Hvernig á maður að geta skrifað umsögn um sýningu þar sem leikarinn stígur niður af sviðinu og smellir á mann kossi eins og ekkert sé? Það var auðvitað „kyssikonan ægilega“, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, sem þetta gerði á frumsýningu Ástarinnar, einleiks með söngvum eftir Tómas R. Einarsson, í kjallara Þjóðleikhússins í gærkvöldi. Og leikhúsbloggarinn var ekki eini áhorfandinn sem naut slíkra forréttinda. Einn fékk meira að segja að fara upp á svið og dansa við hana.

ÁstinÓlafía Hrönn tróð upp með Tómasi R. Einarssyni og tríói hans og meginuppistaðan í dagskránni voru lög af tveim geisladiskum, Kossi þeirra Tómasar og Ólafíu Hrannar og Trúnó Tómasar. Þetta eru glannalega skemmtileg lög og gaman að heyra þau læf. Inn á milli sagði Ólafía okkur sögur af stúlkunni Sillu og reynslu hennar af ástinni. Silla veslingurinn er ekki sérstaklega heppin í ástum en alltaf jafn bláeyg og bjartsýn þegar hún hittir nýjan gæja og alltaf jafnviss um að hann sé sá rétti þangað til það hittir hana með hamri í hausinn að svo sé alls ekki.

Ólafía Hrönn lék sér að því að leika karlana líka – enda alvön karlmannsgervinu – og uppskar dillandi hlátur með því. Ennþá skemmtilegri var þó móðir Sillu, öflugur gleðimorðingi sem alltaf sá ólán dótturinnar fyrir. Röddin var fyndin ein og sér og sumar setningarnar gullvægar sem hún lét út úr sér. Það hitti til dæmis algerlega í mark þegar hún spurði kaldhæðin hvort nýi kærastinn væri kannski einn nýr í reðursafnið …

Þetta er góður gleðivaki. Ólafía Hrönn er afar sjarmerandi söngkona og tríóið hans Tómasar – með Matthíasi MD Hemstock á trommur og Óskari Guðjónssyni á gítar – er auðvitað á heimsmælikvarða.

Silja Aðalsteinsdóttir