Eftir Ágústínusi kirkjuföður er haft að hann viti hvað tíminn sé ef hann sé ekki spurður. En ef einhver spyrji kunni hann ekkert svar. Með þetta óræða eðli tímans var unnið í stundarlöngu vísindalegu dansleikverki Leifs Þórs Þorvaldssonar, Stundarbroti, á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Þar stigu fjórar stúlkur, Védís Kjartansdóttir, Þyrí Huld Árnadóttir, Kara Hergils Valdimarsdóttir og Ásrún Magnúsdóttir, dans við tónlist hinnar fimmtu, Lydíu Grétarsdóttur, og veltu inn á milli dansatriða tímanum fyrir sér í texta. Textinn var ýmist eins og upp úr kennslubókum um fenómenólógíu eða litlar sögur úr hversdagslífinu, allar umhugsunarverðar og sumar fyndnar.

StundarbrotEn ekki leist mér á blikuna í upphafi. Ofurhægar hreyfingarnar minntu mig óþægilega á taítsjí-námskeið sem ég fór einu sinni á í Þýskalandi og tók mig gersamlega á taugum. Kannski var Leifur að sýna fram á að tíminn liði hægar þegar manni leiðist en sem betur fór tók fljótlega við næsta tilraun um tímann, hún gekk hraðar og svo var einnig með síðari tilraunir. Sá kafli sem heillaði mig mest var dansaður af tveim stúlkum sem léku sér að endurtekningum sömu hreyfinga en lengi vel út úr takti. Það varð smám saman beinlínis spennandi að fylgjast með því hvort þær næðu saman að lokum. Nú er erfitt fyrir utanaðkomandi að setja nöfn á dansarana því engin var leikskráin með myndum til að hjálpa manni að þekkja þær en ég tel að tvídansinn hafi þær stigið saman Védís og Ásrún. Það var furðulegt að finna hvernig þær dáleiddu mann smám saman með þessum tiltölulega einföldu, síendurteknu hreyfingum. Þær eru raunar eins og endurtekning hvor af annarri, báðar ljóshærðar með sítt hár, tággrannar báðar en ekki alveg jafnháar. Ef manni fóru að leiðast endurtekin munstrin í dansinum var hægt að una sér við það hvernig ljósið rann í gegnum hármakkann þegar hann sveiflaðist til eða breiddist út á gólfið eins og blævængur – eða hvernig dansararnir teiknuðust fallega upp á svartan bakgrunninn í köldu ljósinu.

Það var líka heillandi þegar fram í sótti að horfa á fjórdansana þar sem hver stúlka endurtók sínar hreyfingar, ólíkar hreyfingum hinna, áfram og áfram þangað til manni fannst tíminn teygja sig út í eilífðina. Tónlistin var býsna mögnuð en oft vélræn og maður gat vel látið sér detta í hug úrsmiður sem situr með stækkunargler og rýnir í úrverk meðan ótal klukkur tikka í kringum hann – ekki í takt.

Nú hefur Leifur játað í viðtölum að hann sé ekki danshöfundur í venjulegum skilningi en sem leikmanni fannst mér sporin og hreyfingarnar í Stundarbroti afar ásjáleg, og stúlkurnar frömdu verkið af fádæma öryggi og fegurð.

Silja Aðalsteinsdóttir