Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi Auglýsingu ársins, fjörugt og ógnvænlegt nýtt verk eftir Tyrfing Tyrfingsson, á nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson og margslungna, síbreytilega leikmynd gerði Eva Signý Berger.

Leikritið gerist á auglýsingastofu sem má muna sinn fífil fegurri. Eigandinn (Theodór Júlíusson) er meðal annars frægur fyrir auglýsinguna á nýju símanúmeri Hreyfils sem Flosi Ólafsson brenndi inn í vitund þjóðarinnar allt frá Suðurnesjum til Langaness fyrir margt löngu en nú leitar enginn auglýsandi til hans og hann finnur sárt til þess. Það er auðmýkjandi að vera manneskja, segir hann, einkum þó að vera íslensk manneskja (þá hló salurinn!). Hjá eigandanum vinnur dóttir hans (Elma Stefanía Ágústsdóttir), undurfagur en viðsjárverður hermafródíti. Þau feðgin verða bæði uppnumin af fögnuði og feginleika þegar til þeirra kemur haltur og skrítinn kúnni (Hjörtur Jóhann Jónsson) á vegum auðugs auglýsanda sem vill kaupa vinnu af stofunni. Umsvifalaust er kallað í fagfólkið, leikkonuna (Ólafía Hrönn Jónsdóttir), Maríu (Kristín Þóra Haraldsdóttir), sem einna helst er líklega leikskáld eða textasmiður, og leikstjórann (Björn Thors).

Gallinn er sá að kúnninn gefur ekkert upp um það hvað eigi að auglýsa. Þau eiga að búa til auglýsingu um auglýsingu, auglýsingarinnar vegna. Í okkar einkennilegu samtíð er það áreiðanlega ekki eins galið og það hljómar. Þegar loks er farið að skjóta auglýsinguna eru bornir inn miklir málaðir flekar, sem saman mynda röð af sigurvegurum í fegurðarsamkeppni íslenskrar náttúru, einkar haglega gerðir, og þeir verða bakgrunnur atriða sem dóttirin og leikkonan leika með miklum tilþrifum. Megintími sýningarinnar – sem var raunar talsvert of löng þótt skemmtileg væri – fer þó ekki í þetta heldur innbyrðis átök persóna, ofbeldisfullt ástarsamband Maríu og leikkonunnar sem þær Kristín Þóra og Ólafía Hrönn veltu sér upp úr af mikilli nautn, predikunaráráttu leikstjórans sem Björn fór létt með, máttlitlar tilraunir eigandans til að stjórna og sjálfsvorkunnarköst kúnnans. Fjörið færist þó fyrst almennilega í leikinn þegar auglýsandinn sjálfur mætir á svæðið en eðli hans og útlit má ekki gefa upp í svona umsögn.

Auglýsing ársins

Tyrfingur er hugmyndaríkur náungi og Auglýsing ársins finnst mér mun auðugra verk en síðasta leikrit hans, Bláskjár. Mig langaði mest til að lesa textann þegar ég kom heim í gærkvöldi, langaði til að njóta margra góðra lína í næði, einkum af því að textinn er svo mikill og sýningin keyrð svo hratt áfram að maður náði ekki að leggja þær á minnið. Verkið er líka nægilega súrrealískt til að maður þyrfti að liggja svolítið yfir því til að ná öllum vísunum og undirtexta sem ég ímynda mér að sé þarna. Eins og það kemur fyrir við fyrstu upplifun virðist það þó fremur yfirborðsleg greining á íslenskum samtíma en vissulega hörkuskemmtileg.

Það er líka leikið af krafti og ástríðu. Theodór Júlíusson er í fínu formi sem eigandinn, brjóstumkennanlegur fulltrúi gamla Íslands. Elma Stefanía er svo fim og öflug að undrum sætir í hlutverki dótturinnar og sýndi fleiri hliðar á hæfileikum sínum en hún hefur áður fengið tækifæri til. Kristín Þóra hefur áður sýnt á sér djöfullegar hliðar á sviði og fékk þó enn betra færi á því í gær sem hún nýtti sér út í æsar. Ólafía Hrönn er sem ný á nýju sviði. Björn var skoplegt sambland af BT í Mávinum og Kenneth Mána. Hjörtur Jóhann minnti á köflum dálítið á Skarphéðin úr Njálu, ábyggilega viljandi, en reyndist svo alveg tvöfaldur í roðinu.

Kannski varð raunar Borgarleikhúsið sjálft fyrir harkalegustu árás Tyrfings og Bergs Þórs í verkinu því auk atriða í sýningunni sjálfri skopaðist margt í kringum hana að markaðshlið leikhúsa sem markvisst er stunduð þar á bæ með afar góðum árangri. Það var til dæmis kannski með vilja sem hléið á Auglýsingu ársins stemmdi nákvæmlega við hléið á Mamma mia svo að fólk á sölubásum hafði ekki undan að afgreiða alls kyns varning og hefur þó sölustöðum verið fjölgað í anddyrinu. Það er gott leikhús sem getur gert gys að sjálfu sér.

Silja Aðalsteinsdóttir