Fyrirlestur um eitthvað fallegtKvíði er merkilegt fyrirbæri, svo nauðsynlegur manneskjunni en þó svo leiðinlegur, og vel gert hjá leikhópnum SmartíLab að búa til um hann leiksýningu sem sýnir, fræðir og örvar til baráttu. Hún heitir Fyrirlestur um eitthvað fallegt og er sýnd í Tjarnarbíó undir stjórn Söru Martí.

Á snjöllu sviði Brynju Björnsdóttur er stór málmgrind að kúluhúsi sem ljósahönnun Arnars Ingvarssonar leikur um af list. Þegar Baldur (Hannes Óli Ágústsson – allar persónur leiksins heita raunar Baldur, kannski merkir það að þær séu allar hlið á einni persónu) – kemur æðandi ofan af svölum í byrjun leiks, stillir sér upp fyrir framan kúluhúsið, dregur velkta pappíra upp úr vasa sínum og byrjar með miklum afsökunarbeiðnum að halda tölu. Hann hélt ekki að samkoman yrði svona formleg, segir hann, hann er eiginlega ekki með neinn fyrirlestur – eða þannig – hann hikstar, stamar, hlær vandræðalega … Og smám saman nær kvíðinn sterkari tökum á honum uns hann stingur sér skyndilega inn í kúluhúsið. Þá kemur eðli þess í ljós því það reynist vera hugur hans og þar taka á móti honum alls konar skoðanir og skipanir hans innri manns sem reyna að örva hann og koma honum í gang. Hann fer fram á sviðið og reynir aftur en gefst upp – og þetta er endurtekið nokkrum sinnum.

Þetta er skýr og sterk mynd af viðureign manns við kvíða og þær fylgja fleiri. Hver leikari fær að túlka sína kvíðapersónu. Agnes Wild sagði afbragðsgóða sögu af lyfjum við kvíða sem hún tjáði á skemmtilega leikrænan hátt. Guðmundur Felixson var ofurhetjan Kvíðamaðurinn sem leysir sérhvert vandamál á sinn sérstaka hátt af því að auðvitað er hann búinn að glíma við þau áður í huga sér. Kjartan Darri Kristjánsson lék lágt settan starfsmann leikhússins sem í miðri hreingerningu finnur miða með setningunni „Vertu besta útgáfan af sjálfum þér“. Hann fær þessa setningu á heilann og við fylgjumst með honum engjast út af henni, túlka hana á ólíka vegu, svefnlaus og kvalinn. Og Sigrún Huld Skúladóttir barðist hetjulega við ágengar niðurrifsraddir í huga sér. Inn á milli þessara leiknu atriða fengum við svo að heyra lesinn fræðslutexta um kvíða.

Þetta er holl sýning, fróðleg og skemmtileg og rímar alveg prýðilega við merka starfsemi Tjarnarbíós á þessum vetri sem nú er á enda.

PS Fyrirsögnin á þessum pistli er úr ljóði Antons Helga um kvíðann í Ljóðum af ættarmóti frá 2010. Það byrjar svona:

Nei, er það ekki hann sjálfur?
Drottinn minn dýri!
Eftir öll þessi ár.

Að ég skyldi hitta þig hér.
Að við skyldum hittast hér.
Á ég að trúa því?
Kvíðinn sjálfur!
Þú hefur ekkert breyst. …

-Silja Aðalsteinsdóttir