Velkomin heimSýning Maríu Thelmu Smáradóttur og Trigger Warning í Kassanum, sem var frumsýnd í gær, Velkomin heim, hefst á um það bil fimmtán mínútna þokkafullum dansi leikkonunnar á svörtu spegilgólfi leikmyndar eftir Eleni Podara. Á fingrunum er María Thelma með gervineglur úr málmi, um það bil handarlangar, sem munu vera hefðbundinn búnaður í ákveðinni tegund af taílenskum dansi og draga fagurlega athygli að höndum dansarans. Hendurnar skipta miklu máli í dansinum og langar „neglurnar“ auka á þokkann.

Dansinn setur okkur í stellingar til að taka við sögu kvöldsins sem á rætur sínar í Taílandi – hinu brosandi landi, eins og María Thelma fræðir okkur um. Sagan er af móður leikkonunnar, Völu Rún, og hefst á sögunni af fæðingu hennar eins og móðir hennar sagði henni. Hún fæddist úti á hrísgrjónaakri og það reyndist nokkuð táknrænt fyrir uppvaxtarár hennar. Föður sinn þekkti hún aldrei, móður sína missti hún ung og ólst upp munaðarlaus í taílenskri sveit hjá hálfsystur sinni. Á unglingsaldri fékk hún nóg, flýði til borgarinnar og sneri aldrei til baka. Hún er að vinna í Bangkok þegar hún hittir íslenska flugmanninn sem verður eiginmaður hennar og faðir Maríu og systkina hennar. Það snart áreiðanlega margan leikhúsgestinn djúpt að heyra það að Völu Rún fannst hún loksins komin „heim“ þegar hún kom til Íslands, þó að hún skildi hvorki veðrið, tungumálið, siðina né lifnaðarhættina.

Þetta er hjartnæm saga en Maríu Thelmu og meðhöfundum hennar, Andreu Elínu Vilhjálmsdóttur og Köru Hergils verður ekki nógu mikið úr henni. Það vantar spunann og skáldskapinn í frásögnina; hún er beinlínis of stutt eins og hún er sögð og skortir dramatík til að bera uppi leiksýningu. Til að fylla upp í segir María Thelma frá þeirri reynslu sinni að vera hálf-asískt barn á Íslandi en – sem betur fór – reyndist sú reynsla ekki óþægilega söguleg eða dramatísk eins og hún er sögð á sviðinu. Margt af því sem henni fannst erfitt í uppvextinum er áreiðanlega kunnuglegt unglingum sem ekki eiga svona exótíska móður. Best var þegar húmorinn var með – eins og þegar hún lýsir taílensku tungumáli og gerir gys að hugmyndum okkar um Taílendinga – þess konar atriði hefðu mátt vera fleiri. María Thelma kemur ákaflega vel fyrir á sviði og hefur fallega rödd og skýran framburð, það vantaði bara meira leikhús í frásögnina.

Áhrifamestu hlutar sýningarinnar voru þeir sem urðu listrænt samspil ljósa, hljóða og hreyfinga. Þar juku á áhrifin hrísgrjónin sem rigndi ofan á leikkonuna og sköpuðu sín sérstöku listaverk á hápunktum frásagnarinnar. Auk leikkonunnar og Eleni áttu þar hlut að máli tónlistar- og hljóðmyndarhönnuðirnir Ragnheiður Erla Björnsdóttir og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og ljósameistararnir Hafliði Emil Barðason og Kjartan Darri Kristjánsson. Ljósin skipta raunar sérstaklega miklu máli í sýningunni því María Thelma velur að hafa tvo sögumenn í verki sínu sem báðir segja frá í fyrstu persónu, sjálfa sig og móður sína. Skipt var á milli þeirra með ljósum þannig að birtan á leikkonunni í nútímanum var hlý og björt en kaldari og eins og nær svart-hvítu í fortíðinni þegar Vala Rún talar. Þetta varð bæði skýrt og fallegt.

Silja Aðalsteinsdóttir