Þrír ungir menn standa á gólfinu í Mengi við Óðinsgötu í Reykjavík og horfa áhugasamir á áhorfendahópinn. Þeim liggur greinilega eitthvað á hjarta en orðin láta á sér standa. Þeir opna munninn – en loka honum aftur, tala til okkar með augunum, líta hver á annan, ræskja sig, anda, andvarpa, við bíðum en það kemur ekkert. Lengi vel. Enda er þetta sýningin Þúsund ára þögn sem Sómi þjóðar sýnir nú í húsnæði Mengis og við erum viðstödd niðurstöðu athugunar á því hvernig þessi þjóð hefur þagað sig gegnum aldirnar. Karl Ágúst Þorbergsson leikstjóri vann sýninguna með leikurunum.

Þúsund ára þögnÞeir eru flinkir þessir Sómamenn, Tryggvi Gunnarsson, Hilmir Jensson og Kolbeinn Arnbjörnsson. Það var merkilega gaman að fylgjast með þeim þegja – svipbrigðum, handahreyfingum, líkamsmáli. Þeir krosslögðu handleggi, stungu höndum í vasa, settu hendur aftur fyrir bak, ypptu öxlum, teygðu álkuna fram, hölluðu undir flatt, sigu út á hlið, kiknuðu í hnjánum, horfðu út í sal, horfðu hver á annan en gættu þess að líta alltaf undan þannig að augu mættust ekki. Á tímabili fannst mér eins og Hilmir og Tryggvi væru að pína Kolbein og þó var ekkert sagt og ekkert gert sem hönd var á festandi. Fasið sagði meira en mörg orð. En svo kom blessað kaffið og losaði um málbeinið rétt eins og við værum stödd í Dalalífi Guðrúnar frá Lundi.

Í stað þess að ræða málin segjum við sögur og Tryggvi, Hilmir og Kolbeinn tóku ansi góðan sprett í þeirri þjóðaríþrótt í þættinum „Nei, þetta var ekki svona“. Líka var góður þátturinn „Hefurðu séð nýju Star Wars-myndina?“ Það er svo ágæt leið til að fylla upp í þagnir að tala um bækur og bíómyndir. Loks heyrðum við í föður sem þráir að óska syni sínum til hamingju með afbragðsárangur en kemur ekki orðum að því þrátt fyrir endalaust fimbulfamb skreytt meira og minna stuðluðum myndlíkingum og ljóðrænum samlíkingum. Og þrátt fyrir fullyrðingar sonarins um að hin nýja kynslóð væri öðruvísi var ljóst að sárafátt hefur breyst. Slædsmyndaþátturinn var líka góður. Margur hefur reynt að það getur verið góð leið (og stundum óbærilega leiðinleg) til að fylla upp í þögn að sýna myndir, jafnvel þótt viðstaddir viti ekkert hverjir eru á myndunum.

Einu sinni var það stefna Sóma þjóðar að taka fyrir þau mál sem væru á döfinni hverju sinni, semja verk beint inn í blæðandi samtímann, æfa þau stutt og snarpt og sýna svo. Þessi stefna bar fagran ávöxt í verkunum MP5 (2014) og KOI (2016). Í nýja verkinu virðast þeir fremur á sögulegum nótum en samtímalegum en vissulega er göfugt að skoða málhelti ungra karlmanna.

-Silja Aðalsteinsdóttir