Pulitzer-verðlaunaverkið Ræman eftir Annie Baker var frumsýnt í gær á Nýja sviði Borgarleikhússins undir stjórn Dóru Jóhannsdóttur. Það gerist í samnefndu kvikmyndahúsi, sem enn hefur ekki tekið stafrænni byltingu en notar ennþá gamaldags sýningarvél, og fjallar um þrjá illa launaða starfsmenn hússins og samskipti þeirra. Halldór Laxness Halldórsson (Dóri DNA) þýðir verkið og staðfærir.

RæmanÞýðingin er afbragðsgóð, afar þjál og gefur góða mynd af ólíkum talsmáta persónanna þó að öll tali þau eins og nútíma Íslendingar af sínu tagi og á sínum aldri. Yfirmaðurinn Rósa (Kristín Þóra Haraldsdóttir) er klár stelpa, lítt menntuð en þokkalega máli farin. Undirmaðurinn Siggi (Hjörtur Jóhann Jónsson) er undirmálsmaður eins og heyrist undir eins á mæli hans en veit þó sínu viti. Nýi strákurinn, Andrés (Davíð Þór Katrínarson), er prófessorssonur en í bili uppgefinn á háskólanámi, hans talsmáti er eftir því annar en hinna. Þetta tekst vel, sem sagt, en ég er meira efins um staðfærsluna; verkið er svo amerískt að maður hrekkur hreinlega í kút þegar Siggi er allt í einu að fara í upp í Borgarnes í brúðkaup bróður síns.

En þetta veldur ekki varanlegum pirringi. Ræman er virkilega vel samið leikrit, þó að þar gerist ekki margt, og það gefur leikendum góð tækifæri til að sýna nýjar hliðar á sér. Þar munar auðvitað mestu hjá Hirti Jóhanni sem er ennþá með skegg Skarphéðins úr Njálu á myndunum í leikskrá en orðinn nauðrakaður í sýningunni sjálfri. Hjörtur er svo leikinn í að stama og hiksta og hætta við að segja það sem hann virðist ætla að segja að það verður smám saman morðfyndið.

Kristín Þóra er auðvitað gersemi og hefur verið síðan hún sást fyrst á sviði. Rósa gefur henni tækifæri sem hún hefur aldrei mér vitanlega fengið áður og ég verð að segja að tælingarsenan í þessari sýningu er sú al-skemmtilegasta sem ég hef séð.

Davíð Þór leikur sitt fyrsta sviðshlutverk á Íslandi í þessari sýningu. Hann lærði í Bandaríkjunum – sem kemur sér vel í Ræmunni vegna þess texta sem honum er gert að flytja – og var alveg óskrifað blað fyrir þessa frumsýningu. Persóna hans er að mörgu leyti erfiðasta hlutverkið, ímynda ég mér, en Davíð er algerlega á pari við hina tvo snillingana í sýningunni.

Dóra Jóhannsdóttir hefur verið að læra spuna undanfarin ár og það er augljóst að sem leikstjóra nýtist það nám henni vel. Allur leikur, samtöl og þagnir (sem munu vera einkenni þessa leikskálds) voru svo vel hugsuð að ég átti ekki erfitt með að lifa mig inn í hrynjandi sýningarinnar. Sviðið er lítill salur í költ-bíói – sessunautur minn prófaði að setjast í einn bíóstólinn og fannst hann mun betri en sætið sitt í áhorfendasalnum! Helga I. Stefánsdóttir sér um bæði leikmynd og búninga, leikmyndin kemur kannski af sjálfri sér en búningarnir voru verulega vel heppnaðir. Tónlist (Valdimar Jóhannsson) og lýsing (Þórður Orri Pétursson) tengjast líka staðnum, við heyrum aðallega síðustu tónana úr hinum ýmsu kvikmyndum áður en ljósin kvikna og starfsmennirnir koma inn til að sópa upp poppið. Allt var gert til að halda blekkingunni við: Við vorum stödd í þessu bíói – og það var virkilega gaman!

Silja Aðalsteinsdóttir