Það dekrar við fortíðarþrána í manni að horfa á uppsetningu Leikfélags Reykjavíkur á Emil í Kattholti sem var frumsýnd um helgina á stóra sviði Borgarleikhússins. Ég sá aðra sýningu, í gær sunnudag, vegna þess að leikhúsfélagi minn tæplega fjögra ára var enn í smitgát á laugardaginn en sloppinn í gær. Sviðið hennar Evu Signýjar Berger og fötin sem María Th. Ólafsdóttir klæðir persónurnar í eru eins og sprottin beint upp úr myndum Carls Larsson frá því fyrir og um aldamótin 1900 og myndskreytingum Ilon Wikland við sögur Astrid Lindgren. Litirnir eru mildir, formin mjúk, fegurðin normið. Þetta er gríðarlega vel heppnað.

Það sama má segja um leikgerðina sem er eftir Johan Gille en Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikstjóri og Maríanna Clara Lúthersdóttir löguðu hana í hendi sér. Hún færir okkur allar frægustu sögurnar af skammarstrikum Emils og gerir það bæði vel og samvikusamlega – kannski helst til samviskusamlega því sýningin verður dálítið löng í annan endann. Þó varð ekki vart við óróa að heitið gæti meðal ungra áhorfenda á sýningunni sem ég sá. Dásamlegt var að sjá Emil hífa Ídu upp í fánastöngina, súpuskálin var sannarlega á sínum stað, og prakkarastrikið sem í rauninni var ekki prakkarastrik heldur góðverk var vandlega útlistað.

Emil (Gunnar Erik Snorrason/Hlynur Atli Harðarson) er sonur Antons bónda í Kattholti í Smálöndum (Þorsteinn Bachmann). Á heimilinu eru líka Alma mamma hans (Esther Talía Casey), Ída litla systir (Þórunn Obba Gunnarsdóttir/Sóley Rún Arnarsdóttir) og hjúin, Alfreð (Sigurður Þór Óskarsson) og Lína (Ásthildur Úa Sigurðardóttir). Tengd heimilinu er líka meinhornið Týtuberja-Mæja sem Sigrún Edda Björnsdóttir leikur af þvílíkri innlifun og list að hún kveikti hrollkennd bros í hvert skipti sem hún birtist. Í þorpinu í kring og á næstu bæjum er svo fjöldi fólks sem stígur inn þegar ævintýrið krefst þess og leikur hvert þeirra nokkur hlutverk. Þar mátti líta Aron Má Ólafsson, Árna Þór Lárusson, Hjört Jóhann Jónsson, sem til dæmis var sérlega aumkunarverður Æri-Jochum, Rakel Ýr Stefánsdóttur, Sólveigu Guðmundsdóttur og Sólveigu Arnarsdóttur sem var stórkostleg sem skelfir sýningarinnar, hin óhugnanlega Ráðska á fátækrahælinu. Þá er bara ótalinn læknirinn sem Jóhann Sigurðarson gæddi hlýju og persónutöfrum. Eins og sjá má er hér hvorki meira né minna en stórskotalið Leikfélagsins og fagnaðarefni að börnin skuli fá aðeins það besta. Þetta reynda fólk hefur líka eflaust verið unga leikstjóranum, Þórunni Örnu, til halds og trausts, alltént var enginn byrjendabragur á sýningunni.

Emil í Kattholti

Það var heldur enginn byrjendabragur á yngstu leikrunum á sviðinu í sýningunni minni, Gunnari Erik og Þórunni Obbu; þau léku, sungu og dönsuðu af innilegri en þó agaðri leikgleði sem undursamlegt var að fylgjast með. Gunnar Erik er ná-kvæm-lega eins og maður hugsar sér Emil, lítill og kvikur, eldsnöggur að hlaupa út í smíðaskúr þegar pabbi æsir sig en hugsar svo stórt að við trúum því vel að það hafi orðið eitthvað mikið úr honum þegar hann óx úr grasi. Mig langar líka til að nefna Ásthildi Úu sérstaklega, hún var alveg þvottekta Lína, nöldursöm og svolítið geðstirð og gullfalleg í ofanálag. Alfreð gæti gert miklu verr en að giftast henni!

Söngvana í sýningunni þýddi Þórarinn Eldjárn af sinni rómuðu hagmælsku og smekkvísi. Undir lék hljómsveit undir stjórn Agnars Más Magnússonar í stúku til hliðar við sviðið. Hún var stundum helst til hávær, einkum fyrir börnin, en oftast heyrðist textinn þokkalega vel. Dansana samdi Lee Proud. Þeir eru léttir, tilgerðarlausir og passlega barnslegir og fjöldasenurnar voru bæði fallegar og fjörugar. Pálmi Jónsson sá um lýsinguna sem var víða beitt af listfengi til að auka áhrifin.

Mínum tæpra fjögurra ára Ragnari Þorláki fannst óskaplega gaman. Hann sat hugfanginn og starði á sviðið allan tímann, þorði varla að anda. Ég er smeyk um að það verði erfitt að gera honum til hæfis á næstunni.

 

Silja Aðalsteinsdóttir