Eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur

Úr ljóðabókinni Edda sem hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2019. Sæmundur gefur út.

 

Harpa Rún Kristjánsdóttir

Harpa Rún Kristjánsdóttir

Skjól

Sama sól og sama tungl
sjá ykkur
rísa og hníga

í skjóli sama fjallahrings
líður líf ykkar
prýtt hláturblómum
skelfingarsköflum
táraflóðum

líf
ykkar allt

ekki nema
andartak
hvíslar eldfjallið
að jökulleifunum.

 

 

Sólarlag

Æskan og ástin
síðustu geislarnir
þegar sálin hnígur til viðar.

 

 

Edda

Edda, Sæmundur, 2019

Fræ

Blár himinn
sólskin
brosandi barn
blæs biðukolluhári
í andlit mér
gleypi fræin
inn um öll vit
lofa að sá þeim
á rétta staði.

Minningar, hvað er að marka þær?

Ekki annað, en dropar af sólskini, kandís.

Og ást.