Margt kom mér skemmtilega á óvart þegar ég fór að lesa mér til um Faust í tilefni af uppsetningu Vesturports á samnefndu verki á stóra sviði Borgarleikhússins. Til dæmis það að persóna þjóðsagna og bókmennta á sér raunverulega fyrirmynd ef marka má Salmonsens konversationsleksikon frá 1918, dr. Johann Faust, þekktan farandspámann og svartagaldramann sem fæddur var um 1490. Hitt líka að hann var orðin fræg sögupersóna á mörgum bókum áður en Marlow skrifaði sitt fræga leikverk um hann (1589), og fjölmörg leikrit fyrir brúðuleikhús og manna fylgdu uns Goethe tók til við hann um aldamótin 1800. Síðan hefur lítið lát orðið á endursköpun þessara sagna í bókmenntunum.

FaustFaust hefur tekið þróun í tímans rás – eftir tísku og tilhneigingum alda og höfunda. Kjarni málsins er alltaf sá að hann gerir samning við djöfulinn, stundum til að öðlast þekkingu (afbrigði af því er frændi hans Galdra-Loftur), stundum völd, en þekktasta gerðin er sú sem vill jafnvel fórna sálarheill sinni fyrir eilífa æsku og ástir. Það er sú gerð sem líkamnast á sviði Borgarleikhússins núna í heimatilbúinni blöndu Gísla Arnar Garðarssonar leikstjóra og félaga hans.

Jóhann (Þorsteinn Gunnarsson) er frægur leikari sem kominn er á efri ár og orðinn vistmaður á elliheimili, sér til sárrar armæðu. Ljósið í myrkrinu er gæslukonan Gréta (Unnur Ösp Stefánsdóttir), gullfalleg stúlka sem laðast líka að honum þótt aldinn sé. Hún myndi áreiðanlega sækja meira til hans ef ekki væri fyrir bróður hennar Valentín (Rúnar Freyr Gíslason) sem líka vinnur á heimilinu og hefur góða gát á henni – og vistmönnum. Það eru jól og ungt par kemur í heimsókn með gjöf til vistmanns, þau þekkja gamla leikarann og þakka honum fyrir marga góða skemmtun. Það veldur því að aðrir vistmenn biðja hann að fara með eitthvað fyrir sig og hann skemmtir þeim um stund með upphafinu á leikritinu um Faust. En þegar Gréta fer sækir þunglyndi á hann aftur svo mikið að hann reynir að hengja sig – en við það verður fjandinn laus.

Það sem fer á eftir er göldrótt blanda raunsæis, draums og óra. Við vitum ekki hvort við erum að horfa á leikrit inni í leikritinu (a la Marat/Sade) þar sem gamlingjarnir setja upp sína gerð af Faust, hvort andskotinn og hyski hans sækja á Jóhann í millibilsástandi milli svefns og vöku eða jafnvel lífs og dauða eða hvort við erum komin alla leið yfirum. En það er alveg sama, þetta er þvílíkt sjónarspil og borið fram af svo miklum glæsileik og öryggi að maður gleymir sér og hættir að spyrja.

Leikurinn er afbragðsgóður. Þar keppa þeir um fyrsta sætið Þorsteinn Gunnarsson og Hilmir Snær Guðnason sem leikur Mefistó, báðir sýna snilli sína af nautn. Björn Hlynur Haraldsson sem leikur Jóhann unga og Unnur Ösp voru heit og falleg og stundin sem helst átti að vara að eilífu var undurfögur. Rúnar Freyr var frábærlega leiðinlegur gæslumaður og kom á skemmtilegan hátt með hversdagsleika inn í ævintýrið. Púkar djöfsa voru sprellfjörugir með Lilith Nínu Daggar Filppusdóttur í broddi fylkingar. Með betri lögn hefði þó mátt fá meira út úr Birni Hlyn í hlutverki Asmodeusar. Víkingur Kristjánsson, Hanna María Karlsdóttir og Jóhannes Níels Sigurðsson í hlutverkum vistmanna fengu líka lítil tækifæri til annars en að vera til uppfyllingar. Jóhannes og Svava Björg Örlygsdóttir fengu aftur á móti ærin tækifæri sem fimleikarar sýningarinnar, einkum Svava Björg sem var æðisleg í sínum atriðum. Í stóra dansatriðinu hennar jók verulega á áhrifin flottur búningur Filippíu I. Elísdóttur sem fór fram úr sjálfri sér í búningahönnun fyrir sýninguna.

Það fóru fleiri fram úr sjálfum sér. Svið Axels Hallkels Jóhannessonar er mikið kúnstverk og eins gott að lýsa því ekkert nánar – sjón er sögu ríkari. Lýsing, hljóðmynd og leikgervi, hvergi vantaði upp á. Tónlist Nicks Cave og Warren Ellis er svo kapítuli út af fyrir sig og hygg ég að engum áhorfanda gleymist djöfullegur söngur Hilmis Snæs í hápunkti sýningarinnar.

“Þetta er teater,” sagði Sveinn Einarsson ánægður í hléi. Ég geri þau orð að mínum.

Silja Aðalsteinsdóttir