Eftir Eirík Örn Norðdahl

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2007

 

 

 

Í rífandi gangi á
brokki og baksundi heillaðar
meyjar með glit í augunum svarthol
í augunum sem sýgur í sig hnappa
sauma klæði klink og rússneskar
stáltennur búlgarska postulínsgóma
það sekkur enginn
til botns í sjóðandi
vatni svífur
enginn
til skýja þegar rignir
golfboltum heldur lætur
sig síga í skjól dregur
saman himintungl
og telur krónurnar
sínar telur
kórónurnar
sínar
treður
ólesnum
gluggapósti í ristir
niðurfalla svo allt stíflast
og þegar himnaslefið
flæðir yfir
gluggakistur slokknar
glitið í augunum
slokknar
svartholið
og stúlkurnar sjúga
blóðið úr tunglinu eins og safann úr appelsínu.

 

 

 

Eirikur Örn Norðdahl 2007

Eirikur Örn Norðdahl / Mynd: Aino Huovio, 2007