GlerdýrinFátæka leikhúsið ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur frekar en venjulega heldur setur nú upp nýja þýðingu á tæplega sjötíu ára leikriti Tennessee Williams, Glerdýrunum, í Þjóðleikhúskjallaranum. Þýðandi og leikstjóri er Heiðar Sumarliðason. Leikritið gerist í kreppunni miklu á fjórða áratugnum og segir frá einstæðri móður með tvö uppkomin börn. Verkið er afar vel skrifað og óvenjulegt í uppbyggingu, sögumaðurinn Tom (Bjartmar Þórðarson) talar beint við áhorfendur og sýnir þeim myndir úr fortíð sinni, og þykir efnið minna mjög á persónulegar aðstæður höfundar sem ungs manns.

Amanda (Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir) var alin upp í auðlegð og alsælu (minnir hana að minnsta kosti) í Suðurríkjunum en giftist engum af sínum auðugu vonbiðlum heldur föður barnanna sem reyndist henni illa og stakk hana af þegar þau voru lítil. Nú lifir hún á rýrum tekjum sonarins Toms sem vinnur á lager. Hún hefur sárar áhyggjur af dóttur sinni Láru (Tinna Lind Gunnarsdóttir) sem ekki er sama piltagullið og hún var sjálf á Láru aldri. Lára hefur gefist upp á ritaranámi, hún er þjökuð af illbærilegri feimni enda er hún fötluð og skortir baráttuþrek til að komast af í hörðum heimi kreppunnar. Hennar athvarf er safn af glerdýrum sem hún leikur sér að þegar móðirin lætur hana í friði.

Fyrir þrábeiðni Amöndu býður Tom vinnufélaga sínum Jim (Bjarni Snæbjörnsson) í mat og Amanda er ákveðin í að koma ábyrgðinni á Láru yfir á hann. Jim reynist vera strákurinn sem Lára var skotnust í í gaggó og hún fer alveg inn í sig af feimni en Jim tekst með aðlaðandi framkomu sinni og afslöppuðu tali að toga hana út úr skoti sínu. Það verður Amöndu til óvæntrar aðstoðar að rafmagnið fer af um kvöldið af því Tom hefur ekki borgað rafmagnsreikninginn og þau mæðgin skilja unga fólkið eftir inni í stofu með kertaljós meðan þau þykjast vera að bjarga rafmagnsmálum.

Leikarar eru vel valdir. Lilja Guðrún var sannfærandi sem hin áhyggjufulla, nöldursama móðir með hugann hálfan í sólarlandi æskunnar. Bjartmar var hæfilega kæruleysislegur sem Tom, sonurinn sem lengi hefur verið skyldurækinn en tekur svo sömu ákvörðun og faðir hans áður – að láta sig hverfa. Tinna Lind gekk manni að hjarta í túlkun sinni á Láru og samræður þeirra Bjarna í hlutverki Jims voru fantalega vel leiknar. Gagnstætt því sem var í öðrum atriðum var engin írónía í túlkun þeirra heldur sönn einlægni. Þó að ekki virðist blása byrlega fyrir Láru í leikslok gáfu viðbrögð hennar við uppbyggilegri vasasálfræði Jims manni barnalega von um að hún myndi hafa það af. Skínandi fallega útfærður leikur.

Aðstæður eru þröngar í Þjóðleikhúskjallaranum en þrengslin hæfa verkinu vel. Þórdís Jóhannsdóttir býr til litla stofu með borðstofu inn af, til hægri er gengið inn í eldhúsið og til vinstri út úr litlu íbúðinni. Þetta er alveg nóg. En lýsing Magnúsar Arnars Sigurðarsonar fannst mér bregðast í samtalsatriðinu milli Láru og Jims, hana vantaði allan hlýleika kertaljóssins.

Fátæka leikhúsið sýnir verkinu fulla virðingu, reynir ekki að færa það til í tíma eða reyna á þanþol þess á annan hátt. Þýðingin er góð, textinn er á eðlilegu nútímamáli og rennur vel. Þetta er klassísk sýning á klassísku verki.