Á sýningunni Karma fyrir fugla í Kassa Þjóðleikhússins er athygli áhorfanda krafist af ofstopa í byrjun verks með afar háu hljóði og svo löngu að smám saman grípur skelfingin mann. Það er líka eins gott að hafa athyglina vakandi því þó að sagan sé í sjálfri sér ekki flókin og skilaboðin beinskeytt þá fer verkið víða í tíma og rúmi og beitir ævintýralegum brögðum til að hreyfa við áhorfendum.

Karma fyrir fuglaKarma fyrir fugla er eftir tvær ungar konur, Kristínu Eiríksdóttur sem hefur getið sér gott orð fyrir ljóð og skáldsögur og Kari Ósk Grétudóttur sem er byrjandi á opinberum ritvelli. Þær eru svo fádæma lánsamar að hafa fengið ekki aðeins Kristínu Jóhannesdóttur sem leikstjóra að þessu fyrsta sviðsverki sínu heldur hverja dívuna af annarri í kvenhlutverkin og úrvalskarlleikara líka.

Frumsagan í Karma fyrir fugla er um Elsu (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) sem er spurul lítil dóttir Margrétar (Maríanna Clara Lúthersdóttir) og Heimis (Þorsteinn Bachmann). Í fyllingu tímans er hún gift Örvari (Hilmir Jensson) þótt henni sé það ekki ljúft. Hana hefur kannski grunað að hann yrði ofbeldisfullur eins og kemur á daginn og þegar hún hefur fengið nóg fer hún aftur heim til pabba og mömmu. En þá er hún orðin skemmd vara og ekkert fyrir hana að gera annað en feta í fótspor frænku Heimis, Dæju (Ólafía Hrönn Jónsdóttir), sem er vændiskona.

Í húsi Dæju er líka sögumaður okkar, útlifuð kona um áttrætt (Kristbjörg Kjeld), sem kannski er að segja hér sögu sína eins og svo margra annarra stúlkna víða um heim; í henni er allt dautt eftir áratuga niðurlægingu – nema samúðin með nýju stúlkunum.

Saga Elsu endurtekur sig líka í fortíð og annars staðar en þær stöllur, Kristínarnar tvær og Kari Ósk, leyfa okkur ekki að gráta fyrr en heim er komið, svo mikið er að gerast á sviðinu og svo vandlega draga þær persónur sínar sundur og saman í háði. Einkum verða foreldrar Elsu fyrir barðinu á gysi þeirra, uppbelgdi vísindamaðurinn Heimir og kúgaða konan hans sem jánkar öllu sem hann segir en hermir eftir honum (býsna vel!) á bak. Sömuleiðis eru þær fyndnar í hryllingi sínum sögukonan og Dæja, en erfiðara er að hlæja að Örvari.

Það er auðvelt fyrir fallega klædda og menningarlega leikhúsgesti á Íslandi að segja að þetta verk sé nú ekkert fyrir okkur. Hér eigi konur kost á ýmsu öðru en vændi ef þær hrekjast úr höfn hjónabandsins. En lítum yfir fréttir vikunnar, hugsum okkur á bak við sögur af réttarhöldum yfir ofbeldismönnum og fréttir af mönnum sem kaupa vegalausar stúlkur fyrir dóp, og við erum ekki langt frá veruleika verksins. Það er í rauninni sterkt um leið og það er ósvífið af höfundum að láta Elsu vera af menntaðri millistétt og meira að segja á Íslandi (þar sem Guðni Tómasson stýrir Víðsjá). Og ekki þurfum við að fara lengi yfir heimsfréttirnar til að vita hvernig verslað er með konur um víða veröld.

Margar senur í þessu skemmtilega og brýna verki verða minnisstæðar; æðisgenginn flótti Elsu um óhugnanlegan kynjaskóg (svið Önnu Rúnar Tryggvadóttur var ferlega flott), áhrifamikið söngatriði Elsu, fallegt fuglaatriðið með Herdísi Þorvaldsdóttur í hlutverki níræðrar búddanunnu og þó umfram allt stórfenglegur dans þeirra Elsu og Örvars þar sem ofbeldið tók smám saman yfir í meistaralegri stílfærslu. Öll var sýningin feiknavel leikin en sérstakt hrós fær Þórunn Arna sem hér sýnir ótvírætt að hún er listagóð leikkona sem getur hvað sem vera skal.

Það má líka alveg hrósa Þjóðleikhúsinu fyrir að gera svona vel við ung leikskáld, tefla fram nokkrum af sínum sterkustu listamönnum til að lyfta þeim myndarlega upp.

Silja Aðalsteinsdóttir