Þú ert hér://Ný Lokasenna

Ný Lokasenna

Ég sá í gærkvöldi leikritið Gálmu (= ólag, vandræði) eftir Tryggva Gunnarsson sem leikhópurinn Sómi þjóðar sýnir nú í Norðurpólnum. Tryggvi stýrir verkinu sjálfur. Við erum stödd í íslenskri sveit en óljóst er nákvæmlega hvenær. Málfar persóna er yfirleitt fremur gamaldags og framan af hélt ég að ég væri stödd einhvers staðar um miðja tuttugustu öld, jafnvel fyrr, en svo fóru að heyrast ókei og fokking, og manni var kippt inn á þá tuttugustu og fyrstu.

GálmaLeikritið hefst á því að tveir ungir menn eru að slá tún með orfum og íslenskum fánum í staðinn fyrir ljái. Sú sena var sú flottasta í sýningunni, unnin á táknrænan hátt, allt öðruvísi en afgangurinn, nema helst atriði með stílfærðri íslenskri glímu. Þetta eru tveir vinnumenn á bóndabæ sem slá og glíma, annar heitir Baldur (Tryggvi Gunnarsson) en hinn er nafnlaus (Bjartur Guðmundsson, ef persónan hefur nafn þá náði ég því ekki, en leikskráin er bagalega fátækleg). Það kemur í ljós að Baldur er að fara burt í skóla og ætlar að hafa dóttur bónda, Lilju (Guðrún Bjarnadóttir), með sér, enda eru þau heitbundin. En Baldur er miður sín af einhverri dulinni ástæðu, hann hefur gefið loforð sem hann biður Guð í einrúmi að losa sig undan.

Þegar ungmennin þrjú eru að skemmta sér og drekka landa um kvöldið slæst óvæntur gestur í hópinn (Hilmir Jensson), hann er með grímu fyrir andlitinu og fer óbeðinn að segja þeim sögur. Hann reynist vera eins konar Loki Laufeyjarson því hann veit öll leyndarmál og afhjúpar myrkar fyrirætlanir föður Lilju sem Baldur hefur gengist inn á í eiginhagsmunaskyni. Fyrir utan afhjúpun sveitasælunnar sýndist mér boðskapur verksins vera að það sé ævinlega betra að vera hreinskilinn þótt óþægilegt sé að láta komast upp um leyndarmál sín. Affarasælast sé að segja satt þó að það komi sér bölvanlega fyrir einhverja.

Hér gerast allir meginviðburðir utan sviðs og komast ekki upp smám saman í samtali heldur eru afhjúpaðir í einræðu – sem þykir frumstætt einkenni á leikritum. Verkið er líka býsna frumstætt í allri gerð og innihaldið svo rýrt að nauðsynlegt hefur reynst að teygja meira úr sýningunni en verkið stendur undir. En það er prýðilega leikið, einkum átti Hilmir geysilega fín atriði í hlutverki gestsins dularfulla, og Bjartur gerði kvennabósann sinn afar aðlaðandi.

Silja Aðalsteinsdóttir

2019-08-08T15:35:01+00:0028. mars 2012|