Við hjónin erum ekki beinlínis markhópurinn sem nýja íslensk-enska óperan Bergmálsklefinn í Tjarnarbíó miðar að. Það er tón-leikfélagið Aequitas Collective sem að henni stendur í samstarfi við Alþýðuóperuna og hún freistar þess að birta í tali, tónum og á stórum hengitjöldum á sviðinu það áreiti sem nútímamaðurinn verður fyrir. Einn miðill verksins er samskiptafyrirbærið Twitter sem ég sá í fyrsta skipti á sýningunni í gærkvöldi – og get ekki sagt að ég hafi heillast af.

BergmálsklefinnHugmyndin að óperunni er eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur og textinn er líka hennar með hjálp tísta af Twitter. Að hennar sögn langaði hana til að sýna „þessa smánun og niðurlægingu á netinu og þegar stór hópur af fólki kemur saman til að brjóta niður eina manneskju.“ Tónlistin er eftir Michael Betteridge sem líka er tónlistarstjóri. Óperan er sungin og töluð ýmist á íslensku og ensku og iðulega hefði verið mikill kostur að fá sungna textann þýddan eins og raunar var heitið í kynningarefni hennar. Það sem tekst firna vel í sýningunni er að birta áhorfendum áreitið – þegar maður þurfti helst að horfa í einu á söngvarana og samskipti þeirra og lesa athugasemdirnar sem komu og fóru á ógnarhraða á tjaldinu til hliðar, sumar komnar beint frá áhorfendum í sal. Þegar mér reyndist ofviða að kljúfa athyglina valdi ég ævinlega persónurnar á sviðinu og missti þá af aðalmarkmiði verksins: að sýna hvernig dómstóll samfélagsmiðlanna virkar.

Ingunn Lára leikstýrir Bergmálsklefanum líka og sviðsetningin er einföld en virkar vel. Áherslan er lögð á að sýna hvernig manneskjurnar eru alltaf hver út af fyrir sig. Þó að það sé dramatísk ástarsaga sem sögð er sjáum við fólk aldrei snertast. Ástin er meira í orði en á borði. Miðja frásagnarinnar er Finna sem Ísabella Leifsdóttir syngur skínandi vel. Hún togast á milli tveggja ástvina sem sungin eru af Jónínu Björt Gunnarsdóttur og Ívari Helgasyni en auk þeirra syngur Rosie Middleton hlutverk sem mér var ekki almennilega ljóst hvert var. Þau eru öll ágætir söngvarar og tónlist Michaels fannst mér oft falleg og stundum áhrifamikil.

Ég get með góðri samvisku hvatt ungt fólk til að sjá þessa sýningu þó að hún hafi á köflum verið býsna óreiðukennd og jafnvel þjáningarfull fyrir mín eyru og augu. Það er gaman að láta koma sér á óvart í leikhúsi og hér er líka brýnn boðskapur ætlaður þeim sem eru á kafi í hinum viðsjárverðu samfélagsmiðlum.

-Silja Aðalsteinsdóttir