ÓralandÞau voru full af smitandi gleði og orku útskriftarnemarnir úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands á frumsýningu eigin leikverks í gærkvöldi. Enda kunna þau margt og fara vel með það sem þau hafa lært. Verkið heitir Óraland og er sett saman úr fjölmörgum atriðum eins og (gasalega langur) skemmtiþáttur í sjónvarpi. Umfjöllunarefnin eru ýmist tekin beint úr samtímaumræðunni – til dæmis er minnt nokkrum sinnum á að karlar hati konur – eða úr lífi leikaranna, raunverulegu eða ímynduðu. Með sér hafa þau leikskáldið Jón Atla Jónasson en ef textinn er aðallega eftir þau sjálf þá má búast við góðum hlutum af þeim á sviði leikritunar. Aðrir listrænir stjórnendur eru Egill Ingibergsson ljósameistari, dramatúrginn Magnús Þór Þorbergsson og leikstjórinn Una Þorleifsdóttir.

Sum atriðin eru alveg stök, önnur koma nokkrum sinnum inn og mynda þráð í sýningunni. Flest eru einföld leikatriði með hversdagslegri orðræðu eins og samtöl fyllibyttunnar (Hjörtur Jóhann Jónsson) og sárbitrar, vanræktrar dóttur hans (Olga Sonja Thorarensen). En þó að textinn væri hrár var hann býsna beittur og þau Hjörtur Jóhann og Olga Sonja léku feðginin af innlifun, hún full af reiði og sársauka, hann dómgreindarlaus af langvarandi drykkju. Til var líka að við fengjum að heyra djúpan heimspekilegan texta, einkum í sjálfslýsingu Tinnu Sverrisdóttur í lokin. Það var verulega vel saminn texti, vissulega ansi langur en sjálf lengdin hafði sína þýðingu, dró æ betur fram andstæðurnar sem búa í einum ungum huga, og Tinna flutti hann af krafti og heillandi sannfæringu. Fleiri einstaklingsjátningar fengum við að heyra, sorgarsögu Söru Margrétar Nordahl og Sigurðar Þórs Óskarssonar sem líka komu skemmtilega fram saman í dagskrárliðnum „Framliðnir réttir“ þar sem gert var gys að hinum endalausu matreiðsluþáttum í sjónvörpum heimsins.

Óraland

Einn þráðurinn fjallaði um föður (Snorri Engilbertsson) sem er hugstola af því að sonur hans (Kolbeinn Arnbjörnsson) hefur verið kærður fyrir nauðgun. Faðirinn þykist handviss um að sonurinn sé saklaus og hyggst sanna það með því að sviðsetja atburðinn eins og hann gerðist „í raun og veru“. Hann semur við formann Leikfélags Kópavogs (Ólöf Haraldsdóttir) um að leikarar þaðan taki verkið að sér en sviðsetningin gengur ekki eins vel og skyldi. Stakt atriði skylt þessu umfjöllunarefni var þegar Saga Garðarsdóttir kom óboðin í heimsókn til Hjartar Jóhanns sem hafði skrifað einstaklega viðbjóðslegt blogg um hana á netinu. Sú heimsókn setti bloggarann í óvænt ljós og óvænta stöðu og þau Hjörtur og Saga voru alveg frábær í hlutverkunum. Enn má nefna Pétur Ármannsson sem langar til að koma út úr skápnum en ekki á neinn hversdagslegan hátt heldur á hápunkti dramatísks atriðis. Þetta voru skemmtilegustu atriði sýningarinnar, valin af hugkvæmni og fantavel unnin. Ég nefni bara að eitt atriðið var dauðasena Leonardos di Caprio í Titanic og Kate Winslet (Saga Garðarsdóttir) lá uppi á ísjakanum. Henni var að vonum ekki skemmt við óvænta yfirlýsingu Leonardos! Lokaatriðið í þessum þræði hitaði mér alveg inn að beini en ég ætla að stilla mig um að nefna það í von um að þið látið það líka koma ykkur á óvart.

Þetta er þrususkemmtileg sýning og hópurinn er greinilega mjög sterkur. Ég var að hugsa um að velja mér uppáhöld úr honum en það reyndist ekki eins einfalt og ég hélt fyrst. Eiginlega vildu þau öll lenda í uppáhaldshópnum. Ég hlakka til að sjá þau á sviðum leikhúsanna á næstu árum.

Silja Aðalsteinsdóttir