Á Íslandi eru tvö opinber tungumál en annað þeirra, íslenska táknmálið, sést ekki oft í stóru leikhúsum landsins. Það gerðist þó á frumsýningu leikritsins Eyju eftir Ástbjörgu Rut Jónsdóttur og Sóleyju Ómarsdóttur á litla sviði Þjóðleikhússins á fimmtudaginn í leikstjórn Andreu Elínar Vilhjálmsdóttur. Að sýningunni stendur O.N., sviðslistahópur sem samanstendur af döff og heyrandi listafólki, en í leikskrá stendur að hópurinn hafi að markmiði að setja upp tvítyngdar sýningar sem eru jafn aðgengilegar fyrir þá sem hafa íslensku og íslenskt táknmál að móðurmáli. Þetta hljómar kannski flókið eða langsótt en í raun var þetta sáraeinfalt og það fyrsta sem áhorfandi hugsar er: Af hverju eru ekki fleiri sýningar settar upp með þessum hætti?

Upphafsatriðið gefur til kynna að við séum stödd í dæmigerðu stofudrama. Fjölskyldufaðir er fallinn frá og börn hans þrjú standa frammi fyrir því að skipuleggja jarðarför og fara í gegnum dánarbú. Eldri bróðirinn, Valdimar (Björn Ingi Hilmarsson), röskur og formfastur, tekur þar afgerandi frumkvæði, enda var hann tengdastur föðurnum. Yngri systkinin vilja þó gjarna taka fullan þátt í verkefninu en vandinn er að Hrafn (Uldis Ozols) skilur ekki það sem bróðir hans segir nema tvíburasystir hans, Ugla (Ástbjörg Rut Jónsdóttir), túlki það á táknmáli. Valdimar hefur ekki haft fyrir því að læra tungumál bróður síns, ekki frekar en faðir systkinanna á sínum tíma. Hrafn hefði því verið ansi einangraður ef ekki hefði verið fyrir Uglu. Heyrandi áhorfandi gæti fallið í þá gryfju að hafa samúð með Valdimar, sem hafði jú alltaf of mikið að gera til að læra heilt tungumál, ef ekki væri fyrir kærasta Hrafns, Tómas (Jökull Smári Jakobsson), sem tekur fullan þátt í samtölum á táknmáli þrátt fyrir að vera heyrandi sjálfur. Hann er að læra málið vegna sambandsins við Hrafn og því ljóst að Valdimar hefði getað rofið einangrun bróður síns fyrir löngu síðan ef hann hefði viljað.

Í fórum föður síns finna systkinin dularfull bréf og eftir að gamli maðurinn er kominn í gröfina birtist hálfsystir sem ekkert þeirra hafði vitað af. Eyja (Sigríður Vala Jóhannsdóttir) er döff eins og Hrafn og þar með verða þau sem eiga táknmálið sameiginlegt í meirihluta. Einangraða eyjan sem hægt er að ímynda sér að döff fólki finnist það stundum statt á, í heimi þar sem heyrandi fólk er ævinlega í miklum meirihluta og sýnir heyrnarleysi ekki mikinn skilning, verður skyndilega meginland og Valdimar einangrast. Um leið hverfur textinn á veggnum svo að sýningin verður um stund einungis aðgengileg þeim sem skilja táknmál. Þannig leikur hópurinn sér að því að snúa við hefðbundnum hlutverkum heyrandi og döff og fékk hlátur að launum frá áhorfendum. Bæði Eyja og Tómas rjúfa hefðbundin mynstur í samskiptum systkinanna og fá þau til að endurmeta möguleika sína í lífinu.

Leikararnir skiluðu hlutverkum sínum allir vel og drógu upp sannfærandi persónur. Gaman hefði verið að skilja táknmálið og sjá hvernig Tómas túlkaði hlutverk þess sem hefur það ekki að móðurmáli, eins og hin, og hvernig vanmáttugar tilraunir Valdimars til að tala tungumál bróður síns litu út. Búningar Tönju Huldar Leví Guðmundsdóttur gáfu skýra mynd af persónunum – það hefði næstum nægt að sjá ólíka jakka Tómasar og Valdimars til að vita hvaða karakterar væru þar á ferð – og leikmyndin, sem Tanja á einnig heiðurinn af, var hugkvæm og vel studd af lýsingu Kjartans Darra Kristjánssonar. Hljóðmynd og tónlist Hreiðars Más Árnasonar var sérstaklega skemmtileg, einkum í innilegum dansi Hrafns og Tómasar þar sem áhorfendur fundu fyrir taktinum í sætum sínum á meðan Tómas miðlaði bæði hryn og laglínu til Hrafns með snertingu. Dansinn er kannski tungumálið sem við eigum öll sameiginlegt.

Eyja segir ekki flókna sögu en hún er vel sögð og áhugaverð, og veitir heyrandi áhorfendum auk þess innsýn í heim sem mig grunar að sé flestum dálítið hulinn. Ég vona að bæði heyrandi og döff drífi sig í Þjóðleikhúsið og sjái Eyju. Ég hlakka líka til að sjá hvað leikhópurinn O.N. gerir næst. Það eru engin takmörk fyrir því hvers konar sögur er hægt að segja með samspili tals og táknmáls, og það síðarnefnda býður upp á alls kyns leikhúsbrellur sem illmögulegar eru þegar einungis talað mál er í boði. Leikhúsin mættu kannski líka vera duglegri við að gera sýningar sínar aðgengilegar fyrir heyrnarlausa, annaðhvort með hefðbundnum texta eða táknmálstúlkun.

Sigþrúður Gunnarsdóttir