Fjölþjóðlegi hópurinn Reykjavík Ensemble frumsýndi í gær verkið Polishing Iceland undir stjórn Pálínu Jónsdóttur sem líka sá um búninga (þeir voru ansi fínir). Dramatúrg er Angela Rawlings. Heiti verksins er alger snilld, vísar bæði til algengra starfa Pólverja á Íslandi og þess hvað þeim hefur fjölgað hérlendis undanfarin ár. Sýningin er byggð á sjálfsævisögulegri smásögu eftir pólska rithöfundinn Ewu Marcinek sem er búsett hér á landi. Hljóðmyndin er eftir Önnu Halldórsdóttur en lýsingu hannar Juliette Louste. Sýningin er á ensku með íslensku ívafi þegar fram í sækir og pólska kemur einnig við sögu.

Sagan segir frá pólskri stúlku (Magdalena Tworek) sem lendir í hremmingum í heimalandi sínu – hjónaskilnaði og kynferðislegu ofbeldi – og flytur til Íslands til að losna við þessa þrúgandi fortíð. Þar gegnir hún ýmsum störfum, fremur leiðinlegum, verður m.a. vinnukona, ræstingarkona og framreiðslustúlka á veitingahúsi. Henni er tekið ýmislega í nýja landinu, sumir elska hana, aðrir eru fúlir og jafnvel fullir fyrirlitningar. Þetta er allt saman fremur fyrirsjáanlegt en þó saga sem er ástæða til að segja, og textinn er litríkur og oft óvæntur og fyndinn en komst ekki alltaf nógu vel til skila.

Mikið veltur á því hvernig farið er með efnið og hér er það gert af miklu listfengi, húmor og góðum skilningi á lífsreynslu stúlkunnar. Magdalena Tworek gæti verið dansari að atvinnu, alltént hefur hún einstaklega fallegar hreyfingar og fimleika- og dansatriðin í sýningunni voru alveg heillandi, tjáningarrík og bættu miklu við upplifunina af textanum. Hún fékk líka góðan stuðning frá félögum sínum tveim á sviðinu, þeim Pétri Óskari Sigurðssyni sem lék m.a. ofbeldismanninn og pólskan elskhuga vinnuveitanda stúlkunnar í Reykjavík, og Michael Richardt sem lék m.a. lögreglukonu í Póllandi og gesti á veitingahúsum í Reykjavík og átti stórleik í hlutverki íslensku konunnar Ásu sem elskar alla Pólverja (sjá mynd).

Þetta er stutt sýning en falleg og skemmtileg. Það verður mjög spennandi að fylgjast með Reykjavík Ensemble í framtíðinni en ég vona að þau útbúi upplýsingablað handa áhorfendum sínum næst.

Silja Aðalsteinsdóttir