

enn má finna rétta taktinn
finna sinn hljóm
jafnvel finna sig í góðu lagi

allt getur gerst

meðan enn leynist bílskúr
baka til í hausnum á mér
og band
sem djöflast frameftir.

 

Föstudagur á Miklubrautinni

 

Hvalur blés framundan
þar sem ég ók austur Miklubraut
eftir vinnu á föstudegi.

Hann maraði í yfirborði götunnar
en bílarnir tóku fram úr
án mikilla vandræða.

Á móts við innstu húsin
stakk hann sér loks í djúpið
og sporðurinn reis yfir malbikið.