Þeir eru alveg ótrúlegir, þeir Hundar tveir í óskilum, Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson. Eftir alla þjóðarsöguna í tveim sýningum og sögu kvenfólksins í landinu í einni færa þeir okkur Njálu – en á hundavaði, skiljanlega. Þeir segjast í viðtali vera að fara með hana aftur heim því upphaflega hafi hún verið mælt af munni fram á kvöldvökum og það eru þeir einmitt að gera núna. Þeir segja okkur söguna frá upphafi til enda og ná með jafnvel smæstu smáatriðum (ef einhver „smáatriði“ eru til í Njálu).

Njála á hundavaði var frumsýnd í gærkvöldi á Nýja sviði Borgarleikhússins undir styrkri og hugkvæmri stjórn Ágústu Skúladóttur. Leikmynd og búninga sér Þórunn María Jónsdóttir um en Elín S. Gísladóttir kemur að leikgervunum með henni sem eru mýmörg. Þó að þeir kumpánar nái ekki öllum ríflega 600 persónum Njálu á svið eru þær nógu margar til að heimta endalausar hárkollur, skegg, húfur, skikkjur og svo framvegis. Grunnbúningarnir eru einfaldir, ermalangur bolur og pils sem auðvelt er að bæta ofan á. Attribútum tylltu þeir þó einkum á höfuðið; Eiríkur breyttist til dæmis í Gunnar Hámundarson með því að bæta á sig síðu ljósu hári í stíl við Högna Egilsson en Hjörleifur varð Hallgerður langbrók með því að setja upp gríðarlegan fléttuvafning eins og þýsk-svissnesk mjaltastúlka á sunnudegi. Rosalegustu skikkjuna fær hún líka. Allir búningar voru til taks á sviðinu og þar voru líka ótal hljóðfæri sem þeir félagar leika á, sum dulbúin sem vopn. Um sviðsmyndina léku myndbönd Inga Bekk, mörg feiknarlega falleg.

Útlitið er þó sannarlega ekki aðalatriðið eða það sem mun draga landsmenn að þessari sýningu – heldur textinn. Bundinn og óbundinn, flæðandi, stirður, á gullaldaríslensku og slettuskotnu nútímamáli, sléttur og brugðinn en ævinlega hrikalega fyndinn. Þeir segja okkur söguna, leika hvert atriðið á fætur öðru en tala um leið og á milli við okkur um það sem er að gerast, tengja það við nútímann, stundum á alvarlegan pólitískan hátt, oftar í háði og spéi og stundum sameina þeir þetta tvennt eins og þegar víkingaferðum er líkt við góða vertíð á Samherjatogara, brúðkaupi Gunnars og Hallgerðar við það að Hagkaup giftist Bónus eða þegar Grani og Högni Gunnarssynir verða að prinsunum William og Harry og Höskuldur Hvítanesgoði sópar til sín þingmönnum eins og Inga Sæland!

Eins og gerist í nútímalegri byggingu listaverks byrja þeir félagar á endinum: Njálsbrennu. Stjörnulögfræðingurinn Njáll á Bergþórshvoli og mikillát móðir sona hans, Bergþóra, eru brennd inni. Hvernig í ósköpunum stóð á því? Svarið er gefið í nærri þriggja klukkutíma langri sýningu. En auðvitað myndi taka ykkur mun lengri tíma að lesa söguna sjálfa, auk þess sem þið fengjuð þá enga tónlist með.  Í tónlistinni eru engin takmörk fyrir því til hvers þeir grípa – allt frá Mozart til Meatloaf. Þegar Unnur Marðardóttir kvartar undan því að þau Hrútur geti ekki haft samfarir syngur hún auðvitað eins og Mick Jagger „Ég fæ enga … fullnægingu …“. En þegar Bergþóra barmar sér yfir sínum hjúskaparvandræðum vill hún samt standa með eiginmanni sínum eins og Tammy Wynette!

Ástar- og harmsaga Gunnars og Hallgerðar er meginþráðurinn, rakin með urmul þeirra auka- og hliðarsagna sem henni fylgja. Hallgerður kemst næst því að vera aðalpersóna; það má til dæmis sjá á því að hún á eina endurtekna stefið í verkinu: kinnhestsstefið, sem er þrítekið, einu sinni fyrir hvern eiginmann. Barin kona á vitanlega samúð okkar nú á dögum. Meiri alúð er þó lögð við persónu Gunnars sem verður einkar athyglisverður í þessu verki með því að dregið er fram hvað hann tekur alltaf hjónin á Bergþórshvoli fram yfir konu sína. Er hann bara kjáni, eða kannski eina falslausa góðmennið í Njálu þrátt fyrir öll mannvígin? Hápunktur verksins er á klassískum stað, þegar Gunnar hættir við að fara utan. Þar toppar Hjörleifur sig í skáldskaparlistinni með því að tengja sig við Gunnarshólma Jónasar á óvæntan hátt. Síðan er rakið, furðu nákvæmlega, hvernig hefndarþorstinn ærir fólk æ meira uns höfðingjar hafa skipað sér í tvö andstæð lið og stefnir í landauðn.

Njála á hundavaði er óskaplega skemmtileg sýning en hún er meira en það. Hún býður upp á margskonar skilning á persónum og atburðarás þessarar sögu sem hefur fylgt okkur gegnum aldirnar, og hún sýnir að enn er mikill matur í Njálu. Það þarf áreiðanlega ekki að hvetja fólk til að fara að sjá hana, það fer hvort sem er, og góða skemmtun!

Silja Aðalsteinsdóttir