Hildur Eir Bolladóttir

Hildur Eir Bolladóttir / Mynd: Daníel Starrason

Eftir Hildi Eir Bolladóttur

Úr ljóðabókinni Líkn sem kom út í sumar.
Vaka-Helgafell gefur út.

 

 

Æskudraumar

2.

Berjalyngið er göldrótt
virkar saklaust
í sínum lágstemmda lit,
heilsar þér eins og guðhrædd kona
með fléttað hár
í fótlaga skóm,
sem býður þér að draga orð
býður þér að draga ber
býður þér að hverfa

 

3.

Snjóaveturinn mikla stukkum við krakkarnir
fram af húsþökum
heima í sveit
mokuðum bíla upp úr sköflum
elduðum súpu á prímus,
í streitulosandi rafmagnsleysinu
pabbi sagði draugasögur
mýsnar kröfsuðu í þröskuldinn
hundurinn hringaði sig við útidyrnar
ekkert rafmagn
ekkert Dallas
en JR hélt samt framhjá
Sue Ellen drakk sig fulla
Pamela var enn á bömmer
og áfram snjóaði
heima í sveit

 

 

Sál

5.

Oft hef ég leitað svara við kvíða mínum
stungið mér til sunds í óminnishaf
æskunnar
kafað eftir kóröllum
strokið hafsbotninn
með sæfjöðrum reynslunnar
loks þegar mér svo skýtur upp á yfirborðið
hef ég bara eina marglyttu í höndum
en ekkert svar.