Leikhóparnir Miðnætti og Lost Watch frumsýndu í gær brúðuleik sinn Á eigin fótum í Tjarnarbíó. Ég komst ekki þá vegna málþings um Jane Austen en sá aðra sýningu í dag. Þetta er svo til orðlaus sýning enda er ætlunin að ferðast með hana til annarra landa en ekki er hún þögul því í henni er heilmikil tónlist. Leikstjóri er Agnes Wild.

Ninna er bara sex ára þegar pabbi hennar fer með hana langt langt út á land og skilur hana eftir hjá bláókunnugu fólki. Þetta voru örlög ótalmargra íslenskra barna áratugum saman og þessi misserin er einmitt verið að safna saman minningum þeirra og vitnisburðum um þennan sið í bókum og öðru prentuðu efni. Ninna er að vísu ívið yngri en obbinn af krökkum þegar þau fóru fyrst að heiman – eða það ímynda ég mér, kannski út frá eigin reynslu. Ég var sjálf orðin tíu ára þegar ég var send í sveit.

Á eigin fótumVið fáum undir eins sterka tilfinningu fyrir því að sambandið milli feðginanna, Nönnu og pabba hennar, sé ákaflega gott og hlýtt. Tungumál þeirra er dálítið lag sem þau syngja saman og skilar sér undir eins til þeirra sem horfa og hlusta á. Ferðalagið langa í sveitina er farið í hestvagni, á skipi og hjóli og gangandi og allan tímann skemmta þau sér hið besta, Ninna og pabbi.

Þegar í sveitina er komið er Ninna feimin við fólkið á bænum og ekki skánar það þegar pabbi kveður og fer. Það er alveg sama hvað bændahjónin bjóða upp á, Ninna hafnar öllu, fúl og reið og gráti nær. Það eru svo dýrin sem ná til hennar, hundurinn Snati og kálfurinn sem hún gefur mjólk úr pela. Dramatískasti atburður sumarsins er rosalegt óveður sem gengur nærri Ninnu af því að hún þarf að bjarga Snata úr sjálfheldu. Hávaðinn í veðrinu var svo mikill að ég var ekki viss hvort einhverjir áheyrenda grétu, en hafi þeir grátið þá voru þeir fljótir að láta huggast þegar veðrinu slotaði.

Smám saman sættir Ninna sig við veruna á bænum og fer að taka þátt í daglegum störfum eftir sinni sex ára getu, en ekki getur hún sungið lagið sitt af verulegri innlifun fyrr en hún heyrir pabba syngja það á móti sér.

Þetta er lærdómsrík saga og að flestu leyti einföld en ég ímynda mér að ýmislegt virki framandi á nútímabörn, til dæmis hafa fá börn áttað sig á til hvers föturnar voru sem sífellt var verið að bjóða Ninnu – við sáum aldrei kú mjólkaða. Jafnvel hrífurnar koma þeim sennilega spánskt fyrir sjónir. Mér fannst stundum meðan ég sat og horfði á sýninguna að það væri upplagt að hafa sögumann til að skýra betur eitt og annað en eftir á er ég eiginlega hjartanlega sátt við sýninguna eins og hún er. Brúðan Ninna er falleg og aðlaðandi og dýrin sem voru búin til úr alls konar tilfallandi dóti voru gríðarlega skemmtileg. Fullorðið fólk var leikið af fullorðnu fólki sem kom fram við Ninnu eins og hún væri lifandi barn – sem hún var auðvitað í sýningunni. Það sá líka um að stjórna brúðunni eftir gamalli japanskri aðferð sem felst í því að fela alls ekki stjórnendur en treysta því að þeir hætti fljótlega að sjást. Það var líka mín reynsla.

Eva Björg Harðardóttir á heiðurinn af brúðunni Ninnu, öðrum brúðum, búningum og leikmynd. Sigrún Harðardóttir og Margrét Arnardóttir léku á fiðlu, harmóniku og fleiri hljóðfæri af mikilli list. Ljósahönnuður var Kjartan Darri Kristjánsson og mestan part varð maður lítið var við ljósaspil hans en í einu atriði leikur ljósið um vatn og tvo svani (sem urðu til eins og fyrir töfra) og bjó til undurfallega veröld. Leikarar og brúðustjórnendur voru Nick Candy, Olivia Hirst, Rialla Dearden og Þorleifur Einarsson.

Á eigin fótum er gullfalleg barnasýning sem gaman er að sjá með börnum og spjalla lengi við þau á eftir um það sem fyrir augu bar. En líklega ættu þeir sem fara með börnum á sýningar að segja þeim á leiðinni þangað að þetta sé um stúlku sem sé farið með upp í sveit meðan hún er enn lítil. Ég held að þær upplýsingar geri sýninguna aðgengilegri og sterkari.

-Silja Aðalsteinsdóttir