ÖskufallÞað má mikið vera ef Tryggvi Gunnarsson, höfundur og leikstjóri sýningarinnar Öskufalls, hefur ekki þefað af útgáfu Philips Pullman á Grimmsævintýrum sem nýlega kom út í þýðingu minni. Að minnsta kosti leggur Pullman áherslu á að við eigum að gera ævintýrin að okkar eigin sögum þegar við endursegjum þau og það gerir Tryggvi svo sannarlega með sínum stóra og orkumikla hópi í Stúdentaleikhúsinu.

Stúdentaleikhúsið er sérlega fundvíst á leynistaði í borginni undir sýningar sínar. Öskufall sýna þau í Kartöflugeymslunum fyrir ofan Rafstöðvarveg, stórum, ílöngum skála með braggasniði, hráum og óvistlegum. Þau nýttu hann afar vel ásamt haglegum vörubrettum, sumum á hjólum, sem auðvelt var að hlaða upp til að búa til borð, stóla og hvað annað sem þurfti af húsgögnum. Sara Rós Ellertsdóttir bar ábyrgð á þessari leikmynd og Halldór Sveinsson (sem líka lék í sýningunni) sá um tónlistina. Hún var frumleg, fjörug og frek.

Ævintýrið sem þau taka fyrir er Öskubuska. En þó að Grimmsbræður séu báðir með í sýningunni (Davíð Þór Katrínarson, Gísli Björgvin Gíslason) er ævintýrið nokkuð frábrugðið þeirra útgáfu á því – og raunar öllum öðrum þekktum útgáfum. Ekki verður það verra fyrir það. Í þessari útgáfu er sjónarhornið í upphafi hjá prinsinum (Jónas Alfreð Birkisson). Hann er dálítið ráðvilltur ungur maður, umkringdur mikilli og líflegri hirð af ungu fólki, ekkert sérstaklega undirgefnu. Þar fara fremst skjaldsveinn hans (Fannar Arnarsson) og skjaldmær (Álfheiður Marta Kjartansdóttir) og virðist prinsinn ívið hrifnari af skjaldsveininum. En þá kemur skipun frá kónginum (Ragnar Pétur Jóhannsson): prinsinn á að velja sér eiginkonu og hann fær til þess þrjá sólarhringa. Þrjú kvöld í röð skal halda dansleik í höllinni, öllum gjafvaxta, vel ættuðum stúlkum í landinu skal boðið og prinsinn á að velja konuefnið úr þeim hópi. Ekki vekur þetta áhuga hjá prinsinum, síst eftir (ansi stuðandi) samtal þeirra feðga um margvísleg hlutverk hinnar verðandi drottningar …

Þá víkur sögunni heim til Öskubusku. Þar stendur yfir útför húsfreyju þegar hirðmenn ber að garði en önnur eiginkona er þegar komin í hennar stað (Telma Huld Jóhannesdóttir). Hirðmennirnir skilja eftir boðskort handa dætrum nýju húsfreyjunnar og dóttur bónda. Ekki finnst stjúpsystrunum (Embla Huld Þorleifsdóttir, Hildur Ýr Jónsdóttir) líklegt að Öskubuska fari á ballið og langar greinilega ekkert rosalega mikið sjálfar en fara þó. Dansleikirnir eru hinir fjörugustu og prinsinn velur sér brúðarefni en dans þeirra Öskubusku er utan sviðs og við sjáum hina fögru stúlku bara í fjarska. Skómátunin fræga fer öll úr böndunum og verkið leysist loks upp í ofbeldi. Ekki er líklegt að nokkur viðkomandi hafi lifað hamingjusamur til æviloka eins og gerist að jafnaði í ævintýrum.

Sýningin er nokkuð langdregin og hefði gott af að styttast, agast og yddast. En þar eru margar ljómandi góðar hugmyndir, bæði í texta og sviðsetningu. Sýningin er geysilega fjörug og leikurinn yfirleitt prýðilegur. Skemmtilegastar þótti okkur stjúpsysturnar sem höguðu sér eins og ekta gelgjur, flissandi og varpandi fram meinfyndnum athugasemdum um menn og málefni, einkum þó Öskubusku, en reyndust svo hafa vitið á sínum stað í kollinum þegar á reyndi. Þetta er ekta ungleikhús og um að gera fyrir áhugamenn um unglist að paufast upp í Kartöflugeymslur í nóvembermyrkrinu og horfa á ævingtýrið endurnýja sig.

Silja Aðalsteinsdóttir