Hádegisleikhús Þjóðleikhússins frumsýndi í dag nýtt verk í Þjóðleikhúskjallaranum, Rauðu kápuna, eftir ungan og bráðefnilegan höfund, Sólveigu Eir Stewart. Hilmar Guðjónsson stýrði leikkonunum tveim, Eva Signý Berger sá um einfalda leikmynd og skemmtilega og vandlega úthugsaða búninga en Jóhann Friðrik Ágústsson lýsti upp sviðið.

Sigrún (Edda Björgvinsdóttir) hefur átt rauðu kápuna sína í mörg ár, maðurinn hennar fyrrverandi keypti hana handa henni í Róm og hún var fokdýr á sínum tíma. Hún hefur aldrei séð aðra manneskju í svona kápu í Reykjavík og er þess vegna grunlaus þegar hún grípur hana með sér á hröðum hlaupum út af samkomu í Iðnó og áttar sig ekki fyrr en hún kemur heim og finnur enga húslykla í vasanum.

Una (Snæfríður Ingvarsdóttir) keypti sína kápu hjá Rauða krossinum fyrir slikk og ber ekki mikla virðingu fyrir henni. Ekki heldur fyrir virðulegu hástéttarkonunni sem á alveg eins kápu. En þrátt fyrir óravíddirnar á milli þeirra fara þær að tala saman og skiptast á upplýsingum, skoðunum og sögum og við fáum að fylgjast með þeim færast nær hvor annarri, svo fjær, og svo aftur nær. Þær bjuggu báðar til lifandi og sannfærandi persónur sem komu manni ýmist til að hlæja eða dæsa og jafnvel til að vikna.

Hugmyndin að Rauðu kápunni er nærtæk en verulega snjöll og úrvinnslan alveg skínandi skemmtileg. Þær Sigrún og Una koma hvor úr sinni áttinni, aldursmunurinn á þeim er þrír til fjórir áratugir og þær tala hvor sitt tungumálið þótt báðar tali íslensku. En ef forvitnin, áhuginn á öðru fólki og viljinn er fyrir hendi þá geta jafnvel svona framandi fuglar náð saman. Það verður gaman að fylgjast með Sólveigu Eir í framtíðinni og ég hvet fólk til að nýta sér þennan dásamlega kost í hádeginu: Klukkutími og maður fær nærandi súpu og brauð og heila leiksýningu!

Silja Aðalsteinsdóttir